Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2000/Jón í Sjólyst

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Jón í Sjólyst


Einn sá kunnasti hér á bryggjunum og á miðunum í kringum Eyjarnar undanfarna áratugi er Jón Guðmundsson í Sjólyst. Eflaust halda þeir, sem þar hafa verið síðustu 20 til 30 árin, að Jón hafi alla tíð verið á trillubáti sínum Hlýra VE 305, svo samofnir, gamlir og virðulegir eru þeir.

En svo er nú ekki. Á árum áður átti hann farsælan skipstjórnarferil á ýmsum bátum og fiskaði alltaf mikið. Trillufiskirí var alltaf ríkur þáttur í sjómennsku Jóns eins og þeirra Litlabæjarfrænda. Jón fæddist í Litlabæ fyrir 79 árum, orginal Bæjari eins og hann segir sjálfur. Foreldrar hans voru Jóhanna Jónsdóttir frá Rauðsbakka, á Eyjafjöllum og Guðmundur Ástgeirsson frá Litlabæ í Vestmannaeyjum. Þar átti hann heima til 5 ára aldurs en í Sjólyst næstu 40 árin. Sjólyst var í næsta nágrenni við Litlabæ. Hún var sunnan við Strandveginn milli Strandbergs og Valhallar.

Jón og Hlýri, báðir í nausti. Jón eftir 70 ár á Eyjamiðum, varð áttræður í febrúar sl. og Hlýri eftir 65 ár á sjó

