Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Gráa skýrslan

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
„Gráa skýrslan“


Þegar hin svonefnda „Svarta skýrsla“ Hafrannsóknastofnunarinnar kom út fyrir rúmu ári, brá mörgum manni í brún, er þeir lásu um ástand fiskstofna hér við land og tillögur stofnunarinnar um hámarksafla á Íslandsmiðum árið 1977.
Um síðustu áramót kom fram enn ný skýrsla frá Hafrannsóknastofnuninni. Aðspurður um það, hvort þessi skýrsla væri líka „svört“, svaraði sjávarútvegsráðherra því til, að hún væri ekki „svört“, hún væri „grá“.
Þessi einkenni skýrslnanna mótuðust af því, að hin fyrri var með svartan kjöl, hin síðari gráan, en hvort ráðherrann hefur haft innihald þeirra í huga, er hann lýsti síðari skýrslunni, er ekki ljóst.


Rétt þykir að taka hér upp nokkra kafla úr „gráu skýrslunni“ til að vekja athygli sjómanna og annarra áhugamanna um fiskveiði og fiskvernd á því, sem sérfræðingar segja um veiðihorfur á þessu ári, en skýrslan er nú komin út í 13. hefti ritsins Hafrannsóknir, og fæst það hér í bókabúðinni.

Hér fara á eftir stuttir útdrættir úr skýrslunni.

1. ÞORSKUR:
Ástand stofnsins..
Árabilið 1955 - 1974 var meðalársafli þorsks um 400 þús. tonn. Mestur varð aflinn árið 1954, tæplega 550 þús. tonn, en minnstur árið 1967, eða 345 þús. tonn. Árin 1968-1970 óx aflinn á ný og náði árið 1970 hámarki, 471 þús. tonnum. Þessi aukning stafaði að miklu leyti af sterkum þorskgöngum frá Grænlandsmiðum. Síðan 1970 hefur afli farið minnkandi, þrátt fyrir að góðir árgangar bættust í veiðanlega stofninn, t.d. árgangarnir frá 1964-1970.



Árið 1977 er heildaraflinn áætlaður um 340 þús. tonn. Á umræddu tímabili hefur sókn aftur á móti farið sívaxandi og náði hún hámarki árið 1975. Við brotthvarf útlendinga af miðunum hefur sóknin aftur minnkað. Ástæðan fyrir því að aukin sókn skilaði ekki auknum afla, var minnkun þorskstofnsins. Þannig hefur heildarstofninn minnkað úr 2,6 millj. tonna árið 1955 í 1,2 millj. tonna árið 1978. Hrygningarstofni þorsksins hefur hrakað enn meira, úr um 1 millj. tonna á árunum 1957-1959 í 180 þús. tonn árið 1978.

Síðan er gerð grein fyrir árgangaskipan í veiðinni 1977 og sókninni á sama ári. Rætt er síðan um aflahorfur.

Horfur:
Aflinn árið 1978 mun að óbreyttri sókn frá s.l. ári verða 350 þúsund tonn; árið 1979 verður aflinn 320 þúsund tonn og árið 1980 340 þúsund tonn. Það er því fyrirsjáanlegt, að afli á næsta ári verður ekki mikill, ef miðað er við afla undanfarinna ára, og verður reyndar að fara aftur til ársins 1947 til að finna svo lágar aflatölur. Munurinn á ástandinu þá og nú er sá, að þá var lítill floti fiskiskipa að veiðum úr stórum stofni, og því varð afli á sóknareiningu mikill. Í dag eru aftur á móti of mörg skip að veiða úr litlum stofni, þannig að nýting flotans er óhagkvæm miðað við stærð stofnsins." Síðan segir, að með óbreyttri sókn muni stærð hrygningarstofnsins á næstu árum verða á bilinu 180-280 þús. tonn og muni stofninn enn minnka og fara niður fyrir 190 þús. tonn, þegar hrygningin byggist á veiku árgöngunum frá 1974 og 1975, ef ekkert er að gert.
Síðan segir:
„Ekki liggja fyrir athuganir á ástandi þorskstofnsins við Austur-Grænland á s.l. ári. Rannsóknir undanfarinna ára benda þó til þess, að þaðan sé engra gagna að vænta sem heitið geti á allra næstu árum, enda er ástand þorskstofnsins þar lélegt.“

Tillögur um aflahámark.
Hafrannsóknastofnunin gerir tillögur um aflahámark á árunum 1978 og 1979, að það fari ekki yfir 270 þús. tonn hvort ár. Er síðan gerð grein fyrir æskilegri aldurssamsetningu í þorskveiðunum 1978.
Síðan segir áfram:


„Minnkuð sókn í 3 og 4 ára fisk hefur leitt til betri nýtingar stofnsins. Þá benda nýjustu rannsóknir til þess, að árgangur frá 1973, 1974 og 1975 séu ívið sterkari en fyrstu athuganir gáfu til kynna. Tillaga um hámarksafla árið 1978 lækkar því ekki meira frá tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar í fyrra en raun ber vitni, þótt afli árið 1977 hafi farið talsvert fram úr þeirri tillögu. Þó skal bent á það hér að lokum, að ef tillaga Hafrannsóknastofnunarinnar um 275 þús. tonna hámarksafla á s.l. ári hefði komið tilframkvæmda, hefði hrygningarstofninn á komandi vetrarvertíð verið 50 þús. tonnum stærri en nú er búist við, og hefði mátt auka leyfilegan hámarksafla á næsta ári talsvert fram yfír það, sem nú er lagt til.“

