Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Óttuðumst mest að stoppunálin setti gat á gúmbátinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
SIGURGEIR JÓNSSON



„Óttuðumst mest að stoppunálin setti gat á gúmbátinn“



Petur Muller, einn þeirra sem björguðust af Glað, rifjar upp atburðinn



Petur, ásamt greinarhöfundi við smábátahöfnina í Þórshöfn

Eins og fram kemur í samantektinni um slysið þegar Glaður fórst, eru aðeins tveir eftir á lífi af áhöfninni. Báðir búa þeir í Færeyjum, í fullu fjöri og enn starfandi við sjómennsku þótt komnir séu fast að sjötugu. Karton Joensen býr á Tvöroyri á Suðurey. ókvæntur og er í afleysingum í fragtsiglingum. Karton bjó í Vestmannaeyjum um sjö ára skeið með konu sinni en þau skildu og upp úr því hélt hann aftur til Færeyja. Petur Muller býr í Porkeri á Suðurey, kvæntur og sjö barna faðir. Hann hefur alla tíð stundað sjó, síðustu áratugina á eigin skipum og stundar nú línuveiðar á nýlegum og vel útbúnum plastbát.
Sá sem þetta ritar brá sér til Færeyja í febrúar sl. í því augnamiði að ná tali af þeim tveimur og fá þá til að rifja nánar upp minningar frá þessum atburði sem átti sér stað fyrir fimmtíu árum. Báðir voru þeir fúsir til þess og var ákveðið að hittast í Þórshöfn en þegar til kom treysti Karton Joensen sér ekki til þess vegna veikinda og Petur Muller kom einn í það spjall.

Átján ára á vertíð í Vestmannaeyjum
Petur Muller er dæmigerður Færeyingur og hann hefði ekki þurft að kynna sig þegar hann hitti okkur á Sjómannaheimilinu í Þórshöfn. Einhvern veginn vissi ég um leið og ég sá hann að þetta var Petur Muller. Lágvaxinn, hæglátur og rólegur, gráhærður og einstaklega snyrtilega til fara, traustvekjandi og með glettnissvip í augum. Ég veit ekki af hverju mér datt Binni í Gröf í hug um leið og ég sá hann. Án þess að þeir væru sláandi líkir í útliti, þá var eitthvert svipmót með þeim.
Petur segir að þeir hafi verið fimm Færeyingarnir um borð í Glað á þessari vertíð, allir frá Suðurey og þekktust að sjálfsögðu allir. Þeir voru yngstir, hann og Karton, báðir á átjánda árinu, Petur reyndar orðinn átján ára þann 3. mars en Karton yngri í árinu. „Ég hafði verið áður á sjó, hafði verið á þrímastra skonnortu á fiskiríi við Grænland svo að ég vissi svona aðeins hvað sjómennska var. Ég veit ekki hvort Karton hafði verið til sjós áður en þetta var fyrsta vertíðin okkar beggja í Vestmannaeyjum,“ segir Petur og bætir því við að hinir þrír hafi allir verið þaulvanir sjómenn og hafi líklega allir verið áður á vertíð í Eyjum.
Þeir bjuggu allir saman, Færeyingarnir, í húsi ofarlega í bænum og austarlega. Petur man ekki hvort það bar eitthvert nafn né heldur við hvaða götu það stóð en eftir lýsingunni að dæma hefur það ekki verið langt frá Gerðisbæjunum. En hann segir að þar haft aðbúnaður verið mjög góður. Petur segir líka að sig minni að fiskiríið hafi verið alveg þokkalegt þessa vertíð en aftur á móti hafi fiskverðið verið lágt og kurr í mönnum vegna þess. Og hann segir að Glaður hafi verið mjög gott skip. Hann segist líka muna vel eftir þessum örlagaríka degi, sunnudeginum 11. apríl 1954.

