Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Flóttamaður kemur með Sæfellinu á jólum 1942

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
HELGI BERNÓDUSSON



Flóttamaður kemur með Sæfellinu á jólum 1942



Jólin ganga í garð.
Síðdegis á aðfangadag jóla 1942, í miðri heimsstyrjöldinni síðari, sigldi Sæfellið VE 30 inn á höfnina í Vestmannaeyjum. Veður var milt þennan fimmtudag, 3-4 stiga hiti, suð-suðaustan strekkingur. Það hafði verið rysjótt undanfarna daga. Samkvæmt veðurdagbókum Finns í Uppsölum hafði verið að kalla samfellt austanrok í meira en viku og enginn bátur á sjó. Á Þorláksmessu var suðvestan stormur og hryðjur, og þegar leið á nóttina var ofsarok á suðvestan með ljósagangi og þrumum. Það lægði með morgninum.
Sæfellið var að koma úr sölutúr til Fleetwood í Englandi með fisk og var með kolafarm á heimleiðinni. Þetta var mikil hættuför eins og allar siglingar skipa yfir Atlantshafið á stríðsárunum. Enginn gat verið öruggur um að snúa heill heim aftur úr slíkri för.

Aðeins einni klukkustund áður en hátíðin helga hófst lagðist skipið að bryggju. Skipverjar komust frá borði eftir tollskoðun og önnur formsatriði. Einn þeirra sem gekk á land var ungur flóttamaður, íslenskur, sem hafði tekist að flýja undan nasistum í Noregi, um Svíþjóð og Bretland, og steig nú fyrsta sinni fæti á ættjörð sína í 5 ár. Hann lét ekki fara mikið fyrir sér fremur en endranær, en átti eftir að verða stórbóndi, forustumaður sveitar sinnar og stéttar, alþingismaður og forseti sameinaðs Alþingis. Þetta var Ásgeir Bjarnason frá Ásgarði í Dölum, 28 ára gamall. Hann lést um síðustu jól, tæplega níræður að aldri.

Ásgeir Bjarnason frá Ásgarði, flóttamaðurinn. Síðar stórbóndi og alþingismaður

Ásgeir í Ásgarði.
Ásgeir var fæddur 1914 á stórbýlinu Ásgarði sem er í miðri þjóðbraut í Dölum, — í „Hvammssveit“ en svo heitir sveitin eftir bæ Auðar djúpúðgu, Hvammi í Dölum. Ásgarður er á hægri hönd þegar ekið er frá Búðardal fyrir Hvammsfjörð áleiðis vestur á firði, um Svínadal, Saurbæ, Gilsfjörð o.s.frv.
Ásgeir var einn 17 systkina, en faðir hans, Bjarni Jensson, var landsfrægur fyrir gestrisni sína og höfðingsskap. Í riti, stórvirki, sem kom út fyrir síðustu jól að undirlagi Örlygs Hálfdánarsonar, segir þýskur ferðamaður frá komu sinni í Ásgarð til Bjarna að kvöldi 14. júní 1924. Hann fékk góðan viðurgjörning, en segir svo: „Þegar ég vildi alls ekki fá meira og hélt hendinni yfir bollanum hellti hann heitri mjólk á handarbakið og sagði: „Ég vil ekki hafa neina skarfa hér sem ekki geta étið og drukkið almennilega.“

Ásgeir hafði farið utan til Noregs snemma árs 1938 og lokið búfræðiprófi við Sem - skólann í Asker, skammt vestur frá Osló, sennilega seint á árinu 1940. Eftir að nasistar hernámu Noreg í apríl það ár var leiðin heim því lokuð, engar ferðir á milli, engar fréttir að heiman, og erfið tilhugsun að bíða heimferðar til styrjaldarloka — sem enginn vissi hvenær yrðu. Ásgeir var ekki búinn í náminu þegar á þriðja hundrað Íslendingar söfnuðust saman í Petsamo í Norður-Finnlandi í september 1940 og sigldu heim með Esjunni. Hann vildi ljúka prófi fyrst og sjá svo til. Eftir prófslok fór Ásgeir að búnaðarskólanum í Ási sem er skammt suð-austan Óslóar og fékk vinnu en mikil upplausn var þá þar og margir ungir menn horfnir frá námi, sumir verið kvaddir í herinn, aðrir fóru í andspyrnuhreyfinguna. Ásgeir dvaldist þarna nokkra mánuði við rýran kost. Um haustið 1941 varð Ásgeir sér hins vegar úti um leyfi hjá þýskum yfirvöldum til að skreppa í vikudvöl til Svíþjóðar. Hann hafði þó annað í huga og steinþagði við alla yfir ráðagerð sinni, fór strax og leyfið fékkst og kvaddi engan. Það var hyggilegt og því slapp hann betur en Leifur Muller sem reyndi sömu leið (sagðist ætla í skóla í Svíþjóð), en trúði „vini sínum“ fyrir hinum sanna ásetningi og lenti fyrir bragðið í ólýsanlegum hörmungum í þýskum fangabúðum fram til loka styrjaldarinnar. Ásgeir hafði aðeins með sér það allra nauðsynlegasta, fór yfir til Svíþjóðar — og sneri aldrei aftur til Noregs að því sinni.

