Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2005/Með Oddi VE 353 til Frakklands árið 1953

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
JÓN BERG HALLDÓRSSON


Með Oddi VE 353


til Frakklands árið 1953


Jón Berg Halldórsson

Í mars árið 1953 var ég ráðinn háseti á vélskipið Odd VE 353, - þá 17 ára gamall. Oddur var 245 tonna tréskip, smíðað í Arendal í Noregi úr furu og var mér sagt í byrjun, svona til hughreystingar, að Norðmenn hefðu smíðað fimm slík skip fyrir Þjóðverja í lok stríðsins og ekki vandað til verksins, enda væru þau öll sokkin nema Oddur!


Skipið og ástand þess.

Oddur var í eigu Guðmundar Oddssonar skipstjóra og Helga Benediktssonar útgerðarmanns. Oddur var búinn 520 hestafla British Polar aðalvél sem gaf honum

Guðmundur Oddsson, skipstjóri og útgerðarmaður

ganghraða upp á 10 sjómílur á klukkustund við þokkaleg veðurskilyrði. Einu siglingartækin um borð voru kompás, miðunarstöð og gamall Hughes-dýptarmælir sem ég held að hafi sjaldan eða aldrei verið notaður og kannske ónýtur. Oddur var afturbyggður, með upphækkaðan bakka að framan. Hann var tvímastra, með bómu í fram- og afturmastri og voru spil við hvora bómu og þau knúin af lóðarhausvélum, tveggja strokka Boilinder-vél að framan en eins strokks June Munktell-vél að aftan. Til að gangsetja þær varð að hita þær með prímusum og síðan snúa þeim í gang með handafli.
Íbúðir yfirmanna, annarra en kokksins, voru aftur í en hásetar og kokkur bjuggu frammi í tveim tveggja manna klefum. Einnig var stórt geymslurými framan við klefana með fjórum kojum og sváfu farþegarnir þar. Þegar veltingur var mikill var svo mikið brak frammi í að varla var hægt að sofa þar fyrir hávaða. Okkur var sagt að þetta væru traustabrestir!


Skipið lestað.

Í lok september þetta ár, 1953, var ákveðið að Oddur skyldi sigla einn túr til Frakklands með söltuð hrogn. Byrjað var að lesta í Ólafsvík og síðan í

Oddur VE að leggja íann til Frakklands full lestaður

Ketlavík og þaðan var haldið til Vestmannaeyja og lokið við að fylla lestar. Þegar því var lokið var slegið upp upphækkun með báðum síðum í um tveggja metra hæð yfir lunningu og síðan siglt upp í Hvalfjörð og lestuð þar hvalskíði á dekkið. Þeim var pakkað í stóra strigaþoka. Síðan var haldið til Vestmannaeyja á ný, komið þangað að morgni og hvalskíðin forfærð og einni röð af tunnum raðað upp á endann á allt dekkið og skíðunum síðan staflað þar ofan á. Sigtryggur, sonur Helga útgerðarmanns, var einn þeirra sem voru við að forfæra hvalskíðin og minnist hann þess með hryllingi hve morandi þau voru af maðki.


Farið af stað.
Haldið var áleiðis til Frakklands seinni part dags. Áhöfn í Frakklandsferðinni var sjö manns: Guðmundur Oddsson skipstjóri, Ólafur Stefánsson stýrimaður, Magnús Andrésson 1. vélstjórí, Anders Guðmundsson 2. vélstjóri, Valgeir Ólafsson matsveinn og þrír hásetar, þeir Halldór Jónsson, Reidar Isaksen og greinarhöfundur, Jón Berg Haldórsson. Enn fremur voru með í ferðinni sem farþegar, en skráðir hásetar, þrír valinkunnir Eyjamenn, þeir Eyjólfur Sigurðsson frá Laugardal (f. 25. febr. 1885), formaður í Eyjum 1914-1935, á 69. aldursári, Stefán Björnsson frá Skuld, tengdafaðir Helga útgerðarmanns (f. 16. júlí 1878), 75 ára, formaður 1910-1940, og loks Sigurður Sæmundsson frá Hallormsstað (f. 16. febr. 1887), 66 ára, formaður í nokkur ár frá 1910, hóf svo búskap og var við það um skeið en lærði síðan skipasmíðar og starfaði við þær um langt árabil. Nú eru eftirlifandi af þeim sem í ferðinni voru aðeins Anders Guðmundsson, á Hrafnistu í Hafnarfirði, og greinarhöfundur.


