Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Viðureign Björns á Fitjarmýri og Lintrups verzlunarstjóra

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Viðureign Björns á Fitjarmýri og Lintrups verzlunarstjóra.


Bjarni bóndi á Fitjarmýri undir Eyjafjöllum hafði alla verzlun sína um langt skeið í „Garðinum“ og mun hafa staðið þar í nokkurri skuld um stund.
Vorkauptíð eina, þegar Konráð Lintrup var þar verzlunarstjóri fyrir N. N. Bryde, fór Bjarni út í Eyjar til innkaupa. Með honum fór Björn tengdasonur hans, síðar bóndi á Fitjarmýri, og þeir fleiri Fjallamenn saman á skipi. Björn var þá á bezta reki, hraustleikamaður mikill og eftir þvá snarráður. Bjarni var þá á gamals aldri. Bjarni var með ull sína og tók hann undan einn poka og lagði hann inn í Miðbúðina hjá H.E. Thomsen og fékk ýmsan smávarning fyrir. Lintrup verzlunarstjóri komst að þessum viðskiptum Bjarna í Miðbúðinni og reiddist mjög yfir þessu.
Um þetta leyti var Gísli Bjarnasen, síðar verzlunarstjóri á Tanganum og Garðinum, verzlunarmaður í Garðinum og var hann á bezta aldri. Skipaði Lintrup honum að fara þegar til Bjarna bónda og taka af honum varning þann, sem hann hefði fengið fyrir ullina í Miðbúðinni. Skip þeirra Fjallamanna var á floti og voru þeir langt komnir með að „bera á það“ og ætluðu heim þá um daginn. Við skip voru þeir Bjarni og Björn. Gísli fór upp í skipið og tók þegar að tína upp úr poka Bjarna varning þann, sem hann hafði fengið í Miðbúðinni. Björn færði sig til hans og tók af honum pokann og varninginn. Rauk Gísli þegar á hann og urðu með þeim harðar sviptingar og barst leikurinn víða um skipið, eftir þóttunum. Með snöggu bragði hnykkti Björn Gísla ofan í austurrúmið og hafði hann undir sig. Þjarmaði hann nú að Gísla eftir mætti og baðst Gísli þá vægðar.
Sleppti Björn honum þá, eftir að hann hafði lofað að gefa honum brennivínsflösku, enda lét Björn hann ekki lausan fyrri. Sagði Gísli að Björn skyldi koma upp í Austurbúð innan stundar. Þegar Björn kom þangað voru þeir þar fyrir Gísli, Lintrup verzlunarstjóri og Winther skipstjóri á „Jóhönnu“, kaupfari Garðsverzlunar, sem þá var nýkomið til hafnar með vorvörurnar.
Krafði Björn Gísla þegar um flöskuna, því að honum leizt ekki friðsamlega á þá Winther og Lintrup. Töluðu þeir saman á dönsku og skildi Björn ekki hvað þeim fór á milli. Kallaði Björn nú til Gísla og spurði hvort hann ætlaði að svíkja sig um flöskuna. Í sömu svifum varpaði Winther sér yfir búðarborðið og réðist á Björn. Tók hann hraustlega á móti og lagði Winther þegar á gólfið, greip handfylli í hár honum og hélt honum þannig niðri. Í sömu andránni réðist Lintrup á Björn. Greip hann umsvifalaust lausu hendinni í skegg honum og keyrði hann niður í gólfið. Hélt hann þeim síðan báðum niðri, Winther og Lintrup, sínum með hvorri hendi.
Hétu þeir nú á Gísla að duga sér, en hann neitaði og taldi nóg að þeir væri tveir um Björn. Tók hann síðan brennivínsflösku og setti á borðið og sagði Birni að hirða hana. Sleppti hann þá verzlunarstjóranum og Winther snögglega, greip flöskuna og hljóp á dyr. Hélt hann síðan til skips og réri því „út á Botn“ og beið þess sem verða vildi, en hressti sig á brennivínsflöskunni, sem hann hafði haft upp úr tuskinu.
Skömmu síðar sér hann hvar Kohl sýslumaður kemur niður í fjöruna. Kallar hann til Björns og skipar honum að koma að landi. Sagðist Björn aldrei mundi koma. Kvaðst sýslumaður þá mundi skjóta á hann. Björn sagði að hann mætti það, ef hann vildi og fletti um leið fötunum frá brjósti sér. Labbaði Kohl sýslumaður þá burtu. — En svo stóð á ferðum hans, að Lintrup hafði kært Björn fyrir honum.
Þeir Fjallamenn fluttu síðan varning sinn á smáferju út í skipið og héldu síðan heim eftir að hafa lokið erindum sínum.
Hálfum mánuði síðar fór Björn aftur út í Eyjar. Er þeir lentu, var þar Kohl sýslumaður. Skipaði hann Birni að koma þegar með sér upp á skrifstofu sína. Varð Birni ekki um sel. Þegar upp í Landlyst kom, sagði Kohl sýslumaður við hann, að enginn hefði fyrri boðið sér slík svör sem Björn, og vissi hann ekki, nema að hann myndi hafa skotið á hann, ef hann hefði haft byssu við hendina. — Ræddi sýslumaður ekki frekar um þetta, en sagði að gaman mundi vera að hafa herflokk með jafn hraustum mönnum og Björn væri. Að skilnaði gaf sýslumaður Birni 5 dali og þóttist Björn hafa sloppið vel.
Frá viðureign þessari sagði Björn löngu síðar í göngum. Tókst hann allur á loft, er hann sagði frá henni. Meðal gangnamanna var Sveinn P. Scheving og er hann heimildarmaður minn. C. Lintrup var verzlunarstjóri í Garðinum frá 1854—1858. Hann var ættaður frá Borgundarhólmi. Kona Konráðs Lintrup var Björg Hallsdóttir (f. 1814) og fluttu þau hjón til Danmerkur árið 1858.