Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2002/ Smíði Helga Helgasonar VE 343 og aðdragandi að smíði hans

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Gísli H. Brynjólfsson

Smíði Helga Helgasonar VE 343 og aðdragandinn að smíði hans

Gísli H. Brynjólfsson

Það var í september 1933 að faðir minn, Brynjólfur Einarsson, flutti með fjölskyldu sína frá Eskifirði til Vestmannaeyja. Hann hafði þá lokið námi í bátasmíði og var sveinstykkið ekkert venjulegt. Það var trilla með fullum búnaði og niðursettri vél. Um svipað leyti lauk móðurbróðir hans, og lærimeistari, Auðbergur Benediktsson, einnig við smíði á annarri trillu og lágu þær nú saman við bryggju. Komu þar margir að skoða bátana. Nokkrir höfðu þá skoðun á trillunni, sem faðir minn smíðaði, að hún væri of hringlaga að aftan.

Einn gagnrýnenda hafði þá skoðun að hún væri betri enda fór svo að trilla Auðbergs fór í hafið nokkrum árum síðar en trilla föður míns var gerð út í nær 50 ár frá Karlsskála við Reyðarfjörð.

Þar brotnaði hún illa í nausti í fárviðri. Það sem eftir er af henni er núna í eigu sjóminjasafnsins á Eskifirði. Þegar faðir minn var kominn hingað, réðist hann í vinnu hjá Gunnari Marel Jónssyni í austurslippnum. Þá var verið að smíða þar Mugg VE 332 og Erling II. VE 225. Mest var þó um viðhaldsvinnu og breytingar á bátum að ræða. Allmargir vertíðarbátar voru þá tvístefnungar með stýrið aftan á afturstafni og þar var lítið vinnupláss aftan við stýrishúsin. Þessum bátum var því mörgum breytt og smíðað á þá hringlaga hekk. Kom þá stýrið upp í gegnum byrðinginn. Við þessa breytingu fékkst meira pláss fyrir veiðarfærin fyrir aftan stýrishúsin. Einnig var kantsettur byrðingur settur utan á súðbyrðinga og síðast en ekki síst voru margir bátar, sem voru 13 til 14 tonn að stærð, lengdir, og náðu þá oft að verða yfir 20 tonn.

Árið 1936 ræðst Helgi Benediktsson útgerðarmaður í að smíða stórt skip, Helga VE 333, sem mældist 114 tonn. Gunnar Marel stóð fyrir því verki. Helgi var byggður fyrir vestan slipp Magnúsar Magnússonar frá Bjarmalandi. í Vestmannaeyjum. Þar eru núna bílastæði og athafnasvæði vesturslippsins, sem Drangur rekur.

Brynjólfur Eiinarsson, skipasmíðameistari

Frá byrjun var faðir minn nær eingöngu við smíði þessa Helga og oft einn, þó með ýmsum frávikum, einkum við undirbúning vertíðarbátanna. Helgi var rúm 3 ár í smíðum og fór á sínu fyrstu síldarvertíð sumarið 1939. Hann vakti mikla athygli fyrir glæsileik og burðargetu. Hann var þá stærsta skip sem smíðað hafði verið á Íslandi. Fyrsti skipstjóri á honum var Ásmundur Friðriksson frá Löndum. Eftir að smíði hans lauk, dróst vinna hjá Gunnari Marel saman. Fór þá faðir minn til Siglufjarðar um sumarið og gerðist beykir. Á árinu 1936 hafði hann gerst starfsmaður Helga Benediktssonar og sá um viðhald báta hans, ásamt vinnunni við smíði Helga. Helgi Benediktsson átti aðgerðarhús, austan við austurslippinn. Það var kallað Jötunheimar, og stóð þar sem nú er bílastæði vestan við Eyjabúð. Risið var notað sem verkstæði. Þar var hægt að ganga út úr vesturstafni niður í slippinn en húsið stóð töluvert neðar en bílaplanið er í dag.

Fljótlega kom Jón S. Þórðarson á smíðasamning, sem lærlingur hjá föður mínum og skömmu síðar Jóhann Guðmundsson úr Flóanum. Árið 1941 fór Helgi Benediktsson að huga að meiri skipasmíðum og vildi að faðir minn tæki verkið að sér. Faðir minn hafði lært smíði smáskipa án nokkurra teikninga svo nú voru góð ráð dýr. Gunnar Marel var vanur að smíða skapalón af þeim skipum sem hann smíðaði, þannig að límdir voru saman borðbútar, sem svöruðu til lengdar væntanlegs skips, höggnir til og lagaðir þar til rétta lagið var komið. Þá komu fram mismunandi línur vegna þess að ekki lá eins í borðbútunum. Þessar línur voru svo notaðar til þess að reikna út byrðing skipsins.