Brot skellur á.
Þegar ferðin hófst frá Eyjum seinni part dags í blíðskaparveðri, var dallurinn mjög hlaðinn og lítið borð fyrir báru. Um kvöldið hvessti mjög af suðaustri og gerði stólpaveður með stórsjó. Undir morgun var ég á stýrisvakt. Guðmundur skipstjóri og Óli stýrimaður voru báðir í brúnni. Í myrkrinu sást brotsjór æða áfram. Óli kallaði: „Guðmundur, sláðu af, það er stórt brot að koma.“ Guðmundur hló við og svaraði: „Hvað er þetta, ertu hræddur?“ Óli hljóp þá í vélsímann og hringdi á stopp. Um leið skall brotið á skipinu og allt fór á kaf. Flestar rúður í stýrishúsinu brotnuðu og stjórnborðshlið þess brotnaði inn og brúin færðist öll aftur um tvær til þrjár tommur. Uppstillingin á dekkinu brotnaði á parti og hvalskíðin köstuðust út í bakborða þannig að skipið hafði talsverða slagsíðu.
Við hásetarnir vorum sendir á dekk til að rétta skipið af og urðum við að henda slatta af pokum útbyrðis en þeir voru þungir og erfitt að eiga við þá. Það tókst þó á endanum. Ég hef oft hugsað um þetta síðan og undrast að ég skyldi ekkert verða hræddur þarna. Full ástæða var þó til þess. En þar kom til þekkingarleysið á hættunni og maður hélt að svona stórt skip gæti ekki sokkið. Þegar leið á daginn lægði veðrið og var þá farið að reyna að laga það sem hægt var að laga. Þá kom í ljós að vatnið var brimsalt en skipið hafði verið svo sigið að sjór hafði farið inn um loftinntakið á vatnstankanum. Við vorum því drykkjarvatnslausir. Kom sér nú vel að í björgunarbátnum var stór vatnsbrúsi sem bjargaði brýnustu vatnsþörf okkar.


Möðkuð pera.
Stefnan var sett á írska kanalinn og var veður orðið skaplegt. Nú kom í ljós að maðkurinn í hvalskíðunum var ekki allur drukknaður heldur kominn á fulla ferð. Hann var ótrúlega fljótur að skríða um allt skip. Ég man að ég fann mörg stykki í kojunni minni!
Þegar við nálguðumst Írland var þokkalegt veður en þungur sjór og kom þá í ljós að pera í toppljósi í frammastri logaði ekki og var ég sendur upp í mastur að skipta um hana. Eina leiðin til að komast upp í mastrið var að klifra upp eftir bómuupphalaranum en hann var með tveim tvískornum tréblökkum og dálítill slaki á tóginu. Þegar ég var rúmlega hálfnaður upp að ljósinu, var orðinn svo mikill sláttur að ég hafði nóg að gera að halda mér svo að ég kastaðist ekki út í sjó. Ég varð því að gefast upp og var mér vissulega illa við það. Ég fékk líka að heyra það þegar ég kom aftur í stýrishús að þeir væru nú meiri aumingjarnir þessir ungu menn í dag. Fór Valli kokkur þar fremstur í flokki. Ég spurði hann hvort hann treysti sér að skipta um peruna og hélt hann það nú. Það væri ekkert mál. Ég verð að játa að ósköp fannst mér gaman að sjá að þegar Valli var kominn ríflega hæð sína, sem var ekki mikil, þá var hann stopp og hélt sér bara og gafst síðan upp, kom aftur í og sagði að þetta væri ekki hægt. Síðar, þegar kyrrði sjó, klifraði ég upp í mastrið og skipti um peruna. Þá varð ég hissa því að inni í ljósinu voru nokkrir maðkar.


Þokuveggur í írska kanalnum.
Þegar við komum í írska kanalinn, var komin svartaþoka. Ég var við stýrið. Við hásetarnir þrír gengum gömlu skútuvaktirnar, þeir voru tveir saman á vakt á móti mér, stýrðu í tvo tíma hvor en ég mátti stýra í fjóra tíma. Því var það að einu sinni, þegar haldið var úr höfn og þeir áttu að taka við vakt af mér, kom Norðmaðurinn að leysa mig af og sagði: „For fanen, nú er Dúra döð og jeg mo styre í fire timer, jeg som er so tret og illt í magen.“ Ég hafði nú ekki mikla samúð með honum.
Við sigldum á fullri ferð þarna í þokunni. Ég var við stýrið en bæði Guðmundur skipstjóri og Óli stýrimaður voru á útkíki. Siglt var á fullri ferð og sást ekkert nema svartur þokuveggurinn framundan. Allt í einu segir Óli: „Guðmundur, það er land framundan, sláðu af, - gerðu það, Guðmundur minn.“ Guðmundur leit á hann og hló hæðnislega. Áfram var haldið á fullri ferð og út úr kanalnum komumst við án þess að lenda í nokkru óhappi.


