Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/Sjómannadagsblað Vestmannaeyja fer víða

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Sjómannadagsblað Vestmannaeyja fer víða


Sumarið 1984 samþykkti sjómannadagsráð Vestmannaeyja að senda Vestur-Íslendingum að Gimli í Manitoba í Kanada tvö eintök af öllum árgöngum af Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja sem til voru.
Eftirfarandi bréf voru send með þessum blaðasendingum. Einnig sendi sjómannadagsráð í ágúst 1984 sjómannadagsblöð Vestmannaeyja til Færeyja, á bókasafnið í Þórshöfn og á bókasafnið í Klakksvík. Þakkarbréf sem hér er birt, barst frá bókasafninu í Klakksvík.
Tel ég rétt að birta þessi bréf og geyma hér í blaðinu.
-S.Þ.S. Vestmannaeyjum 21. júlí 1984.

Heill og sæll Ted Árnason.
Þú verður eflaust hissa þegar þú færð þessa sendingu frá okkur. Þess vegna ætla ég að skýra það í stuttu máli hvernig hún er til komin. Það var hér fyrir nokkuð mörgum árum, eða nánar tiltekið 1974, að hingað kom maður að nafni Richard Beck. Kom hann á Þjóðhátíð Vestmannaeyja, en þessi hátíð er haldin hér árlega snemma í ágúst. Þetta var fyrsta þjóðhátíðin eftir eldgosið hér á Heimaey. Dr. Richard hélt ræðu á þessari hátíð, ekki man ég nákvæmlega hvert innihald ræðu hans var, en ég man að ræðan hafði mikil áhrif á mig og ekki síst hvað maðurinn sjálfur var einlægur og geislandi glaður.
Ég hafði verið þarna á svæðinu að selja sjómannadagsblöð (gosblaðið, eins og við kölluðum þetta eintak, 1973 -1974), en hafði staldrað við og hlustað á ræðuna hans. Ég man að ég og margir aðrir, sem hlustuðu á hann, undruðumst á því hve geysisterka þjóðerniskennd hann hafði. Ég verð að segja eins og er að ég skildi það ekki þá hvernig mönnum gat þótt svona vænt um landið sem maður stendur á eða fæðist í. En eftir að ég fór að verða eldri fór ég að skilja þetta betur og í dag finnst mér ég skilja hann fullkomlega. Eftir að ég fór að fylgjast betur með heimsfréttum sá ég það betur og betur hvað við búum í góðu landi, þó hér sé að vísu ekki góðviðrasamt og stundum sagt að við búum á mörkum hins byggilega heims.
Svo ég haldi nú áfram með Richard Beck, þá datt mér í hug að hann hlyti að hafa gaman af að eiga eintak af blaðinu okkar, svo ég leitaði hann uppi og gaf honum eintak. Hann tók við blaðinu skoðaði það og þakkaði mér svo innilega fyrir. Mér er minnisstætt að þegar við skildum sá ég hann þerra tár úr augum sér. Ég hugsaði mikið um þetta atvik og það kviknaði í kollinum á mér sú hugmynd að gaman væri að senda til Kanada nokkra árganga af Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja og koma þeim einhvern veginn til Vestur-Íslendinga þar. Mér datt fyrst í hug Elliheimilið að Gimli, þar sem ég vissi að voru margir Vestur-Íslendingar, þar hlyti að vera fólk sem hefði gaman af að lesa og skoða blaðið. Hafði ég þá í huga þær mörgu minningargreinar sem hafa að geyma töluverða ættfræði, einnig þær mörgu greinar sem greina frá lífi og starfi okkar hér bæði fyrr og nú.
Ég ræddi þetta við nokkra menn hér og fékk misjafnar undirtektir. Mörgum leist vel á hugmyndina, en fleiri voru þeir sem héldu því fram að þetta væri svo staðbundið blað og efni að menn þyrftu að þekkja til hér í Eyjum til að hafa gaman af því. Þetta dró úr mér að vinna að málinu, en ég hafði það nú alltaf í huganum öðru hverju.
Það var svo í fyrrasumar að ég hitti hér Vestur-Íslending, Don Martin, sem ég ræddi mikið við um þessa hugmynd mína. Hann var mér sammála um að þetta væri góð hugmynd sem myndi gleðja marga Vestur-Íslendinga sem hafa áhuga á Íslandi.
Í júní 1984 bar ég svo upp tillögu á fundi hjá sjómannadagsráði Vestmannaeyja, en það er skipað 15 mönnum úr þremur félögum hér sem heita Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi, Vélstjórafélag Vestmannaeyja og Sjómannafélagið Jötunn. Tillagan var á þá leið að sjómannadagsráð Vestmannaeyja sendi Vestur-Íslendingum á Gimli tvö eintök af öllum sjómannadagsblöðum Vestmannaeyja sem við gætum náð í. Þetta var samþykkt einróma með öllum atkvæðum og mér falið að koma þessu máli heilu í höfn, - sem ég hef nú gert með mikilli ánægju. Ég held að svo vel hafi verið tekið í þessa tillögu vegna þess að undanfarin ár hafa margar myndir verið sýndar í sjónvarpi frá Íslendingadeginum ykkar. Ég hafði samband við Jón Ásgeirsson til að fá upplýsingar og heimilisfang Elliheimilisins að Gimli. Hann benti mér á þig og sagði að þú værir manna kunnugastur hvar og hvernig þessu væri best fyrir komið.

