Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Víkingaskip byggt með bjartsýni og þrautseigju

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Árni Johnsen


VÍKINGASKIP BYGGT MEÐ BJARTSÝNI OG ÞRAUTSEIGJU


„ÍSLENDINGUR“ GUNNARS MARELS EGGERTSSONAR ER ÞJÓÐARGERSEMI


Það er kannski mikil bjartsýni, en mig langar óheyrilega til þess að smíða víkingaskip eins og Gaukstaðaskipið, sem var fyrirmynd Gaju sem ég sigldi á til Ameríku fyrir nokkrum árum,“ sagði Gunnar Marel Eggertsson vinur minn við mig á vetrardögum 1994, og bætti síðan við:
„Heldurðu að það sé hægt að finna leið til þess að fjármagna smíðina. Ég hef allar teikningar og reynsluna sem ég held að dugi í smíðina.“
„Við keyrum málið áfram,“ svaraði ég og síðan var farið að leggja á ráðin. Við ræddum fyrst ýmsa möguleika til fjármögnunar, en augun beindust skjótt að Reykjavíkurborg því hugmynd Gunnars Marels var sú að þaðan yrði skipið gert út, aðallega með siglingum fyrir ferðamenn og kynnis- og skólaferðum fyrir skólabörn.
Smíði víkingaskipsins er Gunnari Marel mikið hugsjónamál og byggist ekki síst á metnaði fyrir hönd Íslands því að honum hefur þótt súrt í broti að á sama tíma og Norðmenn, Danir og Svíar hafa verið að leggja rækt við víkingatímabilið og sérstöðu bess í sögu þjóðanna þá höfum við Íslendingar sinnt því lítið. Og auðvitað er það út úr kortinu að við skulum ekki eiga hér skip í stíl víkinganna því skip þeirra voru lykillinn að landnámi Íslands á 9. öld, fyrir meira en 1100 árum.
Hugmyndin að smíði víkingaskips kom fram hjá Gunnari þegar ferð Gaju var lokið, en allt frá 10 ára aldri hefur búið í honum mikill áhugi á skipum víkingatímabilsins. Þá heyrði hann um þessi hraðskreiðu skip og sögu þeirra. Þetta var í blóði skipasmiðsins, afans, pabbans og hans sjálfs. Gunnar Marel hafði sem sagt alltaf haft mikinn áhuga á að prófa þessi skip í reynd og draumurinn rættist þegar hann var valinn stýrimaður og skipstjóri á Gaju úr miklum fjölda umsækjenda.
Grundvöllurinn að smíði víkingaskipsins var lagður þegar Árni Sigfússon borgarstjóri í Reykjavík og meiri hluti sjálfstæðismanna þar ákvað að greiða fyrirfram samkvæmt samningi leigu fyrir skipið á fjögurra ára tímabili með skólabörn um Sundin, bæði til þess að kenna börnum undirstöðuatriði í sjómennsku og sögu Íslands. Skólaskrifstofa Reykjavíkur gekk frá þeim samningi og Gunnar Marel gat pantað allt timbur í skipið.
Bjartsýnin réð enn ferðinni því að hann hafði unnið að því að höggva kjölinn til um eins mánaðar skeið niðri á bryggju við Reykjavíkurhöfn þegar hann loks fékk húsnæði til þess að smíða skipið í. Eins og svo oft í þessari framkvæmd naut hann rausnar og góðvildar þeirra Héðinsmanna; þeir léðu honum húsnæði vestur við Granda í Reykjavík endurgjaldslaust.
Skipið varð talsvert dýrara en upphaflega var ætlað og m.a. kom verulegur aukinn kostnaður til vegna tafa á formlegum leyfum hjá Siglingamálastofnun. Miklu réð líka að nýir „herrar” í Reykjavíkurborg, R-listinn, réðst á smíði víkingaskipsins í fjölmiðlum. Sigrún Magnúsdóttir, formaður borgarráðs, kallaði skipið t.d. „manndrápsfleytu“ um leið og hún réðst á fyrrv. borgarstjóra, Árna Sigfússon, fyrir að hafa tryggt verkefninu framgang með samningi borgarinnar við Gunnar Marel. Þetta voru ekki traustvekjandi ummæli um skip sem átti m.a. að flytja skólabörn um sundin við Reykjavík. Mikill titringur fór um embættismannakerfið. Vísaði hver á annan og allir vildu fá að sjá reglugerð um smíði skipa frá 9. öld!
