Anna Þorsteinsdóttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. mars 2006 kl. 17:57 eftir Skapti (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. mars 2006 kl. 17:57 eftir Skapti (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Anna Þorsteinsdóttir er fædd 13. maí 1919 og er dóttir hjónanna Þorsteins Jónssonar, útgerðarmanns, og Elínborgar Gísladóttu.

Hér birtist viðtal sem Skapti Örn Ólafsson átti við Önnu í Laufási, eins og hún er gjarnan nefnd, árið 2002 og birtist í Þjóðhátíðarblaði Vestmannaeyja. Í viðtalinu talar Anna um Þjóðhátíðina og gamla tíma í Vestmannaeyjum.


„Þjóðhátíðin er fyrst og fremst fjölskylduhátíð“

- segir Anna í Laufási í léttu spjalli um Þjóðhátíð fyrr og nú

„Ég held upp á Þjóðhátíð og hef alltaf haldið upp á Þjóðhátíð og hún er og á að vera sérstök,“ sagði Anna Þorsteinsdóttir í spjalli við Skapta Örn Ólafsson þegar hann hitti hana að máli ekki alls fyrir löngu. Tilefnið var að ræða um Þjóðhátíð fyrr og nú, en Anna hefur upplifað margar Þjóðhátíðir og þekkir tíma kaffiilms og harmónikkutónlistar á Þjóðhátíðum hér áður fyrr.

Anna Þorsteinsdóttir er fædd 13. maí 1919 og er dóttir hjónanna Þorsteins Jónssonar, útgerðarmanns, og Elínborgar Gísladóttu. Anna í Laufási, eins og hún er gjarnan kölluð, kemur frá mannmörgu heimili og var gjarnan glaumur og gleði í Laufási, en húsið fór undir hraun í gosinu 1973. „Við vorum tólf systkynin og einn uppeldisbróðir. Þetta var ákaflega mannmargt heimili og voru oftast nær um 20 manns og fór upp í 28 þegar mest var er mér sagt,“ sagði Anna. En á heimilinu bjuggu auk fjölskyldunnar sjómenn og vetíðarmenn sem réðu sig í vinnu hjá Þorsteini föður Önnu. Um tíma var hluti af húsinu leigður út. „Þetta var stórt hús og fallegt en er nú farið undir hraun,“ sagði Anna sem var í miðið í stórum systkynahópnum.

Dalurinn skreyttur með lyngi og baldursbrá

Fyrstu endurminningar Önnu í sambandi við Þjóðhátíð eru frá því hún var lítil stelpa. „Ætli ég muni ekki fyrst eftir mér á Þjóðhátíð þegar ég var lítil stelpa. Það var nú þannig að þegar komið var fram í miðjan júlí breyttist bæjarbragurinn og fiðringur komst í fólk þegar nær dró Þjóðhátíð. Það var þó ekki nærri eins mikið tilstand í kringum Þjóðhátíðina í þá daga og ekki eins mikið um skreytingar í Dalnum og nú er,“ sagði Anna og hélt áfram að rifja upp Þjóðhátíð fyrir hartnær sjötíu árum. „Í þá daga sáu íþróttafélöginum að skipuleggja Þjóðhátíðina. Þá var notast við lyng og baldursbrá við skreytingarnar á hátíðarsvæðinu. Hliðið inn í Dalinn var skreytt þannig og eins voru skreytingarnar við söngpallana úr lyngi og baldursbrá,“ sagði Anna.

Hey og fiskur gekk fyrir

Lyktin í Herjólfsdal er Önnu minnistæð frá því hún var ung stúlka á Þjóðhátíð. „Ég mann alltaf eftir súkkulaði og kaffilyktinni sem barst um Dalinn á Þjóðhátíð. Þá komu allir með nesti að heiman og heima hjá okkur í Laufási var alltaf súkkulaði. Það er því af sem áður var þegar veitingatjaldið lyktaði af nýlöguðu kaffi en ekki fitulykt eins og er í dag. En tímarnir breytast og mennirnir með,“ sagði Anna.

