Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2009/Síldveiðar í Vestmannaeyjahöfn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Kap VE með nótina úti í miðri höfninni.
Síldveiðar í Vestmannaeyjahöfn


Félagarnir Þorbjörn Víglundsson og Gunnlaugur.

Í fyrrahaust, eða rétt fyrir jól, tóku menn eftir því að mikið af síld hafði komið inn í Vestmannaeyjahöfn. Mikillar sýkingar hafði orðið vart í síldarstofninum sem hafði sett strik í veiðar og vinnslu síldarinnar. En auk þess sáu sumir breytingu í hegðun síldarinnar. Hún var farin að halda sig mikið uppi í fjörum og inni á öllum víkum og höfnum við vestur- og suðurströndina. Í sumum höfnum virtist vera meira af henni en annars staðar og til dæmis þá voru hafnirnar í Keflavík, Hafnarfirði og svo hér í Eyjum fullar af síld.
Mjög mikið magn var af síld í höfninni í Eyjum um áramótin og strax eftir þau. Mikið sjónarspil var oft þegar fuglagerið lá í síldinni og sáu margir súlukast innanhafnar í fyrsta skipti. Starfsmenn Hafrannsóknastofnunarinnar tóku sýni af þessari síld og reyndist mikið af henni sýkt. Fljótlega fór að bera mikið á dauðri síld í höfninni og var þá mest sýkta síldin tekin að drepast í stórum stíl.
Hversu mikið magn var af síld þegar mest var er erfitt að segja til um enda voru engar mælingar gerðar. Menn voru þó sammála um það að mörgþúsund tonn voru hér þegar mest var.
Þegar leið á veturinn fór aðeins að minnka magnið af síld í höfninni en engu að síður var alltaf ákveðið magn til staðar. Fóru menn að hafa af því áhyggjur að þessi síld dræpist öll innan hafnar með tilheyrandi grútarmengun. Það var því að frumkvæði ákveðinna manna að sótt var um leyfi hjá sjávarútvegsráðuneytinu til þess að veiða þessa síld sem eftir var, til þess að koma í veg fyrir mengun af hennar völdum.
Eftir að leyfi hafði fengist var farið í að undirbúa veiðarnar sjálfar. Til veiðanna var valið að nota Kap VE 4 sem Vinnslustöðin lagði til, enda var það skip einna hentugast í þær. Safnað var saman í eina áhöfn og völdust í hana vanir menn víðs vegar að. Gísli Garðarsson, skipstjóri á Kap VE, og Guðmundur Huginn Guðmundsson, skipstjóri á Hugin VE, fóru yfir málin hvernig staðið yrði að veiðunum. Bergvin Oddsson var fenginn sem eins konar fiskilóðs, en hann fór um höfnina á bát sínum Glófaxa II VE 301 og leitaði uppi síldina.

Bergur dregur reknetið um borð í rannsóknarleiðangri.

Áður en veiðarnar sjálfar hófust var farið á Glófaxa II og siglt um höfnina og reynt að átta sig á því hvar mest af síldinni héldi sig. Auk þess var tekið sýni úr síldinni og reyndust yfir 70% af henni sýkt. Mest af síldinni var innst í höfninni og alveg inni í Pytt (botn Friðarhafnar). Samt sem áður var talsvert magn í miðri höfninni og var ákveðið að reyna að ná þeirri síld daginn eftir.
Það var svo þann 18. mars að ákveðið var að reyna á þetta. Kap VE var gerð klár og Beddi lónaði um höfnina og staðsetti síldina. Björgunarbáturinn Þór var fenginn til aðstoðar en Lóðsinn var einnig til taks ef eitthvað kæmi upp á þegar nótinni yrði kastað.
Þegar Gísli skipstjóri hafði staðsett Kapina eftir ráðleggingum Bedda á Glófaxa, var ákveðið að láta vaða. Spotti var sendur um borð í b/b Þór sem dró pokann á nótinni út og kastið var hafið. Byrjað var að kasta nótinni við Básaskersbryggju og í vesturátt. Þegar komið var að löndunarbryggjunni við Fiskimjölsverksmiðju Vinnslustöðvarinnar var tekin ubeygja og í austur aftur. Kastið gckk mjög vel og voru menn sammála um það að varla hefði verið hægt að gera þetta betur.
Nú voru ákveðin tímamót í sögu útgerðarinnar hér í Eyjum því upp á ár voru nú liðin 50 ár frá því að nótaveiðar voru síðast stundaðar innan Vestmannaeyjahafnar. Árið 1959 gekk síld inn í höfnina og sátu menn þá ekki aðgerðarlausir heldur veiddu eins og þeir gátu. Þó stutt hafi verið á miðin þá var lengra í löndun en bræðslurnar hér voru lokaðar svo að sigla þurfti með aflann alla leið til Reykjavíkur.
Það var ekki í þessu tilfelli svo að menn voru sennilega að fara í sinn stysta túr í mílum talið. Greiðlega gekk að snurpa nótina og draga. Reyndar þurfti talsvert að vera að stoppa í drættinum því mikið af alls kyns drasli kom upp með nótinni eins og fríholt, ásamt einu stykki innkaupakerru frá Krónunni. Þegar búið var að þurrka nótina að skipinu reyndist vera talsvert af síld í nótinni og var dælt um borð 150 tonnum.
Um leið og búið var að dæla var gert klárt fyrir annað kast enda átti að hreinsa þessa dauðvona síld úr höfninni. Seinna kastið var framkvæmt með sama hætti og það fyrra og gekk það eins og í sögu. Í þetta skiptið reyndust vera um 400 tonn í nótinni og voru allir kampakátir með það. Þegar lokið var við að dæla þeirri síld úr nótinni, var síldin búin að dreifa úr sér og ekki í veiðanlegu magni neins staðar, þá var ákveðið að hinkra með frekari aðgerðir til morguns.
Daginn eftir reyndist veðrið vera óhagstætt og því ákveðið að bíða uns veður skánaði enda ekki þorandi að kasta nót á jafn þröngu svæði og innan hafnarinnar. En varla var búið að taka þá ákvörðun þegar Hafrannsóknastofnun bannaði þessa hreinsun hafnarinnar á þeim forsendum að þeir töldu ekki nægjanlegar fiskifræðilegar forsendur fyrir hreinsuninni.
Taldi Hafró að sú síld, sem ósýkt væri, ætti að fá að njóta vafans ef hún tæki nú upp á því að synda af sjálfsdáðum út úr höfninni. Tóku menn þessu nánast þegjandi og hljóðalaust en vildu samt sem áður halda málinu opnu og var því fylgst með ástandi, magni og staðsetningu síldarinnar næstu daga á eftir. Strax tóku menn eftir því að mest öll síldin hafði þjappað sig innst í Pyttinum og var mikið magn þar þegar mest var. Farið var með neðansjávarmyndavél til þess að kanna hvort síldin væri tekin að drepast í einhverju magni og hvernig umhorfs væri á botninum.
Farið var á b/b Þór með myndavél frá Gunnlagi Erlendssyni og henni slakað niður inni í Pyttinum. Um leið og myndavélin var komin niður undir botn sáu menn það sem þá grunaði. Botninn var þakinn af dauðri síld.
Við þessar fréttir fóru hjólin að snúast og Hafró setti af staö rannsóknir á sínum vegum. Bæði var magn síldarinnar mælt og prufur teknar en einnig var kafað niður og ástandið skoðað. Þeir sáu þá það sem var bent á, dauð síld um allan botn og ekki fallegt um aö litast. En við prufutöku á síldinni reyndist sýkingarhlutfallið vera orðið talsvert hærra eða 90%. Við bergmálsmælingar reyndust vera um 800 tonn eftir inn í Pyttinum og var ákveðið að leyfi yrði veitt fyrir hreinsun hafnarinnar á ný.