Báturinn blés út á þriðju patrónunni

Petur Muller

„Það hafði verið leiðinda veður alla vikuna á undan og ekki gott að stunda sjóinn,“ segir Petur. „Svo var ræst á sunnudagsmorgun og Leifur sagði okkur að hann ætlaði að leggja eina trossu austur á Sandahrauni en líklega yrði ekkert hægt að draga. Svo fórum við út og lögðum þessa trossu og það gekk ágætlega þrátt fyrir leiðindaveður. En stuttu eftir að við vorum lagðir af stað í land, vorum við kallaðir upp aftur. Það var olíukabyssa í lúkarnum og olíutunnan fyrir hana var við hliðina á lúkarskappanum. Tunnan hafði losnað og við urðum að súrra hana niður á ný. Þegar því var lokið fóru hinir niður aftur en ég fór aftur í þar sem ég var hálfsjóveikur og hugsaði mér að vera þar á leiðinni í land. En svo ákvað ég að fara aftur fram í og var nýkominn þangað þegar brotið skall á okkur. Þetta var gífurlegt högg. Tveir höfðu farið í koju en við hinir fjórir sátum við borðið og höggið var svo mikið að við köstuðumst yfir það, án þess þó að slasa okkur. Og talstöðin, sem hékk á þilinu, rifnaði þaðan og skall á gólfið og var þar með ónothæf.“
Petur segir að þeir hafi þegar í stað farið upp. Fyrstu viðbrögð þeirra hafi verið þau að fara niður í lest að ausa en fljótlega hafi þeim orðið ljóst að það var til lítils þar sem sífellt hækkaði í lestinni þrátt fyrir að þeir væru þar þrír að ausa á fullu. Á meðan fóru hinir að gera gúmbátinn kláran. Hann var í kassa uppi á stýrishúsi og gekk vel að ná honum þaðan. Með honum voru þrjár loftpatrónur til að blása hann upp. Tvær þeirra virkuðu ekki en Gilsi tók svo þriðju patrónuna og hún dugði til að blása bátinn út.
„Við vorum allir ótrúlega rólegir meðan á þessu stóð, rétt eins og þetta væri bara daglegt brauð. Og það var góð tilfinning að sjá bátinn blása út við hliðina á okkur. Ég var rennandi blautur eftir dvölina í lestinni, var í klofstígvélum sem fylltust af sjó og ég var svo þungur að ég ætlaði ekki að komast upp úr lestinni. En það hafðist þó og ég fór úr stígvélunum og stökk síðan í sjóinn við hliðina á gúmbátnum. Við blotnuðum allir við að komast um borð í hann nema einn. Danjal, sem var elstur okkar, stökk fyrstur og tókst að lenda beint í bátnum og var því sá eini okkar sem var þurr. En þegar hann stökk um borð, losnaði kassi um borð í bátnum og fór í sjóinn, Það var slæmt því að í honum voru nær allir þeir aukahlutir sem fylgdu gúmbátnum, neyðarrakettur, vatn og vistir og fleira. Kassinn var utan á bátnum og festingarnar gáfu sig þannig að hann hvarf og sást ekki meira. En mest var um vert að við komumst allir heilu og höldnu um borð í gúmbátinn. Leifur fór síðastur frá borði og ég man hvað okkur var létt þegar við vorum búnir að hjálpa honum um borð. Örskömmu síðar sökk Glaður.“

Sungu sálma og kváðu á færeysku
Og nú hófst erfið dvöl um borð í gúmbátnum, dvöl sem átti eftir að vara í tæpan sólarhring. Okkur var kalt enda allir rennblautir nema Danjal en við reyndum að koma okkur þannig fyrir að við hefðum hita hver af öðrum. Engar vistir voru um borð, eins og fyrr segir, en Hans Klyver hafði verið svo forsjáll að taka bitakassann sinn með þegar hann stökk frá borði. Í honum voru svo sem engin ósköp af mat en þar var m.a. mjólkurflaska sem var eina vökvunin sem við höfðum allan þennan tíma. Leifur tók að sér að skammta okkur mat úr bitakassanum og ég man það enn þegar hann var að útdeila honum, smáskammtur handa hverjum og einum, sem Leifur stýfði úr hnefa og gætti þess að allir fengju jafnt. Einu áhöldin sem voru um borð í bátnum voru ein ár, sem átti eftir að koma sér vel síðar og svo handdæla til að halda við loftþrýstingnum í bátnum.“
Fyrst í stað rak þá austur með og nær landi og um tíma óttuðust þeir að þá myndi reka upp í fjöru þar sem þeir sáu stórgrýti og leist illa á slíka landtöku. En síðan tók bátinn að reka meira út og létti þeim nokkuð við það. Einn Færeyinganna, Jakob Heinesen, var afbragðs sundmaður og hugleiddi að freista þess að synda í land en hætti síðan við það. Ein ástæða þess var sú að þeir þóttust nær vissir um að þeim yrði bjargað. Leit yrði hafin þegar Glaður skilaði sér ekki í höfn og því væri ekki vit í að reyna að synda til lands, þó svo að Jakob væri góður sundmaður og hefði líklega tekist að synda þennan spöl.

