Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2001/ Efnisskrá Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
GUÐJÓN ÁRMANN EYJÓLFSSON


Efnisskrá Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja



Sjómannadagsráð Vestmannaeyja ákvað fyrir tveim árum að Sjómannadagsblað Vestmannaeyja yrði efnistekið frá upphafi, á þeim tímamótum að blaðið hefur komið út í hálfa öld en 50. árgangur kom út á Sjómannadaginn 4. júní árið 2000.
Þetta er sérstaklega þarft verk og nauðsynlegt en Sjómannadagsblað Vestmannaeyja var á sínum tíma eitt fyrsta sérstaka hátíðablað sjómannastéttarinnar utan höfuðborgarinnar.

Sjómannadagsráð, sem Fulltrúaráð Sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði skipa, gaf strax á fyrsta Sjómannadeginum, hinn 6. júní 1938, út veglegt Sjómannadagsblað sem kom út í 60 ár, síðast á Sjómannadaginn árið 1998 í því broti og með því sniði sem blaðið hafði haft frá upphafi. Blaðið geymir merka sögu Sjómannadagsins, baráttu frumherjanna fyrir deginum og málefnum íslenskra sjómanna um allt land. Vonandi verður þetta blað gefið út aftur með þeim myndarbrag sem ávallt var á útgáfu blaðsins.

Fimmtíu árgangar Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja innbundnir í skinn

Sjómannadagsblað Vestmannaeyja var auðvitað frá upphafi sérstaklega helgað Eyjunum og hefur verið svo ætíð síðan. Það geymir nú orðið merka sögu sjómanna, sjósóknar og skipa í Vestmannaeyjum. Með sérstakri efnisskrá blaðsins verður sú saga öllum mun aðgengilegri og auðveldara verður að leita heimilda um menn og málefni og forðast endurtekningu mynda og annars efnis sem stundum hefur komið fyrir.
Aðalhvatamaður þessa þarfa verks er fyrrverandi ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja, Sigmar Þór Sveinbjörnsson, en ég, undirritaður, gamall ritstjóri blaðsins, er ráðinn sem hjálparkokkur! Linda Wright, bóksafnsfræðingur og forstöðumaður Bókasafns Sjómannaskólans, hefur unnið að verkinu undanfarin tvö ár.
Efnisskráin er nú komin það vel á veg að vonast er til að verkið komi út í haust.
Auk efnisskrárinnar verður í ritinu kafli sem ég hefi tekið saman um sögu Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja þessi 50 ár, listi yfir ritstjóra, ritnefndir, ljósmyndara og prentstaði ásamt grein um Sjómannadagsráð Vestmannaeyja. Þá höfum við hugsað okkur að birta litmyndir af félagsfánum sjómannafélaganna í Vestmannaeyjum og stutt ágrip af sögu þeirra en sjómannafélögin skipa fulltrúa Sjómannadagsráðs Vestmannaeyja og standa að baki ráðinu og þar með Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja.
Margir halda Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja saman og eiga það allt innbundið, líta oft í blöðin og rifja upp gömul ár og liðna tíð, sögu athafna og samferðarmanna.

Hvernig getur þessi efnisskrá orðið almennum lesanda að gagni og ánægju? Ég tek hér dæmi: Í 22. árgangi Sjómannadagsblaðsins árið 1972 eru fjórir þekktir Vestmannaeyingar saman á mynd. Allir komu þeir mikið við sögu og settu sterkan svip á sjósókn og lífið við Vestmannaeyjahöfn um miðja síðustu öld í 30 til 40 ár, frá 1945 til 1985. Þeir eru nú allir horfnir af sjónarsviðinu og yfir móðuna miklu. Myndina tók Sigurgeir Jónasson niðri á Básaskersbryggju morguninn eftir mikla óveðursnótt hinn 11. apríl 1972. Þar standa áhyggjufullir og veðurbarnir, þeir Bergsteinn Jónasson hafnarvörður (Steini á Múla) og Eyjaformennirnir Óskar Matthíasson,Helgi Bergvinsson og Sigurgeir Ólafsson (Siggi Vídó). Um nóttina hafði Lundi VE 110, sem Siggi var með, fengið trolldræsu í skrúfuna þegar þeir voru að baksa út Víkina í suðaustan stormi um nóttina. Að öllum líkindum hafði enskur togari kastað þessu drasli í sjóinn daginn áður. Skipti engum togum að bátinn rak upp í Hringskersgarðinn og var mikil mildi að ekki fór ver og að þarna yrði stórslys. Skipti hér sköpum að Lóðsinn, undir skipstjórn Einars Sv. Jóhannessonar, kom fljótt á vettvang og að bátinn rak ekki sunnar upp á Urðirnar þar sem austansjórinn skall á, óbrotinn, fyrir eldgosið 1973.

Forsíður fyrstu sex árganga Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja

Í Efnisskránni verður unnt að leita frekari upplýsinga um þessa menn og fletta upp hvar og hvenær þeirra er getið í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja.
Hvenær urðu þeir aflakóngar á vetrarvertíð og fengu verðlaunaskipið, Fiskikóng Vestmannaeyja eins og það heitir? Hvað var Steini á Múla lengi hafnarvörður? Hvenær var Siggi Vídó formaður Verðandi og Sjómannadagsráðs ? Hvernig voru lífshlaup og sjómannsferill þessara þekktu sjósóknara sem rakin eru í minningargreinum um þá í blaðinu?
Auðvelt og fljótlegt verður að finna svör við þessum spurningum og fleiri í Efnisskránni.
Áformað er að Efnisskráin verði í sama broti og Sjómannadagsblaðið og mun hún því sóma sér vel við hlíð árganga blaðsins í bókaskápnum. Allt kostar þetta þó peninga. Sjómannadagsráð Vestmannaeyja og þeir, sem standa að þessu verki, vona að Efnisskránni verði vel tekið þegar hún kemur út síðar á árinu.

Guðjón Ármann Eyjólfsson