Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2000/Þjóðverjar á Íslandsmiðum

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Þjóðverjar á Íslandsmiðum

Guðjón Ármann Eyjólfsson

Fyrr á öldum bardagar um skreið
Þýskir sjómenn eiga sér langa sögu á Íslandi og Íslandsmiðum. Þýskir kaupmenn fengu hér verslunarleyfi ásamt Englendingum árið 1490. Um og eftir 1500 og langt fram á 16. öld sló oft í blóðuga bardaga milli þessara þjóða um skreið og aðstöðu til fiskveiða á Íslandi. Helsta höfn Þjóðverja og mikilvægasta aðsetur var í Hafnarfirði og þar var reist þýsk kirkja stuttu eftir 1530 sem sýnir hvað umsvif þeirra voru mikil. Í Sögu Íslands segir Björn Þorsteinsson sagnfræðingur: „Þjóðverjar höfðu oftast betur og voru vinsælli meðal landsmanna en Englendingar sem nutu hér ekki mikillar hylli.“ Iðulega er getið um bardaga og blóðsúthellingar. Árið 1532 varð t.d. blóðugur bardagi í Grindavík milli Englendinga og Þjóðverja, (Hamborgar- og Brimakaupmenn) út af skreið. Réðust 280 Hamborgarar og Brimamenn á Englendinga, rændu varningi og felldu 15 þeirra. Englendingar gerðu ýmsan óskunda, rændu fé og fólki og eyðilögðu veiðarfæri. Þeir gerðu t.d. mikinn usla í Grindavík árið 1538 og voru því illa þokkaðir meðal landsmanna. Vestmannaeyjar voru ein helsta bækistöð Englendinga á 15. öld. Árið 1412 er Englendinga fyrst getið við fiskveiðar á Vestmannaeyjamiðum. Um tíma tóku Englendingar Eyjarnar herskildi og réðu þar lögum og lofum, handtóku hirðstjóra Danakonungs, þá Hannes Pálsson og Baltasar van Damme og fluttu til Englands árið 1425.
Árið 1514 var mikill bardagi milli Íslendinga og Englendinga í Vestmannaeyjum og féllu þar 14 menn. Það voru að öllum líkindum bein þeirra sem fundust, þegar grafið var í Miðhúsatúni fyrir húsinu Höfn við Bakkastíg árin 1928-1929. Í Eyjum reistu Englendingar kastala. Æskuheimili Hannesar lóðs hét t.d. Nýi kastali og á nafnið uppruna að rekja til kastala Englendinga og tómthúshverfis sem nefnt var Kastali og var við Vesturveg, austanverðan.
Hansakaupmenn
Fyrsta þýska kaupfarið sem fullvíst er að hafi siglt til Íslands var frá Danzig og kom til Íslands árið 1432. Um 1475 hófu Hamborgarar og Hansakaupmenn frá Norðursjávarborgum Þýskalands eins og Bremen að sigla til Íslands.
Hansakaupmenn nefndist verslunarsamband kaupmanna í þýskum borgum, einkum viö sunnanvert Eystrarsalt. Aðalaðsetur Hansakaupmanna var lengi í Björgvin (Bergen) í Noregi og fór mest öll Íslandsverslunin um þá borg, sem var veraldlegur höfuðstaður Íslands, stjórnsýslu- og verslunarmiðstöð á 14. öld, frá 1319 og fram undir 1400.
Á árinu 2000, þegar minnst er 1000 ára kristnitöku á Íslandi fer ekki illa á því að rifja upp þessi tengsl og þá sérstaklega við borgina Bremen. Bremen er fornfræg borg í Norðvestur-Þýskalandi og liggur langt upp með fljótinu Weser.

Fyrsti biskup yfir Íslandi, Ísleifur Gissurarson, var vígður í Brimum, eins og borgin var og er oft nefnd í íslenskum heimildum fyrr á öldum. Ísleifur var vígður árið 1056 af Aðalbjarti erkibiskupi í Brimum frá 1043-1072, en þar var erkibiskupsdæmi fyrir Norðurlönd. Frá Brimum og Neðra Saxlandi kom Friðrekur biskup sem ásamt Þorvaldi víðförla, frá Stóru-Giljá í Austur-Húnavatnssýslu, boðaði kristna trú á Íslandi á árunum 981 - 986.
Sagitta frá Bremerhaven, fyrsti gufutogari Þjóðverja, smiðaður árið 1884/85, 151 rúmlest. Sagitta ásamt franskri skútu á Víkinni út af Dyrhólaey. - Málverk eftir Hans-Peter Jürgens