Sœfellið, gamli ryðkláfurinn sem var skveraður upp og reyndist mikil happafleyta. Á skipinu standa orðin „Sœfell" og „Sildberin" (færeyskt nafn)

Í Svíþjóð dvaldist hann á annað ár, fékk vinnu við frærannsóknir í Bergshamra í grennd við Stokkhólm, en komst með hjálp sendifulltrúa Íslands í Svþjóð og Noregi, Vilhjálms Finsens, í leynilegt flug frá Brommaflugvelli við Stokkhólm til Norður-Skotlands 12. des. 1942.

Skyggnst á bak við söguna
. Ásgeir ritaði stutta frásögn um þessa hættulegu heimför sína. Hún birtist fyrst í blaðinu Magna á Vesturlandi árið 1962 (í jólablaði) en var svo endurprentuð í Breiðfirðingi árið 2002.
Hér verður þessi frásaga rakin í stórum dráttum, sumpart með orðum Ásgeirs sjálfs, en jafnframt verður reynt að skyggnast bak við atburðina og sögupersónur. Það er sjóferð Ásgeirs með skipi úr Vestmannaeyjum og dvöl hans í Eyjum um jólin 1942 sem mesta forvitni vekur. Ásgeir var ókunnugur í Vestmannaeyjum og stiklar því á stóru um menn sem von er. Reynt verður að bregða ljósi á nafnlaust fólk í frásögn Ásgeirs og nokkra viðburði.

Flóttaferðin hefst.
Um flugferðina frá Bromma til Aberdeen segir Ásgeir:
„Náttmyrkur var og skýjað, og svört tjöld voru dregin fyrir glugga vélarinnar, sjálfsagt til þess að hennar yrði síður vart. Flogið var í mikilli hæð. Flugstjórar voru tveir og farþegarnir sex. Auk mín voru þarna fjórir pólskir flóttamenn og Norðmaður. Okkur leið vel, en við fengum hvorki vott né þurrt á leiðinni og töluðumst fátt við. Dimmt var inni í vélinni. Ekkert sérstakt bar til tíðinda. Eftir fjórar til fimm klukkustundir var flugið lækkað, og ferðin var á enda. Við vorum komnir yfir Skandinavíu og Norðursjó til Skotlands og lentum á flugvelli hjá Aberdeen. Þá var klukkan eitt eftir miðnætti. Þegar flugvélin lenti var flugvöllurinn umkringdur einkennisklæddum hermönnum, og fylgdu þeir okkur til húsa. Þar sátum við um nóttina á meðan farangur var rannsakaður og teknar af okkur skýrslur. Te og tvíbökur fengum við einu sinni um nóttina. Klukkan rúmlega 7 um morguninn var ég laus við yfirheyrsluna og mér var þá ekið á hótel þar skammt frá, en þar dvaldi ég þann dag allan.“ Ásgeir hélt áfram til Edinborgar og var þar í góðu yfirlæti hjá Sigursteini Magnússyni, fulltrúa SÍS þar á staðnum; hann var faðir Magnúsar Magnússonar sjónvarpsmanns. Hjörtur Eldjárn Þórarinsson frá Tjörn í Svarfaðardal var þá námsmaður í Edinborg og hafði ofan af fyrir Ásgeiri þennan tíma. Ásgeir hélt síðan áfram til Fleetwood með lest, en þaðan hafði Sigursteinn útvegað honum skipsferð til Íslands.

Í Fleetwood.

Í höfninni í Fleetwood lá Sæfellið frá Vestmannaeyjum, allmikill kláfur. Ásgeir fór að hitta skipstjórann, Ingvar E. Einarsson, sem honum þótti „traustlegur myndarmaður“. Stýrimaður var Magnús Einarsson, frændi Ásgeirs og sveitungi. Hann man ekki nöfn annarra skipverja sem voru „ungir menn og vasklegir“ en einn þeirra „var með annað augað grátt, en hitt mjög dökkbrúnt“!