En allt fór þetta vel eftir tafir í nokkra mánuði og Siglingastofnun staðfesti smíði skipsins og flutning með allt að 50 farþega innan 3 mílna frá landi á ákveðnum svæðum í kring um landið. Siglingamálastofnun sýndi mikinn skilning á verkefninu og lipurð til þess að tryggja framgang þess án þess að slakað væri á öryggiskröfum að neinu leyti.
Á framkvæmdarstiginu hljóp Vestnorræni lánasjóðurinn undir bagga með smíði skipsins og Alþingi hefur veitt nokkurn styrk til verkefnisins, en það er mikil viðurkenning á verki Gunnars Marels.
Þúsundir gesta hafa komið í Héðinshúsið á s.l. einu og hálfu ári til þess að fylgjast með smíði víkingaskips Gunnars Marels og Gunnar hefur fundið fyrir mjög miklum stuðningi frá almenningi. Meðal þúsunda gesta eru um 1000 skólabörn í Reykjavík sem hafa þannig fræðst um smíði víkingaskipa og skipasmíði almennt.
Ég minnist þess þegar Matthías Jóhannessen, skáld og ritstjóri, fór með mér til Gunnars Marels að skoða víkingaskipið. Hann varð hugfanginn af skipinu á augabragði og fannst stórkostlegt að það væri í smíðum. Hann hafði á orði að sér fyndist eins og hann stæði mitt í sögunni ljóslifandi, mitt í þeim aðstæðum sem landnámsmenn bjuggu við og líkti smíði víkingaskipsins við smíði þjóðveldisbæjarins á Stöng í Þjórsárdal. Þannig hafa allir, sem hafa kynnt sér málið, fallið fyrir hugmyndinni og það er sama hvar við höfum komið að málinu, allir hafa viljað leggja Gunnari Marel lið vegna þess að þeir skynja að hann er að skapa þjóðargersemi, gullfallegt tæki sem tengir okkur upprunanum og eðlinu, skynja rækt hans og virðingu við það sem íslenskt er.
Við fengum forstöðumenn Árnastofnunar og Orðabókar Hákskólans á fund í Héðinshúsinu til þess að velja gott nafn á skipið. Um 100 nöfn úr Íslendingasögum, biskupasögum og víðar að komu til greina, en fyrir valinu varð nafnið „Íslendingur,“ eftir skipi sem smíðað var fyrr á öldum í Tungunum úr skógi sem var höggvinn þar, en skipið var síðan flutt til sjávar.
Vonandi gengur allt vel fram og vonandi á „Íslendingur“ eftir að setja mikinn svip á Ísland með siglingum við strendur landsins. Vonandi eiga landsmenn eftir að sigla oft með „Íslendingi“ því að það er ótrúleg tilfinning að sigla með skipi af þessari gerð, að maður tali nú ekki um að láta vindinn bera sig yfir hið bláa haf.
Það hefur kostað mikla þrautseigju að smíða þetta skip því að það er oft svo erfitt að ríða á vaðið. Auðvitað ættum við að stuðla að því að markaðssetja slík skip og smíða hérlendis. Það eru góð meðmæli að Jon Godal, sem er helsti sérfræðingur í heiminum í smíði víkingaskipa, hefur sagt að skip Gunnars Marels sé best smíðað af öllum sem hafa verið smíðuð hingað til, og víst er það traustasta skipið sem vitað er um af þessari tegund því að Gunnar Marel styrkti það verulega með hliðsjón af reynslu sinni af 17 þúsund mílna siglingu á Gaju þar sem ölduhæðin náði allt að 17 metrum.
Vestmannaeyingar mega vera stoltir af Gunnari Marel Eggertssyni fyrir frábært framtak hans. Hann hefur byggt á Vestmanneyskri reynslu. Megi skipinu fylgja Guðs blessun. Megi þjóðarsómi verði að og farsæld fylgja „Íslendingi.“
Árni Johnsen.