Árið 1525 veitti Danakonungur leyfi til fríverslunar á Íslandi. Eftir það sigldu árlega sex til tíu skip frá Bremen til Íslands með korn, margs konar handunna vöru og öl, en í Bremen er aldagömul hefð fyrir ölgerð. Þar í borg eru höfuðstöðvar hins þekkta Beck-bjórs. Frá Íslandi var siglt með fisk, sem veitti innfluttum fiski frá Noregi og þá einkum Bergen harða samkeppni eins og reyndar enn þann dag í dag. Með einokunarverslun Dana árið 1602 í anda kaupauðgistefnunnar (merkantilismans) hrundi þessi verslun og siglingar Brimakaupmanna.
Bremen og Bremerhaven
Bremerhaven er Íslendingum og þá sérstaklega sjómönnum vel kunn, borgin liggur nær ármynni Weser, í 60 kílómetra fjarlægð frá Bremen, og byggðist þaðan árið 1836.
Bremen og Bremerhaven mynda eitt af sambandsríkjum Þýskalands, í Bremen búa um 600 þúsund manns, en í Bremerhavern eru um 200 þúsund íbúar.
Héraðið umhverfís Bremen heitir Neðra-Saxland. Bremerhaven var lengi ásamt Cuxhaven, sem er þar skammt frá við fljótið Elbu (Saxelft), einn stærsti útgerðar- og togarabær í Þýskalandi, en þar ofar við fljótið er Hamborg. Í Bremerhaven er frábært sjóminjasafn, (Deutsche Schiffahrtsmuseum) safn fiski- og hafrannsókna (Nordseemuseum) og ágæt veitingahús með fiskrétti sem sérgrein. Ásamt Antwerpen, Rotterdam, Hamborg og Felixstowe er Bremerhaven ein stærsta gámahöfn í Evrópu með 2,3 kílómetra aðlegukant fyrir gámaskip. Árlega fara um höfnina 850 þúsund TEU-gámar (tuttugu feta gámar, TEU=Twenty-foots equivalent units) og sigla þangað risaskip með allt að 12 metra djúpristu, sérstaklega er þar mikill inn- og útflutningur bíla.
Þýskir togarar á Íslandsmiðum
Sambandið milli Íslands og Þjóðverja, einkum frá strandhéruðum Norðursjávar hófst aftur með fiskveiðum Þjóðverja og sókn þeirra á Íslandsmið í lok 19. aldar.
Fyrsti þýski togarinn fór til veiða á Íslandsmið árið 1891. Þessi fyrsta veiðiferð var enginn glanstúr, en ísinn var brotinn og þýskum togaramönnum varð ljóst að Íslandsmið voru mikil gullkista. Frá 1893 stunduðu Þjóðverjar umtalsverðar fiskveiðar hér við suðvesturströnd Íslands. Það ár fór togarinn Toni frá Bremerhaven til veiða við Ísland. Í kjölfar hans fylgdu fjórir togarar og í þeim hópi voru President Herwig og fyrsti gufutogari Þjóðverja, Sagitta, sem sjást hér á myndum. Árið 1902 hófu þýskir togarar veiðar við suðausturland. Prasident Herwig, fyrsti þýski togarinn sem fór til veiða á Íslandsmið árið 1891. Hann var 34 metrar á lengd, 173 brúttórúmlestir og með 250 hestafla gufuvél, smíðaður árið 1887. Togarinn strandaði hér við Ísland í mars 1898.
og fór afli þeirra vaxandi allt fram til fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1914. Fyrsta þýska sjókortið af Íslandsmiðum kom út árið 1899.
Hér gerðist sama þróun og varð meðal annarra stórþjóða í Vestur-Evrópu, Englendinga og Frakka, sem höfðu mest umsvif erlendra fiskimanna hér við land.
Það er þorskurinn og hin gjöfulu Íslandsmið sem verða til þess að fiskimenn þessara landa halda út á hafið og sigla fleiri hundruð sjómílna leið til veiða hér við Ísland. Í norðurþýsku fiskveiðiborgunum fór nú í hönd blómatími, tími líflegra viðskipta með fisk og útgerðarvörur. Verslun og viðskipti, sjómennska, útgerð og skipasmíðar efldust af ótrúlegum þrótti.
Á þessum árum sóttust þýskir togarar einkum eftir þorski og ýsu. Sjómenn frá norðvesturhéruðum Þýskalands, Bremen, Bremerhaven, Cuxhaven og Hamborg sem sigldu hingað og fiskuðu hér við Ísland kynntu sig vel, enda býr þarna mjög traust fólk.
Útgerð þýskra togara var eftir þetta umtalsverð allt fram til 1975. Árið 1950 voru gerðir út 108 úthafstogarar frá Vestur-Þýskalandi, eins og Sambandslýðveldið hét, meðan Þýskalandi var skipt í tvo hluta eftir síðari heimsstyrjöldina; 61 togari var þá gerður út frá Bremerhaven, 21 frá Cuxhaven, 14 frá Kiel og 12 frá Hamborg.