Guðmundur Ágústsson frá Aðalbóli, háseti á Sæfellinu og eini núlifandi skipverjinn úr ferðinni í desember 1942. Myndin er tekin um 1940

Skipshafnarskrár úr Vestmannaeyjum fyrir Sæfellið frá þessum tíma hafa ekki komið í leitirnar, aðeins slitur frá seinni tíma. Einn skipverja er þó á lífi svo að vitað sé, Guðmundur Ágústsson frá Aðalbóli („Bubbur“), fæddur 1922. Hann var háseti á Sæfellinu, skráður þar fyrst 25. nóv. 1941 samkvæmt sjóferðabók hans, og var á skipinu samfellt fram á seinni hluta árs 1943. Hann man vel þessa ferð í desember 1942. Þegar hann kom heim til sín á Aðalból síðdegis á aðfangadag voru allir farnir til kirkju nema Viktoría, móðir hans, sem var að stella við jólamatinn; hún átti ekki von á syni sínum og vissi ekki fyrr en hann stóð inni á eldhúsgólfi hjá henni. Ekkert samband var við skipið á þessum styrjaldartíma, talstöð mátti ekki nota, og engar fréttir bárust um ferðir þess meðan það var á leiðinni heim.
Guðmundur segir að Magnús Dalamaður hafi verið 2. stýrimaður, en Guðjón Vigfússon var 1. stýrimaður. Tveir voru í vél, yfirmaður var Hermann Hjálmarsson, úr Stakkadal í Aðalvík, annar vélstjóri Sigurgeir Jónsson („Geiri“). Kyndarar voru tveir, sennilega Friðrik („Malli“) Sigjónsson frá Sjávargötu og Kristján Jónasson frá Múla. Kokkur gæti hafa verið Þórarinn Hallbjörnsson; „hundrað-prósent hótelkokkur“ segir Guðmundur. Fjórir voru á dekki; samtímis Guðmundi var ráðinn í nóv. 1941 Sigurður Guðmundsson í Viðey. Aðrir gætu hafa verið Ólafur Finnbogason frá Vallartúni og Einar Guðmundsson í Málmey.
Guðmundur Ágústsson man ekki hver var með mislitu augun! Það segir Ragnar Eyjólfsson í Laugardal hins vegar að hafi verið Kristján á Múla, hálfbróðir Bergsteins hafnarvarðar; sér sé það í barnsminni og Stjáni var nágranni hans. Og Guðmundur minnist ekki farþegans, Ásgeirs Bjarnasonar, né annarra farþega yfirleitt í þessum siglingum.

Sæfellið.

Sæfellið var, þegar hér var komið sögu, búið að vera í siglingum með fisk á Bretland í tæpt ár. Guðlaugur Gíslason rekur sögu þess og Sæfellsútgerðarinnar í ævisögu sinni en hann var framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins. Vinur hans einn — sem hann segir að hafi verið umboðsmaður fyrir „Boston Deepsea“ í Fleetwood, og hann kallar „Valdemar Stephensen“ — sagði honum strax um haustið 1939, þegar styrjöldin skall á, að nú væri um að gera að hefja fiskútflutning til Bretlands, það yrði gróðavegur. Hann ætti að kaupa skip, helst stórt, og sigla með þennan dýrmæta farm til Bretlands og selja hann þar. Bretar væru aðþrengdir og

Sæfellið við vestanverða Básaskersbryggju. Framan við það liggja (frá bryggju talið) Gullfoss VE 184 (Guðjón í Hlíðardal), Óðinn VE 317 (Frarn, Einar ríki), Hlíðdal VE 160 (Gísli Magnússon í Skálholti), Pipp VE I (Bjarni Jónsson á Svalbarða), Kristbjörg VE 70 (Grírnur Gíslason og tegndafaðir hans, Magnús Magnússon á Felli). Úti á bóli liggur Meta. Við norðurenda bryggjunnar sést i Spica (eign BDS í Bergen), frystiskip sern var í fiskflutningum; eins og sjá rná var skipið búið vélbyssu. Myndina tók Ragnar Eyjólfsson frá Laugardal í júni 1944, — á kassamyndavél sem hann hafði þá nýlega keypt hjá Birni Guðmundssyni á Barnum

fiskiskipastóll þeirra, a.m.k. úthafstogarar, hefði verið tekinn í þjónustu sjóhersins. Þetta voru spádómsorð og heillaráð. Fyrirtækið heppnaðist. Guðlaugur taldi að allt byggðist á því að safna saman útgerðarmönnum sem vildu leggja til fisk og honum tókst að fá með sér í félag menn eins og Ólaf Auðunsson í Þinghól, Sighvat Bjarnason í Ási, Hannes Hansson frá Hvoli, Tómas Guðjónsson í Höfn, Ársæl Sveinsson og fleiri, en auk þess Jóhann Þ. Jósefsson alþm. og Ástþór Matthíasson forstjóra, Sóla.

