Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1997/Starfsemi Rannsóknasetursins 1996

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


ÞORSTEINN INGI SIGFÚSSON PRÓFESSOR


STARFSEMI RANNSÓKNASETURSINS 1996


Árið 1996 var annað heila starfsár Rannsóknasetursins að Strandvegi 50 í Vestmanneyjum. Þar er til húsa aðstaða Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunar og Rannóknastofnunar fiskiðnaðarins í Vestmannaeyjum. Þar hefur einnig aðsetur tölvu- og margmiðlunarfyrirtækið Tölvun ehf., sem haft hefur drjúg áhrif á tæknivæðingu upplýsingakerfa í setrinu. Páll Marvin Jónsson líffræðingur er forstöðumaður setursins.
Haustið 1996 var stofnað Þróunarfélag Vestmannaeyja með aðsetur að Strandvegi 50 og ráðinn til þess framkvæmdastjóri, dr. Bjarki Brynjarsson rafmagnsverkfræðingur sem hafði verið verkefnisstjóri hjá hinni virtu SINTEF-stofnun í Þrandheimi í Noregi. Eigendur Þróunarfélagsins eru Vestmannaeyjabær, meginstofnanir bæjarins og samstarfsnefnd Haskóla Íslands og Vestmannaeyja. Stjórn samstarfsnefndarinnar lítur svo á að Þróunarfélagið geti verið framlenging á starfi setursins og tengsla þess við atvinnulífið í Vestmannaeyjum, enda er félaginu ætlað að starfa sem fyrirtæki er efli þróun viðskiptatækifæra og atvinnulífs í Eyjum.

Vöxtur og tímgun í botnsjónum.
Eitt meginverkefnið í umsjón setursins árið 1996 var svokallað „Vöxtur-tímgun”-verkefni sem unnið er í samvinnu við Líffræðistofnun Háskóla Íslands og útibú Hafró í Vestmannaeyjum. Stjórnendur þessa verkefnis eru Páll Marvin Jónsson, Hafsteinn Guðfinnsson og Jörundur Svavarsson. Lýðveldissjóður veitti verkefninu þriggja ára styrk á þjóðhátíðardaginn 1995, en vinna fer að mestu fram í Eyjum. Viðfangsefnið er fólgið í athugun á sambandinu milli svifsins í uppsjónum og botndýranna. Þannig er hluti hinnar viðkvæmu lífkeðju vistfræðinnar í sjónum rannsakaður.

Humar: sortumyndun og bragðefniskraftur.
Sumarvertíðin í Eyjum litast jafnan og einkennist af hinni verðmætu afurð humrinum. Vestmannaeyjar eru, ásamt Höfn í Hornafirði, helsta löndunarhöfn humars á landinu. Eitt af vandamálum í vinnslu humars er svokölluð sortamyndun, útfelling litarefnis í humarskelinni sem skyld er hamskiptum dýrsins og stafar af ensímhvötuðu efnahvarfi. Svo hart getur kveðið að sortumynduninni að hún skemmir hráefnið og færir það í lægri gæðaflokk á markaði. Vinnslustöðin hf. fór fram á það að Rannsóknasetrið beitti sér fyrir athugun á því hvort stöðva eða hindra mætti sortumyndunina. Verkefnið hlaut forstyrk Rannsóknaráðs og stuðning Vinnslustöðvarinnar. Rannsóknir fóru fram í setrinu undir stjórn ungs og efnilegs lífefnafræðings, Bjarna Páls Ingasonar. Bjarni Páll hóf tilraunir með svokallaða ensímhindra til þess að stemma stigu við sortumynduninni og sýndi strax að mjög miklum árangri var hægt að ná með þeirri notkun. Greinarhöfundur setti fram hugmynd um að greypa ensímhindrann í kæliís til þess að stjórna magni hindrans í notkun. Hlaut miðillinn nafnið „humarís" og var skrásettur sem vörumerki. Á komandi sumri er ráðgert að prófa humarís á nokkrum Eyjabátum í samvinnu við Eyjaís hf. Ef vel tekst til gæti hér verið á ferðinni aðferð sem aukið gæti verðmæti humarsins verulega.
Við kveðjum humarinn ekki alveg strax því að annað skylt verkefni var unnið í Eyjum sumarið 1996, þ.e. vinnsla á bragðefniskrafti úr humarafsliti undir stjórn Bergs Benediktssonar verkfræðings hjá Norðri ehf. í Reykjavík. Samvinna var við RFV þar sem Guðrún Sigurgeirsdóttir matvælafræðingur vann að rannsóknum á örverum í humrinum. Humarafslitið er verðmætt hráefni sem ekki er nýtt til framleiðslu afurðar enn sem komið er. Með því að beita ensímum sem unnin eru úr sjávarfangi tókst Bergi Benediktssyni að vinna úr afsliti verðmætan bragðefniskraft sem kynntur var m.a. með humarsúpuboði hjá Vinnslustöðinni. Efnið hefur verið sent utan til prófana en sambærileg efni á heimsmarkaði eru seld á um 2000-3000 kr. kílóið. Ef unnt væri að vinna úr afslitinu slíkan bragðefniskraft og selja á heimsmarkaði væri unnt að auka verðmæti unnins humars verulega.
Ástæða er til að þakka Vinnslustöðinni stuðninginn við áðurgreind verkefni sem eru nú að komast á vöruþróunarstig.
Um verkefni á vegum Gísla Pálssonar prófessors er fjallað í sérstakri grein hér í blaðinu.

