Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1998/ Að míga í saltan sjó

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðmundur Þ. B. Ólafsson

Að míga í saltan sjó

Ég man fyrst eftir mér á sjómannadegi við hátíðarhöld í Reykjavíkurhöfn, þá lítill peyi. Þótti manni mikið til koma. Ég man sérstaklega eftir stakkasundinu en sigurvegari í sundinu vakti aðdáun litla peyjans svo mjög að það var lagt mikið á sig til að komast að ofurmenninu til að fá að taka í hönd þess og segja veikri röddu „Til hamingju!" Þakkaði kappinn þessum unga aðdáanda sínum fyrir og brosti blítt um leið og lítil hönd hvarf í stóru sjómannslúkuna. Á sama stað mætti sá stutti nokkrum árum seinna, ásamt miklu fjölmenni sem flykktist niður á bryggju til að taka á móti skipverjum af Úranusi frá Reykjavík, en skipið hafði lent í miklum hrakningum í ofsaveðri á leið af miðunum við Nýfundnaland. Allir höfðu verið taldir af, en á þessum tímum var mikið um sjóslys og árið áður, 1959, hafði togarinn Júlí frá Hafnarfirði farist með allri áhöfn, samtals 30 manns, svo og fórst vitaskipið Hermóður sama ár með 12 manna áhöfn á leið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Það urðu miklir fagnaðarfundir hjá ástvinum skipverjanna á Úranusi sem höfðu heimt sína úr helju. Aðrir áttu um sárt að binda og tók öll þjóðin þátt í harmi þeirra.

Í flæðarmálinu
Á uppvaxtarárunum var mörgum stundum varið í flæðarmálinu, allt frá öskuhaugunum á Eiðsgranda, Selsvörinni, Grandagarði út í Örfirisey og niður á höfn. Dorgað var á bryggjunum og í trillunum. Alloft stálum við okkur árabátum ef vel lá við og rerum við á þeim út á höfn. Ef ekki var annað í boði voru trillur teknar traustataki og stjakað á milli bryggja. Allt frá fyrstu tíð þótti manni mikið til sjómanna koma og ekki síst þeirra sem voru í strand- og millilandasiglingum. Ég ætlaði sko að verða sjómaður og sigla um allan heiminn. Reyndin varð önnur. Drengurinn með stóru sjómannsdraumana getur varla sagt að hann hafi migið í saltan sjó nema ef vera skyldi á beinskuárunum þegar menn migu hugsanlega í sig af hræðslu þegar þeir voru gripnir við óleyfilegan róður.
Já, sjómenn voru sko engir venjulegir menn.

Sjómannadagurinn í Eyjum
Í fyrsta sinn sem ég var viðstaddur sjómannadagshátíðarhöld hér í Eyjum, árið 1970, þótti mér mikið til koma. Skemmtidagskráin á laugardeginum á hafnarsvæðinu var fjölbreytt og man ég sérstaklega eftir því hversu almenn þátttakan var í ýmsum atriðum. Róðrasveitirnar náðu langt út fyrir sjómannastéttina og tók ég meira að segja eitt sinn þátt í keppni á milli trésmiða og rafvirkja. Á þessum árum voru öll hús full á öllum dagskrárliðum, hvort heldur um var að ræða dansleiki eða skemmtunina sem haldin var fyrir fullu húsi í Samkomuhúsinu. Langar raðir mynduðust við Bása þegar miðasala á dansleikina fór fram og varð maður að beita öllum brögðum til að fá miða, að ekki sé talað um að ná sér í borð. Auðvitað vildu landkrabbar skemmta sér líka, þetta var nú einu sinni ein mesta stuðhelgi ársins. En auðvitað er allt breytingum háð, tímarnir breytast og mennirnir með.

