Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Vertíðarþorskur við Vestmannaeyjar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
HAFSTEINN GUÐFINNSSON:


VERTÍÐARÞORSKUR VIÐ VESTMANNAEYJAR


VIÐ útibú Hafrannsóknarstofnunar í Vestmannaeyjum er unnið að margs konar verkefnum. Eitt þeirra er að annast lengdarmælingar og kvarnatöku til aldursgreininga á þeim fiski sem berst á land, einkum okkar helstu nytjafiskum. Slíkar mælingar gefa vitneskju um lengdardreifingu aflans og segja til um hvaða árgangar bera uppi veiðina hverju sinni.
Í þessari grein ætla ég að segja frá niðurstöðum slíkra mælinga á þorski hér við Vestmannaeyjar sem veiddur var á vetrarvertíðinni 1992, en grípa einnig til gagna frá árunum 1989 - 1991. Fjallað verður um meðallengd þorsks miðað við aldur á nokkrum veiðisvæðum á djúpslóð og grunnslóð sem veiddur hefur verið í net eða troll. Með djúpslóð er átt við veiðisvæðið sunnan og suðaustan Eyja þar sem landgrunninu sleppir og dýpi eykst gríðarlega á stuttri vegalengd. Í daglegu tali er rætt um að vera við veiðar í kantinum. Dýpi á þeirri slóð er frá 80 til 230 faðmar. Með grunnslóð er átt við veiðisvæði upp á landgrunninu þar sem dýpi er minna en 80 faðmar, t.d. við Leddina, á Holtshrauni, við Drangana og á Sandagrunni.
Einnig verður fjallað um árgangaskipan í þorskaflanum á vetrarvertíðum hér við Eyjar síðustu árin og sýnt fram á hvernig tveir árgangar hafa borið uppi veiðina. Þá verður lítillega fjallað um árgangaskipan þorsks við Eyjar og á svæðinu Pétursey - Vík sumarið 1992.

ALDURSLENGDARSAMBAND ÞORSKS Á VERTÍÐINNI 1992
Í upphafi vertíðar er mál manna að stærsti og oft elsti þorskurinn gangi fyrst á miðin en síðan fylgi yngri og smærri fiskur í kjölfarið. Þetta kemur heim við niðurstöður rannsókna. Stærsti þorskurinn er fyrst tilbúinn til hrygningar og gengur mun fyrr inn á grunnmiðin en smærri fiskurinn. Hrygning hinna smærri verður mun seinna og getur teygst fram í maí og jafnvel júní. Vorið 1991 var t.d. hrygningu þorsks á Selvogsbanka ekki lokið fyrr en í lok maí eða í byrjun júní. Hrygning dregst einkum á langinn þegar stórt hlutfall hrygningarfisksins er úr yngri árgöngunum í hrygningarstofninum. Norðmenn hafa svipaða sögu að segja því við vesturströnd Noregs gengur stærsti þorskurinn fyrstur til hrygningar en síðan sá smærri.
Mælingar á þorski í útibúi Hafrannsóknastofnunar í Vestmannaeyjum hafa einnig sýnt að svona gengur þetta til í stórum dráttum. Á vertíðinni 1992 sýndu mælingar áberandi mun á meðallengd þorsks miðað við aldur á grunnmiðum, samanborið við þorsk sem veiddur var í djúpkantinum sunnan og suðaustan Eyja (mynd 1 og 2). Í mars var þorskurinn inni á grunni frá 90 cm til rúmlega 100 cm að lengd, en í djúpkantinum frá 75 til 90 cm að lengd (mynd 1). Á báðum veiðistöðum var þó um sömu aldurshópa að ræða en það er 6 til 9 ára fiskur. Gögnin sýna einnig að meðallengd þorsksins inni á grunnslóð fer smám saman minnkandi eftir því sem líður á vorið og hrygninguna (mynd 2). Skýringin á þessu er sú að smám saman gengur inn smærri fiskur sem þó er úr sömu árgöngum og sá sem fyrst gekk inn á grunnið. Sama er uppi á teningnum úti í kanti. Sömu árgangarnir finnast í veiðinni alla vertíðina. Þegar kemur fram á vor eru einstaklingarnir smærri en í byrjun vertíðar (mynd 1 og 2). Það er því sífellt að bætast við inn á grunnið fiskur sem seinna var tilbúinn í hrygningargöngu en sá sem fyrst kom. Þannig virðist ástæðan fyrir því að smærri fiskurinn veiðist er líður á vertíðina fyrst og fremst vera sú að smærri einstaklingarnir innan hvers árgangs eru seinna á ferðinn en þeir stærri. Hlutfall hvers árgangs í veiðinni breytist sáralítið frá byrjun vertíðar til vors sé litið á gögn síðustu tveggja ára. Rétt er að benda á að hinn mikli munur sem kemur fram á meðallengd sömu árganga veiddum á grunnslóð og djúpslóð getur að einhverju leyti stafað af mismunandi möskvastærð netanna sem notuð eru við veiðarnar. Ég tel þó fullvíst, miðað við mælingar frá fyrri árum og gögn um meðallengd þorsks úr botnvörpu á grunnslóð og djúpslóð á vetrarvertíð, að hér sé að stærstum hluta um raunverulegan mun í meðallengd hvers aldurshóps að ræða. Eins og kemur fram byggist veiðin á vertíðinni 1992 á 6 til 9 ára fiski (myndir 1 og 2). En síðar í þessari grein verður komið að því hver þessara fjögurra árganga var mikilvægastur í veiðinni.

