Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2002/Blátindur VE 21, sannur fulltrúi skipasmíða og sjósóknar í Eyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Blátindur VE 21, sannur fulltrúi skipasmíða og sjósóknar í Eyjum



Ræða Árna Johnsen við afhendingu Blátinds á sjómannadaginn 2001



Vélbáturinn Blátindur VE 21 var byggður í Dráttarbraut Vestmannaeyja h. f. og lauk smíði hans í júlí 1947. Skipasmíðameistari var Gunnar Marel Jónsson, en hann var þjóðkunnur fyrir vélbáta sína. Smíði bátsins var hluti af raðsmíði fiskiskipa fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar til endurnýjunar á fiskiskipaflota þjóðarinnar í stríðslok. Þegar Blátindur hljóp af stokkunum var hann með stærstu og glæsilegustu fiskiskipum í Vestmannaeyjum. Báturinn var gerður út frá Eyjum til ársins 1958, en þá var hann seldur burt og gerður út frá ýmsum verstöðvum vestan og norðan lands. Þá var Blátindur notaður sem varðskip í Faxaflóa sumrin 1950 og 1951 og var þá búinn fallbyssu.

Blátindur þegar hann var afhentur Menningarmálanefnd á sjórnannadaginn 2001

Í Vestmannaeyjum voru byggðir 28 opnir bátar og 76 þilfarsvélbátar úr eik og furu,allt upp í 188 smálestir á árunum 1907 til 2000. Blátindur er síðasti vélbáturinn, sem eftir er af þessum flota.
Hann er dæmigerður fyrir þá vélbáta, sem smíðaðir voru í Vestmannaeyjum á fyrri hluta aldarinnar og voru notaðir til sjósóknar á vetrarvertíðum og sumarsíld fyrstu sex til sjö áratugi aldarinnar.
Árið 1990 var Blátindur seldur frá Sauðárkróki til Ólafsfjarðar kvótalaus. Tryggvi Sigurðsson vélstjóri og bátamódelsmiður, langafabarn Gunnars Marel, sá hann þar í reiðileysi sumarið 1992 og trúði vart sínum eigin augum, að báturinn væri enn til og héti Blátindur. Hann tók mynd af bátnum og sýndi hana Hermanni Einarssyni kennara og ritstjóra í Vestmannaeyjum. Hermann beitti sér fyrir því að báturinn fengist til Vestmannaeyja og var hann dreginn til Eyja af Landhelgisgæslunni í maí 1993. Þar var hann settur í slipp, ekkert hugsað um hann og hann smágrotnaði niður. Árið 1998 voru uppi hugmyndir um að endurbyggja bátinn og sumarið eftir var slegið í byrðing hans og botn. Þá komust menn að þeirri niðurstöðu, að hann væri svo illa farinn, að frekari viðgerðum var hætt og hann dæmdur ónýtur. Upp komu jafnvel hugmyndir um að farga honum.

Tryggvi var alls ósáttur við þessi málalok og hreyfði málinu við ýmsa, meðal annars við þann sem hér stendur,en það var fyrir utan Lundann kl. 2 um nótt sem við Tryggvi ákváðum að taka höndum saman um að bjarga Blátindi. Sigtryggur Helgason var okkur sammála um að varðveita skyldi bátinn, sérstaklega þar sem hann væri eini vélbáturinn smíðaður í Eyjum á fyrri hluta aldarinnar, sem eftir væri ofan sjávar og í óbreyttu ástandi, jafnvel með sama stýrishúsinu. Auk þess hefur báturinn smíðalag sem einkennandi var fyrir vertíðarbáta smíðaða í Eyjum. Við vorum komnir með jarðýtu í málið þar sem Sigtryggur var. Fyrst var allsstaðar komið að lokuðum dyrum,enginn hafði trú á að þetta væri hægt. Kaflaskipti urðu í apríl-maí árið 2000. Tryggvi var reyndar áður búinn að mála bátinn til þess að vernda hann. Við vorum allir sammála um að þetta væri sögulegt- og atvinnulegt menningarmál fyrir Eyjarnar að fá bátinn f sýningar- og sjóhæft ástand. Páll Helgason ferðafrömuður gekk til liðs við okkur og ekki minnkaði þrýstikrafturinn við það.