Gunnar var snjall og prjónaði svo framhaldið. Faðir minn leitaði allra leiða til þess að afla sér menntunar í skipateikningum. Vinur Helga Benediktssonar, Guðbrandur Magnússon forstjóri ÁTVR, kom einn daginn auga á stóra kistu með kúptu loki og handmáluðum blómaskreytingum. Hún var dönsk smíði. Pabbi átti hana og notaði sem verkfærageymslu á verkstæðinu. Guðbrand langaði að eignast kistuna og sömdu þeir faðir minn og Guðbrandur um að hann fengi kistuna gegn því að hann útvegaði föður mínum kennslubækur í skipateikningum. Fljótt fékk hann senda bók á ensku frá Guðbrandi, og hét hún „Model sailing boats". Að vísu var bókin um smíði smámódela en þar sem hann gerði ráð fyrir að lögmálið væri það sama, bara smækkað, réðst hann í lesturinn. Til Akureyrar fór hann árið 1941 til Gunnars Jónssonar skipasmiðs, sem var þá að byggja Snæfellið fyrir KEA. Þar dvaldi hann í mánaðartíma að fylgjast með og afla sér þekkingar. Eftir það fór hann að teikna skipið sem seinna mældist 189 tonn. Þar með hafði hann allar tilskildar teikningar og skapalón.

Árið 1943 hófst smíði skipsins sem varð fyrr en varði oft ígripavinna. T.d. var sett ný yfirbygging á Skaftfelling. Þetta var í stríðinu og Skaftfellingur í stanslausum ísfiskflutningum til Englands og mátti helst ekki stoppa á meðan á verkinu stóð. Keisinn og stýrishúsgrindin voru nú tilbúin og sett upp meðan skipið stoppaði en ekki mátti gera meira en að klæða stýrishúsið að utan og þannig fór Skafti í siglingu með þaklaust stýrishús og opnar gluggatóftir. Einnig var byggður hvalbakur úr eik á hann. Þetta var klárað smátt og smátt meðan hann var fylltur hverju sinni. Á svipuðum tíma var Muggur lengdur og stýrishúsið stækkað þannig að brúarvængir mynduðust aftan við hurðirnar. Einnig var alltaf öðru hvoru ýmis viðhaldsvinna á öðrum bátum Helga.

Víkur nú sögunni aftur að stórskipinu. Kjölurinn var lagður á steyptar undirstöður fyrir norðan gúanóið, Fiskimjölsverksmiðju Ástþórs Matthíassonar. Þar var gamall skúr sem Reimar Hjartarson notaði undir rörasteypu en varð nú verkstæðisaðstaða fyrir smíðina. Heldur var hún léleg en gegndi sínu hlutverki meðan skipið var í smíðum og eitthvað lengur. Smátt og smátt risu böndin og byrjað var á byrðingnum sem var úr þriggja tommu eik. Einu tækin sem voru til staðar fyrir utan handverkfæri voru ein hjólsög, bandsög og borvél. Þegar búið var að byrða þriggja tomma byrðinginn, kom langt stopp en þá var eftir að byrða fjögurra tommu byrðinginn og þar við sat langa hríð. Erfitt var með alla efnisaðdrætti í stríðinu. Þegar komið var fram á árið 1945, fékk ég, undirritaður, síðla vors, 15 ára gamall, vinnu við skipið rétt um það leyti sem efnið í miðskipsbyrðinginn kom. Fyrsta verkið mitt var ekki eftirsóknarvert. Það var að hreinsa rusl og skít en margir höfðu gert stykki sín í skipinu. Það var bót í máli að kjalsýjurnar, sem eru tvö neðstu umförin í byrðingnum, voru ekki komnar í skipið. Þær eru 4 tomma þykkar. Skammdekksplankinn er efsta borð byrðingsins uppi við skammdekk. Hann er 4 tomma þykkur. Húfsýja er byrðingurinn mitt á milli skammdekksplankans og kjalsýjunnar. Þær eru 4 tommur á þykkt. Annars staðar er byrðingurinn 3 tommur.