En missagnir eru í bók Guðlaugs um kaupin á Sæfellinu. Vinur Guðlaugs var jafnan kallaður „Valdi rauði“ en hét fullu nafni Þorvaldur Stephensen. Hann var prestssonur að vestan (1895-1987), af merkum ættum. Gamlir Reykvíkingar (Pétur þulur, Hilmar Foss o.fl.) segja að hann hafi sett svip á bæinn, verið sérkennilegur á marga grein, var jafnan fyrirmannlega klæddur (í city-dress), stórvaxinn og þrekvaxinn; rauðhærður og rauðbirkinn; af því fékk hann viðurnefni sitt. Valdi rauði var víðförull um heiminn, fékkst við ýmiss konar viðskipti, m.a. var hann í togaraútgerð, átti eftir stríð í „Dísiltogurum hf.“ Ekki er ljóst hve mikið hann var í Fleetwood, né hvort hann var við afgreiðslu íslenskra skipa þar eða mest í Reykjavík á stríðsárunum.
Guðlaugur skrifar að Valdi hafi sagt sér að í höfninni í Fleetwood væri gamall dallur í óhirðu, smíðaður „upp úr aldamótum“ og nú í eigu Boston Deepsea. Honum væri búið að leggja og hann yrði ódýr. Þessi saga kemur Guðmundi á Aðalbóli spánskt fyrir sjónir, hann segist aldrei hafa heyrt annað en Sæfellið hafi legið í fjöru í Færeyjum og verið sótt þangað. Sama kemur fram í grein um Ingvar skipstjóra í „Heima er bezt“ á síðasta ári: „Í ágúst 1941 fór Ingvar til Færeyja og sótti e/s Sæfell VE 30 fyrir hlutafélagið Sæfell í Vestmanna-eyjum.“ Úr þessu hefur nú fengist skorið því að samkvæmt gögnum, sem Ragnar í Laugardal hefur nýlega fundið í Þjóðskjalasafni, var Sæfellið keypt frá Færeyjum og er afskráð á „Registreringskontoret“ í Þórshöfn 14. febr. 1941. Seljandi var þekktur stórreiðari þar, Poul Christian Holm Jacobsen kaupmaður. Hann hafði keypt skipið tæpum tveim árum áður frá Danmörku. Það hét „Sildberin“ í Færeyjum og það nafn var á skipinu lengi síðan með Sæfellsnafninu (sjá mynd). Valdi rauði var síðar, í nokkur ár, í Færeyjum í togaraútgerð (í Mykinesi) og vera má að hann hafi verið kunnugur fyrri eiganda, Jacobsen kaupmanni, og verið milligöngumaður um kaupin.
Sæfellið kemur fyrst til Reykjavíkur 25. ágúst 1941, samkvæmt gögnum Reykjavíkurhafnar sem Ragnar hefur einnig haft uppi á, og er skráð hérlendis degi síðar. Það var í slipp í Reykjavík tvívegis um haustið. Guðmundur á Aðalbóli, sem kom um borð í nóv. 1941, segir að skipið haft fyrst verið í strandsiglingum, aðallega milli Eyja og Reykjavíkur, fram yfir áramót; hann hafi verið fyrsta sinni að heiman um jól 1941 því að Sæfellið lá þá í Reykjavík. Þetta kemur heim og saman við upplýsingar úr skipshafnarskrá sem gerð var í Reykjavík fyrir Sæfellið og nær yfir síðara hluta árs 1941 (til áramóta). Guðjón Vigfússon, sem var 1. stýrimaður, segir í bók sinni „Sýður á keipum“ að skipið hafi farið „um haustið“ til Englands „og átti að búa lestar skipsins þar til fiskflutnings“. Siglingatúrar Sæfellsins á England hafa því líklega hafist fyrst snemma á vertíðinni 1942, þegar fisk var að hafa, og samkvæmt skipakomubókum Vestmannaeyjahafnar, sem Ragnar í Laugardal hefur líka grafið upp, kemur Sæfellið til Eyja utan lands frá úr fyrsta túrnum 20. febr. 1942.
Guðlaugur segir að eigendum hafi ekki litist á blikuna þegar þeir sáu Sæfellið nýkomið til Eyja. Samkvæmt „þjóðernis- og eignaryfirlýsingu“ frá 26. ágúst 1941 var gufuskipið Sæfell VE 30 smíðað í „Helsingörs-Jernskibs- og Maskinbyggeri“ 1890. Sem sagt meira en 50 ára gamalt. En þegar búið var að skvera ryðkláfinn, sem var úr þykku stáli, og taka vélina upp leit þetta miklu skár út. Sæfellið var 388 brl., eftir því sem segir í skipabókum Jóns frá Bólstaðarhlíð, vélin 240 ha, „2 þjöppu gufuvél“. Guðmundur Ágústsson segir að vélin hafi alltaf verið talin 175 ha. Skipið var 45,4 m langt og 7,3 m breitt.
Sæfellið VE 30 varð happafleyta og útgerð þess gróðafyrirtæki. Sæfellið var selt eftir stríð og rifið um 1950.

