Tómas Sveinsson (Selkoti)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Tómas Stefán Sveinsson frá Selkoti u. Eyjafjöllum, útgerðarmaður, verkstjóri, verslunarmaður, fæddist 14. ágúst 1903 og lést 20. apríl 1988.

Faðir Tómasar var Sveinn bóndi í Selkoti, f. 7. október 1874, d. 15. janúar 1920, Jónsson bónda á Lambafelli u. Eyjafjöllum 1870, f. 3. maí 1837 í Heiðarseli á Síðu, d. 31. júlí 1908 á Lambafelli, Jónssonar bónda í Heiðarseli á Síðu, f. 13. janúar 1802 í Arnardrangi í Landbroti, d. 16. október 1863 í Heiðarseli, Jónssonar, og konu Jóns í Heiðarseli, Ólafar húsfreyju, f. 13. mars 1802 í Heiðarseli á Síðu, d. 22. febrúar 1865 þar, Sveinsdóttur.
Móðir Sveins í Selkoti og kona Jóns á Lambafelli var Guðný húsfreyja, f. 25. nóvember 1835 í Lambafellssókn, d. 29. maí 1914, Vigfúsdóttir bónda í Efri-Mörk á Síðu, f. 18. janúar 1807 í Hlíð u. Eyjafjöllum, d. 30. maí 1866 í Efri-Mörk, Jónssonar, og konu Vigfúsar, Sigríðar húsfreyju, f. 28. apríl 1807 á Lambafelli, d. 18. apríl 1878 í Efri-Mörk, Árnadóttur.

Móðir Tómasar Sveinssonar og kona Sveins í Selkoti var Anna Valgerður húsfreyja, f. 11. ágúst 1871, d. 5. maí 1963, Tómasdóttir bónda á Raufarfelli og Selkoti, f. 25. ágúst 1834, d. 3. júní 1914, Stefánssonar bónda og stúdent á Rauðafelli, í Selkoti, í Miðbæli, í Varmahlíð og (1814) aftur í Selkoti undir Eyjafjöllum, f. 3. apríl 1772, d. 12. desember 1854, Ólafssonar bónda, silfursmiðs og hreppstjóra í Selkoti 1801, f. 1742, d. 5. október 1814, og þriðju konu Stefáns Ólafssonar, Önnu húsfreyju, f. 12. apríl 1803, d. 11. júlí 1879, Jónsdóttur.
Móðir Önnu Valgerðar Tómasdóttur og kona Tómasar Stefánssonar var Gróa húsfreyja á Raufarfelli og í Selkoti, f. 19. maí 1830, d. 8. janúar 1905, Arnoddsdóttir bónda í Hrútafellskoti og víðar, f. 18. september 1796, d. 29. mars 1883, Brandssonar, og fyrri konu Arnodds, Guðrúnar Bjarnadóttur húsfreyju, f. 8. nóvember 1786, d. 31. desember 1840.

Bróðir Tómasar Stefánssonar bónda á Raufarfelli, afa Tómasar Sveinssonar, var Gísli Stefánsson kaupmaður í Hlíðarhúsi.

Börn Önnu og Sveins í Selkoti:
1. Guðrún Sveinsdóttir húsfreyja í Skarðshlíð, f. 25. ágúst 1897, d. 25. maí 1988. Maður hennar Jón Hjörleifsson.
2. Guðjón Sveinsson sjómaður, útgerðarmaður, iðnverkamaður, f. 30. ágúst 1898, d. 15. maí 1968. Kona hans Marta Eyjólfsdóttir.
3. Hjörleifur Sveinsson í Skálholti, sjómaður, útgerðarmaður, netamaður, f. 23. janúar 1901, d. 29. október 1997. Kona hans Þóra Arnheiður Þorbjarnardóttir.
4. Tómas Sveinsson sjómaður, útgerðarmaður, verkstjóri, f. 14. ágúst 1903, d. 24. apríl 1988. Kona hans Líney Guðmundsdóttir.
5. Gróa Sveinsdóttir húsfreyja í Selkoti, f. 18. júlí 1906, d. 17. desember 1994. Maður hennar Gissur Gissurarson.
6. Sigfús Sveinsson sjómaður, verkamaður, f. 24. apríl 1907, d. 18. nóvember 1993. Kona hans Guðrún Gissurardóttir.

