Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2010/Sjómannadagurinn 2009

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Huginsmenn taka virkan þátt í sjómannadagshelginni. Þarna má þekkja Grétar Már Óskarsson og Gunnlaug Erlendsson
Sjómannadagurinn 2009


Söngvakvöld með Árna Johnsen stendur alltaf fyrir sínu.
Félagar úr Leikfélagi Vm. tóku þátt í hátíðahöldunum
...og settu skemmtilegan svip á svæðið.

Sjómannadagshelgin er orðin ein stærsta menningarhátíð bæjarins á hverju ári. Helgin er í raun fyrsta bæjarhátíðin sem eitthvað kveður að ár hvert og óhætt að segja að hátíðahöldin árið 2009 hafi gengið vel. Veðrið skipar ávallt stóran sess og veðurguðirnir léku við hátíðargesti, ekki síst á laugardeginum þegar hátíðahöldin í Friðarhöfn fóru fram.
En þótt veðrið skipi stóran sess, væri hátíðin hvorki fugl né fiskur ef ekki kæmi til öflugt sjómannadagsráð. Stefán Birgisson, fyrrum formaður ráðsins, og hans menn sköpuðu mjög þétta dagskrá þar sem flestir, ef ekki allir, gátu fundið eitthvað við sitt hæfi. En án fjölmargra sjálfboðaliða væri þetta ekki hægt og fyrir það ber að þakka.
Hátíðahöldin hófust á föstudeginum með fótboltamóti og golfmóti. Fótboltamótinu hefur vaxið fiskur um hrygg eftir að mótið hafði dalað en sem fyrr var það áhöfnin á Hugin VE sem stóð uppi sem sigurvegari eftir æsispennandi úrslitaleik gegn Álsey VE. Áhöfnin á Álsey reyndi hvað hún gat til að mæta sem best undirbúin til leiks en eins og fram kom í Sjómannadagsblaðinu í fyrra var undirbúningstímabilið langt og strangt, með stífum æfingum og sérvöldu heilsufæði. En allt kom fyrir ekki, reynslan í Huginsliðinu er slík að nú er spurning hvort önnur lið verði ekki að fara huga að leikmannakaupum. Um kvöldið var svo hið árlega Söngvakvöld Árna Johnsen og félaga en Árni fékk Magnús Eiríksson sjálfan til að taka nokkur lög, bæði einn og með Árna. Söngkvöldið var mjög vel sótt, eins og alltaf, og stóð fjörið fram á nótt.
Laugardagurinn heilsaði Eyjamönnum með brakandi sól og blíðu. Sjómannafjör í Friðarhöfn hófst klukkan eitt en áður var boðið upp á bílasýningu forn- og sparibíla. Fjörið í Friðarhöfn var með hefðbundnu sniði, kappróður, koddaslagur, karalokahlaup og meira fjör var á dagskrá, auk þess sem hjóla- og brettasnillingar sýndu listir sínar. Þá voru að sjálfsögðu hoppikastalar fyrir yngstu börnin þannig að allir í fjölskyldunni fundu eitthvað við sitt hæfi. Sjómenn mættu svo landkröbbum við skákborðið þar sem landkrabbarnir höfðu yfirburðasigur, með tólf og hálfum vinningi gegn fjórum og hálfum.
Á laugardagskvöldið var svo hátíðarsamkoma í Höllinni. Um 430 manns voru í mat þetta kvöld, sem þýðir að uppselt var inn í þetta gríðarstóra samkomuhús. Maturinn, sem Einsi kaldi sá um, klikkaði að sjálfsögðu ekki og boðið var upp á fjölmörg söngatriði. Ballið með Sóldögg eftir miðnætti var gríðarlega vel sótt en talið er að á milli sjö til átta hundruð manns hafi verið í húsinu þegar mest var.
Sjálfur sjómannadagurinn hófst svo með því að fánar voru dregnir að húni. Klukkan 13 var svo sjómannamessa í umsjón sr. Guðmundar Arnar Jónssonar. Ritningarlestur lásu þær Svana Björk Kolbeinsdóttir, Bergey Alexandersdóttir og Birta Marinósdóttir. Eftir messu var svo minningarathöfn við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra á lóð Landakirkju. Snorri Óskarsson hélt ræðu og lögðu þær Kristín Sigurðardóttir og Sigurborg Engilbertsdóttir blómsveig við minnisvarðann.

Kristín Sigurðardóttir og Sigurborg Engilbertsdóttir lögðu blómsveig við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra.