2. AÐRAR FISKTEGUNDIR:
Um ýsustofninn segir, að árið 1963 hafi hrygningarstofn hennar verið um 246 þúsund tonn, en komst í lágmark árið 1973, eða 76 þúsund tonn. Síðan hefur hrygningarstofninn farið aftur vaxandi og er áætlaður 109 þúsund tonn í ársbyrjun 1978.
Á s.l. ári (1977) varð ýsuaflinn um 35 þúsund tonn. Leggur stofnunin til, að leyfilegur hámarksafli verði 40 þúsund tonn. Bendir margt til þess, að ýsuárgangurinn 1976 sé allsterkur og því horfur á vaxandi ýsuafla á næstu árum.
Varðandi ufsaaflann segir, að bráðabirgðatölur 1977 bendi til þess, að aflinn hafi verið mjög svipaður þeim afla, sem ráðlagt var að veiða það ár. Er því lagt til, að leyfilegur hámarksafli árið 1978 verði 60 þúsund tonn.



Þá er næst fjallað um karfann og karfaveiðarnar. Er talið, að karfastofninn sé í talsverðri hættu og tilefni til fyllstu varúðar á karfaveiðum. Lagt er þó til, að leyfð verði veiði á 60 þús. tonnum á Íslandsmiðum á árinu 1978.
Aðra sögu er að segja um skarkolann. Árið 1976 veiddust aðeins rúm 5 þús. tonn af honum við Ísland, og í nóvemberlok 1977 var aflinn orðinn 4,5 þús. tonn.
Síðan segir orðrétt:
„Síðan Bretar hættu skarkolaveiðum hér við land hefur stofninn verið vannýttur. Allt bendir til þess, að fyrri áætlanir um 10 þús. tonna árlegan hámarksafla séu nálægt lagi. Það er því æskilegt að auka verulega sóknina í skarkolann.“
Um humarinn segir í „gráu skýrslunni“, að vænta megi nokkurrar aukningar í stórhumri á árunum 1979-1980, þegar árgangarnir frá 1969-1971 hafa náð tilskildri stærð. Ástæður fyrir mjög lágu hlutfalli stórhumars í afla undanfarinna ára má að nokkru rekja til heldur lélegra árganga, t.d. 1968, auk hinnar miklu veiði á árunum 1970-1972.
Þegar tillögur voru gerðar um leyfilegan hámarksafla árið 1977 var hlutur stórhumars lítilsháttar ofmetinn. Af þessum sökum og einnig til þess að stuðla að frekari uppbyggingu stofnsins er lagt til, að leyfilegur hámarksafli árið 1978 verði 2.500 tonn og sóknartakmörkunum verði einkum beint að svæðum suðvestanlands.

3. SÍLD OG LOÐNA.
Rétt er að lokum að víkja nokkuð að síld- og loðnuveiðunum. Að því er varðar síldina eru tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar í 4 liðum, þessar:





a. Leyfilegur hámarksafli verði 35 þúsund tonn.
b. Þessum afla verði skipt milli hringnóta- og reknetabáta, en þar sem 3-4 ára síld (26 - 30 cm) verður í miklum meirihluta á miðunum á hausti komanda, er eindregið lagt til, að sú aflaaukning, sem gert er ráð fyrir frá fyrra ári, verði fyrst og fremst tekin með reknetum og hringnótaveiðar ekki auknar frá því sem var 1977.
c. Hringnótaveiðar verði leyfðar 20. sept. - 20. nóv., en reknetaveiðar frá 20. ág.- 20. nóv.
d. Reglugerð um bann við veiði smásíldar verði breytt þannig, að 27 cm síld og minni megi ekki vera meiri en 25% í afla í stað 50% (eftir fjölda). Rakin er í stórum dráttum þróun loðnuveiðanna og birt sérstök skýringatafla. Segir síðan í kaflanum um loðnuna:
„Eins og við er að búast hafa orðið verulegar breytingar á þeim flota, sem loðnuveiðar stundar.
Upphaflega voru skipin tiltölulega fá, en fjölgaði ört og munu hafa verið á annað hundrað, þegar mest var. Á seinni árum hefur skipum fækkað nokkuð, en þau hafa hinsvegar stækkað mikið og búnaður allur aukinn og bættur, þannig að afköst eru nú margföld miðað við sama skipafjölda fyrir fáum árum. Telja verður, að afkastageta íslenzka loðnuveiðiflotans sé orðinnægjanleg til þess að fullnýta loðnustofninn.“
Stofnunin gerir eftirfarandi tillögur um veiðitakmarkanir loðnu:
„Til þess að tryggja svo sem kostur er viðvarandi hámarksafla og stuðla að öflun góðs hráefnis, er lagt til, að settar verði eftirfarandi takmarkanir við loðnuveiðar:
a. Hámarksafli verði 1 milljón tonna á tímabilinu 1. júlí 1978-30. júní 1979.
b. Loðna 12 cm að lengd og minni verði friðuð með 1) svæðislokunum, og 2) ákvæðum um aflasamsetningu eins og nú er, og 3) setningu reglugerðar um lágmarksmöskvastærð (19 mm).
c. Veiðibann frá lokum vertíðar til 15. júlí, meðan yngri árgangurinn er að taka út sumarvöxt, loðnan að fitna og átuinnihald er mest.“