Ingvar skipstjóri.
En um miðjan desember 1942 er Sæfellið sem sagt í dokkinni í Fleetwood. Það hafði selt vel að vanda og var lestað með kolum. Það þurfti viðgerðar með og tók hún lengri tíma en við var búist í fyrstu. Guðmund Ágústsson minnir að þeir hafi fengið slæmt veður á leiðinni út og ýmislegt laskast, bóma, kabyssurör og fleira.
Er Ásgeir Bjarnason var rétt kominn um borð í Sæfellið birtust tveir einkennisklæddir menn til að rannsaka farangur hans og taka af honum skýrslu. „Var þetta fjórða rannsóknin, frá því að ég fór frá Noregi“ segir Ásgeir í frásögn sinni. Þessi rannsókn var nákvæmust og voru öll föt hans rannsökuð, vósum snúið og gáð fram í tær á skóm og sokkum. Þeir leituðu leyniskjala.
„Þetta er nú það vanalega" sagði Ingvar skipstjóri, um leið og hann vísaði Ásgeiri á koju sína og sagði honum að liggja þar. Ingvar sagðist lítið sofa á þessum ferðum, leggja sig aðeins stund og stund á bekknum sem var upp við þilið skammt frá kojunni.

„Hefur þú verið á sjó?" spurði Ingvar skipstjóri.

Ingvar E. Einarsson og fjölskylda hans. Börn lngvars telja að þessi mynd hafi hangið uppi í Sœfellinu og verið skipstjóranum hughreysting á erfiðum ferðum. Fremri röð frá vinstri: Sigurlín, Sigríður, Ingvar Erasmus, Garðar og Gunnar Ágúst. Aftari röð: Hrefna, Einar Bergur, Ingvar Sigurður og Hulda. Þrjú systkinanna eru á lífi, Hulda, Gunnar Ágúst og Garðar

„Nei“ sagði Ásgeir, „ekki nema fjóra sólarhringa, þegar ég fór til Noregs 1938.“ „Það er slæmt“ sagði Ingvar „því að þetta skip er aðeins 400 lestir og fer illa í sjó, enda oft vond veður á þessari leið á þessum tíma árs. Auk þess eru kafbátar Þjóðverja hér neðansjávar, en þeir hafa aldrei átt neitt við mig, og ég trúi því heldur ekki, að þeir geri það“ bætti hann við.
Ingvar skipstjóri kom af og til og rabbaði við Ásgeir sem var sjóveikur og hélt engu niðri. Ingvar lagði sig stundum en aldrei lengi í einu.

„Þetta er mynd af fjölskyldu minni“ sagði hann og benti á stóra mynd af hjónum með fjóra syni sína og þrjár dætur. Þetta var myndarleg og glaðleg fjölskylda. Hann sagði Asgeiri frá börnum sínum. Þessi mynd var honum mikils virði.

