Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Minningar frá gosárinu 1973

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Minningar frá gosárinu 1973

Í dag, þegar þetta er skrifað, 23. janúar 1993, er allt á kafi í snjó hér í Eyjum. Það er ólíku saman að jafna því sem var fyrir 20 árum þegar allt var hér á kafi í gosösku.

Ég get verið þakklátur skapara mínum fyrir hvað ég slapp vel, miðað við allar aðstæður og marga aðra sem fóru mjög illa út úr þessum náttúruhamförum. Vinur minn bað mig að hripa niður það minnisverðasta frá þessum tíma og það ætla ég nú að gera svo vel sem ég man.

Um áramótin 1972-73 réð ég mig á mb. Sigurð Gísla á netaveiðar, og áttum við að sigla með aflann til Þýskalands, nánar tiltekið til Bremerhaven. Með mér á bátnum voru eftirtaldir menn: Skipstjóri Hanni í Svanhól, stýrimaður Hólmar frá Heiði, vélstjóri Guðni Þorsteinsson í Steinasmiðju, hásetar Sigurður Gísli Þórarinsson, Lárus Sæmundsson frændi minn, tveir norðlendingar, Friðrik og Snorri, man ekki föðurnöfnin þeirra, Kristján sonur minn og undirritaður, ekki man ég eftir fleirum.

Við lögðum upp frá Vestmannaeyjum 17.-18. janúar 1973 í snarvitlausu suðaustan veðri og var stefnan sett í hafið, en vegna veðurs gekk ferðin seint og var komið til Færeyja þann 22. janúar til að taka olíu, en ferðinni síðan haldið áfram til Þýskalands. En nóttina áður dreymdi mig draum. Ég þóttist kominn heim og fannst ég vera staddur niðri í kjallara heima, en þar var ég búinn að innrétta tvö herbergi fyrir tvo elstu syni mína, Sigurbjörn og Kristján. Sigurbjörn var í Stýrimannaskólanum í Eyjum en Kristján var með mér eins og fyrr er getið. Nú, sem ég er kominn inn í kjallarann í draumnum finnst mér hann vera orðinn alelda. Ég óð inn í eldinn án þess að hann gerði mér nokkurt mein. Ekki man ég hvaða vitneskju ég hafði út úr þessu að vaða þarna inn, en man þó að mér fannst hurðin á herbergi Sigurbjörns eitthvað brunnin. Ekki var draumurinn lengri að mig minnir, en þegar við komum til Þórshafnar í Færeyjum hringdi ég heim til konunnar minnar til að vita hvort eitthvað hafi komið fyrir heima, en svo var ekki. Ég hélt því að þetta væri bara einhver vitleysa. Um kvöldið 22. janúar fórum við frá Þórshöfn á leið til Þýskalands og höfðum engar fréttir að heiman eftir það fyrr en við komum til Bremerhaven.

Það er ein versta landtaka sem ég hef lent í á ævinni því þegar við höfðum bundið bátinn og gert klárt fyrir löndun daginn eftir var okkur tilkynnt að það hefði orðið eldgos á Heimaey og eyjan væri eitt sjóðandi víti og talið að allir væru látnir. Ég hélt svei mér þá að ég yrði ekki eldri að heyra þessar fréttir, svo mikið varð mér um. Þannig vorum við í óvissu fram yfir hádegi, en þá fengum við fréttir og þær voru mikið góðar. Allir voru lífs og komnir yfir sundið upp á land. Við sáum svo myndir í sjónvarpi og blöðum og þær voru ókræsilegar, mænar húsanna stóðu rétt upp úr gjóskunni og sumum mótaði bara fyrir. Þannig héldum við að bærinn væri bókstaflega allur á kafi. Fengum við ekki nánari fréttir af því fyrr en við komum aftur til Færeyja. Þá sáum við að myndirnar voru frá næsta nágrenni við eldstöðvarnar og létti okkur talsvert við það að vita að bærinn væri ekki allur á kafi.

Þess skal getið að hvar sem við komum, bæði í Þýskalandi og Færeyjum, mætti okkur hlýhugur og vinsemd þegar fólk vissi hvaðan við vorum, fólk vildi allt fyrir okkur gera og fannst mér það mikilsvert því þegar við komum heim kvað við annan tón.

