Úr fórum Árna Árnasonar/Verk annarra/Tíundar – dagbók úr Súlnaskeri 1941

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.




Úr fórum Árna Árnasonar


Tíundar – dagbók úr Súlnaskeri 1941


18. júlí: – Fórum í Súlnasker. NNV-kaldi. Vorum tveir, þ.e. Svavar Þórarinsson og Jónas Sigurðsson. Búnir að tjalda kl 11 ½ e.m., en fórum að sofa um kl. 03:30, mjög þreyttir og lerka eftir uppdrátt flutningsins og burð hans. Allt var dregið upp að norðan, því að ófært var um ,,Hellir“ og býsna þungur drátturinn fyrir 2 menn, sérstaklega vatnskúturinn, sem var 50 lítra.
19. júlí NV-stinningskaldi. Enginn fugl við. Gengum vel frá okkur, settum útvarpið upp. Heyrðum þá, að es. Hekla hefði verið kafskotin, 5 menn afkomust, en 14 fórust. Hekla í Ameríkuferð. Skoðuðum okkur um og athuguðum staði. Vorum með hálfgerðar harðsperrur. Drápum einn máf og tvo veiðibjöllu-unga.
20. júlí: Vestan- og NV-gola fyrripartinn, síðan logn. Dálítið við af fugli, en vantaði kalda. Svavar veiddi þó 100 lunda. – Jónas veikur í baki, veiddi 30 stk. Afar heitt. Á borðum kjötbúðingur.
21.: S- og SA-andvari, síðan -gola. Nokkuð mikið við af fugli, en of lítill kaldi. Jónas skárri í bakinu, þó ekki góður. Hættum við það áform að bera veiddan fugl niður ,,á Hellir”. Búumst við að hvessi á SA, og gefum þá á bát eða köstum vestur af Skeri.
22. júlí: SA-hvass - lítið af fugli, veiddum þó nokkra. Í dag er sókningsdagur. Sendum heim 950 stk. Drógum matinn upp að vestan. Stormur með kvöldinu, gengum frá tjaldinu eins vel og hægt var, en vorum þó hálfhræddir um að það mundi fjúka ofan af okkur.
23. júlí -’41: Sunnan- og SA-stinningskaldi, þoka, regn og súld – Inniteppudagur – enginn fugl við. Leiðinda iðjuleysi, lesum, étum og sofum. Vont veður í nótt, sem leið svo að lítið var sofið þá. Ætluðum varast að halda tjaldinu niðri, en allt fór þó vel. – Í gærkvöldi kláraðist af útvarpsrafgeyminum. Engar fréttir. Svavar hafði þó síðar að koma útvarpinu í gang, með því að nota þurrvaka í stað sýrugeymis, - fengum síðari fréttir. Á borðum nýtt kjöt og kartöflur.
24. júlí –’41: Þver austan átt – allhvass og svarta þoka og regnsúld. Engin fugl var við. –
Veður ágætt við tjaldið. Gekk svo sunnar á með vindinn seinni partinn, og varð þá mikið hvassara á tjaldinu. Mjög blautt um allt. Stór steinn kom ofan úr gilinu, sem lenti á tjaldinu, en sakaði þó lítið.
25. júlí -’41: Austan-stinningskaldi, lítið við af fugli og var mjög styggur. Veiddum til samans 157 fugla, sem við létum ganga upp í sókningsgjald. Í dag er sókningsdagur. Báturinn kom og Hjálmar Jónsson frá Dölum kom með þeim að sækja.
Sendum heim í ,,Sunnudagsmatinn“ nýmeti. Fengum rafgeymi að heiman svo að útvarpið varð í fínu lagi. Vindur gekk sunnar á með kvöldinu.
26. júlí –’41: S- og SA-kaldi, þokuslæðingur og regn, suddi fyrripartinn, en stytti upp, þegar á daginn leið. Svavar veiddi 280, Jónas 260.
27/7 -’41: Austan-stinningskaldi, þoka og regn, stytti upp um hádegið. Svavar veiddi 75 fugla, en Jónas 50. Til miðdegisverðar var hangikjöt.
28/7 -’41: Sunnan-gola um moguninn, en gekk svo í vestur og síðar NV-kaldi – skýjað – sást ekki fugl við heldur en á vetrardegi. Sáum eitthvað á reki, tunnu eða tundurdufl skammt austur af skerinu. Það rak í SSV .
29/7 -’41: NV-kaldi, sáralítið við af fugli. Veiddum 80 til samans. Okkur leist ekki á veðrið og tókum fyrir að fara heim. Bárum allt norður á eyna og gáfum því þar niður í bát. Mikið brim á Hellir, en ágætt við steðjan. – Veiði 740.
Samkv. dagbók Jónasar Sigurðssonar, skrifað samtímis, þ.e. úti í Skeri.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit