Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2000/Allt er stærra og aflmeira

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Allt er stærra og aflmeira


Rætt við Bolla Magnússon skipatæknifræðing sem hefur unnið mikið fyrir Vestmannaeyinga

Árni Johnsen
Vestmannaey sjósett í september 1972

„Ég er búinn að vinna mjög mikið fyrir Vestmannaeyinga og það er frábært að hafa fengið tækifæri til þess,“ sagði Bolli Magnússon skipatæknifræðingur í samtali við Sjómannadagsblaðið Bolli hefur unnið í faginu í 34 ár. Hann kvaðst hafa unnið mest fyrir Sigurð Einarsson, bæði Hraðfrystistöðina og Ísfélagið, einnig Berg Huginn, Óskar Matthíasson, Viktor Helgason og fleiri. Það segir sína sögu um góð tengsl Bolla við Eyjamenn að hann hefur unnið fyrir alla syni Óskars Matthíassonar sem hafa verið í útgerð. Emman var teiknuð hjá þeim, þeir sáu um byrjunina á nýju Þórunni Sveins, unnu að smíði gömlu Þórunnar Sveinsdóttur og yfirbyggingunni á henni, við sáum um gömlu Bylgjuna fyrir Matta og þannig mætti lengi telja. Til dæmis hefur Bolli unnið að breytingum á 8 skipum fyrir Sigurð Einarsson. Bolli vinnur nú hjá Ráðgarði og hefur gert um langt árabil.

Sá um japönsku togarana

„Fyrstu verkefni mín sem lærðs skipatæknifræðings voru að vinna við hönnun á 300 þúsund tonna risatankskipum í Danmörku hjá Óðinsvé skipasmíðastöðinni á Fjóni, en hún er með stærstu skipasmíðastöðvum í Evrópu. En ég var ekkert hrifinn af þessu stóra, fannst það of stórt og of mikið. Eftir fjögur ár í Danmörku, 3 í námi og eitt við hönnun, kom ég aftur heim til Íslands í árslok 1967. Ég hóf þá vinnu hjá Stálvík og var þar í 10 ár utan eitt ár í Japan. Þá sá ég um smíðina á japönsku togurunum 10, sem allir eru mjög svipaðir og þeirra á meðal er Vestmannaey. Togararnir voru teiknaðir í Japan, en Japanir voru þá langt á undan okkur í skuttogaranum. Japönsku togararnir vom 460 brúttólestir og 47 metra langir. Þeir eru allir í rekstri ennþá á Íslandi utan einn þeirra, Arnar, sem var seldur til Bandaríkjanna og veiðir nú í Ohkotska fyrir austan Síberíu.

Kandwindwi og Ndunduma við bryggju í Malaví
Bolli Magnússon við Malavivatn. Ndunduma í baksýn

Í Stálvík voru mörg skip smíðuð, þar á meðal Þórunn Sveinsdóttir fyrir vin minn Óskar Matthíasson. Það var skemmtilegt í fyrrakvöld að fyrir algjöra tilviljun sat ég við hliðina á Sigurjóni Óskarssyni í flugvél heim til Íslands frá London. Jú, japönsku togaramir hafa reynst mjög vel og við hjá Ráðgarði sáum um endurbyggingu 6 þeirra og lengingu í Póllandi 1988 og 1989. Þeir eru nú 27-28 ára gamlir og í fullu fjöri. Annars hefur þróunin auðvitað verið mjög mikil í þessu. Þegar þeir japönsku komu þá voru þetta stórir og fullkomnir togarar, gerðir fyrir eitt troll og með 2000 hestafla vélar. Nú hefur þetta allt stækkað og er orðið miklu flóknara og dýrara þar af leiðandi. Síðasta stóra skipið sem við hönnuðum fyrir Portúgali var 70 metra langt og 14 metra breitt með 4000 hestafla vél, 2000 tonn, feikna mikið skip.

Nýi Ófeigur verður mjög sérstakt skip.
Þessar vikurnar snýst dæmið verulega um Kína, ég var að koma þaðan. Þar er verið að smíða tvö skip sem við höfum hannað, nýr Ófeigur fyrir Stíganda Vestmannaeyjum og nýtt kúfiskveiðiskip fyrir Þórshöfn. Nýi Ófeigur fyrir Viktor Helgason verður sérstakt skip, fyrsti togarinn sem jafnframt er túnfiskveiðiskip. Kúfiskveiðiskipið verður stærsta og fullkomnasta kúfiskveiðiskip í heiminum, 38 metra langt og 9,4 metrar á breidd. Flest Ameríkuskipin eru 30 x 8 metrar.Nýja skipinu er ætlað að veiða mest austan og vestan Langaness.
Útfærslan á Ófeigi er eins og ég sagði mjög sérstök. Skipið er 42 metra langt og 11,20 m á breidd, mikið skip sem stefnt er að setja á flot í næsta mánuði og afhenda í ágúst. Vélarnar í Ófeigi eru frá Danmörku MAN/BW, alveg ný útfærsla á vél, sú fyrsta af þessari tegund sem aðalvél í skipi. Þetta er feiknalega flott vél, 1350 hestöfl, en skipið er 700 tonn. Nýi Ófeigur verður öflugasta skip íslenska flotans sem má veiða upp að 4 mílunum.

Einbýlishús í Malavi. Byggingarkostnaður um 2000 kr.

Kínaskipin á besta verði sem þekkist

Malawi fiskibátur

Það hefur verið mikil þróun á síðustu 30 árum. Nú er um að ræða mun afkastameiri skip, miklu meiri orka, öflugri spil, vélar, stærri veiðarfæri og sitthvað fleira en mest bylting hefur orðið á á rafeindatækjum, tvö troll eru komin og það þriðja er á dekki á stóru skipunum. Ég hygg að það sé alveg ljóst að verð á skipum núna í Kína er það besta sem Íslendingum hefur boðist. Ef skip kostar 100 milljónir í Kína, kostar sama skip um 130 milljónir í Austur-Evrópu og um 160 milljónir í Vestur Evrópu. Þess má geta að Ístún frá Vestmannaeyjum er nú með í Kína í byggingu 1000 tonna línuveiðiskip, 50 x 12 metra að stærð.

'Malavíuverkefnið einstaklega skemmtilegt
Skemmtilegasta verkefnið? Það held ég að sé verkefni sem ég sá um fyrir Malavíu, smíði tveggja lítilla skipa fyrir Malavíumenn. Ég fór á sínum tíma til þessa Afríkuríkis og kynnti mér aðstæður á Malavíuvatninu í Mið Afríku. Það er 27 þúsund ferkílómetrar, eins og einn fjórði af Íslandi. Úr varð að byggja tvö skip 17 metra löng, annað er fiskiskip, hitt hafrannsóknarskip. Þau heita Kandwindwi eftir þarlendum fugli og Ndunduma eftir fiski. Við fluttum þau í pörtum frá Íslandi til Tansaníu og síðustu 1200 kílómetrara að Malavíuvatninu á trukkum. Þau hafa reynst afbragðs vel og hafa valdið byltingu í veiðum og möguleikum. Þau eru að veiða 4-5 tonn á dag þessi litlu skip og mega ekki veiða á grynnra vatni en 100 metrum þannig að þau taka ekki neitt frá litlu bátunum sem eru á grynnra vatni. Það veiðast 30-40 tegundir af fiski í róðri en alls eru um 400 fisktegundir í þessu stóra vatni.
Árni Johnsen