Hátíðardagskrá á Stakkagerðistúninu hófst svo klukkan þrjú í ágætis veðri, hægum vindi og þurru en sólin lét sig vanta. Hátíðarræðuna flutti Valmundur Valmundarson, formaður Sjómannafélagsins Jötuns.
Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi heiðraði Steingrím Dalmann Sigurðsson, Vélstjórafélag Vestmannaeyja heiðraði Óla Svein Bernharðsson og Sjómannafélagið Jötunn heiðraði Ægi Sigurðsson. Þá afhenti Bergur Kristinsson, formaður Verðandi Þorbirni Víglundssyni Verðandaúrið, sem til margra ára var afhent þeim nemanda Stýrimannaskólans sem var með hæstu einkunn. Nú þegar stýrimannanámið er aftur komið á legg, var ákveðið að end- urvekja þessa hefð hjá félaginu.
Þá voru veitt verðlaun fyrir afrek helgarinnar. Áhöfnin á Hugin fékk sigurverðlaun knattspyrnumótsins og Valtýr Auðbergsson þótti sýna bestu tilþrif knattspyrnumótsins. Verðandi vann kappróður félaganna og Suðurey stóð uppi sem sigurvegari í kappróðri áhafna. Þá vann strákasveitin Ship-o-hoj tímabikarinn i kappróðrinum og stelpurnar úr Vinnslustöðinni unnu kvennakeppnina, enda eina kvennasveitin í ár. Kynnir hátíðahaldanna lét það fylgja með að þær hefðu einnig verið með langfallegasta áralagið. Þá var Kjartan á Múla heiðraður fyrir að verja titil sinn í koddaslag enn eitt árið. Að lokum var Guðríður Haraldsdóttir, Dæja, heiðruð sérstaklega fyrir aðstoð við Sjómannadagsráð. Glæsilegri sjómannadagshelgi lauk svo með mögnuðum tónleikum Dúndurfrétta í Höllinni en sveitin fór hreint á kostum í flutningi sínum á lögum Pink Floyd, Led Zeppelin, Deep Purple og Uriah Heep. Mátti sjá marga áhorfendur lifa sig inn í tónlistina enda flutningurinn óaðfinnanlegur. Sjómenn og bæjarbúar allir eiga hrós skilið fyrir virka þátttöku um sjómannadagshelgina. Stærsta hrósið sem fyrr á þó sjómannadagsráð fyrir að gera helgina jafn skemmtilega fyrir unga sem aldna og raun ber vitni.

Ungir Eyjapeyjar skemmta sér á sjómannadaginn.


Hágæða ljósavélar og afldreifibúnaður fyrir skip og báta hjá Rafeyri ehf á Akureyri


Guðmundur J. Arnkelsson

Til að bæta þjónustu okkar við skip, smábáta og trillur hefur Rafeyri fengið söluumboð fyrir vörur frá Blue Sea Systems í Bandaríkjunum , og Coelmo á Ítalíu (http://www.co-+elmo.it.) Rafeyri hefur opnað netverslun (http://www.rafeyri. is) fyrir þessar vörur sem og aðrar, en einnig er hægt að nálgast þessar vörur hjá okkur á Norðurtanga 5, Akureyri eða með t-pósti á rafeyri@rafeyri.is

Blue Sea Systems framleiðir vörur fyrir afldreifingu á AC & DC kerfum í bátum. Þar á meðal eru ein- og tvípóla rafgeymarofar, þeir stærstu fyrir allt að 2750 A DC startstraum sem dugar fyrir mjög stórar báta- og ljósavélar. Öryggjablokkir og öryggi af ýmsum gerðum frá 1-750 A DC. Ymsir mælar með eða án stillanlegrar viðvörunar fyrir spennu, straum, tíðni, hæð í tönkum, oliuþrýsting, kælivatnshita o.fl.

VSM 422 mælirinn frá Blue Sea mælir margt í einu s.s. straum, spennu og tíðni, hæð í tönkum, hita á rafgeymum og getur því sparað mikið pláss sem er kostur í smábátum. Blue Sea framleiðir öfluga spólurofa fyrir DC straum fyrir t.d. neyðarstart, sjálfvirka hleðslurofa (ACR) sem gera kleift að hlaða tvo geyma eða tvö geymasett í einu án þess að eyða út af báðum settum t.d. þegar vél er startað. Þetta er mun betri lausn heldur en „hleðslusplitter” sem víða er notaður. Frá Blue Sea bjóðum við einnig ýmsa smárofa, þar á meðal hina vel þekktu rofa frá Carling.

Coelmo var stofnað fyrir um 100 árum. Síðan þá hefur Coelmo framleitt ljósavélar í stærðunum 3-3000 kVA. Vélarnar sem Coelmo notar eru m.a. frá Iveco, VolvoPenta, Deutz, Perkins og MAN. Þessir vélaframleiðendur eru með um og yfir 100 ára sögu.
Coelmo framleiðir ljósavélar í nokkrum vörulínum. Ein fyrir iðnað (Industrial generators) t.d. sem varaafl. Önnur vörulína er ætluð fyrir byggingasvæði (Building site generators) og enn önnur fyrir skip, báta og skútur (Marine generators). Þá framleiðir Coelmo einnig ljósavélar á vagni með flóð- ljósi á hækkanlegum armi fyrir bygginga- og virkjanasvæði.
Rafeyri getur útvegað allt það sem Coelmo hefur upp á að bjóða en megináherslan er á Coelmo Marine Generators sem eru sjókældar dísel ljósavélar 3,5 - 39,5 kW. Hægt er að fá þær í mjög vönduðum hljóðeinangruðum kassa. Vélarnar eru frá þýska fyrirtækinu Faymann (http://www.faymann.de) stofnuðu 1947 og Kubota (http://www.engine.kubota.ne.jp) sem var stofnað 1890 í Japan. Rafalarnir eru einnar legu og burstalausir með H-Class þéttleika.

Fjarstart eða sjálfvirkt start/stop
Fjarstýri-stjómborð er hægt að fá við allar Coelmo ljósavélarnar. Á þessu stjórnborði er start/stop, mælaálestur og viðvaranir. Á Rafeyri hefur verið hönnuð og smíðuð stýring (AutoStart/Stop control — ASC) sem setur ljósavél sjálfkrafa í gang og tengir inn á net þegar þörf er á meira afli, kúplar vélinni svo sjálfkrafa út aftur og drepur á þegar þörfin er ekki lengur til staðar. Þetta hefur reynst vel í bátum þar sem aflnotkun er mjög mismikil yfir daginn, þetta styttir þá lausagangstíma vélarinnar sem fer betur með vélina og sparar olíu.
Guðmundur J. Arnkelsson
Vélfrœðingur, Rafeyri ehf