„Við gerðum allt sem við gátum til að halda á okkur hita, börðum hver annan, sungum mikið, aðallega sálma, og Jakob, sem var góður kvæðamaður, kvað á færeysku. Allt hjálpaði þetta til að halda á okkur hita. Það var gott skjól í bátnum þar sem tjaldað var yfir hann en mesti kuldinn kom úr botninum. Í þessum bát var bara einfaldur botn og svo þunnur að við sáum sjóinn í gegnum hann. Um svefn var ekki að ræða, við vorum svona að smá detta út af en vöknuðum jafnharðan aftur, skjálfandi af kulda. En allir vorum við held ég með nær fullri meðvitund allan tímann, nema hvað Karton datt út síðustu tímana og mundi ekki fyrr en hann vaknaði um borð í Hull City á heimleiðinni.“

Petur, ásamt Pálu konu sinni og sjö börnum þeirra

Óttuðust að stoppunálin setti gat á bátinn
Petur segir að ýmislegt hafi gerst um borð í gúmbátnum sem ekki sé annað hægt en brosa yfir eftir á. „Hans Klyver tók bitakassann sinn með sér, eins og áður er sagt. Þegar hann opnaði hann var það fyrsta sem hann sá í kassanum stoppunál sem hann var alltaf með. Hann notaði hana til að stoppa í göt á ullarvettlingunum sínum. En nú urðum við logandi hræddir þegar við sáum stoppunálina, óttuðumst að hún gæti dottið og sett gat á botninn í bátnum. Hans fann einhvers staðar bút af blaði sem líklega hefur verið vafið utan um brauð eða annað í kassanum og nú tók hann blaðið og margvafði því utan um nálina, gerði úr því þykkan vöndul svo að ekki væri hætta á að hún setti gat á bátinn. Við hlógum oft að þessu eftir á en okkur var sko ekki hlátur í huga þegar við vorum að ganga frá nálinni, þá var þetta dauðans alvara í hugum okkar.“
Rekið á gúmbátnum austur og út var miklu meira en þeir sem skipulögðu leitina höfðu reiknað með. Petur segir að þeir hafi séð ljósin a skipum sem þeir hafi talið víst að væru að leita þeirra. Þau ljós hafi verið talsvert fyrir vestan þá þótt sumir hafi verið komnir nokkuð nálægt um tíma. Þeir hafi verið daprir í bragði um borð í gúmbátnum þegar þeim var ljóst að skipin fóru ekki nógu austarlega. Aldrei hafi þeir þó gefið upp vonina, þeir hafi alltaf verið þess fullvissir að þeim yrði bjargað. Trúarlíf skipar háan sess hjá Færeyingum og hefur alltaf gert. Petur segist sjálfur alltaf hafa verið mjög trúaður maður og sú hafi eflaust verið raunin á með hina. Það hafi án efa hjálpað þeim í þessum hrakningum.
Danjal var sá eini þeirra sem var þurr og þoldi því kuldann betur en hinir. Það notaði hann á þann hátt að vera nær sífellt á vakt, með höfuðið út um opið á bátnum. Þannig gat hann fylgst með því hvort um skipaferðir væri að ræða nálægt þeim. Og þegar vart varð við slíkt var árinni stungið út og sett veifa á hana. Það gerðist einmitt að morgni mánudags, rétt eftir birtingu. Þá sáu þeir skip nokkru innar en þeir voru, á leið vestur með landi. Leifur setti upp veifuna en án árangurs, skipið sigldi framhjá. Nokkru síðar sáu þeir enn skip á vesturleið fyrir innan sig, greinilega enskan togara. Veifan var aftur sett upp og til að reyna enn frekar að vekja athygli togaramanna á sér, hrópuðu þeir saman, allir í kór. Það dugði ekki til og þeim til sárra vonbrigða sigldi skipið framhjá þeim. Síðan sáu þeir sér til mikillar gleði að togarinn beygði og sneri aftur í átt til þeirra. „Skipstjórinn sagði okkur síðar hvernig það atvikaðist að hann sá okkur,“ segir Petur. „Hann var uppi í brú með kíki og beindi honum aðallega til lands, en þeir sigldu innan við okkur. Svo atvikaðist það þannig að hann ákvað að kfkja hringinn út frá skipinu og þá kom hann auga á gúmbátinn uppi á öldufaldi og sneri þá samstundis við. Hann hélt fyrst að þetta væri sjóflugvél sem hefði nauðlent á sjónum og þeir urðu mjög hissa Englendingarnir þegar í ljós kom að þarna voru skipreika sjómenn frá Vestmannaeyjum. Þetta var togarinn Hull City og þeir voru að koma beint frá Englandi á leið á veiðar fyrir vestan.“

