Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Básar

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
BÁSAR

Sjómannadagsráð Vestmannaeyja hefur í raun frá upphafi verið í húsnæðishraki. Það hefur ekki eignazt „blífanlegan“ samastað til fundarhalda eða geymslu á þeim munum, sem á rúmlega 35 ára starfsferli hafa safnazt fyrir, þegar frá er skilið bátaskýlið á Skansinum. Þetta mál, húsnæðismálið, kom til umræðu á aðalfundi ráðsins, sem haldinn var 1. maí 1975. Var þá samþykkt að þreifa fyrir sér um kaup eða jafnvel byggingu á hentugu húsnæði, þá sérstaklega með varðveizlu kappróðrabátanna í huga. Var jafnframt um það rætt að leita eftir samstarfi við önnur félagasamtök um fyrirhugaðar ráðstafanir. Talsverðar umræður urðu um þetta mál manna á milli, og þar var um skeið komið málum, að nokkur félög sjómanna og útvegsmanna töldu sig geta sameinazt um kaup á húseigininni, Heiðarvegur 20, fyrrum íbúðarhús Helga heitins Benediktssonar og fjölskyldu hans. En þegar til kom var horfið að öðrum ráðum.
Vorið 1976 bárust um það upplýsingar, að svonefnt „Halkionshús“ á Básaskersbryggju mundi vera falt. Þetta er nyrzta einingin í húsaröðinni á bryggjunni, næst gamla Verkamannaskýlinu. Þetta hús var á sínum tíma byggt sem veiðarfæra- og skrifstofuhús fyrir Halkion h.f, en aðalmennirnir í því fyrirtæki voru þeir Gerðisbræður, Guðlaugur Gunnar og Stefán Stefánssynir. Þeir höfðu þá selt bát sinn, Halkion VE 205, og voru hættir útgerð. Húsið er tvær hæðir og ris, og 2. hæð var skrifstofa.

Básar 1.png

Verðlaunahafar í auglýsingagetraun 1977.png

Þá var svo komið, að hugsanleg var samstaða fimm félaga í bænum um húsakaupin. Höfðu þeir Jóhannes Kristinsson í Steypustöðinni og Kristinn Sigurðsson, slökkviliðsstjóri, frumkvæði að fundarboðun um málið, en þeir eiga báðir sæti í Sjómannadagsráði. Sendu þeir bréf nokkrum aðilum sem líklegir þóttu til samstarfs, dags. 26. september 1976, og boðuðu til fundar í Slökkvistöðinni sunnudaginn 3. október 1976 kl. 10 árdegis.
Þessum félögum var boðið að senda fulltrúa á fundinn, auk Sjómannadagsráðs:
Björgunarfélag Vestmannaeyja h.f.
Slysavarnafélagið Eykyndill,
Vélstjórafélag Vestmannaeyja,
Skipstjóra- og stýrimannafélag Verðandi.
Í fundarboði var málið reifað í fáum orðum og þess óskað, að stjórnir ofangreindra félaga kæmu til fundarins, eða að stjórnirnar tilnefndu þrjá fulltrúa til að mæta þar fyrir sína hönd.
Öll félögin sendu fulltrúa sína á fundinn, nema Verðandi. Í framsöguerindi greindi Jóhannes Kristinsson frá viðræðum, er hann hefði átt við Guðlaug Stefánsson í júnímánuði s.l., og hefði „Halkionshúsið“ þá verið falt fyrir 10 milljónir króna. Í umræðum um málið kom síðan fram mikill áhugi fundarmanna á aðild að húsakaupum. Var ákveðið að kanna, hvort húsið væri enn falt, og að loknum fundi framkvæmd „vettvangskönnun“. Var húsið skoðað hátt og lágt, utan sem innan. Komu þá þegar fram hugmyndir um skiptingu þess milli aðila. Samþykkt var í fundarlok að halda málinu áfram af fullum krafti.

