Sveinn P. Scheving

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sveinn P. Scheving og frú Kristólína Bergsteinsdóttir.
Sveinn og fjölskylda.

Sveinn Pálsson Scheving, Steinsstöðum, var yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum á árunum 1918-1932.

Æviskrá

Sveinn Pálsson Scheving bóndi, sjómaður, hreppstjóri og síðar lögregluþjónn á Steinsstöðum fæddist 8. marz 1862 í Görðum í Reynishverfi í Mýrdal og lézt 3. ágúst 1943 í Eyjum.

Ætt og uppruni

Foreldrar Sveins voru Páll bóndi í Görðum í Mýrdal, f. 19. jan. 1822, d. 9. apríl 1864, drukknaði í lendingu, er hann kom úr róðri, Vigfúsar Schevings bónda í Görðum, f. 1790, drukknaði í Dyrhólaósi 25. apríl 1822, Vigfússonar og konu (1818) Vigfúsar Schevings í Görðum, Guðríðar húsfreyju, f. 1790 í Vatnsdal í Fljótshlíð, d. 14. nóvember 1871 að Reyni í Mýrdal, Jónsdóttur, Gunnlaugssonar.
Móðir Sveins Schevings og kona (1851) Páls í Görðum var Sigríður húsfreyja, f. 22. janúar 1832 í Neðri-Dal u. Eyjafjöllum, d. 6. júlí 1871 í Görðum, Sigurðar bónda í Neðri-Dal og Skarðshjáleigu, f. 1787, d. 1852, Jónssonar og konu Sigurðar bónda, Ingibjargar húsfreyju, f. 1801, d. 1839, Jónsdóttur, Bjarnasonar.
Bróðir Sveins Schevings var Vigfús P. Scheving á Vilborgarstöðum, faðir Sigfúsar í Heiðarhvammi og Jóhanns á Vilborgarstöðum.

Lífsferill

Sveinn ólst upp í Görðum til ársins 1876, var vinnudrengur í Hrífunesi í Skaftártungum 1876-1879, var hjá stjúpa sínum í Görðum 1879-1881 og vinnumaður í Reynishólum 1881-1882.
Nokkrar vertíðir var hann til sjós á Suðurnesjum. Hann var svo vinnumaður í Dalsseli u. Eyjafjöllum um hríð.
Til Eyja flutti hann frá Fitjarmýri u. Eyjafjöllum 1896, þá kvæntur Kristólínu Bergsteinsdóttur frá Fitjarmýri. Bjuggu þau í Dalbæ, sem þau höfðu keypt.
Þau fengu Steinsstaði til ábúðar 1901, en húsin voru léleg og túnin í órækt eftir að vera í eyðibyggð. Reistu þau Sveinn nýtt hús og hlöðu, sléttuðu og ræktuðu tún.
Sveinn stundaði sjóróðra á vertíðum og var með Hannesi lóðs á Gideon 14 vertíðir. Við upphaf vélbátaútgerðar eignaðist Sveinn sjötta hlut í vélbátnum Haffrú. Var hún gerð út til 1926, en þá seld til Faxaflóahafna.
Sveinn var einn af stofnendum pöntunarfélags með Ofanbyggjurum 1905, en það lifði til stofnunar Kaupfélagsins Herjólfs.
Sveinn Scheving sat í hreppsnefnd 1901-18, sóknarnefndarmaður varð hann 1898 og næstu 30 árin, meðhjálpari, fjárhaldsmaður kirkjunnar í 23 ár. Auk þess var hann m.a. formaður fasteignamatsnefndar um skeið, fátækrafulltrúi, stefnuvottur og í skólanefnd. Þá var hann hreppstjóri 1916-18. Hann var skipaður lögregluþjónn 1918 og gegndi hann því embætti til 1932.

Fjölskylda

Kona Sveins (1895) var Kristólína Bergsteinsdóttir, f. 1868 á Tjörnum u. Eyjafjöllum. Foreldrar hennar voru Bergsteinn Einarsson bóndi á Tjörnum og Fitjarmýri og k.h. Anna Þorleifsdóttir húsfreyja.
Börn þeirra voru:
1. Anna Sigríður Scheving, f. 16. nóvember 1895 á Fitjarmýri, d. 3. febrúar 1897.
2. Bergsteinn Scheving, f. 6. mars 1897, d. 22. mars 1897.
3. Guðjón, f. 1898.
4. Anna Sigríður, f. 1901.
5. Páll, f. 1904.
6. Sigurður, f. 1910.

Myndir


Heimildir

  • Upphaflega æviskrá skrifaði Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Björn Magnússon. Vestur-Skaftfellingar. Reykjavík: Prentsmiðjan Leiftur H.F., 1970-1973.
  • Brynleifur Tobíasson. Hver er maðurinn. Reykjavík: Bókaforlag Fagurskinna Reykjavík, 1944.
  • Manntöl.
  • Prestsþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.