Sóknin á veðrasöm Íslandsmið kostaði sjómannastétt þessara borga fórnir. Á árunum 1906 til 1931 , þ.e. á 25 árum, fórust 46 þýskir togarar við Ísland.
Prasident Herwig, fyrsti þýski togarinn sem fór til veiða á Íslandsmið árið 1891. Hann var 34 metrar á lengd, 173 brúttórúmlestir og með 250 hestafla gufuvél, smíðaður árið 1887. Togarinn strandaði hér við Ísland í mars 1898

Stundum skarst í odda
Þó skarst stundum alvarlega í odda með Íslendingum, þýskum og enskum landhelgisbrjótum og stóðu Vestmannaeyingar þar í fremstu víglínu. Frammistaða Eyjamanna var einstök. Þeim tókst að stugga verulega við erlendum togurum innan landhelginnar og taka ófyrirleitna skipstjóra fasta og færa þá til hafnar í hendur réttvísinnar, þar sem réttað var í máli þeirra. Engin íslensk varðskip voru þá hér við gæslu landhelginnar og aðeins eitt danskt varðskip sá um gæsluna. Fyrsta björgunar- og varðskip Íslendinga, Þór, sem Björgunarfélag Vestmannaeyja stóð fyrir kaupum á, kom til Vestmannaeyja 26. mars 1920 og hóf þá strax landhelgisgæslu og aðstoð við bátaflotann. Erlendir togarar voru oft staðnir að brotum á miðunum. Þegar þeir leituðu vars við Eyjarnar var sætt færis og mannsöfnuður fór um borð og handtók skipstjórana. Náðist þannig til margra veiðiþjófa og landhelgisbrjóta.
Rósagarðurinn
Út af suðausturlandi er vel þekkt og víðáttumikið fiskimið, sem er nú innan 200 sjómílna landhelginnar og var mjög vinsælt meðal þýskra fiskimanna. Þeir gáfu miðinu namið Rosengarten, sem íslenskir sjómenn kalla Rósagarðinn. Þetta er grunn á Íslands-Færeyjahryggnum, suðaustur af Hvalbak, suður af Rauðatorginu. Á yfirlitskorti Sjómælinga íslands af Íslandsmiðum er miðið ritað upp á þýsku sem Rosengarten. Þetta er óviðeigandi innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og þyrfti að breyta eins og gert var með nafnið á Hvítabjarnarboða suður af Einidrangi við Eyjar.
Ég hefi fengið tvær skýringar á nafni Rósagarðsins. Önnur er frá íslenskum fiskifræðingi, sem telur að nafnið Rósagarður mun vera tilkomið frá skrautlegum og litsterkum kóral, sem hefur komið upp með trollinu. Kenni þarna áhrifa sjómanna frá Hamborg, en sunnan við Hamborg er stórt svæði, sem heitir þessu sama nafni, Rosengarten. Hin er úr bók Fritz Brustat-Naval, sem heitir „Fischer vor Island“- Harte Manner im Nordatlantik eða Fiskimaður við Ísland - Harðjaxlar á Norður-Atlantshafi. Hann segir að nafnið Rósagarður sé komið frá ágætum afla á karfa, sem er eins og allir þekkja fagurrauður og heitir „Rotbarsch“ á þýsku.

„En hvort þetta er rétt veit ég ekki með vissu. en eitt veit ég“, segir höfundur: „Engin rós er án þyrna. Við hengilrifum pokann í fyrsta halinu [í Rósagarðinum] og eins og okkur til háðungar fengum við aðeins einn karfa í halinu.“
Mismunandi tegundir karfa.png

Þýskir togarar fyrir og eftir stríð

Eftir að fyrri heimsstyrjöldinni (1914 - 1918) lauk, héldu þýskir togarar aftur á Íslandsmið og voru hér að veiðum þar til síðari heimsstyrjöldin braust út haustið 1939.
Karfaafli á Íslandsmiðum frá lokum síðari heimsstyrjaldarinna
Útbreiðsla karfategunda í Atlantshafi. Rauður litur táknar aðalútbreiðslu úthafskarfa i Grænlandshafi. Á djúpmiðum er úthafskarfi talinn sérstakur stofn djúpkarfa og er mun minni en aðalstofninn
Þjóðverjar hófu svo aftur veiðar hér við land eftir að stríðinu lauk, vorið 1945. Þá voru sérstaklega erfiðir tímar í Þýskaland og landið bókstaflega í rúst eftir styrjöldina. Almenningur bjó í húsarústum við þröngan kost og nærri því hungursneyð. Sem ungum dreng og unglingi í Vestmannaeyjum er mér minnisstætt, þegar þýsku togararnir fóru að koma inn til Vestmannaeyja eftir stríðið. Á þeim árum kom þar alltaf fjöldi erlendra skipa, færeyskar handfæraskútur, enskir og þýskir togarar. Það var eftirtektarvert hvað þýsku sjómennirnir voru snyrtilegir, fátæklega klæddir, en hreinir. Félagar þeirra Englendingarnir eða „Tjallarnir“ eins og þeir voru gjarnan nefndir man ég eftir að voru stundum að göslast uppi í bæ á hvítum klofstígvélum og sumir jafnvel með kolmórauðan tvist um hálsinn, en margir togarar voru þá kolakyntir. En mér fannst alltaf fylgja Bretunum meiri glaðværð og galsi. Færeyingarnir tóku lífinu ætíð með stóiskri ró. Það mesta sem þeir sögðu var: „Hvað segir tú gamli ?“ Þá eins og nú fannst okkur ekki að Færeyingar væru útlendingar. Þeir voru einir af okkur og sýndu okkur bryggjustrákunum ávallt einstaka velvild og umburðarlyndi.
Kort af Vestmannaeyjum.png

