Álsey

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 3. júní 2005 kl. 15:41 eftir Smari (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. júní 2005 kl. 15:41 eftir Smari (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Álsey (Álfsey) liggur um 3.5 km vestur af Stórhöfða og er þriðja stærsta úteyjan, um 0.25km². Eyjan er girt háum hömrum, að norður hliðinni undanskilinni, og eru þeir næstum eggsléttir austan og sunnan til. Eyjan er hálend og er 137m hár grasi þakinn hryggur á miðri eyju og er hallinn mikill niður á brúnirnar. Af þessum sökum er lundabyggð þétt í Álsey og er lundinn mikið veiddur og þar er einnig fé haft á beit. Veiðikofi Álseyinga er staðsettur norðan megin á eyjunni.

Höfuðlausi sigmaðurinn

Fyrir neðan Molda í Álsey er allstórt svartfuglabæli sem sjaldan hefur verið farið á eftir að eftirfarandi atburður gerðist.

Fyrir löngu voru nokkrir menn við sig í Álsey. Einn þeirra fór á þetta bæli en þegar hann var dreginn upp aftur vantaði höfuðið á hann. Menn vissu ekki með hvaða hætti höfuðið hafði farið af honum en eftir þennan atburð voru sigamenn tregir til þess að fara á þetta bæli.

Nokkru fyrir síðustu aldamót voru þeir Magnús Vigfússon frá Presthúsum og Sigurður Sigurðsson frá Kirkjubæ við aðsókn í Álsey. Sigurður vildi fara á bælið en Magnús aftraði því. Hann sagðist ekki vilja fá hann hauslausan upp aftur.

Heimildir

  • Sögn Sigurðar Sigurðssonar úr Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum.
  • Aðalskipulag Vestmannaeyja 2002-2014