Les Sables d'Olonne.
Segir ekki meira af ferð okkar fyrr en við komum til Frakklands, borgar sem heitir Les Sables d'Olonne og er hafnarborg á vesturströnd Frakklands við Biscayaflóa. Borgin var fyrst reist af spænskum sjómönnum en hertekin af Normönnum 817, þ.e. mönnum frá Normandí í Frakklandi. Eftir að Lúðvík XI kom til valda 1461, veitti hann íbúunum ýmis sérréttindi og lét gera höfn og víggirti hana. Í trúarbragðastríðinu var borgin hertekin tvisvar og var eftir það skjól fyrir harðsvíraða sjósóknara og sjóræningja sem herjuðu á Spánverja og síðar Englendinga. Árið 1698 var ráðist á borgina með stórskotaliðsárás sameiginlegs flota Breta og Hollendinga og var hún nánast lögð í rúst. Um miðja 18. öld varð borgin og höfnin fyrir gífurlegum skemmdum í hvirfilvindi og miklum sjógangi.
Íbúar voru um 15.000.
Þarna var kirkja, byggð í gotneskum stíl um miðja 17. öld. Barges-viti stendur eina sjómílu frá landi og lýsir sjófarendum. Hann sést í um tuttugu sjómílna fjarlægð. Í ytri höfninni gætir flóðs og fjöru en innri hluti hafnarinnar er lokaður eða dokk sem getur tekið stór skip. Aðalatvinnuvegur borgarbúa var sardínu- og túnfiskveiðar ásamt talsverðum skipasmíðum. Norðan við borgina var mikið saltflæðiland ásamt ostrurækt en 6-8 milljón ostrur voru tíndar þarna á ári hverju.


Mannlífíð.

Fyrsta kvöldið voru allir spenntir fyrir að fara í land og skoða sig um. Dóri átti að vera á vakt um borð en aðrir fóru í land. Í borginni var ekki mikið

Hjónin Guðrún Stefánssdóttir og Helgi Benediktsson, útgerðarmaður, á heimili sínu Heiðaevegi 20 Vm.

við að vera, farið á nokkra veitingastaði, m.a. einn þar sem maður nokkur spilaði á harmoniku en örfáir Frakkar sátu og sötruðu rauðvín.

Þegar mannskapurinn ætlaði um borð upp úr miðnætti, hafði fjarað svo mikið að dallurinn var allur a þurru og hallaði frá landi, það mikið að engin leið var að komast um borð. Dóri, sem átti að standa vakt um borð, hafði ekki staðist freistinguna og farið í land. Guðmundur skipstjóri las honum pistilinn og hótaði honum brottrekstri. En við komumst ekki um borð fyrir það og urðum við að hírast á bryggjunni þar til skipið rétti sig og flaut.
Losun skipsins tók þrjá daga og var ekki akkorð hjá Fransmönnunum. Ég man að á fyrsta degi, þegar ég var að fara aftur í í hádegismat, sá ég lúgumanninn franska. Mér varð starsýnt á hann. Hann var lágvaxinn og skakkur, hægri handleggurinn virtist honum ónýtur. Mér brá mjög þegar ég leit framan í hann. Augun voru lítil, ekkert nef en smáhola í nefs stað. Munnurinn var skakkur, eiginlega langt úti á kinn og þó svo lítill að teskeið hefur varla komist upp í hann. Þegar ég kom aftur í og hitti Dóra, sem hafði líka rekist á lúgumanninn, misstum við alveg matarlystina. Aumingja maðurinn hlýtur að hafa orðið fyrir sprengju og fengið þessi örkuml við það.
Í borginni virtist vera mikil bátaútgerð og voru flestir bátarnir milli 40 og 50 lestir, ansi laglegir, með lotið framstefni og drottningarrass. Ég rölti um bryggjurnar að skoða mig um. Einu sinni sá ég áhöfn eins bátsins vera að matast. Þeir sátu í hnapp aftur á í kringum stóran pott og átu allir beint upp úr pottinum. Mér fannst þetta ekki mjög kræsilegt borðhald.


Gat á skipið.