Haf- og fiskirannsóknir
Þýskir togarar lögðu sig einkum eftir karfa og veiddu um 120 þúsund tonn árið 1953. Á þessum árum gerðu þeir út rannsóknar- og aðstoðarskip með flotanum fram undir 1980, skipin Meerkatze, Poseidon, Walter Herwig og Anthon Dhorn, sem Dhornbanki er kenndur við, en Anthon Dhorn og Walter Herwig sinntu aðallega rannsóknum.
Þjóðverjar og Íslendingar höfðu með sér samvinnu á sviði haf- og fiskirannsókna. Árið 1961 fann þannig leiðangur gotsvæði karfans í austanverðu Grænlandshafi. Í framhaldi af því jókst mjög þekking á lifnaðarháttum karfans með rannsóknum Hafrannsóknarstofnunar undir stjórn Jakobs Magnússonar fiskifræðings. Sýnt var fram á að af karfanum eru til þrjár tegundir, litli karfi, stóri karfi og djúpkarfi, en þessi aðgreining er mjög mikilvæg með tilliti til nýtingar á karfastofnunum. Einnig gerðu þýskir vísindamenn merkar rannsóknir á veðurfari hér við landið, t.d. eru línurit til að áætla ísingu á skipum á hægri ferð, sem er nú að finna í öllum sjómannaalmanökum niðurstöður þýska vísindamannsins Mertins og sýna áhrif og samspil vindstyrkleika, hitastigs lofts og sjávar á yfirísingu skipa. Töflurnar eru því stundum kallaðar Mertinstöflur.

Eftir útfærslu landhelginnar í 50 sjómílur árið 1972 og í 200 sjómílur árið 1975, átökum og lokun fiskmarkaða fyrir Íslendingum í kjölfar útfærslunnnar, dró mjög úr fiskveiðum Þjóðverja sem og annarra þjóða við Ísland. Árið 1978 lauk að mestu fiskveiðum þýskra togara á Íslandsmiðum.
Þýskir togarar í slipp. Annar þeirra er Eimsbüttel frá Cuxhaven. Sr. Jón Thorarensen frá Kotvogi í Höfnum fór ásamt félögum sínum um borð í togarann á Hafnaleir. - Málverk eftir Hans-Peter Jürgens

Togaratakan 23. mars 1914
Það fer ekki miklum sögum af fiskveiðum Þjóðverja hér við land miðað við frásagnir af enskum og sérstaklega frönskum sjómönnum.
Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja árið 1960 eru merkilegar frásagnir. Löng og ítarleg grein eftir Jóhann Gunnar Ólafsson „Minnisstæðar væringar í landhelginni“, þar sem hann rekur tökur erlendra togara við Eyjar. Árni J. Johnsen skrifar grein sem heitir „Togaratakan við Vestmannaeyjar 23. mars 1914“ um hörð átök um borð í þýska togaranum Búrgermeister Mönkeberg H.C. 2 frá Cuxhaven. Skipstjórinn hét Benjamín Modersitzkí, 32 ára gamall. Í ævisögu Einars rika „Fagurt er í Eyjum“, sem Þórbergur Þórðarson skráði er einnig sagt ítarlega frá töku togarans.
Búrgermeister Mönkeberg var ásamt öðrum útlendum togurum, enskum og a.m.k. einum frönskum togara, að veiðum langt fyrir innan landhelgi, „um 1/4 sjómílu frá Sandinum, fram af Sandabæjunum.“ Samtals voru þarna tíu togarar að veiðum, allir hrægrunnt frá landi. Þeir höfðu verið þarna á aðra viku og gert mikinn usla í veiðarfærum Eyjabáta.
Vestmannaeyingar lögðu til sögulegrar atlögu við landhelgisbrjótana 23. mars 1914. Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri (f. 1851 - d. 1916). (faðir Einars ríka og afi Sigurðar Einarssonar, Ágústs fyrrv.alþm. og þeirra systkina) hafði forystu fyrir Eyjamönnum. Sigurður hreppsstjóri var hverjum manni ákveðnari, snarráður og fylginn sér. Honum er lýst svo að hann hafí verið harðskeyttur við lagabrjóta og annað illþýði, skarpgáfaður og skáld gott. Sigurður ritaði reglulega fréttapistla frá Vestmannaeyjum og skrifaði greinargóða frásögn um handtöku þýska togarans í dagblaðið Vísi hinn 17. apríl 1914, um þremur vikum eftir að þetta gerðist.
Þýskur togari tekinn inn af Ellirey

