Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Grunsamleg skip framundan - fulla ferð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Ólafur Valur Sigurðsson


GRUNSAMLEGT SKIP FRAMUNDAN FULLA FERÐ


Árin 1958 til 1976 voru merkileg í sögu Landhelgisgæslunnar fyrir margra hluta sakir. Á þessu tímabili var fiskveiðilögsagan færð úr 12 sjómílum í 200 mílur. Aðalatriðið var að losna við ágang erlendra fiskiskipa en einnig að ná markvissari sókn og nýtingu miðanna fyrir Íslendinga. Miðin hafa síðan verið skipulögð með tilliti til sóknar skipa af mismunandi stærðum og gerðum. Reglugerðirnar eru orðnar ótrúlega margar og hafa bitnað misvel á fiskiflotanum. Togararnir gátu fært sig á dýpri mið vegna stærðar sinnar og vélaafls, en oft var ekki um það að ræða hjá minni togbátum.
Allstór hluti minni mótorbáta stundaði neta- eða línuveiðar á vetrarvertíð, en togveiðar þess á milli. Þetta leiddi til þess að nokkuð var um að togbátar leituðu inn fyrir heimilar línur. Á þessum tíma var einnig farið að opna fyrir dragnót víða. Aðstæður til dragnótaveiða eru mjög mismunandi eftir landshlutum og leiddi þetta til sérkennilegs ástands sums staðar eins og í Garðsjó í Faxaflóa.
Þegar útfærslan í 12 mílur var gerð þurfti Landhelgisgæslan að taka erlenda togara mjög föstum tökum. Það bitnaði einna harðast á breskum togurum sem voru mjög fjölmennir á miðunum. Viðbrögð Breta voru að mæta með herskip til varnar togurum gegn aðgerðum varðskipanna. Strax kom í ljós að Bretar ætluðu herskipunum að tryggja togurunum óheftan aðgang að sínum fyrri miðum. Þorskastríð var hafið.

Lærifeðurnir.
Við, sem vorum nýbyrjaðir hjá Gæslunni þegar útfærslan varð, nutum þess að Gæslan hafði búist við átökum og hafið skipulagðan undirbúning að þeim.
Sumarið 1957 lenti ég sem háseti á ÞÓR, af hreinni tilviljun. Ég var beðinn um að fara nokkra daga því að gamli bátsmaðurinn var veikur. En ég gleymdi bara að hætta í 36 ár.
Eiríkur Kristófersson var skipherra. Hann sá strax um að maður fengi æfingu í togaratökum með því að láta mann fara með stýrimönnum um borð í togarana og læra að taka skip. Stýrimennirnir og eldri hásetarnir kunnu til verka og reynslan síaðist inn. Yfirstýrimaður var Garðar Pálsson sem var einstaklega kröftugur í öllum aðgerðum og var algjörlega óþreytandi við kennslu, hélt þó mjög fast að okkur að sýna alltaf fulla aðgæslu og meta saman áhættu og árangur. Garðar lagði síðan á næstu árum grundvöllinn að innri þjálfun hjá Gæslunni.
Sumarið 1958 hófst kröftug þjálfun í beitingu afls eins og sá þáttur var þróaður hjá lögreglunni. Sigurður M. Þorsteinsson, lögreglumaður og flugbjörgunarsveitarmaður, kom þar að verki en hann var reyndasti þjálfari lögreglunnar. Inniverur varðskipanna fóru í stanslausar æfingar og einnig kom Sigurður með okkur í túra. Þá var farið í land á eyðifjörðum, æft og æft. Sigurður var einstakur þjálfari. Þolinmæði og gott geðslag hans gerðu erfiðar æfingar að hreinum leik. En mestu skilaði óeirðastjórnun til að búa okkur undir átök og þá gilti að menn skildu og nýttu sér samstöðu og samvinnu fámenns hóps. Sigurður og Garðar mótuðu viðhorf okkar til þess sem koma skyldi. Útlendu togurunum yrði mætt og útfærslu landhelginnar fylgt eftir.
Undir stjórn skipherranna Eiríks Kristóferssonar, Þórarins Björnssonar og Lárusar Þorsteinssonar fengum við óþrjótandi fræðslu sem mótaði okkur til gæslustarfa. Þessir skipherrar og Garðar stýrimaður voru um margt mjög ólíkir einstaklingar en þættirnir, sem þeir höfðu sameiginlega, féllu allir beint að starfinu. Þeir voru mjög flinkir í almennum skipsstörfum, ákaflega nákvæmir siglingafræðingar og óhemjuvandvirkir við allt sem þeir létu frá sér í rituðu máli.
Þessir menn lifðu allir breytingaskeiðið þegar ratsjáin kom til sögunnar. Nákvæmni ratsjárinnar var takmörkunum háð í upphafi en þróunin var stöðug og nákvæmnin óx ár frá ári. Fram að þeim tíma hafði sextantinn verið nákvæmasta mælitækið til staðsetningar. Til að nota sextantinn við mælingu láréttra horna þurfti geysimikla þekkingu á landinu, þríhyrningamælipunktum, kennileitum og örnefnum. Lærifeðurnir varu óþreytandi við að kenna okkur mælipunkta og sáu um að við æfðum okkur án afláts því að sextantinn var notaður óspart með ratsjánni í mörg ár eftir að ratsjáin kom í notkun. Sextantinn stendur enn fyrir sínu þegar á þarf að halda.
Enn einn þáttur, sem var sameiginlegur í fari þessara manna, var krafa þeirra um að öll atriði við töku skips væru rétt og nákvæm og stæðust hörðustu gagnrýni. Þegar skip hafði verið stöðvað, grunað um ólöglegar veiðar, var farið yfir allar aðgerðir og mælingar eins nákvæmlega og hægt var. Kæmi þá í ljós ónákvæmni eða ósamræmi vildu þessir menn heldur ljúka málinu á staðnum með áminningu heldur en að færa skipið til dóms.
Tvisvar var ég með Lárusi Þorsteinssyni þegar hætta varð við töku skipa vegna ónákvæmni í ratsjá og gírókompás. Eftir fyrri atburðinn óskaði Lárus eftir nýjum tækjum. Þau fengust ekki. Eftir síðari atburðinn sagði Lárus upp störfum og hætti hjá Gæslunni. Fórn Lárusar var mikil en hún lagði grundvöllinn að nýrri forgangsröð hjá Gæslunni sem hefur haldist til þessa.