F.v.: Bergvin Oddson, Bergur Kristinsson, Gunnlaugur Erlendsson og Guðmundur Huginn Guðmundsson.

Það var svo þann 29. mars sem reyna átti að hreinsa upp þá síld sem eftir var. Það yrði talsvert flóknari aðgerð að þessu sinni þar sem síldin hélt sig nær eingöngu innst inni í Pyttinum og ekki alveg kjöraðstæður til nótaveiða. Samt sem áður var Gísli á Kap VE hvergi banginn og sagði að þetta yrði ekkert mál.
Pokinn á nótini var settur fastur á bryggjupolla fyrir neðan Vinnslustöðina, Gísli kúplaði að og kastið var hafið. Fljótlega fór mikið af fólki að drífa að, enda kastaði Gísli nótinni alveg upp með kantinum og í vestur. Það var því frekar auðvelt fyrir fólk að lylgjast með því hvernig nótaveiðar færu fram.
Þegar komið var innst í Pyttinn voru menn hálf uggandi yfir því hvort þetta gengi upp, þ.e. hvort Gísli næði beygjunni í Pyttinum og út með Binnabryggjunni. Ekki voru nema örfáir metrar í bryggjukantinn á horninu á Binnabryggju og voru þeir sem stóðu frammi á stefni á Kapinni með áhyggjur af því að lenda á kantinum. Strákarnir görguðu á Gísla til þess að láta hann vita að stutt væri í það að þeir rækjust á kantinn en tóku þá eftir því að Gísli var bara sallarólegur að fá sér sopa af kaffibollanum. Kap Ve rann ljúflega og örugglega fram hjá horninu á bryggjunni og kláraði kastið úti á höfn.
Allt gekk þetta eins og í sögu. Voru tekin tvö köst þennan daginn og upp úr höfninni komu um 650 tonn. Þessi 650 tonn hefðu annars drepist og rotnað á botninum inn í Pytti með tilheyrandi grútarmengun og ólykt.
Eftir þetta fóru menn nær daglega um höfnina til þess að fylgjast með þeirri síld sem eftir var en það reyndist vera það lítið magn að ekki tæki því að reyna að ná henni. Auk þess hélt hún sig í hornunum á Pyttinum og ekki mögulegt að koma nótinni þangað með góðu.
Alls komu því um 1200 tonn af síld upp úr höfninni og voru flestallir sammála um það að um þarfaverk var að ræða. En afstýrt var hugsanlegu mengunarslysi innan hafnarinnar og það með litlum tilkostnaði miðað við þann kostnað sem hefði getað skapast ef ætti að ná að hreinsa höfnina eftir að síldin dræpist.
Allir sem þátt tóku í þessum aðgerðum gerðu það í sálfboðavinnu en ekki þurfti mikið að suða í mönnum til þess að fá þá um borð. Allir sem einn, sem að þessu stóðu, höfðu af þessu bæði gagn og gaman og telja menn sig hafa gert höfninni sinni gott. Hugmyndaflug og frumkvæði nokkurra manna vatt aðeins upp á sig og endaði í mikilvægu hreinsunarstarfi Vestmannaeyjahafnar. Án þess að nefna einhver nöfn þá eiga allir aðilar sem að þessu komu hrós skilið. Það var einn sem sagði á meðan á þessu stóð: „Mörgum hefði getað dottið þetta í hug en bara Vestmannaeyingar hefðu framkvæmt þetta.“

Þorbjörn Víglundsson