Farið var á tveim vélbátum, Sæfara VE 157 undir skipstjórn Sveins Jónssonar á Landamótum og Hlíf VE 166. Skipstjóri á Hlíf var [[Kristinn
Sigurður Sigurfinsson, hreppstjóri (f. 1851 - d. 1916)
Ingvarsson|Kristinn Ingvarsson]] frá Júnkaragerði í Höfnum, bróðir Stefáns, sem kenndur var við Kalmanstjörn við Vestmannabraut. Samtals voru, að fyrirmælum Karls Einarssonar sýslumanns, 24 röskir menn með í förinni. Aðför þessi og viðureign varð landsfræg og umtöluð í blöðum erlendis, en Vestmannaeyingarnir stóðu í slagsmálum og stympingum við Þjóðverjana lengi dags. Haldið var úr höfn í Eyjum klukkan rúmlega þrjú síðdegis. Klukkan rúmlega fjögur voru bátarnir komnir að landhelgisbrjótunum.

Ákveðið var að ráðast til atlögu við þýskan togara í hópnum sem var þá norðaustur af Ellirey.
Þegar komið var að Búrgermeister Mönkenberg var togarinn í miðinu: „Litli Þríhyrningur rétt upp á Seljalandsmúla, Hrauney við Ufsaberg og Helgafell fast vestan við vesturkant Bjarnareyjar. Hellutá (Landsuðurhornið á Stórhöfða) inni i Hellisey að vestan.“
Þeir sem höfðu valist til uppgöngu í togarann héldu sig neðan þilja í lúkarnum, en á dekki voru sjóklæddir sjómenn og var þetta gert til þess að koma togaramönnunum að óvörum. Mótorbátarnir lögðu sinn við hvort borð togarans og þustu þá Eyjamenn, 18 talsins, í einni svipan upp í togarann.
Vestmannaeyingarnir voru vopnaðir einni skammbyssu og með tvo afturhlaðninga.
Þegar þeir voru komnir um borð í togarann lögðu mótorbátarnir frá. Í þessum hópi var margt afburða hraustmenna, afrenndir að afli, og kom það í ljós að ekki veitti af því. Þrír þeirra Eyjamanna voru enskumælandi. Sigurður hreppstjóri fór rakleiðis með þá og nokkra sinna manna upp á stjórnpall, þar sem skipstjórinn var við stjórn skipsins.
Margir síðar þekktir Vestmannaeyingar voru í þessum hópi, bræðurnir Kristinn og Stefán Ingvarssynir, sem fyrr eru nefndir og Magnús í Hlíðarási, allir þekktir að kröftum, einnig voru þar bræðurnir Árni (afi Árna þingmanns) og Guðni Johnsen (faðir Rögnvaldar), sem byggði Ásbyrgi, Árni Sigfússon Löndum (faðir Elínar, konu Gunnars í Gerði), Ólafur Eyjólfsson á Garðsstöðum (faðir Leifa í [[Laufási), Kjartan Ólafsson í Húsavík (faðir Jóns verkalýðsforingja), Eyþór Þórarinsson frá Oddsstöðum (afi Þorgeirs Baldurssonar í Odda), Hlíf VE 166. 9 rúmlestir med 12 hestafæa vél.
Kjartan Eyjólfsson, sem ættaður var undan Eyjafjöllum og Jakob Sigurðsson, Austfirðingur að ætt.

Harðvítug viðureign
Sæfari VE 157. 12 rúmlestir með 12 hestafla vél
Hlíf VE 166. 9 rúmlestir með 12 hestafla vél