Það á að verja landhelgina.
Með störfum sínum, kennslu og viðmóti við okkur mótuðu lærifeðurnir viðhorf okkar til þeirra atriða sem sneru að vörn landhelginnar. Til þess þurfti góða sjómennsku, haldgóða siglingafræði, þekkingu á lögum og reglugerðum og viðhorf sem kæmi í veg fyrir fyrirhyggjuleysi og vandræði.
Athygli varðskipanna beindist fyrst og fremst að togskipum af öllum stærðum. Mesta athygli fengu bresku togararnir sem sáu fiskimið sín við landið minnka og minnka. Þrátt fyrir nærveru breskra herskipa fór þeim togurum, sem höfðu stundað Íslandsmið, að fækka jafnt og þétt. Allmargir breskir togarar voru teknir meðan fiskveiðimörkin voru 12 mílur og var það tímabil mjög annríkt hjá varðskipunum. Eftir að fært var út í 50 mílur, og sú útfærsla varð staðreynd, má segja að tími breskra togara hafi verið liðinn á Íslandsmiðum.
Íslenskir togbátar voru nú að ganga í gegnum erfiða tíma. Mikill hluti þeirra var það smár að ráða ekki við meira dýpi sem var á þeim miðum sem þeim voru heimil. Ásókn þeirra inn fyrir heimilar línur fór því vaxandi. Ástandið var alls ekki gott. Varðskipin reyndu að vera sem mest á svæðunum sem sótt var á og halda þannig bátunum frá. En ekkert af þessum svæðum gat fengið stöðuga vöktun. Bátar voru því teknir við ólöglegar veiðar með tilheyrandi kostnaði fyrir útgerðina. Fjárhagslegur grunnur undir þessari útgerð fór stöðugt versnandi og bátunum tók að fækka. Smábátamennirnir voru að ganga í gegnum tímabil sem þeir voru ákaflega ósáttir við. Þeim fannst óréttlátt hve löggjafinn gekk nærri þeim og ýtti þeim lengra og lengra út af miðum sínum. Þetta ástand varð til þess að töluverð þráhyggja myndaðist og fiskveiðibrot urðu að áráttu hjá sumum skipstjórum. Ástandið var nú orðið verulega slæmt. Þorri manna sætti sig þó við útfærslu fiskveiðimarka þar eð þeir gerðu sér fulla grein fyrir ásigkomulagi fiskistofna og töldu að hér væri um algjöra nauðsyn að ræða. Þeir sem stunduðu sínar veiðar fyllilega löglega áttu líka bágt með að sætta sig við ólöglegar veiðar félaga sinna. Þeir kvörtuðu undan vanmætti Gæslunnar en gæslumenn voru milli steins og sleggju því að erfitt er að þræða hinn mjóa veg milli laga og mannlegra viðhorfa. En tíminn leið og breytt sóknarmunstur leiddi til þess að litlu togbátunum fækkaði og þessi floti hvarf að mestu. Á þessu tímabili, sem hér hefur verið fjallað um, hvarf mestur hluti erlendra togara af Íslandsmiðum en því miður var einnig kippt grundvellinum undan útgerð lítilla togbáta.

