Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2005/ „Auðvitað erum við sjókonur“

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
GRÍMUR GÍSLASON


„Auðvitað erum við sjókonur“ - kaffiteríuspjall við þernurnar á Herjólfi


Grímur Gíslason

Konur hafa á liðnum árum almennt ekki sóst eftir störfum til sjós þó auðvitað hafi verið undantekningar á því. Sjómennskan hefur verið hefðbundið karlastarf einungis örfáar konur hafa lagt hana fyrir sig. Á Herjólfi hefur þessu þó verið öðruvísi farið enda sjómennskan þar örlítið annars konar en á flestum öðrum skipum íslenska flotans.
Á elsta Herjólfi var ein til tvær þernur í starfi og þegar næsti Herjólfur kom var fjöldinn þar svipaður í fyrstu en síðan fjölgaði þernunum með auknum farþegafjölda skipsins. Þegar núverandi Herjólfur hóf siglingar, fjölgaði þernum enn og hafa þær verið um þriðjungur áhafnar skipsins síðan.
Breytt viðhorf í þjóðfélaginu og jafnréttisumræða hafa orðið til þess að störf, sem áður voru hefðbundin karla- eða kvennastörf, eru það ekki lengur og á það við um starf þerna á Herjólfi jafnt sem önnur störf. Karlmenn hafa því starfað á Herjólfi undanfarin ár í störfum þerna og varð það til þess að starfsheiti þeirra var breytt í þjónustufólk í stað þerna.
Stelpurnar á Herjólfi kalla sig þó enn þernur og kunna vel við það.
Vegna aukinnar ferðatíðni Herjólfs er núna þjónustufólk á tveim vöktum sem skiptir störfum milli sín. Unnið er í viku og síðan vikufrí. Á annarri vaktinni eru eingöngu konur og flestar þeirra hafa langan starfsaldur á Herjólfi. Ein þeirra hóf störf á „Gamla Herjólfi,“ eins og þær sögðu, en hinar hófu störf á þeim „nýja.“ Sumar hafa starfað þar allt frá komu hans árið 1992. Þernuvaktina á Herjólfi skipa þær Sigríður Sæunn Óskarsdóttir, Margrét Júlíusdóttir, Ágústa Magnúsdóttir, Áróra Karlsdóttir, Ragnheiður Víglundsdóttir og Karen Hauksdóttir. Þær voru meira en til í smá spjall um starfið að rifja upp einhver skemmtileg atvik.

Getum ekki kallað okkur sjóliða
„Auðvitað erum við sjókonur,“ sögðu þær þegar við spjölluðum saman í kaffiteríunni á Herjólfi er hann lá í Þorlákshöfn milli ferða eitt vorsíðdegi í apríl. „Við lítum á starf okkar sem sjómennsku og viljum kalla okkur sjókonur í takt við tíðarandann. Þá köllum við okkur alltaf þernur þó að starfsheitið sé annað í dag eftir að strákarnir fóru að vinna með okkur. Við kölluðum fyrstu strákana, sem unnu hér með okkur í kaffiteríunni, „þirna“ en formlega starfsheitið í dag er þjónustufólk. Er ekki þjónustufólkið í flugvélunum í dag kallað flugliðar? Ef við ættum að nota starfsheiti í takt við það, værum við sjóliðar og það starfsheiti getur vart gengið svo að við kunnum best við að vera bara kallaðar þernur,“ sögðu þær og hlógu.

Sumar hafði alltaf dreymt um sjómennsku
Starf þerna á Herjólfi snýst um þjónustu við farþega. Afgreiðslu á klefum, sölu á mat og öðru góðgæti, aðstoð við farþega, þrif og fleira. Þær segja að þeim líki vel við starfið. Það sé fjölbreytilegt og skemmtilegt og þær hafi samskipti við mikinn fjölda fólks í starfi sínu.
Aðspurðar segjast þær hafa byrjað sjómennskuna á Herjólfi og ekki verið annars staðar til sjós. Þær segjast þó allar tilbúnar til að prófa annars konar sjómennsku en á Herjólfi.
Hvort það hafi alla tíð blundað í þeim að stunda sjómennsku, svara þær á mismunandi hátt. Sumar segja að þær hafi alltaf langað að prófa að vera til sjós en aðrar höfðu aldrei leitt hugann að því áður en þeim bauðst starf á Herjólfi.