Viðureignin við Þjóðverjana varð harðvítug og löng, því að skipstjórinn þverneitaði að fylgja fyrirmælum Sigurðar hreppstjóra. Kom til harkalegra handalögmála í brúnni og sóttu skipverjar að brúnni með hnífum, einnig ætluðu þeir „að láta vélina spúa heitu vatni á þá Eyjamenn“ sem voru í brúnni, „en því varð afstýrt með því að sýna þeim skammbyssuna og hleypa af einu skoti“ skrifaði Sigurður hreppstjóri.
Þegar Eyjamenn höfðu staðið í hörku slagsmálum og stímabraki í rúma tvo tíma skipaði Sigurður Sveini á Landamótum, sem var með Sæfara, að fara til lands og sækja sýslumann og liðsauka. Mótorbáturinn Hlíf undir stjórn vélstjórans, Vilhjálms Magnússonar frá Fögruvöllum, fylgdi áfram togaranum eftir.
Sæfari kom aftur að Burgermeister Mönkeberg klukkan að ganga tíu um kvöldið og var þá komið myrkur. Togarinn hafði saxað út á og var kominn utar og lengra frá landi, austnorðaustur af Ellirey. Karl Einarsson sýslumaður kom um borð og hafði með sér túlk, best Alexander Jóhannesson, síðar prófessor og rektor Háskóla Íslands. Alexander var mikill vinur Þjóðverja, doktor í þýsku, sem hann talaði reiprennandi. Einnig voru í för með sýslumanni Hannes lóðs, Matthías Finnbogason á Litluhólum og Konráð Ingimundarson í Götu, sem báðir voru ágætir vélstjórar og var þeim, ef á þyrfti að halda, ætlað að stjórna vélinni, sem vélstjórinn hafði stöðvað.
Eftir nokkurt þóf við sýslumann féllst skipstjórinn loks á að sigla skipinu til hafnar. Klukkan eitt um nóttina, „drattaðist botnvörpungurinn af stað til Eyja og lagðist á Víkina kl. um þrjú. Um morguninn var skipstjóri fluttur í land.
Eftir allmikla þrætu var hann dæmdur í 1350 kr. sekt og veiðarfæri og afli gert upptæk“, segir í fréttabréfi Sigurðar hreppstjóra.
Fékk þar margur ódýra soðningu ekki síst sveitamenn, að sögn Árna J. Johnsen.

Um borð í þýskum togara á Hafnaleir
Teikningar af Eyjum.png
Eyjamið og þriggja sjómílna landhelgin frá 1901 til 1952.png
Teikningar af Eyjum 2.png