Á þessum tíma var Þjóðhátíðin haldin seinna í ágúst en hún er haldin í dag og var þá orðið dimmara í Dalnum. „Þjóðhátíðin var alltaf seinna, í kringum 10. til 12. ágúst og þá var orðið mátulega dimmt. Þá hefur heyskapur einnig verið að mestu búinn og eins búið að þurrka fiskinn. Síðan kom fyrir að maður fékk ekki að koma inn í Dal vegna þess að það var þurrkur á þá gekk hey og fiskur að sjálfsögðu fyrir,“ sagði Anna og hugsar með hlýhug til þessara tíma.

Í spjalli okkar Önnu um Þjóðhátíðina kemur hún næst inn á Þjóðhátíðartjöldin sem ekki voru eins og þau eru í dag Hún segir að þau hafi verið komin þegar hún man fyrst eftir sér á Þjóðhátíð. „Tjöldin í Herjólfsdal voru allt öðruvísi í þá daga – voru svokölluð stagtjöld. Ég held að um 1930 hafi fyrstu hústjöldin komið og þá með trésúlum og síðar meir eins og þau eru í dag. Þá held ég að Guðmundur Magnússon á Goðalandi hafi útbúið fyrsta tjaldið,“ segir Anna, en Guðmundur þessi er afi Garðars Björgvinssonar í Tréverk. „Þá man ég eftir að Kristján Linnet bæjarfógeti hafi verið með mjög stórt tjald. Tjöldin í þá daga voru fjölmörg en ekkert á við það sem nú er,“ segir Anna.

Þjóðhátíðin hefur löngum verið mikil skemmti- og gleðihátíð og segir Anna að skemmtiatriði á kvöldvökum hafi verið heimatilbúin. „Og maður fylgdist með af miklum áhuga. Þá var hlutur íþrótta iðulega mikill í dagskránni auk alskyns leikja,“ sagði Anna sem saknar íþróttanna í dagskrá Þjóðhátíðarinnar. „Það voru margir góðir íþróttamenn sem kepptu á Þjóðhátíðum, bæði frá Eyjum og ofan af landi.“ En tók Anna þátt í íþróttakeppnunum? „Nei en ég var samt alltaf mikill Týrari,“ sagði Anna.

Saumaði sitt eigið Þjóðhátíðartjald

Anna tók við búi foreldra sinna í Laufási, ef svo má að orði komast, í Herjólfsdal þegar þau hættu að vera með tjald. „Ég og maðurinn minn, Jón Guðleifur Ólafsson, byrjuðum að búa hjá foreldrum mínum í Laufási og við tókum má segja við tjaldi foreldra minna á Þjóðhátíð þegar fram liðu stundir. Þegar hætt var að tjalda Laufás tjaldinu fengum við dótið úr því tjaldi, koffortið og annað slíkt. Í koffortinu geymdum við diska, bolla og þvíumlíkt en matinn geymdum við í smjörlíkiskassa sem stóð á með rauðum stöfum að ég held Ásgarður. Á smjörlíkiskassanum var alltaf hengilás,“ sagði Anna og hélt áfram að lýsa staðarháttum í Laufástjaldinu í Herjólfsdal. „Húsfrúin sat alltaf á koffortinu og stjórnaði veisluföngum og tók á móti fólki en þá var ekkert verið með lunda, bara smurt brauð, lagkökur, smákökur og fleira sem bakað var fyrir Þjóðhátíðina. Lundinn kom síðar meir,“ sagði Anna sem saumaði sitt eigið Þjóðhátíðartjald árið fyrir gos. „Árið 1942 saumaði ég mitt eigið Þjóðhátíðartjald úr óbleiðu lérefti. Þá breyttist allt saman og mikið hægara um vik í tjöldunum, enda mikið betri tjöld,“ sagði Anna.