„Ástandið“ ekki skemmtilegt en það venst
Þær segja starfið geta verið erfitt, sérstaklega yfir vetrartímann þegar miklar brælur eru og mikil sjóveiki meðal farþega. Sjálfar finna þær aldrei til sjóveiki og segjast ekki heldur finna til sjóhræðslu sem sumir farþegar þurfa að glíma við. „Þetta getur verið mjög erfitt og krefjandi þegar fjöldi fólks er með og veður vont. Þá erum við oft á hlaupum milli farþega til að aðstoða þá. Oft er fólk mjög illa haldið af sjóveiki og verður nánast alveg bjargarlaust. Fólk er að ferðast með börn og á jafnvel í erfiðleikum með að sinna þeim vegna sjóveikinnar svo að það getur verið í mörg horn að líta,“ segja þær. Aðspurðar um hvort það reyni ekki stundum á þolrifin að þrífa þegar fólk hefur kastað upp og allt farið á gólfið eða í kojuna, segja þær að þetta venjist. „Þetta er svo sem ekki alltaf geðslegt en við erum orðnar vanar þessu og kippum okkur ekkert upp við það. Við notum mjög pent orð yfir það okkar á milli ef við þurfum að láta hverja aðra vita af því ef þrífa þarf upp eftir uppköst og segjum að það sé ástand.“

Fjölbreytilegt og skemmtilegt starf
Þær segja að þeim líði þó ekki illa í brælum þó auðvitað sé allt mun erfiðara og talsverð orka fari bara í að standa og halda sér þegar veltingur er mikill. „En það venst líka og verður bara hluti af starfinu eins og allt annað. Það eru bæði góðir og slæmir dagar í þessu starfi eins og öllum öðrum,“ segja þær og eru sammála um það eins og flest annað sem ber á góma.
„Starfið er fjölbreytt og yfirleitt skemmtilegt og eins og við höfum áður sagt, höfum við samskipti við mikinn fjölda fólks. Við sjáum flesta farþega sem um borð koma og þeir skipta tugum þúsunda á ári svo að meira líf og fjölbreytni í starfi er vandfundið. Þó þetta sé oftast skemmtilegt, hafa líka komið tímar sem hafa verið erfiðir. Sumir farþegar geta átt það til að vera erfiðir við að eiga og þá reynir oft á þolinmæðina. Eins hafa komið upp mjög alvarleg veikindatilfelli hér um borð og það er það allra erfiðasta sem gerist. Þó að siglingin sé ekki löng milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja þá getur manni fundist þetta órlangt þegar upp koma veikindatilfelli og á ríður að koma sjúklingi sem fyrst undir læknishendur. Slíkt tekur verulega á og situr í manni lengi á eftir,“ segja þær.

Öll dýrin í skóginum vinir
Þó að þriðjungur áhafnarinnar sé konur þá eru þær harðar á því að áhöfnin sé karlasamfélag og það sé sérstakur andi ríkjandi. Þær hafi þurft að aðlaga sig að þessu samfélagi en þær eru samt vissar um að með tímanum hafi heldur slaknað á karlrembunni um borð. „Þar sem yfirmennirnir eru allir karlar þá verður þetta karlasamfélag eða karlaveldi. Við erum undirmenn hér og verðum að sjálfsögðu að lúta yfirmönnunum og erum því körlum hér um borð undirgefnar ef svo má segja. Við höfum þó gert okkar besta til að reyna að skóla strákana til og finnst það bara hafa gengið þokkalega. Þeir hafa komið heilmikið til og það er talsverð breyting sem átt hefur sér stað frá því þær fyrstu byrjuðu að vinna á Herjólfi. Áhöfnin er nokkuð samstíga þó auðvitað komi alltaf upp einhver tilvik þar sem einingin er ekki mikil en andinn um borð er nokkuð góður. Það er yfirleitt létt yfir mannskapnum því öll dýrin í skóginum eru vinir,“ segja þær og hlæja dátt.

Þernurnar á Herjólfi, t.f.v.: Aróra Karlsdóttir, Ragnheiður Víglundsdóttir, Margrét Júlíusdóttir, Sigríður Óskarsdóttir, Agústa Magnúsdóttir, Karen Hauksdóttir