Fjórir skipverjar á Sœfellinu í ferðinni sem hér segir frá. Standandi frá vinstri: Guðmundur Ágústsson frá Aðalbóli, háseti, Magnús Einarsson, 2. stýrimaður, Guðjón Vigfússon, 1. stýrirnaður. Sitjandi er Kristján Jónasson frá Múla, kyndari. Myndin er í eigu Guðmundar Ágústssonar. Á bakhlið hennar má m.a. lesa: „ Valette Studio, 32 Bank Hey St. Blackpool. 14 Dec 1942"

Ingvar Erasmus Einarsson, eins og hann hét fullu nafni, var fæddur í Krosshjáleigu í Berufirði 1891, Mýrdælingur og Meðallendingur að ætt. Hann var því 51 árs gamall þegar þessir atburðir urðu. Ingvar var reyndur sjómaður, hóf sjómennsku 11 ára gamall, árið 1902, á árabátum frá Djúpavogi. Eftir það var hann háseti og stýrimaður á mótorbátum, kútterum, skonnortu og togurum; togaraskipstjóri frá 1923 þar til hann tók við Sæfellinu. Ingvar var búsettur í Reykjavík en meðan hann var með Sæfellið hafði fjölskyldan íbúð í Eyjum, á Löndum, og þar bjó hann af og til með konu sinni og yngsta syni, Garðari; og eldri börnin komu stundum í heimsókn. Friðrik Ásmundsson frá Löndum man þau vel í húsinu, m.a. uppi í risi þar sem var stór kvistur. Og Garðar (fæddur 1937) segist eiga fyrstu æskuminningar sínar frá Eyjum, og eiginlega hafa verið í tveim skólum, í Ísaksskóla í Reykjavík og Barnaskóla Vestmannaeyja. „Ég vissi eiginlega ekki hvað við vorum að gera þarna í Eyjum“ segir Garðar „en ég man móður mína þar sem hún sat við gluggann og horfði út á hafið. Hún var að bíða föður míns, og gat aldrei verið viss um að hann kæmi aftur.“ Sigríður Böðvarsdóttir hét hún. Foreldrar hennar bjuggu þá í Eyjum, í vesturhlutanum á Hjalteyri. Bróðir hennar var Árni Böðvarsson, rakari og útgerðarmaður, þekktur maður í Eyjum á sinni tíð. Það er rétt munað hjá Ásgeiri að börn þeirra Ingvars og Sigriðar voru sjö, þrjár dætur og fjórir synir. — Ingvar átti farsælan skipstjórnarferil eftir að hann hætti með Sæfellið. Öllum liggur gott orð til hans. Frægur varð hann fyrir að sækja tvö skip frá vesturströnd Bandaríkjanna, fyrst hið frambyggða hringnótaskip Fanneyju 1945 og síðan síldarbræðsluskipið Hræring 1948, og sigla þeim heim um Panamaskurð, fyrstum íslenskra skipa. Ingvar lést í des. 1968.
Magnús stýrimaður var frá Teigi, skammt frá Ásgarði, einum ysta bæ í Hvammssveit, á Fellsströnd. Hann var fæddur 10. sept. 1905. Hann hafði siglt víða um heiminn, er hér var komið sögu, og varð, ekki síður en Ingvar, frægur fyrir siglingar sínar því að 22. sept. 1951 sigldi hann Súðinni, fyrstri íslenskra skipa, um Súez-skurðinn á leið til Asíu. Magnús giftist stúlku frá Eyjum, Ingibjörgu Ólafsdóttur frá Strönd, en þau fluttust fljótt til Reykjavíkur.

Erfið sjóferð.
Samkvæmt upplýsingum Óskars, vitavarðar og veðurathugunarmanns á Stórhöfða, var mikill sjór við Eyjar síðustu dagana fyrir jól 1942. Hafrót mikið var frá 19. des. fram á Þorláksmessu. Hinn 20. des. var austan rok og 11 vindstig. Gera má ráð fyrir að þetta óveður hafi náð langt suður í haf, þótt óvíst sé hvaðan aldan kom á skipið þar suður frá. Enda segir í frásögn Ásgeirs að nú hafi farið að hvessa fyrir alvöru og hann bjóst við að hrökkva út úr kojunni þá og þegar. „Eða voru þetta Þjóðverjar að stjaka við skipinu?“
„Það er aðeins eitt, sem hægt er að gera í þessu veðri“ sagði Ingvar skipstjóri og leit um leið á myndina á veggnum. „Það er að láta skipið reka.“
Þetta ofsaveður stóð á annan sólarhring og óvissa var um hvort skipið næði í höfn áður en jólahátíð gengi í garð. Það létti yfir skipshöfninni þegar veðrið gekk niður og siglt var af fullum krafti það sem eftir var leiðarinnar. Guðlaugur Gíslason segir að Sæfellið hafi aðeins gengið 8 sjómílur — „í logni“! Skipstjórinn horfði upp á flóttamanninn veikan í koju og sagði við hann brosandi að ekki væri nema um tvennt að gera, að honum „batnaði slenið eða yrði hent út fyrir borðstokkinn“.
„Gerðu hvort sem þú heldur vilt, því að sama er mér“ ansaði Ásgeir. „Ég reyni fyrst að lækna þig“ sagði Ingvar skipstjóri og bað Ásgeir að rísa úr koju og fór með hann upp á þilfar. Þar gaf hann honum sterkt kjötsoð að drekka. Litlu síðar ætlaði hann að selja því upp en þá greip skipstjóri fyrir munninn a honum og lét hann renna því niður aftur.
„Nú skaltu leggja þig og drekka sterkan bjór þegar þig þyrstir. Þá mun þér batna“ sagði Ingvar. Eftir þetta smáhresstist Ásgeir og fannst í lok ferðarinnar að hann „gæti verið á sjó til eilífðar“.
Ferðin tók á 6. sólarhring. Smám saman reis landið úr sæ, fyrst fjöllin, síðan undirlendið. Í skipakomubók sýslumannsembættisins er Sæfellið skráð innkomið 24. des. 1942. Skipstjóri „Ingvar Einarsson“.