Nú, ferðalagið heim frá Færeyjum gekk ekki alltof vel. Við lentum í norðanbeljandi stórviðri alla leið til Íslands og var litlu á það bætandi sem á undan var gengið. Það má geta þess hér að íslenskur bátur, sem var hálfan eða einn sólarhring á eftir okkur yfir hafið, fórst með allri áhöfn. En nú skal víkja að landtökunni hér heima. Þegar við tókum land voru menn að vonum fegnir að sjá okkur og við þá, en sá fögnaður stóð ekki lengi því þarna komu niður að bát lögreglumenn úr Reykjavík með miklu veldi og bönnuðu okkur að fara í land þótt við ættum þarna hús sem við vildum huga að. Ég átti líka bátinn minn, Sigurbjöm VE 329, þarna í slipp og var hann þar enn, fullur af gjalli og eini báturinn í slippnum. Hina var alla búið að flytja til lands. Þetta urðu mér önnur vonbrigði en ekki þau síðustu. Eftir að ég var búinn að komast í samband við fólkið mitt í Reykjavík fór ég aftur til Eyja til að bjarga bátnum. Þegar ég var búinn að undirbúa bátinn fór ég að vinna hér við búferlaflutninga úr húsum upp á flugvöll og var ég skráður í vinnu að mig minnir í fjórar vikur.

Eftir þann tíma fór ég einn af stað frá Eyjum á bátnum áleiðis til Stykkishólms, því konan var komin þangað með börnin og mest alla búslóðina, en töluvert tapaðist af henni í flutningunum. Fyrsti áfangi var að sigla til Njarðvíkur. Þaðan fór ég með bíl til Reykjavíkur þar sem mér var sagt að ég fengi kaupið mitt greitt. Þegar ég kom í borgina var mér sagt að ég fengi ekkert kaup því ég væri heimamaður og hefði bara verið að bjarga mínum eigin eignum, og þar við sat. Ég fékk ekki eina krónu. Þarna stóð ég eins og þvara, auralaus og átti ekki einu sinni fyrir farinu suður til Keflavíkur. Ég fór nú niður í banka og ætlaði að hitta Ólaf Helgason bankastjóra, en hann var ekki við. Ég fékk viðtal við varamann hans. Hann sagðist ekki lána mér þar sem ég hefði enga tryggingu fyrir því að ég kæmi nokkurn tíma til Eyja aftur. Þar með lokaðist sá möguleiki.

En ég átti vini sem ég fór til. Þar stóð ekki á svarinu, allt sjálfsagt, og þar með komst ég aftur af stað til Stykkishólms til að hitta fjölskylduna mína.

Til Stykkishólms náði ég slysalaust um miðja nótt en vissi ekkert hvar konan var niður komin í Hólminum. Ég fann hana að lokum í elsta húsinu í bænum en húsið er kallað Norska húsið. Þar bjuggum við svo næstu fjóra mánuðina.

Ég hélt að þarna myndi ég komast áfram og fá vinnu, en það varð ekki. Mér var lofað vinnu ef pláss losnaði en það gekk ekki eftir, nema nokkrir róðrar sem ekkert var til að hrópa húrra fyrir. Ekki gat ég róið á bátnum mínum frá Stykkishólmi því það var svo langróið, fjórir til sex tímar á miðin. Þetta var of langt sótt fyrir minn litla bát. Við tókum okkur því upp eftir þessa fjóra mánuði og fórum suður til Þorlákshafnar. Þar vorum við í þrjá mánuði og rerum út í Eyjar á lúðulínu en lönduðum upp í Þorlákshöfn. Þaðan fór lúðan til Reykjavíkur.

Eins og fyrr segir vorum við í Þorlákshöfn í þrjá mánuði en fluttumst þá til Vestmannaeyja aftur. Eftir það undi ég hag mínum vel og var nú kominn heim á undan bankamanninum sem vantaði svo sárlega tryggingu fyrir því að ég kæmi nokkuð til baka aftur.

Ég get varla skilist svo við þessar endurminningar frá gosárinu 1973 að ég minnist ekki á viðlagasjóðsbæturnar sem ég fékk fyrir húsið mitt. Þær nægðu ekki fyrir glerinu í húsið, hvað þá fyrir að setja það í. Öll klæðning á húsinu var ónýt og ég varð að skipta um hana sjálfur og fjármagna það. Ég veit um marga sem sárvantaði aðstoð frá Viðlagasjóði en fengu ekki því mennirnir sem þar réðu ríkjum höfðu allt öðrum hnöppum að hneppa en rétta hlut þeirra sem sárast voru bitnir af þessum hremmingum. Konan mín missti heilsuna um tíma og varð að vera viðloðandi sjúkrahús og hefur ekki náð sér að fullu síðan. Ég sjálfur varð að heyja harða baráttu og sú harðasta var við bakkus konung og vann ég þá lotu, en þótt orrustan vinnist vinnst stríðið aldrei. Það heldur áfram þar til yfir lýkur. Í dag er ég þakklátur skapara mínum og því fólki sem ég hef verið samferða í lífinu því að á því lærir maður mest hvernig maður á að vera, og hvernig maður á ekki að koma fram við náungann.