Ekki voru allar sögur af viðskiptum við þýska togaramenn eins og hér hefur verið greint frá.
Í minningabók sinni Litla skinnið segir Sr. Jón Thorarensen prestur í Neskirkju (f. 1902 - d. 1986) frá æsku sinni og uppvexti í Kotvogi í Höfnum. Þar segir hann í kafla sem nefnist „Frá sokkabandsárum í Kotvogi“ frá því þegar hann og þrír félagar hans fóru um borð í þýska togarann Eimsbuttel frá Cuxhaven á Hafnaleir, þar sem þeir voru á skaki.
Í ævisögu þýska skipstjórans og sjávarmyndamálarans, Hans Peter Jurgens, „Sturmsee und Flauten“ eða „Stórsjór og stillur“ eru margar ágætar myndir þar á meðal af togaranum Eimsbuttel, sem er dæmigerður þýskur togari frá þessum tíma. Greinilegur munur var á byggingarstíl og lagi þýskra og enskra togara og minnir þetta á að einnig er slíkur munur á byggingarlagi herskipa, t.d. eru ensk herskip með lóðréttan skorstein, amrískir tundurspillar með reykhlíf á skorsteini o.s.frv.
Af þýskbyggðum íslenskum togurum frá fyrstu árum togaraútgerðar má t.d. nefna Þór, sem var í fyrstu varðskip, en árið 1947 keyptu þeir Binni í Gröf og Ólafur Kristjánsson bæjarstjóri skipið, sem var 226 rúmlestir brúttó og skírðu Sævar VE 102. Þeir áttu skipið í rúm tvö ár og var Sævar bæði á togveiðum og síld fyrir norðurlandi á sumrin.
Frá 1914-1926 voru smíðaðir sjö togarar í Bremerhaven fyrir Íslendinga. Þeir voru allir með gufuvél og kolakyntir. Sá stærsti hét Gyllir RE 267, afhentur útgerðarfélaginu Sleipni 13. febrúar 1926. Gyllir var 366 brúttórúmlestir með 650 hestafla vél og þá stærsti og öflugasti togari sem hafði verið smíðaður í Þýskalandi.
Sjóvettlingar og koníak
Sr. Jón Thorarensen skrifar um þessa heimsókn á Hafnaleir um borð í þýska togarann. Þetta var í blíðskaparveðri seint á jólaföstu og ýsa var gengin á leirinn.
Þeir voru fjórir félagarnir á fjögurra manna fari og renndu fram á Hafnaleir.
„Það var góðviðrislegt hvert sem litið var, og bjart til vestursins, hægt veður, en ylgja tölu verð.
Ekki man ég nú, hve lengi við höfðum verið við fiskdrátt, þegar svartur skipsskrokkur kom æðandi sunnan frá Hafnabergi og öslaði beint til okkar. Við hættum að keipa og störðum á þetta, enda var þetta hjá okkur eins skemmtiróður eins og fiskiróður.
Þegar nær kom, sáum við að þetta var togari og þýzkur togari eftir merkjum hans að dæma. Hann hægði ferðina, þegar hann kom að okkur og stöðvaðist þó ekki fyrr en nokkuð norðan af okkur. Aftast á skipinu kom maður fram á öldustokkinn og veifaði til okkar. Jafnskjótt var öll hugsun um fiskdrátt horfin frá okkur. Við höfðum uppi strax, lögðum út og rérum að togaranum. Á leiðinni sagði Mangi:
„Líklega vilja þeir verzla. Við sleppum því tækifæri ekki. Þú verður túlkur Nonni og dugðu okkur vel.“
Þegar við renndum að togaranum, sagði sá þýzki: „Eruð þið að fiska, strákar, hvernig gengur hjá ykkur?" Við létum vel yfir því. „Má bjóða ykkur te og kex?“ Það var samþykkt. Vorum við nú hraðir við að fara upp í skipið og binda bátinn við það. Kom nú skipstjórinn og kynnti sig og bauð okkur niður í káetu. Hvort þetta var káeta eða annað, þá var salur þessi með afbrigðum fallegur og þrifalegur og allir innviðir glampandi fagrir úr mahogný. Borð var í miðju og fastir stólar, sem við settumst á. Nú var framreitt te og kex með á fati. Mangi deplaði augum til mín og sagði: „Spurðu þá strax, hvort þeir vilji verzla?“ Eg gerði það. Skipstjórinn, sem var að láta ofurlítil glös hjá hverjum okkar við hliðina á tebollunum svaraði um leið og hann hellti líkjör í glösin: „Já, gjarnan, ef þið eigið eitthvað úr ull.“ Við sögðumst ekkert hafa nema sjóvettlinga okkar, en veðrið væri hlýtt og gott og stuttur róður í land, svo við gætum vel látið þá. „Sjóvettlingar eru það bezta, sem við getum fengið. Við skulum borga þá vel. Hvað viljið þið?“ „Koníak“, gall Mangi við. Þá hló skipstjórinn og sagði: „Því höfum við nóg af.“ Við vorum allir með góða sjóvettlinga, það voru fjögur pör, sem við höfðum og einu pari var af tilviljun stungið hjá hnélistanum í andófinu á stjór. Það hafði gleymzt þar. Það var líka slitið og götótt. Við fengum samt út á þetta slitna par eins og góðu vettlingana.
Eftir að við höfðum drukkið te og eitt staup af líkjör og verzlað, kvöddum við með þakklæti fyrir góðar viðtökur og héldum heim.
Hreppstjórinn á góðum degi
Þegar við komum í Kirkjuvogsvör, var hreppstjórinn mættur þar. Hann stóð niðri við flæðarmálið og mælti, þegar bátur okkar renndi upp í það: „Jæja, piltar mínir! Við sáum til ykkar þegar þið fóruð í togarann. Þið vitið, að ég er hreppstjórinn, og ég á að framfylgja lögunum. Nú kæri ég ykkur fyrir sýslumanninum í Gullbringusýslu. Hann er í Hafnarfirði. Ég kæri ykkur fyrir að brjóta sóttvarnarlögin, heilsugæzlulögin, bannlögin og gera tilraun til að flytja útlendar sóttkveikjur inn í landið. Allt, sem þið eruð með í bátnum er smygl og brot á tollgæzlulögum landsins. Þar er hægur nærri að ná í sýslumanninn, síðan síminn kom í Hafnahrepp.“
Ekki varð þó frekari rekistefna út af ferð strákanna í þýska togarann.
Mangi, félagi Jóns skipti aflanum: „Hreppstjórinn fékk heilan hlut af koníaki, 2 flöskur. Andlit hans var nú eitt sólarbros. Hann mælti um leið og hann fór:
„Hafið blessaðir gert. Þið eruð vænir drengir. Mikinn öðlingsskipstjóra* hafið þið hitt. Það getur verið unaðslegt á Hafnaleirnum stundum. Fylgizt með blessuðum manninum, ef hann skyldi koma aftur. Ég gef ykkur hér með leyfi að fara út í hann, eins oft og mögulegt er.“
Lýkur hér frásögn og tilvitnun í bók Sr. Jóns Thorarensen og mun þessi skemmtilega og líflega frásögn hans vera raunsönn lýsing á viðskiptum þorra Íslendinga við erlenda sjómenn hér við landið á fyrstu árum togaranna á Íslandsmiðum, um og eftir aldamótin 1900.
Þýskir togarar á Eyjamiðum
Fyrir þremur árum síðan birti ég teikningar af miðum og staðsetningu togbauja þýskra togara í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja. Þessar ágætu teikningar voru úr aukahefi þýsku leiðsögubókarinnar fyrir Ísland, Færeyjar og Jan Mayen frá 1934, en aukaheftið var gefið út í Berlín árið 1937.