Eykyndilskonur.png

Næsti fundur um húsmálið var haldinn fimmtudaginn 7. október. Komu til fundarins fulltrúar áðurgreindra félagasamtaka, auk fulltrúa frá Verðandi, sem tjáðu sig fúsa til að gerast aðilar að málinu, ef af samningum um húsakaupin yrði.
Jóhannes Kristinsson skýrði frá því, að hann hefði rætt við Guðlaug Stefánsson. Upplýsti hann, að húsið mundi fást keypt fyrir 12 milljónir, miðað við útborgun kr. 6 milljónir og yfirtöku á eftirstöðvum áhvílandi skulda. Miðað við verð á húsum, sem um þessar mundir höfðu verið seld, svo og það, að brunabótamat hússins mundi um n.k. mánaðamót hækka í kr. 15.445 þús., var ákveðið að halda áfram frekari athugun á húsakaupunum og ræða m.a. við bankastjóra Útvegsbankans. Kom fram í þeim viðræðum, að bankinn var reiðubúinn til að lána allt að kr. 5 milljónir til 8 ára með 19% vöxtum og kr. 1. milljón, einnig til 8 ára með 22,5% vöxtum.
Í framhaldsviðræðum við Guðlaug Stefánsson kom fram, að ekki væri nauðsynlegt að taka svo há bankalán, þar eð við húsasölur á þessum tímum væri algengt, að hluti söluverðs yrði lánaður kaupendum í formi skuldabréfs með 12% vöxtum, en meðaltalsvextir af væntanlegum bankalánum yrðu um 20%. Kvað Guðlaugur Stefánsson jafnframt ákveðið, að selja viðkomandi aðilum húsið og yrði það rýmt fljótlega. Þá kom og fram, að útborgun yrði reynt að haga eftir fjárhagsgetu félaganna, þó að lágmarki kr. 3 milljónir á árinu 1976.
Á fundi 4. desember 1976 lá fyrir uppkast að kaupsamningi, samið af Guðlaugi Stefánssyni f.h. Halkions h.f., og Jóhannesi Kristinssyni og Kristni Sigurðssyni f.h. væntanlegra kaupenda. Urðu nokkrar umræður um uppkastið, en þar kom mál manna, að gengið yrði frá kaupum á húsinu á grundvelli fyrirliggjandi kaupsamningsdraga, en reynt yrði að fá einhverja tilfærslu í útborgun. Á þessum fundi voru tilnefndir fulltrúar aðildarfélaga, einn frá hverju, í stjórn væntanlegs húsfélags. Skyldu fulltrúar afla sér umboðs til að undirrita kaupsamning, hver og einn fyrir hönd síns félags, þegar að því kæmi.

Frá Björgunarfélagi Vestmannaeyja, Kristinn Sigurðsson.
Frá Eykyndli, Jórunn Helgadóttir.
Frá Vélstjórafélagi Vestmannaeyja, Alfreð Þorgrímsson.
Frá Verðandi, Einar Guðmundsson.
Frá Sjómannadagsráði, Jóhannes Kristinsson.

Daginn eftir, 5. desember, var enn haldinn fundur og þá formlega gengið frá stofnun félags um kaup á „Halkionshúsinu“. Voru ofangreindir aðilar tilnefndir í fyrstu stjórnina, og skiptu þeir með sér verkum þannig, að Jóhannes Kristinsson var kjörinn ritari, en Einar Guðmundsson gjaldkeri. Stjórnin varð ásátt um skiptingu húsnæðisins milli aðila í stórum dráttum þannig:
Björgunarfélagið og Sjómannadagsráð fengju neðstu hæðina til umráða að mestu leyti, hvert félag fengi eitt lítið herbergi á 2. hæð, en þar yrði jafnframt fundarherbergi til sameiginlegra afnota fyrir alla. Ákveðið var að innrétta efstu hæðina (risið) með þarfir félaganna fyrir augum.
Eignarhlutdeild húsfélagsaðila var ákveðin sem hér segir:

Björgunarfélagið 25% Sjómannadagsráð 25% Verðandi 20% Vélstjórafélagið 20% Eykyndill 10%