Þegar efnið í kjalsýjurnar, húfsýjurnar og skammdekksplankann kom, reyndist það vera fjörutíu feta löng stykki 10x10 tommur. Var því ekki um annað að ræða en að fletta því í sundur í bandsöginni. Það var ekki áhlaupaverk vegna þyngdar trjánna og varð því að byggja trausta búkka fyrir utan húsgaflinn. Til þess að nýta húsplássið sem best var bandsögin höfð innan við gaflinn. Trjánum var rennt á búkkanum fyrir utan í gegnum gat á gaflinum að söginni. Þegar búið var að stilla tréð af og því rennt að söginni, varð að gæta allrar varúðar þar sem sagarblaðið var ekki nema ein og kvart tomma. Nokkra daga tók að saga hvert tré til þess að ofgera ekki blaðinu. Þegar trénu var hagrætt, var notað kúbein. Eins og nærri getur fór þetta afar hægt gegnum húsið og mikil vinna tók þá við að hefla og það allt með handheflum. Þegar kom að því að sjóða eikina til að hægt væri að laga hana að böndunum, var útbúinn gufuketill úr stórri stáltunnu. Steypt var undir hana og þar myndað eldhólf og var höfð mikil rist í því miðju. Þá var tunnan fyllt til hálfs eða svo af vatni og gufurör leitt frá henni í mikinn tréstokk. Þar var plönkunum stungið inn og lokað fyrir endann. Þegar gufan hafði soðið eikina, var hún mjúk og sveigjanleg og hægt að leggja hana eftir böndunum. Eldsneyti var afsag á vinnustaðnum. Það var starf undirritaðs að sjá um kyndinguna á meðan verið var að byrða það sem eftir var. Tvö ár áttu eftir að líða áður en skipið fór á flot.

Helgi Helgason VE 343

Upphaflega var ætlunin að hafa tvær vélar í skipinu en þegar til kom brást afhending þeirra. Í staðinn kom 500 hestafla June Munktel, fimm strokka, og var hún hálf önnur mannhæð. Þetta var glóðarhausvél, miklu lengri en gert hafði verið ráð fyrir og kostaði það 2 metra af lestinni. Vélinni fylgdu hydrolisk stjórntæki og þriggja blaða skiptiskrúfa. Hausinn á henni var 50 til 60 cm. í þvermál. Þetta skapaði stórt vandamál. Afturstafnið var 15 tommur. Í gegnum það þurfti að fara 13 tomma stefnisrör. Var því bætt á stafnið 5 tommum af eik beggja vegna og tommu þykkum járnkinnum þar utan á með áföstum kjalarhæl. Snarað var úr boltagötunum á járnþynnunum og rærnar undirsinkaðar. Börgesen, sem setti vélina niður, taldi þetta alveg ásættanlegt. Þessi June Munktel var stærsta vél þessarar tegundar og engin önnur sams konar smíðuð.

Eins og að líkum lætur þurfti stærsta skipasaum í slíkan byrðing og boltar voru allt að einum metra á lengd og tomma í þvermál. Allt var þetta rekið af handaflinu einu saman og þurfti því allharðsnúna menn til verksins. Undirritaður hætti að ári liðnu og fór í málaranám. Var smíði skipsins þá vel á veg komin, búið að innrétta og kominn keis. Ári seinna kom ég til að mála skipið. Þá var komið að sjósetningu sem var býsna erfitt verk. Eikarrennum var komið fyrir undir kjölinn og þær smurðar með koppafeiti. Bönd voru sett allt í kringum skipið og vírar í margföldum trissum settir yfir í Básaskers-bryggjuna. Þar voru jarðýtur sem toguðu í. Gekk á ýmsu en að lokum rann skipið í sjó og alla leið yfir höfnina og stöðvaðist við Básaskersbryggjuna. Sjósetningunni stjórnaði Gunnar Marel sem var ýmsu vanur.

Þetta var 7. júní 1947 en þann dag varð faðir minn 44 ára. Tók smíði Helga Helgasonar því um fjögur ár og fór hann á síld norðanlands um mánaðamótin júní-júlí það ár. Stjórn skipsins var falin Arnþóri Jóhannssyni frá Siglufirði en hann fórst með Helga VE 333 á Faxaskeri 7. janúar 1950.

Frá vinstri: Lærlingarnir Jóhann Guðmundsson, Jón Þórðarson ásamt meistaranum Brynjólfi Einarssyni

Helgi Helgason VE 343 reyndist afburða gott sjóskip og hafði mjög mikið burðarþol. Hann var stærsta skip sem smíðað hafði verið á Íslandi. Það skip, sem næst var að stærð, var Edda úr Hafnarfirði sem var smíðuð þar og var 183 tonn. Með þessum skipum lauk stórskipasmíði tréskipa á Íslandi. Þegar skipið var ársgamalt var það tekið í slipp í Reykjavík. Fór faðir minn þangað til að skoða botn skipsins. Áður hefur verið getið um frágang við afturstafn skipsins en umboðsmaður skipaskoðunarstjóra, Ólafs T. Sveinssonar, hafði haft miður góð orð um hann. Hafði faðir minn fengið mjög harðort bréf, nánast réttindamissi vegna frágangsins. Þegar skipið var komið í slippinn, hringdi faðir minn í Ólaf T. Sveinsson til að líta á með eigin augum. Segir þá Ólafur að hann hefði aldrei skrifað þetta bréf, ef hann hefði vitað hvernig frá var gengið. Hins vegar bætti hann við: „Maður má samt ekki gefa fordæmi." Þegar fram liðu stundir, kom í ljós afleiðing þess að taka þessa þungu vél í skipið. Með tímanum sligaði hún það svo að bunga myndaðist miðskips. Síðar var var sett í skipið vél sem hentaði betur. Það var 1960, díselvél Götaverken 600 hestöfl. Þegar kom að síldveiðum á fjarlægum miðum var íslenski flotinn ekki búinn undir slíkar langsiglingar með fullfermi. Var Helgi Helgason þá eitt fárra skipa, sem hæf voru vegna stærðar og burðargetu til veiða á fjarlægum miðum. Skipið gekk í tæp tuttugu ár en þá þóttust menn finna í því þurrafúa. Af reynslu þótti ráð að saga framhlutann af bátnum en afturhlutinn virtist hafa varið sig gegn fúanum vegna olíumengunar frá vél. Var nú skipið sagað í sundur. Blasti þá við að vegna stærðarinnar yrði kostnaðarsamt að byggja það upp enda orðið gamalt. Var því hætt við framkvæmdir enda komnir nýir tímar með nýjum kröfum.