Aftari röð f.v.: Ólafur stýrimaður, Jón Berg, Stefán frá Skuld, Sigurður frá Hallormsstað og Eyjólfur í Laugardal. Sitjandi f.v.: Reidar háseti og Valgeir matsveinn

|

Farþegarnir frá vinstri: Sigurður Sæmundsson, Stefán Björnsson og Eyjólfur Sigurðsson

Þegar lokið var við að losa Odd upp úr hádegi á þriðja degi, átti að færa hann úr dokkinni að bryggju sem var við hafnarmynnið. Þurfti að fara gegnum mjótt hlið. Guðmundur skipstjóri var sofandi í klefa sínum og ætlaði Óli stýrimaður að færa skipið. Hann gerði nokkrar tilraunir til að komast í gegn en aðfall var og talsverður straumur í sundinu. Hann fór svo hægt að hann hitti aldrei á mynnið. Það þurfti meiri ferð svo að skipið léti betur að stjórn. Eftir margar árangurslausar tilraunir fauk í vélstjórann og vakti hann Guðmund skipstjóra sem kom á fullu upp í brú, hálfrykaður, setti strax á fulla ferð áfram og fór strax í gegn. En þegar komið var að bryggju var alltof mikil ferð á skipinu og steytti það á bryggjunni. Við áreksturinn kom um eins fermetra gat á bakborðskinnung og var opið inn í skipið. Þá man ég að Stefán í Skuld varð mjög reiður og skammaði Guðmund skipstjóra og sagði að þetta væri ekki góð sjómennska. Meiningin var að taka þarna olíu og halda svo heim á leið.
Skipshöfnin ræddi nú saman um hvað við vildum gera og neituðum við í fyrstu að fara úr höfn á skipinu svona opnu. Síðan, þegar farið var að skoða málin betur, kom í ljós að vilji væri til að halda áfram og fara til Fleetwood þar sem viðgerð færi fram. Guðmundur þekkti þar vel til síðan hann sigldi þangað togurum með fisk í stríðinu. Var því siglt til Fleetwood á skipinu eins og ástand þess var en sem betur fer var blíðskapar veður alla leiðina. Fór viðgerðin fram og tók rúma viku.


Fleetwood og Blackpool.
Í Fleetwood voru okkur sýndir þeir tveir pöbbar sem Íslendingarnir stunduðu í stríðinu. Hét annar Jiibblinn og Rörið hinn. Rörið fékk nafn sitt af heljarmiklu reykröri sem lá frá kolaofni í öðrum enda búllunnar yfir allt loftið og út um hinn endann. Ekki þóttu mér þetta tilkomumiklir staðir enda mjög subbulegir. En allt er hey í harðindum. Menn voru náttúrlega auralitlir og mest verið um borð í skipinu. Þó var farið nokkrum sinnum til borgarinnar Blackpool með sporvagni en hún er stutt frá. Ég varð alveg dolfallinn yfir að sjá alla ljósadýrðina, alls konar myndir sem hreyfðust til og frá með ljósabreytingum. Mér fannst þetta svakalega flott og öll skrautlýsingin vakti mikla furðu okkar sem höfðum aldrei séð neitt þessu líkt.


Sungið í brúnni.
Þegar viðgerð á Oddi var lokið, var haldið af stað til Vestmannaeyja. Bar ekkert minnisstætt til tíðinda á leiðinni.
Á heimleiðinni var líka - eins og á útleiðinni -alltaf komið saman í brúnni á kvöldin og sungið saman. Sigurður á Hallormsstað og Ólafur stýrimaður voru báðir miklir söngmenn og leiddu sönginn. Man ég að lagið „Þú komst í hlaðið á hvítum hesti“ var mjög vinsælt hjá þeim. En annars voru þetta mest gömul ættjarðarlög sem voru sungin.
Þegar Vestmannaeyjar risu úr sæ, sagði Stefán í Skuld: „Nú er strikurinn búinn og strandurinn kominn á!“ Það þýddi að nú þurfti ekki að stýra eftir kompás lengur heldur var stýrt eftir landsýn og hafði hann þetta eftir Stjána bláa.