Mannfjöldinn eins og á Ólafsvöku

Petur segir að mjög vel hafi gengið að ná þeim um borð og auðvitað hafi gúmbáturinn verið tekinn um borð líka, þetta litla undratæki sem bjargað hafði lífi þeirra áttmenninganna. „En ég man það enn hvað ég var óstöðugur á fótunum þegar ég kom um borð og var að ganga aftur eftir dekkinu. Það var eins og ég væri dauðadrukkinn,“ segir Petur og brosir og tekur fram að þeir hafi allir verið valtir á fótunum. Suma þurfti að styðja aftur í og ekki að furða eftir nær sólarhringsdvöl í gúmbátnum.

Petur á yngri árum, myndin tekin einu eða tveimur árum fyrir slysið

„0g móttökurnar um borð í Hull City voru ofboðslega góðar. Við fengum heitt að drekka, þurr föt að fara í og svo beint í koju. Svo þegar við vöknuðum þá voru þeir búnir að þurrka öll fötin okkar. Þeir voru fínir menn, Englendingarnir,“ segir Petur.
Hann segir líka að móttökurnar á Básaskersbryggjunni, þegar Hull City lagði þar að bryggju, líði sér seint úr minni. „Skipstjórinn á Hull City hafði að sjálfsögðu látið vita í talstöðinni í land að hann hefði fundið okkur og bryggjan var þéttskipuð fólki þegar við komum þangað. Mannfjöldinn minnti mig einna helst á Ólafsvöku í Færeyjum,“ segir Petur og kímir. „Og þeir voru margir sem þurftu að taka utan um okkur og fagna því að við skyldum vera á lífi,“ bætir hann við.
Þeir kvöddu þarna bjargvætti sína og lífgjafa á Hull City og útgerðarmennirnir Leifur og Gilsi ákváðu að gefa skipstjóranum gúmbátinn til minja. Petur segir að þeim hafi þótt það skrýtið að þeir togaramenn skyldu aldrei hafa séð slíkt tæki fyrr, þar sem báturinn var framleiddur í Englandi. Það átti þó eftir að breytast því að áður en árið var á enda var það orðin lögskylda á enskum fiskiskipum að hafa þessi tæki um borð. Það var ekki síst að þakka þeirri kynningu sem gúmbátarnir fengu í kjölfar þessarar björgunar.
Petur segir að þeir hafi fengið greiddar einhverjar bætur fyrir það sem þeir misstu í þessu sjóslysi en ekki hafi þær verið háar. „Við vorum látnir skrifa lista yfir föt og annað sem við misstum og það fengum við borgað,“ segir hann. Og þar með var vertíðin á enda hjá þeim flestum hverjum þó svo að enn væri mánuður eftir af henni hjá öðrum. En Petur var ekki lengi í landi. Tveimur dögum eftir að Hull City kom með þá í land kom vinur hans að máli við hann, sá var skipverji á togaranum Vilborgu Herjólfsdóttur frá Eyjum og sagði honum að það vantaði mann um borð. Og þangað fór Petur og var þar um borð fram í júní. „Ég veit ekki hvað hinir gerðu, hvort þeir fóru í önnur pláss eða hvort þeir fóru fljótlega aftur heim til Færeyja eftir þetta. Hans Klyver var reyndar um borð í Vilborgu með okkur í einn eða tvo túra. Um sumarið fórum við svo báðir heim til Færeyja. En Karton bjó um tíma í Vestmannaeyjum, fluttist þangað nokkru seinna og bjó þar í nokkur ár.“