Nokkur nöfh eru tengd fiskveiðum Þjóðverja á Íslandsmiðum. Þeir kölluðu t.d. Eldey „Mehlsack“ eða „Mjölpokann“, sennilega vegna fugladritsins sem rennur út af eyjunni. Snæfellsjökull, sem sést tignarlegur víða að, er kallaður „der Schneemann" eða „Snjókallinn“. Vestmannaeyjar voru nefndar „Die Westermanns“ eða „Vestmenn“, Halinn nefndur „Gammelloch“ eða „Gamla holan“ og Hornbjarg „Kap Nord“ eða „Norðurhöfði". Gælunafnið á Víkurál er fyndið; venjulega er V borið fram sem F í þýsku, sbr. vater - faðir. Víkuráll er því kallaður „Figural“ eða upp á ítölsku „Figurell“!.
Gufutogarinn Gyllir. Hann var 366 brúttótonn með 650 hestafla vél, smíðaður í Bremerhaven 1925/1926 og var stœrsti og öflugasti síðutogari sem fram að því hafði verið smíðaður í Þýskalandi

Mið og staðir á togbaujum
Mið togbaujanna nr. 2 og 3 birtust í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1997.
Togbauja nr. 1: Suðvestur af Einidrang.
Baujan er á 63° 25,55' N.brd. og 20°43,25'V.lgd. ; nærri því á þriggja sjómílna landhelgislínunni eða 0,2 sjómílur fyrir utan hana á 98 m. dýpi.
Miðið er: Einidrangur ber í Stóradranginn (Háidrangur og stærstur Þrídranga, þar sem er viti og þyrlupallur) [Mynd 28].
Lárétt hom á milli miðsins og Geirfuglaskers er 82° 52'.
Sýling milli norðurbrúnar Suðureyjar og Álseyjar, í réttvísandi 101°.
Togbauja nr. 4: Austan við Eyjar.
Baujan er á 63°23,9' N.brd. og 20°08,2' V.lgd. 0,15 sjómílur utan landhelgislínunnar á 125 metra dýpi.
Suðurbrún Álseyjar við Hellutá á Stórhöfða. Miðið er í r.v. 269° [mynd 32]. Lárétt horn milli miðsins og Hábarðs á Ellirey er 76° 7'
Urðaviti í r.v. 305,5° og ber í norðurbrún Litlaklifs [mynd 33].
Sýling á milli Stóra Arnar og Neðri Kleifa. Stóra Örn kalla Þjóðverjar „Schutzmann“ eða lögregluþjóninn og er hann allbústinn að sjá!
Togbauja nr. 5: Austnorðaustur af Ellirey og Rófuboða.
Baujan er á 63°28,8' N. brd. og 20° 3,0' V. lgd. um 0,15 sjómílur utan við landhelgislínuna fyrir norðan baujuna, en 0,35 sjómílur utan við landhelgislínuna vestan við baujuna, á 83 metra dýpi.
Miðið er: Helgafell ber yfir suðurbrún Bjarnareyjar (lóðrétt berg yfir Gyðinganefinu!) í r.v. 243° [mynd 34 og 35].
Lárétt horn milli Hábarðs (hæsta hluta Ellireyjar) og Fagrafells (389 metra hátt fjall, til hægri við lágan höfða (Seljalandsmúla) á meginlandi Íslands) er 112°24' [mynd 37]. Háukollar á Heimakletti ber yfir Landssuðursnef á Ellirey (syðstu brún Ellir-eyjar). [mynd 36].

Heimildir:
1. Saga Íslands IV og V í ritstjórn Sigurðar Líndal. Útg. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1989 og 1990.
2. Íslensk skip 4. og 5. bindi Jón Björnsson frá Bólstaðarhlíð. Útg. Iðunn, Reykjavík 1990 og 1999.
3. Litla skinnið - Jón Thorarensen - Nesjaútgáfan, Reykjavik 1982. 4. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960 - grein eftir Jóhann Gunnar Ólafsson og Árna J Johnsen,
5. Einar riki I. bindi- Fagurt er í Eyjum- Þórbergur Þórðarson -Helgafell, Reykjavík 1967.
6. Sjórán og siglingar- Helgi Þorláksson- Mál og menning, Reykjavík 1999. 7. Sturmsee und Flauten: Logbuch eines Lebens - Hans Peter Jurgens - Koehlers Verlag Hamborg 1995.
8. Fischer vor Island -Harte Manner im Nordatlantik - Fritz Brustat-Naval - Koehlers Verlag Herford.
9. Sjókort Sjómælinga Íslands nr. 321 Útg. Reykjavík 1977.
10. Lesbók Morgunblaðsins- 24.mars 1990 - Karfi og karfastofnar Jakob Magnússon fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun.
11. Íslandsferðir Brimara í 1000 ár - Sýningarskrá vegna sýningarinnar „Klerkar-kaupmenn-karfamið" í Þjóðarbókhlöðunni í apríl 2000. 12. Íslenskir fiskar Gunnar Jónsson - Fjölvaútgáfan, Reykjavík 1992.