Samþykkt var að leita til Carls Ólafs Gränz og biðja hann um tillöguuppdrætti að fyrirkomulagi á rishæð.
Á fundinn komu einnig þeir bræður, Guðlaugur og Gunnar Stefánssynir og undirrituðu kaupsamning f.h. seljanda, Halkions h.f., en stjórn húsfélagsins undirritaði ekki að sinni.
Sú hugmynd kom fram, að félagið yrði kallað Húsfélagið Básar og húsið yrði frá þessari stundu kallað Básar. Var þá haft í huga, að það stendur við svonefnt innra Básasker, sem nú er hulið í bryggjunni, og varð enginn ágreiningur um þessa nafngift. Hinn 6. desember er enn haldinn fundur í stjórn Bása, og var þá endanlega gengið frá kaupsamningi og hann undirritaður. Þá var og innt af hendi tilskilin útborgun, kr. 3 milljónir, og tók Gunnar Stefánsson við þeirri greiðslu f.h. seljenda.
Á þessum fundi voru samin drög að reglugerð fyrir Húsfélagið Bása, og eru þau í aðalatriðum sem hér segir:

1. Tilgangur húsfélagsins er að reka björgunarmiðstöð og eiga athvarf fyrir starfsemi aðildarfélaga í húsinu.
2. Í þessari grein reglugerðarinnar er fjallað um eignarhlutfall aðila, sem áður getur. Jafnframt er tekið fram, að hver eignaraðili standi straum af þeim kostnaði, sem kann að verða „í hlutfalli við eignaraðild og hirði jafnframt arð, ef einhver verður, í sama hlutfalli.“
3. Hússtjórn er skipuð einum fulltrúa frá hverju aðildarfélagi.
4. Hússtjórn skiptir sjálf með sér verkum og kýs úr sínum hópi formann, ritara og gjaldkera. Formaður hússtjórnar er jafnframt framkvæmdastjóri hússins.
5. Aðalfund skal halda í marzmánuði ár hvert. Fara þá fram stjórnarskipti eftir því, sem aðildarfélög ákveða, svo og önnur venjuleg aðalfundarstörf. Boða skal til aðalfundar með minnst viku fyrirvara.
6. Hússtjórn er heimilt að leigja út fundarsal, en eignarfélög hafa þó forgangsrétt að húsinu, enda skal þeim skylt að tilkynna um notkun í tæka tíð samkv. nánar ákveðnum reglum.

Básar 2.png

Þar með var í raun og veru lokið stofnun húsfélagsins Bása um kaup og rekstur samnefndrar húseignar á Básaskersbryggju. Með þessu hefur aðstaða viðkomandi félaga breytzt mjög til hins betra. Þó er enn ólokið ýmsum verkefnum. Hefur verið unnið að undirbúningi þeirra og raunar framkvæmdum líka allt fram að þessu.
Eins og fyrr getur, var Carl Ólafur Gränz fenginn til að gera tillöguuppdrætti að fyrirkomulagi og breytingum á efstu hæð, jafnframt kostnaðaráætlun vegna rishæðar. Lá hún fyrir snemma árs 1978 og nam að fjárhæð kr. 7.370.000. Um þær mundir, sem þessi áætlun lá fyrir, hafði verið unnin talsverð sjálfboðaliðsvinna við húsið, eða samkv. bókun 4. janúar 1978 samtals 230 tímar. Var ákveðið að reikna hverja vinnustund á kr. 500 og það notað sem viðmiðun við útreikning kostnaðar við húsið. Um miðjan október 1977 varhúsið málað að utan og sett á það merki félaganna. Umsjónarmaður með þessu verki var Sigurfinnur Sigurfinnsson, og fórst honum það prýðilega úr hendi, eins og hans var von og vísa, og er sjón sögu ríkari í þessu efni.
Hér að framan hefur verið rakið í stórum dráttum aðdragandi þess, að Básar eru orðnir félagsheimili þeirra, sem aðild eiga að húsfélaginu. Þótti rétt, að Sjómannadagsblaðið geymdi frásögn af þessu á síðum sínum. Ráðgert er, að settur verði kvistur á rishæð eins og meðfylgjandi mynd sýnir, og þar verði útbúin aðstaða fyrir félögin, eftir því sem þurfa þætti. Fyrir liggur aðeins útlitsteikning að fyrirhugaðri lyftingu þakhæðarinnar, en ekki fyrirkomulagsteikning að öðru leyti.
Ástæða er til að óska eigendum Bása til hamingju með þetta myndarlega átak, sem gert hefur verið til að viðkomandi félög eigi einhvers staðar höfði sínu að halla, því að brýn nauðsyn var orðin á úrlausn í því efni - jafnvel þótt fyrr hefði verið.