Það voru fínir menn, Leifur, Gilsi og Gústi
Petur segist aldrei hafa komið til Eyja eftir að þetta gerðist. Aftur á móti var hann alllengi á íslenskum togurum, m.a. Ólafi Jóhannessyni frá Patreksfirði og fór síðan með skipstjóranum yfir á togarann Akurey. Hann var á togaranum Þorsteini þorskabít í Nýfundnalandsveðrinu mikla, þegar togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst með allri áhöfn, og man vel eftir því. Segir þá aldrei hafa verið í hættu, Þorsteinn þorskabítur hafi verið svo léttur á sjónum og gott sjóskip. Og hann ber Íslendingum vel sÖguna, ekki síst skipsfélögum sínum um borð í Glað. „Þetta voru fínir menn, allir þrír, Leifur, Gilsi og Gústi og góðir sjómenn. Og þénustan var fín á íslensku skipunum, þess vegna flykktust Færeyingar þangað á vertíð ár eftir ár. En til Vestmannaeyja hef ég ekki komið síðan árið 1954. Við sigldum framhjá í gosinu 1973, vorum á heimleið af línuveiðum við Grænland á bát sem ég átti þá.“
Nær allan sinn aldur hefur Petur búið í Færeyjum, á æskustöðvunum í Porkeri á Suðurey. Hann hætti sjómennsku á íslenskum skipum árið 1961 og fór í útgerð með fleirum í Færeyjum, festi ráð sitt og kvæntist æskuástinni, Pálu, sem einnig er frá Porkeri. Þau eiga sjö uppkomin börn sem öllum hefur vegnað vel í lífinu. Nú rær hann á eigin bát við annan mann og einn er í landi sem sér um að beita. Það er kannski óþarfi að spyrja hann að lokaspurningunni. Heldurðu að þú gleymir einhvern tíma þessum örlagaríka sólarhring austan við Eyjar í apríl 1954? Petur lítur á mig sínu rólega og yfirvegaða augnaráði, brosir lítið eitt út í annað og segir síðan: „Nei, því gleymi ég örugglega aldrei.“
Síðan heldur hann út í logndrífuna í Þórshöfn, ætlar að nota tækifærið meðan hann er í Þórshöfn og horfa á og hvetja sína menn í handboltanum í úrslitaleiknum í steypufinalinum eins og Færeyingar kalla bikarkeppni. Það er búið að vera ánægjulegt að tala við Petur, hann er stálminnugur eins og flestir Færeyingar, kannast við fjölmarga, bæði í Færeyjum og á Íslandi, veit skil á flestum hlutum og fylgist vel með því sem er að gerast í kringum hann. Það er gaman að tala við þannig fólk.

Að lokum
Ekki er svo hægt að skiljast við upprifjun úr þessari ferð, öðruvísi en að minnast á tildrögin að henni. Haukur Guðjónsson, frá Reykjum, bróðir Þorleifs heitins, skipstjóra og útgerðarmanns á Glað, vildi minnast þess að í ár eru 50 ár liðin síðan þessir atburðir áttu sér stað. Hann fór þess á leit við þann sem þetta skrifar, að taka saman sögu þessa slyss. Þegar greinarhöfundur fór að kafa ofan í málin komst hann að því að tveir voru eftirlifandi af áhöfninni á Glað. Og þá ákvað Haukur að farið skyldi til Færeyja í boði hans til að ná tali af öðrum þeirra að minnsta kosti. Og til að ekkert færi nú úrskeiðis þá ákvað hann að bjóða túlki með, Gísla Magnússyni, sem er altalandi á færeyska tungu.
Við eyddum þremur sólarhringum í Færeyjum, í boði Hauks á Reykjum, bæði í Þórshöfn og í Götu þar sem Gísli Magnússon er nánast í guðatölu. Sú dvöl mun seint gleymast, gestrisni Færeyinga er engu lík svo og allt viðmót þessarar nánustu frændþjóðar okkar. Haukur á Reykjum á heiður skilinn fyrir þann áhuga sem hann sýnir í því að varðveita þetta brot úr sjávarútvegssögu Vestmannaeyja, sem um leið er hluti af sögu björgunarmála Íslendinga.
Þá er og rétt að geta þess að Sjómannadagsráð Vestmannaeyja ákvað að minnast þessa atburðar með því að bjóða þeim tveimur sem enn eru á lífi úr áhöfninni á Glað, þeim Petri Muller og Karton Joensen, til Vestmannaeyja yfir sjómannadagshelgina. Það er vel til fundið og á Sjómannadagsráð heiður skilið fyrir.