Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Vélstjórnarbraut FÍV 1997-1998

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Ólafur Guðmundsson

Vélstjórnarbraut FÍV 1997-1998

Á haustönn voru skráðir tólf nemendur í 1. stig, þar af þrír utan skóla og sex nemendur á lokaönn í 2. stigi. Kennsla á haustönn hófst ekki í 2. stigi fyrr en um miðjan september en örlítið fyrr í 1. stigi þar sem ekki hafði tekist að ráða fastan kennara í faggreinum í stað Gylfa Antons Gylfasonar sem hætti að lokinni vorönn. Þetta bjargaðist og er það ekki hvað síst að þakka Karli Marteinssyni sem verið hefur fastur kennari í verklegum greinum við skólann til margra ára. Tók hann að sér nær alla kennslu í 1. stigi, auk verklegrar kennslu 2. stigs. En auk Karls og undirritaðs voru kennarar í faggreinum á haustönn Eyþór Harðarson, sem kenndi rafeindafræði, Sigurjón Þór Guðjónsson rafmagnsfræði og Gylfi Anton Gylfason kælitækni.
Á haustönn luku níu nemendur prófi 1. stigs og fimm luku faggreinum 2. stigs, þar af einn sem brautskráðist af 2. stigi, en hinir áttu ólokið einum áfanga í teikningu og brautskrást því ekki af 2. stigi fyrr en í vor.

Í haust kom hingað vélhermir sem skólinn hefur keypt og er ætlaður til kennslu í vélstjórn á vélstjórnarbraut skólans. Með tilkomu þessa tækis hafa möguleikar í kennslunni aukist til mikilla muna. Tækið líkir eftir aðalvél skips með öllum drif- og stjórnunarbúnaði.
Tækið var tekið formlega í notkun við heimsókn menntamálaráðherra í skólann í haust, og við sama tækifæri færði Vélstjórafélag Vestmannaeyja skólanum að gjöf sjónvarp og videotæki sem ætlað er til kennslu á vélstjórnarbraut.

Á vorönn er aðeins einn kennari starfandi við brautina, Karl Marteinsson. Nemendur á vorönn eru átta sem stunda hluta af námi 1. stigs (vélavarðarnám). Allt eru þetta nemendur sem eru í stýrimannanámi við skólann, fimm af 1. stigi og þrír af 2. stigi stýrimannanáms. Ef þessir nemendur hefður ekki komið til hefði engin starfsemi verið við vélstjórnarbrautina á vorönn. Slæmt er til þess að vita að aðsókn að þessu námi hér skuli ekki vera betri og stöðugri en raun ber vitni því að sú aðstaða og sá tækjakostur, sem skólinn býður upp á til þessa náms, er orðinn mjög góður. Það hlýtur að vera áhyggjuefni að á þeim stað sem enn vill telja sig eina stærstu verstöð landsins, og á allt sitt undir sjósókn og sjávarafla, skuli ekki vera meiri áhugi fyrir þessu námi og námsbrautum þessu tengdu.
Ákveðin samfella í slíku námi, með í það minnsta lámarksnemendafjölda á hverri önn, er forsenda fyrir því að skólastarfið nái að þróast og að hægt sé að fá að halda hæfum og sérmenntuðum kennurum við skólann.
Ég vil því hvetja stjórnendur skólans, atvinnurekendur og aðra þá sem málið varðar að hlúa að og standa vörð um þá fag- og iðnmenntun sem við skólann er og halda vöku sinni þannig að skólinn tapi ekki þessu námi burt úr bænum, heldur nái að efla það og bæta frekar við námsbrautum í fag- og iðnnámi.

Ólafur Guðmundsson