Sjórinn náði, á æskuárum Jóns, alveg að Strandveginum að norðanverðu svo stutt var á leikvöllinn enda var hann öllum stundum í fjörunni með frændum sínum, Sigurjóni (Sigga í Bæ) og Ástgeiri Ólafssonum (Ása í Bæ) frá Litlabæ og Guðjóni Kristinssyni á Miðhúsum. Allir voru þeir bræðrasynir og föðurafi þeirra var Ástgeir Guðmundsson bátasmiður. Guðmundur faðir Jóns var skipasmiður hjá Ástgeiri föður sínum og Ólafi bróður sínum, einnig hjá Gunnari Marel við íslátt og viðgerðir. Hann var líka snjall skipalíkanasmiður. Hann var sjómaður með þessum störfum lengst af á árabátum og trillum með Ólafi bróður sínum og voru þeir sameignarmenn. Ástgeir, afi Jóns, smíðaði marga báta fyrir og eftir að mótorbátarnir komu. Hann annaðist líka flestar breytingar og lagfæringar frá síðustu árum nítjándu aldar fram undir 1935 lengst af undir Hellum en síðust árin heima á Litlabæjarhlaðinu. Hann var jafn hagur á járn og tré, og átti litla eldsmiðju sunnan við Litlabæ. Jón man eftir þegar naglar fengust ekki nema í járnstöngum frá Danmörku í ýmsum sverleikum. Eftir langan vinnudag undir Hellum fór Ástgeir út í smiðju til að smíða nagla fyrir næsta dag. Slá þurfti til odd og haus. Synir hans, þeir Guðmundur, Kristinn og Ólafur stigu físibelginn. Fleiri komu þarna við í spjall. Jón byrjaði strax 5 ára að fara með þeim körlunum á sjóinn og frá 10 ára aldri hvenær sem hægt var frá skólanum. Hann og Sigurjón frændi hans (Siggi í Bæ) byrjuðu svo sjálfir og sjálfstætt að róa á trillu á haustin, þegar þeir voru 15 ára.
Það var síðsumars 1941, þegar síðari heimstyrjöldin stóð sem hæst, að þeir frændur réru á trillu sinni Öðlingi. Aðeins var norðan kæla þegar þeir fóru snemma morguns suður að Sviðum. 5 hestafla vél var í Öðlingi. Þegar þeir komu þangað sáu þeir í vestri bát með segl uppi. Þeir héldu til hans. Kom þá í ljós að þarna var björgunarbátur af norsku skipi. Um borð í honum voru 12 menn. Skipið þeirra hafði verið hlaðið timbri, þegar þýskur kafbátur skaut það niður á milli Vestfjarða og Grænlands. Öll áhöfnin hafði komist í tvo báta og var skipstjórinn á bátnum, sem þeir frændur fundu, en 1. stýrimaður skipsins var í hinum bátnum. Einungis segl voru á skipstjórabátnum, en lítil vél var í hinum, en þeir urðu fljótt olíulausir. Þeir komust upp undir Vestfirði, en náðu þar ekki landi, svo að siglt var suður með vesturströnd Íslands og austur fyrir Reykjanes. Stýrimannsbáturinn lenti í Krísuvík og björguðust þeir allir 12 þar í land. Skipstjórabáturinn náði þar ekki að landi. Þeir frændur drógu bátinn, sem var töluvert stærri en Öðlingur í land. Töluvert var komið af mannskap á Bæjarbryggjuna þegar þeir lögðu að, enda hafði sést til þeina austur með Eiðinu. Þrátt fyrir alla þessa leið frá Grænlandssundi hingað, fyrir svona fleytur, voru aðeins 7 dagar liðnir frá því að árásin var gerð á skipið, þegar þeir Jón og Siggi fundu skipbrotsmennina. Norski skipstjórinn hafði skorið í borðstokk báts síns 1 skoru fyrir hvern dag. Jón segir mennina hafa verið ótrúlega vel á sig komna. Þó þurfti að leggja 3 inn á Sjúkrahúsið hér í nokkra daga. Matarbirgðir voru nokkrar eftir en allt vatn var búið. Þarna sáu þeir frændur í fyrsta skipti nokkurs konar flotbúninga með áföstum stígvélum sem norska áhöfnin klæddist, þau voru þyngd í botninn með blýi, þannig að mennirnir voru lóðréttir í sjónum, hefðu þeir lent útbyrðis.
Skipbrotsmönnunum var komið fyrir á Hótel Berg. Þangað bauð skipstjórinn frændunum og norska konsúlnum hérna. Hann þakkaði þeim vel fyrir björgunina og sagði þeim frá sjóferðum sínum. Hann var í engum vafa um að þýsku nasistarnir mundu tapa styrjöldinni, sem geisaði. Hann gerði ráðstafanir til þess að björgunarbátur þeirra skipbrotsmannanna yrði sendur til Reykjavíkur. Í stríðslok ætlaði hann að fá bátinn til Noregs og koma honum fyrir á lóðinni við íbúðarhús sitt. Daginn eftir björgunina gerði töluverða austanátt, 6 til 7 vindstig, svo þarna fór vel.
Jón byrjaði 16 ára á vetrarvertíð með Þórarni Guðmundssyni á Jaðri á Höfrungi. Höfrungur var 12 tonn. Beitti hann á línunni og réri sem háseti á netunum.
Siðan var hann á Tanga-Ingólfi, Geir goða og Blika með Guðjóni Þorkelssyni í Sandprýði.
Hann byrjaði síðan formennsku eða skipstjórn árið 1941 á dekkaðri trillu sem hét Haddi. Helgi VE 333 hafði fundið þennan bát, þegar hann var að koma úr siglingu frá Englandi. Þeir mágar, Filipus Árnason í Ásgarði og Ólafur Ólafsson á Létti, keyptu bátinn. Dekkaði Ólafur hann og breytti í fiskibát. Þeir mágar fengu svo Runólf Jóhannsson, skipasmíðameistara hjá Ársæli Sveinssyni, til að smíða nýjan Hadda fyrir sig. Hann var 7 tonn og var Jón með hann.
Næst tók Jón Stakksárfoss 12 tonna bát, eigandi Kjartan Guðmundsson útgerðarmaður og ljósmyndari o. fl. Siðan varð Jón skipstjóri á hafnarbátnum Létti í 2 ár. Þá tók hann Kristbjörgu, eigendur hennar voru Rútur Snorrason og Guðni Runólfsson báðir í Steini. Hún var 16 tonn. Þá Lagarfoss 27 tonn, eign Tómasar Guðjónssonar í Höfn. Næst var hann með Farsæl, 52 tonn eigandi Gíslí Sigurðsson, Þá Kap, 54 tonn eigandi Kap h/f og síðasti mótorbáturinn sem Jón var með var Týr 45 tonn eigandi Einar Sigurðsson ríki á Heiði.
Þegar Jón var með Haddana og Stakksárfoss var hann á línu alla vetrarvertíðina. Á sumrin voru þessir bátar ekki gerðir út. Frá og með Kristbjörgu var hann á línu og netum á vetrarvertíðunum og frá og með Lagarfossi á humri á sumrin. Jón var mjög farsæll og fiskaði mikið á alla þessa báta. Hann var líka einn af þessum skipstjórum, sem fór mjög vel með alla hluti og aflabrögðin voru fyrir mikla og góða þekkingu á Eyjamiðum.
Öll sumur áður en hann byrjaði á humarveiðum var hann við lundaveiði, mest í Ystakletti. Mest komst hann í að veiða 40 kippur yfir sumarið. Jón segir að menn veiði meira í dag. Í gamladaga vom reglur strangari sem takmörkuðu veiðigetuna. Hann fór einnig mikið í fýl og til eggja, sérstaklega svartfuglseggja.
Það var svo haustið 1976 að Jón eignaðist trillubátinn Hlýra. Ólafur, föðurbróðir Jóns, hafði smíðað hann fermingarár Jóns 1934. Óli byrjaði að smíða bátinn í október og hann var tilbúinn í mars árið eftir. Hann vann þetta allt sjálfur og einn. Guðmundur bróðir hans var þá hjá Gunnari Marel. Jónarnir í Mandal áttu Hlýra í upphafi og síðan ýmsir þar til Jón eignaðist hann.
Þeir hafa síðan verið samofnir. En á síðasta ári seldi Jón aflaheimildir sínar og Hlýra hefur verið lagt eftir langt og farsælt líf.
BÁRA FRIÐRIKSDÓTTIR