Guðmundur skipstjóri.
Guðmundur Oddsson var Bolvíkingur, fæddur 31. júlí 1911. Hann var því 42 ára þegar þetta var. Hann var hár vexti og glæsimenni í sjón, frábær félagi.
Hann varð fyrir þeirri ógæfu fyrr um sumarið að missa son sinn. Hann var 14 ára og hrapaði við lundaveiðar í Hana. Daginn áður höfðum við farið, fjórir úr áhöfninni, Guðmundur skipstjóri, Magnús vélstjóri, Oddur, sonur Guðmundar og ég, á björgunarbátnum frá Oddi til lundaveiða í Hana sem er ein af svokölluðum Smáeyjum vestan Heimaeyjar. Við Magnús fórum upp í eyjuna og veiddum dável en þeir feðgar, Guðmundur og Oddur, voru á skaki á meðan. Daginn eftir er ákveðið að fara aftur að veiða og þegar við komum að eynni þrábiður Oddur um að fá að fara með Magnúsi upp í eyna og lét Guðmundur það eftir honum en ég og Guðmundur fórum á skak í Suðureyjarsundi. Þegar við höfðum verið þarna í um tvo tíma, kemur Guðlaugur Sigurðsson frá Hruna á gangmikilli trillu, Skutlu, sem Stefán Helgason átti, að okkur og segir: „Þið verðið að koma að Smáeyjum, það hefur orðið slys.“ Guðmundur þagði smástund en spurði svo: „Var það Oddur?“ Því svaraði Guðlaugur játandi. Fóru þeir svo á trillunni, Guðmundur og Guðlaugur, en ég lullaði á björgunarbátnum að Smáeyjum. Þegar ég kom þangað, var kominn bátur frá Eyjum með mannskap til að síga vestan í eyna og leita þar verksummerkja. Einnig var leitað af sjó umhverfis og vestan eyjarinnar en allt kom fyrir ekki. Engin verksummerki fundust og var álitið að Oddur hefði verið að teygja sig í svartfuglsegg vestan á eynni og fallið í sjóinn.
Guðmundur hætti til sjós nokkru eftir þetta, steinhætti að bragða áfengi og varð farsæll maður í lífinu. Hann var kjörinn til margvíslegra trúnaðarstarfa fyrir sjómannasamtökin, m.a. formaður Skipstjórafélagsins Öldunnar, formaður Farmanna og fiskimannasambandsins, í stjórn Hrafnistu og sjómannadagsráðs, og vafalaust til fleiri trúnaðarstarfa sem ég kann ekki að nefna.


Aðrir í áhöfninni.
Ólafur Stefánsson, stýrimaður, var fæddur í Norður-Ísafjarðarsýslu 16. mars 1908, lágur vexti en kvikur í fasi, fljóthuga og léttlyndur. Hann var þekktur síldarskipstjóri á árum áður.
Magnús Andrésson, 1. vélstjóri var fæddur 24. september 1906 í Snæfellsnessýslu. Hann var lágvaxinn, laglegur maður og góður vélstjóri. Hann kenndi mér margt enda var ég í talsverðu uppáhaldi hjá honum. Eftir að hann hætti til sjós, varð hann vélgæslumaður í Sænska frystihúsinu í Reykjavík.
Anders Guðmundsson, 2. vélstjóri er fæddur 26. janúar 1928 á Hólmavík. Hann var vélstjóri á fiskiskipum og um tíma hjá Gæslunni en síðar á olíuskipinu Kyndli þar til að hann hætti sjómennsku fyrir aldurssakir og dvelst nú á Hrafnistu í Hafnarfirði.
Valgeir Ólafsson var fæddur 30. september 1914 á Vopnafirði og reri um langt árabil sem matsveinn á bátum og togurum frá Vestmannaeyjum. Hann réðst til Landhelgisgæslunnar nokkru eftir þessa ferð og lauk ævistarfinu sem matsveinn þar.
Halldór Jónsson Leví var fæddur 26. febrúar 1923 í Bolungavík, dugnaðarsjómaður og hafði verið bæði á bátum og togurum. Honum þótti gott að fá sér í staupinu og bað mig þá gjarnan að hella á milli fyrir sig. Ef eitthvað helltist niður sagði hann alltaf: „Þú verður að borga túkall fyrir dropann, túkall fyrir dropann!“ Hann hætti til sjós nokkrum árum eftir ferðina og starfaði í Rafha í Hafnarfirði til dauðadags.
Reidar Ísaksen var Norðmaður, giftur íslenskri konu. Hann hóf störf hjá Áhaldahúsi Reykjavíkur eftir veruna á Oddi. Hann lést fyrir fáum árum.
Örlög Odds VE 353 urðu þau að hann strandaði í mynni Reyðarfjarðar árið 1957 en náðist á flot. Hann var talinn ónýtur, tekinn af skipaskrá og seldur til Svíþjóðar til niðurrifs, að mér hefur verið sagt.


Minning góðra drengja.
Þessi liðlega fimmtíu ára saga hefur ekki verið skráð fyrr, að því er ég best veit, og er rifjuð upp í minningu þeirra góðu drengja sem voru um borð og eru horfnir yfir móðuna miklu. Það bíður okkar allra.

Jón Berg Halldórsson.