Nokkrir afkomendur Jóns Jónssonar á Lambafelli og Guðnýjar Vigfúsdóttur í Eyjum:
1. Vigfús Jónsson bóndi á Raufarfelli, f. 30. nóvember 1861, d. 10. desember 1894. Kona hans Kristín Brandsdóttir. Þau voru foreldrar
a) Ólafs Vigfússonar skipstjóra í Gíslholti, f. 21. ágúst 1891, d. 15. maí 1974. Kona hans Kristín Jónsdóttir.
2. Ólafur Jónsson bóndi í Skarðshlíð, f. 23. janúar 1865, d. 14. júní 1927, kvæntur Önnu Skæringsdóttur. Þau voru foreldrar
a) Guðlaugar Ólafsdóttur húsfreyju í Fagurhól, f. 3. júní 1889, d. 27. október 1970. Maður hennar var Markús Sæmundsson.
b) Skærings Ólafssonar bónda í Skarðshlíð, síðar í Eyjum, f. 7. desember 1890, d. 28. júlí 1984.
c) Jóns Ólafssonar útgerðarmanns á Hólmi, f. 7. mars 1892, d. 21. desember 1946, kvæntur Stefaníu Einarsdóttur og Guðrúnu Ingibjörgu Sigurjónsdóttur.
3. Jón Jónsson bóndi á Seljavöllum, f. 11. september 1866, d. 23. maí 1936. Konur hans voru Ragnhildur Sigurðardóttir og Sigríður Magnúsdóttir. Börn hans í Eyjum voru:
a) Guðjón Jónsson vélsmíðameistari í Magna, f. 22. febrúar 1891. Móðir Ragnhildur.
b) Sigurður Jónsson vélsmiður, síðar í Reykjavík, f. 7. desember 1897, d. 16. apríl 1960. Móðir hans Ragnhildur. Kona hans Stefanía Jóhannsdóttir.
c) Ragnhildur Jónsdóttir húsfreyja á Faxastíg 8a, f. 8. apríl 1905 á Seljavöllum, d. 14. mars 1987. Móðir hennar Sigríður. Hún var kona Kjartans Jónssonar sjómanns, vélsmiðs.
d) Magnús Jónsson vélstjóri á Hásteinsvegi 58, f. 17. ágúst 1909, d. 12. desember 1988, sonur Sigríðar. Kona hans var Lilja Sigurðardóttir.
e) Vigfús Jónsson vélsmíðameistari, f. 11. apríl 1913, d. 22. desember 1970, sonur Sigríðar. Kona hans Salóme Gísladóttir.
f) Ásta Gréta Jónsdóttir húsfreyja, f. 30. nóvember 1916, d. 6. ágúst 1945. Móðir hennar Sigríður. Maður hennar Samúel Ingvarsson.
Stjúpsonur (3.) Jóns á Seljavöllum og sonur Sigríðar Magnúsdóttur var
g) Jón Ólafur Eymundsson Jónsson rennismiður, útgerðarmaður, f. 12. nóvember 1901, d. 9. september 1985.
4. Sveinn Jónsson, f. 7. október 1874, d. 15. janúar 1920, faðir Selkotssystkina, Guðjóns, Hjörleifs, Tómasar og Sigfúsar Sveinssona og Gróu Sveinsdóttur.

Tómas var með foreldrum sínum í æsku, en faðir hans lést 1920. Hann var skráður með heimilisfang hjá móður sinni í Selkoti, síðast 1929.
Hann stundaði nokkuð sjó frá Eyjafjallasandi, en sótti vertíðar í Eyjum frá 1922, var við útgerð Jóns á Hólmi frænda síns, en Jón og Hjörleifur bróðir Tómasar, Jón Hinriksson og Gunnar Ólafsson áttu saman mb. Ófeig VE 217. Á honum reri Tómas fjórar fyrstu vertíðar sínar í Eyjum.
Hann sótti vélstjóranámskeið 1927, var síðan vélstjóri með Karli í Reykholti á Skúla fógeta og Tjaldi.
Tómas, Guðjón bróðir hans, Karl og Jón Guðmundsson í Miðey keyptu nýjan bát frá Danmörku 1934, Ver VE 318, og gerðu hann út. Jón var skipstjóri, Tómas vélstjóri. Guðjón sá um aðgerð og veiðarfæri og Karl annaðist bókhaldið. Þessi útgerð stóð til 1948, en þá seldi Guðjón hlut sinn og fluttist úr bænum. Útgerðin hélt áfram til 1963 og hafði þá rekið alls þrjá báta með sama nafni.
Tómas hætti sjómennsku 1942, varð meðal annars verkstjóri hjá Netagerð Vestmannaeyja uns hún hætti störfum. Hann varð vélgæslumaður hjá Fiskiðjunni, verslunarmaður hjá Hallbergi Halldórssyni, gæslumaður hjá Sjúkrahúsinu og póstafgreiðslumaður.
Þau Líney giftu sig 1930, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu í fyrstu í Reykholti, en fluttu í nýbyggt hús sitt við Faxastíg 13 1931. Þar bjuggu þau til 1983, er þau fluttust að Hraunbúðum.
Tómas lést 1988 og Líney 1997.

I. Kona Tómasar, (25. október 1930), var Líney Guðmundsdóttir frá Skagaströnd, húsfreyja, f. 23. desember 1901 í Hólagerði þar, d. 7. febrúar 1997.
Börn þeirra:
1. Anna Tómasdóttir húsfreyja, starfsmaður Landsímans og Bókasafns Vestmannaeyja, f. 28. apríl 1931, d. 5. maí 2003. Maður hennar Símon Kristjánsson.
2. Guðmar Tómasson skipstjóri, f. 6. apríl 1933, d. 25. júlí 1967. Kona hans Sigríður Lárusdóttir.
3. Sveinn Tómasson prentari, vélstjóri, forseti bæjarstjórnar, f. 24. nóvember 1934, d. 25. mars 2001. Kona hans Ólöf Dóra Sigurðardóttir Waage.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Íslensk skip. Jón Björnsson. Iðunn 1990.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 30. apríl 1988. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.