Á bryggjunni í Eyjum.

Pétur Stefánsson, lögregluþjónn í Eyjum 1942 - 1970. Myndin er tekin um 1942
Friðrik Guðmundsson, tollvörður í Eyjum á stríðsárunum. Myndin er tekin 1941

Á bryggjunni í Eyjum stóðu lögregluþjónn og tollþjónn. Þeir tóku skýrslu af flóttamanni og rannsökuðu farangur hans. Þeir voru „ungir og viðfelldnir mjög“ segir Ásgeir. Hverjir voru þessir menn?
Erfitt er að átta sig á því en tollþjónar voru um þetta leyti þrír: Hermann Guðjónsson, Ragnar Halldórsson og Friðrik Guðmundsson. Hermann og Ragnar létust báðir í febrúarmánuði sl. í hárri elli, og því hvorugur til frásagnar lengur. Hermann var Rangæingur, frá Ási í Ásahreppi, 31 árs þegar þetta var, ógiftur, yfirtollþjónn, bjó í Ásgarði; stilltur og prúður maður. Ragnar var ári yngri en Hermann, giftur danskri konu. Hann var Vestfirðingur að ætt, var margt til lista lagt, en sagður ekki allra. Friðrik er fæddur 1917 og var því 25 ára að aldri er sagan gerist. Hann er enn á lífi, við halla heilsu á Sólvangi í Hafnarfirði, en man vel. Friðrik var laus og liðugur a þessum árum, fjörmaður mikill. Hann er Norður-Þingeyingur að ætt, frá Ytri-Brekkum og Syðra-Lóni við Þórshöfn á Langanesi. Hann segir að þeir hafi jafnan verið tveir tollþjónarnir við afgreiðslu skipa, og vera má að svo hafi verið í þetta sinn þótt félagi hans komi ekki við sögu. Friðrik man ekki glöggt til þessa dags, en rámar þó í að hann hafi afgreitt Sæfellið — eins og líklegast er — og man Ásgeir vel; segir að hann hafi boðið sér að koma við í Ásgarði ef hann yrði á ferð um Dali!
Í lögregluliðinu voru fjórir menn, Stefán Árnason, Jóhannes Albertsson, Óskar Friðbjörnsson (frá Götu; fluttist frá Eyjum 1946) og Pétur Stefánsson („Pétur pól“). Hann var yngstur þeirra að aldri og starfsaldri, nýlega ráðinn í lögregluna. Pétur var fæddur 1917 og hefur því verið 25 ára gamall um þetta leyti. Hann var Reyðfirðingur, kom ungur til Eyja á vertíðir og festi ráð sitt í Eyjum árinu áður, 1941, og það ár fæddist Björk, elsta dóttir hans. Fjölskyldan bjó lengi á Strönd. Pétur var annálaður kvæðamaður og sögumaður góður. Líklegast er að Pétur, nýliðinn, hafi verið látinn taka vaktina þetta aðfangadagskvöld þótt um það verði ekki fullyrt.
Lögregluskýrslan hefur ekki komið í leitirnar, né heldur önnur gögn lögreglu eða tollgæslu frá þessum tíma sem gætu svarað því.
Þeir lögreglumaðurinn og tollarinn (Pétur og Friðrik?) fylgdu flóttamanninum á hótel „sem virðuleg kona veitti forstöðu“ segir Ásgeir. Það hefur verið Jóna Jónsdóttir. Hún hafði fylgt fjölskyldu Magnúsar Bergssonar, bakara og útgerðarmanns, lengi og rak um þetta leyti Hótel Berg. Hún varð landsþekkt fyrir mötuneyti sitt sem hún rak lengi síðan, hjartahlý kona og greiðvikin. Það voru allmargir gestir á hótelinu. Þeir sátu um kvöldið, aðfangadagskvöld, við veisluborð og nutu jólanna en jólagjafir voru engar.
„Samt fékk ég þá eina bestu gjöf, sem ég hef fengið á jólum, en það var að hafa ættjörðina undir fótum að nýju“ segir Ásgeir Bjarnason.

