Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Skólaslit Stýrimannaskólans

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Skólaslit Stýrimannaskólans 1993

Skólaslit skólaársins 1992-1993 voru haldin í Básum 22. maí 1993. Úr 1. stigi útskrifuðust 5 nemendur og 13 úr 2. stigi. Hæstur 1. stigs nema varð Óskar Matthíasson meö meðaleinkunn 8,75, annar Gísli Þorsteinsson, meðaleinkunn 8,09, og þriðji Eiríkur Bragason með 8,05. Allir búsettir í Vestmannaeyjum. Í 2. stigi varð Guðmundur Jón Valgeirsson efstur með meðaleinkunnina 9,58, annar Jarl Sigurgeirsson með meðaleinkunn 9,38 og þriðji Hörður Sævaldsson með meðaleinkunn 9,13.
Þeir eru einnig allir búsettir í Vestmannaeyjum. Guðmundur Jón Valgeirsson fékk loftvog í verðlaun frá Sigurði Einarssyni útgerðarmanni fyrir hæstu meðaleinkunn. Einnig fékk hann Verðandaúrið frá Verðandi fyrir sama árangur og sjónauka frá Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja fyrir hæstu einkunn í siglingafræði. Hörður Sævaldsson fékk bókaverðlaun hjónanna í Eyjabúð fyrir reglusemi og góða ástundun. Einnig fékk hann ásamt Guðmundi Jóni Valgeirssyni verðlaun frá Rótarýklúbbi Vestmannaeyja fyrir hæstu einkunn í íslensku.
Bjarni Jónasson veðurfræðikennari veitti Jarli Sigurgeirssyni bókaverðlaun fyrir góðan árangur í veðurfræði og þá veitti Sigurgeir Jónsson Herði Sævaldssyni og Þorvaldi Guðmundssyni viðurkenningar fyrir velskrifaðar lokaritgerðir.
Eins og áður nýtur skólinn mikils velvilja margra góðra manna og kvenna. T.d. gaf Sigmar Þór Sveinbjörnsson, ritstjóri þessa blaðs, skólanum nú í vetur ljósritaða og innlímt allt úrklippusafn sitt um öryggismál sjómanna, sem er mikið að vöxtum og mikill fengur í.
Vegna fækkunar skipa og margra útskrifaðra skipstjórnarmanna á undanförnum árum er ekkert 1. stig í skólanum á núverandi skólaári og aðeins 6 nemendur eru í 2. stigi. Þetta veldur okkur áhyggjum, en við vonum að botninum sé náð hvað fækkun nemenda varðar og höfum þá trú að um umtalsverða fjölgun verði að ræða á næsta skólaári.
Að lokum sendi ég öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra bestu hamingjuóskir á þessum sjómannadegi og óska þeim velfarnaðar bæði á sjó og landi. Siglið alltaf heilir í höfn.

Friðrik Ásmundsson