Kæri Ted Árnason.
Þessi sending er sem sagt gjöf sjómanna í Vestmannaeyjum til Vestur-Íslendinga í Gimli og nágrenni. Við reyndum að finna tvö eintök af hverju blaði, en því miður tókst það ekki því mörg af þessum blöðum eru orðin mjög fágæt og erfitt að ná í þau. Þó gekk þetta vonum framar hjá okkur. Það vantar ekki nema 5 - 6 elstu blöðin og blöð 1970 - 1971. Þannig að það vantar ekki mikið upp á að þetta séu allir árgangarnir frá upphafi ( Sendi kannski seinna 1970 - 1971).
Nú viljum við vinsamlegast biðja þig að ráðstafa þessum blöðum eins og þér finnst skynsamlegast og hafa í huga að sem flestir geti notið þeirra. Við höfum hugsað okkur að eitt eintak af hverju blaði væri á Elliheimilinu á Gimli, þar sem okkur er sagt að helmingur vistmanna séu Vestur-Íslendingar, og hitt eintakið á bókasafni bæjarins.
Þetta er aðeins tillaga. Ef þér líst ekki á hana þá mátt þú ráðstafa þessum blöðum eins og þú vilt og telur best.
Við sendum svo kveðjur til allra Vestur-Íslendinga á Gimli sem vilja taka kveðju okkar og óskum þeim góðs gengis í framtíðinni.
Það er von okkar að þessi blaðasending veiti einhverjum ánægju, ef svo verður þá er tilganginum náð. Að endingu langar mig að biðja þig að senda mér línu til að staðfesta að þið hafið fengið blöðin í hendur.
Með fyrirfram þakklæti fyrir hjálpina.
Innilegar kveðjur.
Fyrir hönd sjómannadagsráðs Vestmannaeyja,
Sigmar Þór Sveinbjörnsson.

Ágúst 28, 1985.
Hr. Sigmar Þór Sveinbjörnsson.
Við aldraða fólkið hér á Betel sendum okkar hjartans þakklæti fyrir blaðasendinguna Sjómannadagsblað Vestmannaeyja sem við höfum meðtekið með góðum skilum.
Flest af okkur lesum og tölu íslensku okkur til ánægju, við höfum mikla ánægju og fróðleik af lestri þessara ágætu blaða. Innilegt þakklæti frá öllum vistmönnum á Betel í Gimli.
Gimli Betel home
Gimli Manitoba
Canada - ROC ÍBO

23. sept. 1985.
Kæri Sigmar Þór Sveinbjörnsson.
Það vill dragast að þakka það sem vel er gert. Nú nýlega frétti ég að engin viðurkenning um móttöku sjómannadagsblaðsins hefði borist þér í hendur. Ég vil því reyna að bæta fyrir mistök annarra. Blaðapakkinn barst mér í hendur með góðum skilum og ég gerði eins og fyrir var lagt. Fór með annan bunkann á Betel og hinn á bókasafnið. Var þessari gjöf vel tekið á báðum stöðum. Taldi ég víst að forráðamenn beggja þessara staða mundu senda þér og þínum félögum nokkur þakkarorð. Svo var ekki. Ég vil því biðja þig, Sigmar, að færa félögunum, sem stóðu að þessari sendingu bestu kveðjur og þakklæti og þér sjálfum fyrir alla fyrirhöfnina og biðja þig velvirðingar á öllum þessum drætti að senda þér kveðjur og viðurkenningu að hafa móttekið sendinguna.
Þinn J.K. Árnason.

Klakksvík, tann 25. august 1985.
Sjómannadagsráð Vestmannaeyja.
Bókasavnið í Klakksvík takkar við hesum fyri stásiliga sjómannablað tykkara. Foroyingar hava skrivað nógv um skip og sjóvinnu og útgerðarmannafelog gjognum tíðina, men sjómannablað eiga teir ikki enn.
Við blíðum kvoðum.
Vegna bókasavnið.
J. Joensen
P/F J.F. Kjollbro er stórsta útgerðarfélagið í Klakksvík