Harmónikutónlist á danspallinum

Hlutur barna í Þjóðhátíðinni hefur alla tíð skipað veglegan sess og man Anna eftir sérstakri rólu sem flutt var inn í Herjólfsdal á Þjóðhátíð. „Á fyrstu Þjóðhátíðunum mínum, þegar ég var krakki, var stór grænmálum róla sem einn kall stjórnaði og ýtti okkur krökkunum. Mig minnir að það hafi kostað 15 aura eða álíka í róluna. Rólan stóð á flötinni vestan við hliðið þegar maður kemur inn í dal og það var ægilegt sport að fara í róluna,“ sagði Anna og bætti því við að rólan hafi einnig verið notuð á útiskemmtun hjá Kvennfélaginu Líkn kvennfrelsisdaginn 19. júlí ár hvert. En kvennfélagið átti róluna.

Á þessum árum kostaði sérstaklega að taka smá snúning á danspallinum sem þá var einn en ekki tveir eins og í dag. „Ég man ekki hvort að það kostaði eitthvað inn á Þjóðhátíðina en það kostaði sérstaklega að fara á danspallinn sem var girtur af svo fólk svindlaði sér ekki inn og helst þetta svona til ársins 1969 en þá vark hækkað aðgönguverðið í Dalnum og hætt að selja á pallana. Mest var um harmóniku músik á þessum tíma og ég man eftir einum harmónikuleikara sem hét Óli Frímanns. og síðan var að sjálfsögðu Alfreð Washington sem einnig spilaði á nikku,“ sagði Anna og bætti því við að um algera byltingu hafi verið að ræða þegar aukahljóðfæri bættsit við. „Síðan bættist tromma við og þá var gaman,“ sagði Anna og hló við.

Mikið spilað og sungið í tjaldinu

„Síðar meir þegar ég tek við og verð húsfrú í tjaldinu var hafður sami háttur á bakað og allt gert klárt fyrir Þjóðhátíðina“ Anna sagði að mikið hafi verið um gestagang í tjaldinu og nánast stanslaust hellt upp á kaffi þegar mest var. „Maður fór stundum ekki út úr tjaldinu fyrir gestagangi og sífellt verið að hella upp á og smyrja brauð.“ Mikið var sungið og trallað í tjaldinu hjá Önnu og harmóniku- og gítarleikur undir fjöldasöng. „Það var afsakaplega mikið spilað og sungið í tjaldinu hjá okkur og spiluðu Ólafur sonur minn á gítar og og tengdasonur minn Guðjón á nikku,“ sagði Anna.

Þegar Anna var spurð að því hvort að hún mundi eftir einhverju skondnu sem hafi komið upp á á Þjóðhátíðum sagðist hún ekkert muna sérstaklega eftir því en aldrei hafi hún séð neitt ljótt. „Ég hef aldrei séð neitt ljótt á Þjóðhátíð, nema náttúrulega illa klædda unglinga. En ég hef aldrei séð neitt sem mér hefur ofboðið og ég hef nú verið á ansi mörgum Þjóðhátíðum sem eru komnar yfir sjötíu talsins,“ sagði Anna og lagði áherslu á orð sín.

Heldur þú í einhverjar hefðir hvað Þjóðhátíðina varðar? „Mér finnst hafa verið eftirför í Þjóðhátíðarhaldinu þegar fólk fór að koma með lagað kaffi að heiman, í stað þess að hella upp á í Dalnum. Því kaffiilmurinn barst um allan Dalinn og það var svo indæll ilmurinn úr tjöldunum. Nú er því miður minna um slíkt,“ sagði Anna með eftirsjá. „En auðvitað reyndi maður alltaf að komast á setningu Þjóðhátíðarinnar ef maður mögulega gat til að hlusta á Lúðarsveitina og hátíðarræðuna. Ég man alltaf eftir því að séra Jes Á. Gíslason, kennari við Barnaskólann og kenndi mér, hélt alltaf fínar ræður á Þjóðhátíðinni. Þá var gaman að hlusta á Stebba Pól. þegar hann var að kynna tapað – fundið dagskrárliði á hátíðinni,“ sagði Anna og bætti því við að Lúðrasveit Vestmannaeyja hafi staðið upp úr Þjóðhátíðinni í gegnum tíðina og halda þyrfti í hefðir og venjur hvað hátíðina varðar.