Glaðir Eyjamenn.
Næsta dag, jóladag, hringdi Ásgeir heim til sín í Ásgarði og talaði við Jens, bróður sinn. „Eftir að ég hafði sagt til nafns míns, varð löng þögn, því að hann vissi varla, hvort hann hafði heyrt rétt, enda bjóst hvorki hann né aðrir við mér á þessum tímum.“

Veður kólnaði um jól og fram að nýári, norðanátt og frost. Jörð var hvít í Eyjum og rok. Annan jóladag og hinn þriðja var 3-4 cm snjór. Allar minningar Ásgeirs um veðrið þessa daga koma heim og saman við veðurskýrslur.

Jóna Jónsdóttir á Berg, matselja og hótelstjóri. Teikning eftir Baltasar úr bókinni „Suðaustan fjórtán" eftir Jökul Jakobsson þar sern segir margt frá henni

Það gerðist fátt í Eyjum þessa daga, fannst Ásgeiri. Það voru brandajól þetta árið. Að kvöldi annars í jólum, laugardagskvöld, var hann háttaður snemma, en um kl. 10 var knúð fast á dyrnar hjá honum. Úti fyrir voru tollþjónninn og lögreglumaðurinn sem tóku á móti honum á bryggjunni síðdegis á aðfangadag.
„Hvað hef ég nú gert?“ hugsaði Ásgeir með sér er hann sá hina einkennisklæddu menn.
„Nú sofnar þú ekki“ sögðu þeir brosandi. „Veistu ekki, að hér í Eyjum er það siður að allir fullfrískir karlar og konur fara á ball á annan í jólum? Og þú kemur með okkur!“
„Hingað til hef ég ekki þurft lögregluvernd á böllum“ sagði Ásgeir hlæjandi, um leið og hann fór í spjarirnar, náttúrlega guðs feginn yfir hugulsemi þeirra. Á ballinu var glaumur og gleði til morguns, eins og vera ber.
Mönnum, sem til þekkja, ber saman um að þetta framtak lögreglu- og tollyfirvalda í Eyjum sé líkt þeim Pétri Stefánssyni og Friðriki Guðmundssyni.

Sögulok.
Lýkur hér sögu flóttamannsins Ásgeirs Bjarnasonar.
Ingvar skipstjóri og Magnús stýrimaður vildu fara sem fyrst til Reykjavíkur og biðu fyrstu bátsferðar til Stokkseyrar. Þeir buðust til að taka Ásgeir með.
Samgöngur milli lands og Eyja voru stopular á þessum árum. Helst að siglt væri yfir sumarmánuðina með farþega. Þeir félagar komust á stað mánudaginn 28. des., fjórða jóladag. Þá var hvöss norðanátt, rok, og 7 stiga frost. Ef til vill fóru þeir með Tjaldi, 15 tonna bát Óskars Eyjólfssonar í Laugardal, en hann fór stundum svona ferðir þegar eftir var leitað á þessum árstíma, enda var Óskar kunnugur við Stokkseyri eins og víðar við ströndina. Ásgeir fékk bílferð með Ingvari og Magnúsi til Reykjavíkur. Eftir stutta dvöl þar féll ferð í Dali og þangað komst flóttamaðurinn heim, langþráðan dag, 6. janúar 1943.
Þegar Ásgeir kvaddi Jónu á Hótel Berg var honum vandi á höndum. Hann skuldaði henni 100 krónur fyrir fjögurra sólarhringa dvöl. Hann var auralaus og hafði ekki neina tryggingu. Eins og við mátti búast af Jónu varð samkomulag um að Ásgeir sendi greiðsluna við hentugleika. Og við það stóð hann.
Eins átti Ásgeir ógreitt fyrir alla ferðina frá Fleetwood til Reykjavíkur. En fyrir hana vildi Ingvar skipstjóri ekkert taka. „Það var rausnarleg gjöf sem ég hefi í engu launað“ segir Ásgeir löngu síðar.