Fiskimennirnir.
Þegar Gæslan var að beita sér gegn erlendum togurum var unnið af festu og eins markvisst og unnt var því að oft reyndu þeir undankomu og strangar alþjóðlegar reglur giltu um eftirför. Því gat oft verið harðsótt að stöðva skipin og koma í veg fyrir undankomu þeirra með handtöku. Þessi hörðu viðskipti við útlendingana settu nokkurt mark á varðskipmenn þannig að þeir máttu heldur slaka á þegar um Íslendinga var að ræða því að þeir áttu enga undankomuleið. Þó að menn reyndu undankomu með nokkrum tilþrifum, en voru síðan handteknir, voru þeir furðu sáttir þegar staðreyndir málsins voru lagðar fyrir þá í ró og næði. Þessi samskipti voru í langflestum tilvikum farsæl þó að flest þeirra enduðu með dómi.
Þátttaka í mörgum skipatökuni gerir þessi störf nokkuð einhæf og minningarnar hafa æði áþekkt munstur.
Tvisvar hef ég upplifað það að koma upp í brú á togskipi að veiðum þar sem öll áhöfnin svaf þrátt fyrir að varðskipið hafði þeytt flautu kröftuglega rétt við skipssíðuna. Í annað skiptið var það lítill belgískur togari austur af Ingólfshöfða. Frá varðskipinu sáum við engan í brúnni en þegar þangað var komið lá 14 ára unglingur eins og krossfestur með höfuð og arma yfir stýrið milli píláranna. Áhöfnin var útkeyrð af vökum og voru þeir þó nokkra stund að ná áttum. Þeir voru komnir langt inn fyrir og stefnan var á land.
Sumir góðkunningjar Gæslunnar urðu þjóðsagnapersónur vegna athæfis síns. Margar sögur af viðskiptum þeirra við Gæsluna lifðu lengi því að sjálfir gátu þeir verið góðir grínistar. Einn þeirra var að toga fyrir innan og hlustaði á þátt sem Svavar Gests var með í útvarpinu. Hann þrætti fyrir að hafa verið með trollið úti á tilteknum tíma en sagðist hafa híft eftir þátt Svavars. Þannig staðfesti hann sjálfur fyrir dómaranum að hafa verið að veiðum innan marka á tilteknum tíma.
Mesti snillingurinn var þó sá sem fór inn til að sitja af sér margar sektir. Meðan hann sat inni var verið að minnast stórviðburða og var hann því sýknaður og sagt að fara heim. Okkar maður varð æfur því að hann var langt kominn með smíði á nýju hænsnahúsi í fangelsinu og vildi sko hreint ekki hverfa frá óloknu verki!
Ég trúi því og vona að fiskimenn og varðskipsmenn hafi komist að mestu sáttir frá þessum viðskiptum sínum.
Ólafur Valur Sigurðsson skipherra er fæddur 1930. Móðir hans var Rebekka Ágústsdóttir Gíslasonar í Valhöll. Árin 1957 til 1993 var hann háseti, stýrimaður og skipherra hjá Landhelgisgæslunni. Sjómannadagsblað Vm. þakkar Ólafi Val fyrir þessa frásögn af starfi Landhelgisgæslunnar frá sjónarhóli varðskipsmanna.