Fengu fimm mínútur til að ljúka sér af
Þær brosa og gjóta augum hver á aðra þegar talið berst að eftirminnilegum og skemmtilegum atvikum úr starfinu og segja að af mörgu sé að taka en ekki sé allt hæft til frásagnar.
Upp er rifjuð skemmtileg saga sem lifað hefur lengi um borð í Herjólfi en gerðist reyndar fyrir tíma þeirra um borð. Tveimur ókunnugum farþegum hafði verið seld hvorum sín kojan í klefa er Herjólfur var á leið til Eyja á fimmtudagskvöldi fyrir Þjóðhátíð. Þegar skipið hafði siglt um hríð, kom farþeginn, sem keypt hafði efri kojuna, í kaffiteríuna og sagði farir sínar ekki sléttar. Hann hefði hreinlega ekki svefnfrið þar sem maðurinn í neðri kojunni hefði haft stelpu með sér í klefann og þau væru í svo áköfum ástarleik, með tilheyrandi hljóðum, að hann þyldi bara ekki við þarna inni. Óskaði hann eftir því að leikurinn yrði stöðvaður svo hann gæti haldið áfram að hvílast. Þerna úr teríunni fór og kíkti í klefann og sannreyndi að maðurinn hafði mikið til síns máls því mikið fjör var í neðri kojunni. Hún var ekki alveg viss um hvernig bregðast ætti við þessum óvæntu aðstæðum og óskaði því eftir aðstoð stýrimanns. Hann kom og var fljótur að afgreiða málið. Fór inn í klefann, kíkti bak við tjöldin í neðri kojunni, átti orðastað við manninn og sagði honum að drífa í að ljúka athöfninni af. Hann fengi 5 mínútur til að klára en að þeim tíma liðnum yrðu þau að hafa hægt um sig. Leit hann síðan á klukkuna og stillti sér upp framan við klefann. Að 5 mínútum liðnum opnaði hann á ný og var þá allt komið í dúnalogn og farþeginn í efri kojunni gat haldið til klefans á ný og sofið í efri kojunni það sem eftir var ferðar í ró og friði.

Sjókonur sem kunna að skemmta sér
Þernurnar segja að þegar Herjólfur fór í slippferðir og tók með sér farþega hafi oft verið mikið fjör. Þær hafi þá notað ferðirnar til að þrífa eins mikið og mögulegt var og hafi sumum farþegunum stundum fundist hreinlætisæðið ganga út í öfgar. Einhverju sinni hafi ein þernan verið að skúra í salnum og einn farþeginn hafi snúið sér að henni og ætlað að gera að henni góðlátlegt grín vegna þrifnaðarins og sagt við hana: „Heyrðu, það er fluga þarna sem þú tókst ekki.“ Þernan hafi verið fljót til svara og sagði um leið við manninn: „Þakka þér fyrir en þetta er einn af áhöfninni og á að vera þarna.“
Þær segja að það sé komin hefð á það hjá þeim að fara í haustdekurferðir. Þá fari þær saman upp á land og eigi saman skemmtilega 2-3 daga. Þá sletti þær úr klaufunum og láti einnig dekra við sig. Fara í Bláa lónið, út að borða í Reykjavík eða leigi sumarbústað og taki þar saman helgi. „Þetta hafa verið hrikalega skemmtilegar ferðir og efli mjög annars góðan anda sem er í okkar hópi. Við nærumst á að rifja skemmtileg atvik úr þessum ferðum upp aftur og aftur en allt sem gerist í þeim er trúnaðarmál og því getum við ekki sagt frá því sem hefur gerst í þeim,“ segja þær hlæjandi. Þær segjast stefna á haustferð á þessu ári og nú hafi stefnan verið sett á London til að kynnast menningu heimsborgarinnar og leyfa um leið gestum heimsborgarinnar að kynnst því hvernig sjókonur frá Íslandi skemmti sér.

Með bros á vör
Það var kominn tími á áð kveðja stelpurnar á Herjólfi. Farþegar streymdu um borð og skipið byrjað að titra undan mali aðalvélanna sem komnar voru í gang. „Pöntun númer þrettán gjörið svo vel,“ glumdi í kallkerfinu um leið og rjúkandi diskur kom úr eldhúsinu.
Allt var komið á fullan snúning í eldhúsi og kaffiteríu og framundan var enn ein ferðin frá Þorlákshöfn til Eyja þar sem sjókonurnar á Herjólfi sáu um að farþegum liði sem best þá tæpu þrjá tíma sem siglingin stendur. Þernurnar voru komnar á fulla ferð við að framreiða mat og annað góðgæti, afgreiða klefa og leysa önnur þau verkefni sem á starfssviði þeirra eru. Með bros á vör spjölluðu þær við farþegana og þjónustuðu þá með það sem þá vanhagaði um. Sjókonurnar á Herjólfi eru hafsins hetjur ekki síður en aðrir þeir sjómenn og sjókonur sem sjómennskuna stunda.

Grímur Gíslason