Sumarskólar: háskólafræðsla og ferðamenn.
Sumarið 1996 kom hópur bandarískra háskólanema til Eyja til þess að taka þátt í sumarskóla, námskeiði um líffræði norðurhjarans, „arctic biology" sem fram fór m.a. við Rannsóknasetrið. Verkefni þetta var unnið í samráði við Háskóla Íslands og dönsku DlS-stofnunina sem er í Kaupmannahöfn. Af hálfu setursins hvíldi mesta vinnan á Páli Marvin, Gísla Má Gíslasyni prófessor og Hafsteini Guðfinnssyni sem m.a. sigldi með nemendurna á rannsóknabátnum Friðrik Jessyni í nánd Eyjanna. Í vetur barst stjórn setursins formlegur dómur um verkefnið frá DIS í Kaupmannahöfn. Fram kemur þar að verkefnið hlýtur einkunnina 3.9 af 4.0 sem hæst er gefið og telst hafa hlotið hæstu einkunn frá því að DIS hóf slík kennsluverkefni fyrir þremur áratugum. Í verkefni sem þessu þjónar rannsóknasetrið tvenns konar tilgangi; það nýtist sem fræðslusetur í alþjóðlegum skilningi og með verkefninu verður til ný tegund ferðaþjónustu í Eyjum, nokkurs konar „mennta-túrismi". Stjórn setursins stefnir að því að 25 manna hópur komi til sumarskóla sumarið 1997 og jafnvel tvöfalt stærri hópur árið 1998 þegar jarðvísindum verður bætt við.

Gestafyrirlestrar.
Eins og undanfarin ár kom nokkur fjöldi fyrirlesara til setursins og flutti almenna opna fyrirlestra um ýmis efni. Þannig flutti Gísli Gunnarsson sagnfræðingur fyrirlestur „um byltinguna í Eyjum" um síðustu aldamót. Páll Einarsson prófessor fjallaði um „vöktun eldfjalla"; Þorbergur Hjalti Jónsson fjallaði um trjárækt í Vestmannaeyjum og tilraunir sínar með trjárækt og þol trjáa við erfið skilyrði. Sigrún Helgadóttir líffræðingur fjallaði um náttúruvernd og almennt um friðlönd á Íslandi. Ómar Ívarson sálfræðingur fjallaði um þunglyndi, örsök, einkenni og meðferð; og Sigurður Ragnarsson félagsfræðingur fjallaði um „hringdans fjölskyldunnar", mikilvægi fjölskyldutengsla.

Náttúrustofa að Strandvegi 50.
Í árslok var hafin umræða um komu Náttúrsstofu Suðurlands til setursins. Stjórn Náttúrustofu, undir forustu Svönu Guðlaugsdóttur, réð sem forstöðumann Náttúrustofunnar jarðfræðing, dr. Ármann Höskuldsson, sem getið hefur sér gott orð í rannsóknum erlendis og m.a. fengið hinn virta mannauðsstyrks Evrópubandalagsins. Vil ég nota tækifærið og bjóða Ármann og Náttúrustofu velkomna til aðseturs að Strandvegi 50 og allra heilla í framtíðinni.
Árið 1996 var ár velgengni í rannsóknasetrinu og segja má að það hafi oftlega sannað tilverurétt sinn. Sambandið við bæjaryfirvöld og atvinnulíf í Eyjum er einn lykill þeirra velgengni. Rannsóknasetrið hefur eflt mannauðinn og fjölbreytni atvinnulífs og menningar í Vestmannaeyjum. Góð ástæða er til að horfa með bjartsýni til nýs starfsárs.

Þorsteinn Ingi Sigfússon prófessor.
formaður samstarfsnefndar HÍ og Vestmannaeyja.