Áhugamannafélagið um endurbyggingu Blátinds. Frá vinstri: Tryggvi Sigurðsson. Árni Johnsen. Páll og Sigtryggur Helgasynir

Í september var stofnað með formlegum hætti „Áhugamannafélag um endurbyggingu vélbátsins Blátinds VE 21“. Ákveðið var að hraða framkvæmdum og að báturinn yrði afhentur Menningarmálanefnd Vestmannaeyja fullbúinn næsta Sjómannadag í júní árið 2001 til varðveislu og sýningar.
Skipasmíðastöðin Drangur ehf. tók að sér að framkvæma verkið undir stjórn Þórólfs Vilhjálmssonar skipasmíðameistara. Drangsmenn lögðu sig fram um að vanda til verksins. Þórólfur fór yfir allan bátinn og athugaði hvað gera þyrfti og gerði kostnaðaráætlun. Í ljós kom að báturinn var miklu verr farinn en við fjórmenningarnir höfðum áætlað í fyrstu. Nær allar styttur í lunningu voru morknar og fúnar. Öldustokkur var brotinn, fúinn og slitinn. Fúi var í efri plönkum miðskips auk slits stjórnborðsmegin. Miðskips stjórnborðsmegin var byrðingurinn ásamt burðarbitum brotinn að hluta vegna áreksturs. Meginþiljur og þramir á dekki voru fúnar og þilfar var talsvert skemmt. Fúi var í þilfarskarmi og vélarreisn og burðarbitar undir stýrishúsi voru fúnir. Afturmastur var ónýtt, ennfremur frammasturs bóma og gaffall á afturmastri. Þá þurfti að fjarlægja stálvanta úr frammastri og setja upp upphaflegan búnað og smíða vantafestingar á lunningar.
Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á um 15 milljónir króna. Satt að segja snarbrá okkur,en þar sem endurbyggingin var okkar hjartans áhugamál, bitum við á jaxlinn og ákváðum að hefjast handa og standa við upphaflega áætlun um verklok. Endurbyggingar- og viðgerðarvinnan hófs í desember 2000. Ekki var inni í þessari áætlun viðgerð á lúkar, káetu, stýrishúsi og bestykki né lest. Þá var hluti af málningarvinnu utan áætlunar. Ætlunin var að fá sjálfboðaliða til þess að skrapa, gera við það nauðsynlegasta í þessum verkþáttum og mála allan bátinn. Því miður gekk það ekki eftir. Aðeins örfáir einstaklingar en engin félagasamtök voru til í tuskið með okkur og það virðist því miður liðin tíð að menn fáist til svona starfa í sjálfboðavinnu. Í apríl var útivinnan vel á veg komin. Við sáum hvílíkum stakkaskiptum báturinn tók. Því ákváðum við að stíga skrefið til fulls og láta endurbyggja stýrishúsið og íbúðir skipverja í upprunalegt horf og gera lestina eins og hún var í upphafi, m. a. með því að láta fjarlægja tærðar stálstyttur og stáluppistöður, en láta smíða þær úr eik eins og var í upphafi. Í endurbyggingu Blátinds er eik notuð þar sem eik var upprunalega, fura og panill þar sem það átti við og svo framvegis. Til fróðleiks um viðgerðina má geta þess að alls fóru um 330 lengdarmetrar af eik í hana, en sérhver eikarplanki var sérsmíðaður. Þá þurfti m. a. að láta sérsmíða 250 stk. rekbolta 12 og 16 mm í þvermál og 25-40 sm langa, en þeir eru m. a. notaðir til þess að festa stytturnar við böndin.
Til fróðleiks og gamans um byltinguna í fiskiskipaflota þjóðarinnar síðustu 50 árin er vert að geta þess að þegar Páll Jónasson frá Þingholti varð fyrsti skipstjórinn á Blátindi þegar bátnum var hleypt af stokkunum í júlí 1947, þá var Blátindur eins og fyrr segir með stærstu og glæsilegustu fiskiskipum Eyjanna.
Um þessar mundir er að bætast í flota Vestmannaeyja nýtt skip, Huginn VE 55, 2000 tonna stórglæsilegt skip,en það er að mestu í eigu fjölskyldu dóttur Páls í Þingholti og tengdasonar hans. Gólfrýmið í sjónvarpsherbergi Hugins er stærra en allar vistarverur áhafnar Blátinds.
Ég get fullyrt, að öllum þeim, sem að endurbyggingu Blátinds stóðu, er heiður og sómi að óeigingjörnu starfi sínu til þess að varðveita fyrir framtíðina hluta af sjósóknarsögu forfeðranna fyrr á öldinni. Blátindur er sannur fulltrúi skipasmíða og sjósóknar í Vestmannaeyjum fram á seinni hluta 20 aldarinnar.
Megi komandi kynslóðir njóta vel.
Til hamingju sjómenn og sjómannsfjölskyldur, til hamingju Vestmannaeyingar.