Örlög skipsins urðu þau að það var brennt utan við Slippstöðina á Akureyri. Það eina, sem ekki brann, var afturstafninn inni í stálkápunni sem næstum því varð örlagavaldur í lífi föður míns. Þess má geta að keisinn, sem varðveittist í brunanum, fékk Níels Gíslason, uppfinningamaður, en hann bjó utan við rafveitusvæði Akureyrar.

Þessir menn unnu við niðursetning vélarinnar. Fremri röð frá vinstrí: Ingólfur Matthíasson, Bjarni Jónsson, Börgesen, Jón Þórðarson. Aftari röð frá vinstri: Þorgils Bjarnason, Vémundur Jónsson, Brynjólfur Einarsson og Óskar Sigurhansson

Notaði hann keisinn fyrir rafstöðvarhús þegar hann hóf framleiðslu á tölvustýrðum handfærarúllum. Nú er hann geymsla á Dagverðareyri. Lærlingarnir tveir, sem voru hjá föður mínum, luku báðir við sveinsstykki sín við smíðarnar á Helga Helgasyni, Jóhann stýrið og Jón formastrið.

Frá vinstri: Brynjólfur Einarsson og Börgesen

Ýmsir þóttust geta fundið ýmislegt að skipinu svo sem hvað lestin var grunn. Faðir minn sagði eitt sinn við slíkt tækifæri að Jóa hefði þótt hún nógu djúp þegar hann datt í hana, og bætti við:

„Reynslan er á við reikning flestan.
Reynsluna tel skóla bestan.
Jói sér niður í skipið skaut.
Skrokkurinn við það meiðsli hlaut.
Ekkert skal þó um það tjóa
að kvarta um grynnsli á grindinni.
Guð er andvígur syndinni."
Að lokum. Þeir sem lengst af unnu við skipið voru þessir:

Brynjólfur Einarsson Vestmannaeyjum
Jón S. Þórðarson nemi Vestmannaeyjum
Jóhann Guðmundsson nemi. Flóanum
Sveinbjörn Guðlaugsson Vestmannaeyjum
Þorgils Bjarnason Vestmannaeyjum
Vémundur Jónsson Vestmannaeyjum
Svend Andersen Vestmannaeyjum
Karl Jakobsson Vestmannaeyjum
Óskar Vigfússon Vestmannaeyjum.

Auk þess var Óli Sigmundsson frá Ísafirði um tíma. Ýmsir fleiri komu að smíðinni tíma og tíma m.a. smiðjumenn og ísláttarmenn en þeir eru allir látnir nema Jón S. Þórðarson.

Tekið skal fram að þetta er ritað án heimildasöfnunar en byggt að öllu leyti eftir minni og bestu vitund. Ef þetta er í einhverju rangt, bið ég þá sem betur vita afsökunar.

Gísli H. Brynjólfsson málarameistari.

Brynjólfur Einarsson, Brynjólfur bátasmiður eins og hann var kallaður hér í Eyjum, fæddist að Brekku í Lóni 7. júní 1903. Fluttist með foreldrum sínum til Eskifjarðar 1910 og til Vestmannaeyja fluttist hann 1933 eins og áður segir.

Jafnframt skipasmíðanámi á Eskifirði stundaði hann þar sjó og þá sem vélstjóri. Árið 1932 tók hann 60 tonna skipstjórnarpróf. Húsasmíðanámi lauk hann hjá Ágúst Jónssyni í Varmahlíð 58 ára gamall. Vann að mestu við skipasmíðar. En þess utan vann hann í 8 ár í Lifrarsamlaginu og síðustu árin var hann innheimtumaður hjá bæjarsjóði fram að gosi 1973 þegar starfsævi lauk. Hann lést 1996, 93 ára gamall. Brynjólfur var þekktur hagyrðingur.