Meiri metnaður lagður í Týsþjóðhátíðirnar

„Ég held upp á Þjóðhátíð og hef alltaf haldið upp á Þjóðhátíð og hún er og á að vera sérstök. Þjóðhátíðin er fyrst og fremst fjölskylduhátíð og á að vera það. Þegar ég man eftir þá sá maður aldrei drukkna konu á Þjóðhátíð og ég man sérstaklega eftir því þegar ég sá drukkna konu á Þjóðhátíð – það var ekki fögur sjón. Karlarnir voru svona mjúkir en urðu ekki drukknir fyrr en eftir miðnótt,“ sagði Anna og heldur áfram að tala um gildi Þjóðhátíðarinnar. „Hjá ekta þjóðhátíðarfólki er Þjóðhátíðin fyrst og fremst fjölskylduhátíð,“ sagði Anna. En hvað er ekta þjóðhátíðarfólk í hennar augum? „Ætli það séu ekki bara Vestmannaeyingar eins og ég,“ sagði Anna og hló við.

Hvernig finnst þér Þjóðhátíðin þróast? „Mér finnst vera betri bragur á henni hin síðari ár en var á tímabili. Þá var fólk oft svo illa klætt og drukknir unglingar sem mér finnst svo skelfilegt. En annars hefur Þjóðhátíðin yfirleitt farið vel fram og okkur Eyjamönnum til mikils sóma,“ sagði Anna.

Þegar Anna var spurð að því hvort Týs eða Þórs Þjóðhátíðir hafi verið betri stóð ekki á svörunum hjá henni. „Ég er ekki í vafa um að Týs Þjóðhátíðirnar hafi verið betri og þá aðallega út af skreytingunum sem mér finnst að þeir hafi lagt meiri metnað í,“ sagði Anna sem tók virkan þátt í undirbúningi Þjóðhátíðar. „Allir í kringum mig hafa tekið þátt í undirbúningi hátíðarinnar af miklum krafti og hef ég einnig komið að undirbúningnum. Maðurinn minn sá til að mynda um ljósavélina sem var uppi á Fjósakletti í mörg ár þá var hann ætíð til taks þegar eitthvað bilaði. Þetta smitaði síðan út frá sér og hafa synir mínir og dóttir öll komið að Þjóðhátíðinni í gegnum tíðina,“ sagði Týrarinn Anna í Laufási.

„Hvað ert þú að gera hér amma gamla?“

„Mér hefur alltaf þótt gaman á Þjóðhátíð og það eru ekki mörg ár síðan ég var inni í Dal og klukkan var að ganga að ég held þrjú að nóttu til og ég sagði við fólkið mitt í tjaldinu að ég ætlaði að ganga að danspallinum sem ég og gerði. Nema hvað á leið minni mætti ég tveimur ungum piltum sem voru mjög lífsglaðir og þeir spyrja mig: Hvað ert þú að gera svona seint á ferðinni amma gamla? Og ég svaraði að bragði: Þetta er fyrst og fremst fjölskylduhátíð strákar mínir og ég á tilkall til að vera hérna alveg eins og þið. Þeir sögðu síðan: Húrra fyrir því! Síðan hélt ég leið minni áfram að danspallinum og hitti þar frænda minn og hann segir: Ertu hérna einsömul Anna mín? Ég svaraði honum því að ég hafi getað séð um mig hingað til,“ sagði Anna. En tókstu snúning? „Nei það gerði ég nú ekki, labbaði bara hring í kringum danspallinn – þorði ekki annað,“ sagði Anna.

Anna sagði að Vestmannaeyjingar yrðu að standa saman um hátíðina sína. „Ég þoli ekki þegar fólk segist vera að flýja Þjóðhátíðina, við eigum frekar að standa saman um hana og efla hana. En ég vona að Þjóðhátíðin fari vel fram og hátíðin verði ánægjuleg eins og hún á að vera og falleg – því það er mikil fegurð Þjóðhátíðinni,“ sagði Anna í Laufási að lokum.

- Eftir Skapta Örn Ólafsson