Í blíðskaparveðri
Á sjómannadeginum í fyrra var blíðskaparveður og sólin skein báða dagana, þó aldrei sem á sunnudeginum. Hefðbundin dagskrá var á hafnarsvæðinu á laugardeginum sem og á StakkAgerðistúninu á hátíðardagskránni þar á sunnudeginum. Mikið fjölmenni var mætt til að fylgjast með dagskránni inni í Friðarhöfn. Í upphafi dagskrár átti „Íslendingur", skip Gunnars Marels Eggertssonar, að sigla inn höfnina, en þeim viðburði urðu Eyjamenn af, að sinni. þar sem hætta þurfti við siglinguna frá Reykjavík til Vestmannaeyja og varð að snúa skipinu við á leiðinni til Eyja, á föstudeginum, vegna veðurs. Þrátt fyrir það var boðið upp á óhefðbundna siglingu inni í Friðarhöfn, en þar voru nokkrir hugvitsmenn mættir á fleyi sínu og bar það nafnið „Útlendingur". Var hér trúlega ætlunin að hafa mótvægi við „Íslending" Gunnars Marels. „Útlendingur" var svo sem ekki smíðaður til mikilla ferðalaga á sjó því hér var komið japanskt eintak af bifreið. Í stað hjóla hafði tunnum verið komið fyrir sem hvort tveggja nýttust sem flotholt og til að knýja fleyið áfram. Ekki fóru miklar sögur af frekari siglingum eftir busluganginni í höfninni, enda ljóst að erfitt var að stýra farinu eða að hafa stjórn á því yfirleitt. Skemmtilegt uppátæki þeirra félaga.

Kókflaska opnuð með lyftara
Dagskráin í Friðarhöfn hófst um klukkan 13.30 og var þar ýmislegt gert til skemmtunar með þátttöku sjómanna og Landkrabba. Boðið var upp á kappróður, tunnuhlaup, netabætningu og pokahnýtingu. Þá sýndi lyftaramaður listir sínar á lyftara, velti um og staflaði körum, bauð upp á kók og Prins pólo þar sem hann opnaði kókflöskumar með lyftaranum.
Í kappróðrinum vakti það sérstaka athygli að aðeins ein kvennasveit tók þátt í keppninni að þessu sinni en það var sveit frá Vinnslustöðinni.
Þá fór einnig fram skákkeppni milli landkrabba og sjómanna og eftir spennandi og jafna keppni sigruðu landkrabbar. Þetta mun vera áttunda skákmótið sem haldið er á milli þessara aðila á sjómannadegi og hafa landkrabbar sigrað sjö sinnum. Á föstudeginum hafði farið fram knattspyrnumót milli áhafna.

Fjölsótt dagskrá á sunnudegi
Dagskráin á sunnudeginum var einnig með hefðbundnu sniði, en hún hófst með sjómannamessu í Landakirkju sem var þéttsetin. Snorri Óskarsson minntist hrapaðra og drukknaðra við minnisvarðann við Landakirkju og lögðu hjónin Kolbrún Óskarsdóttir og Sigmar Þór Sveinbjörnsson blómsveig við minnisvarðann. Var þetta í fertugasta skiptið sem minningarathöfnin fór fram.
Á Stakkagerðistúninu, þar sem dagskránni var haldið áfram um þrjú leytið, voru þrír aldraðir sjómenn heiðraðir, en þeir voru Pétur Sigurðsson sem heiðraður var af Vélstjórafélagi Vestmannaeyja, Sigurgeir Ólafsson sem heiðraður var af Skipstjóra-og stýrimannafélaginu Verðandi og Anton Óskarsson sem heiðraður var af Sjómannafélaginu Jötni. Eigendur og áhöfn á Ísleifi VE fengu viðurkenningu frá Siglingastofnun fyrir umhirðu og öryggismál um borð. Viðurkenningu fyrir björgunarafrek fékk Kristján Kristjánsson háseti á Vigdísi Helgu VE fyrir að bjarga manni úr höfninni. Verðandaúrið var veitt Einari Ólafi Ágústssyni, en Einar dúxaði á 2. stigi Stýrimannaskólans. Hátíðarræðu dagsins flutti Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra. Litlu lærisveinarnir hennar Helgu Jónsdóttur sungu að lokinni verðlaunaafhendingu, svo spilaði Lúðrasveit Vestmannaeyja á dagskránni. Hljómsveitin Skítamórall sló svo botninn í vel sótta hátíðardagskrá á Stakkagerðistúninu þennan sólríka góðviðrisdag. Að venju sáu Eykyndilskonur um sjómannadagskaffið í Alþýðuhúsinu.
Að endingu vil ég óska sjómönnum og aðstandendum þeirra til hamingju með daginn og bið ykkur alls hins besta í framtíðinni.

Guðmundur Þ. B. Ólafsson.