FYRRI ÁR
Svipaður munur milli meðallengdar þorskárganga hefur komið fram í vertíðarveiðinni á síðustu árum í þorskafla veiddum á grunnslóð og í djúpkantinum. Þetta er því ekki nýtt fyrirbæri þó því hafi verið gefinn meiri gaumur nú hin seinni ár. Margir muna eftir þeim stóra þorski sem veiddur var í nót inni á grunnslóð upp úr 1960 og var vissulega gamall, þ.e.a.s. 10 til 15 ára. Hins vegar hefur sá stóri þorskur, sem veiðst hefur inni á grunni síðustu árin, síður en svo verið háaldraður. Ég vil nefna dæmi um þetta frá því í febrúar 1991. Þá var landað þorskafla sem fékkst í troll á grunnslóð út af Pétursey annars vegar (dýpi 50-60 fm.) og hins vegar afla úr netum sem veiddur var í djúpkantinum út af Pétursey (dýpi 100 - 230 fm.). Niðurstöðurnar sýna að þorskurinn sem veiddur var á þessum tíma var úr sömu árgöngum, þ.e. 6 til 9 ára fiskur. Þorskurinn sem fékkst inni á grunninu var mun stærri og þyngri en jafnaldrar hans á dýpinu (mynd 3). Í þessu tilfelli bendir margt til að trollfiskurinn hafi verið „sunnlendingur“, það er að segja þorskur sem alist hefur upp í hlýja sjónum sunnanlands. Enda sýndu árhringir í kvörnum mjög hraðan vöxt og lítil skil milli vetrar- og sumarvaxtar. Slíkur fiskur hefur sýnt sig að vera afar hraðvaxta. Ástæður þess eru fyrst og fremst hlýr sjór og nóg æti. Staðir sem fóstra slíkan fisk við Suðurströndina eru t.d. svæðin inn af Eyjum, Pétursey - Vík og við Ingólfshöfða. Fiskurinn sem veiddist úti í kanti hefur á hinn bóginn sennilegast verið kominn frá uppeldisstöðvum norðan- og austanlands. Hann hefur vaxið mun hægar vegna ólíkra lífsskilyrða og er þar af leiðandi smærri.
Annað dæmi um síkan ofurþorsk er frá því í febrúar 1990. Þá varð ágætis þorskveiði í troll vestan við Heimaey í tvo sólarhringa og fékkst einungis þorskur af stærstu gerð. Höfðu menn á orði að þarna væri sá gamli kominn. Við nánari skoðun kom þó í ljós að þarna var á ferðinni þorskur úr sömu árgöngum og báru uppi vertíðarveiðina úti í kanti. Aldursgreining á aflanum sýndi að um var að ræða þorsk frá 5 til 12 ára (mynd 4). Jafnframt kom í ljós að yngsti fiskurinn (5 til 8 ára) var óvenjustór miðað við aldur. Það sýndi sig einnig að nær annar hver fiskur í aflanum var 7 ára (árg. 1983), 8 ára fiskur (árg. 1982) var 19% af aflanum en 6 ára fiskur (árg. 1984) var 13% (mynd 5). Þorskur, 9 ára og eldri, var 18% af aflanum sem er ákaflega lágt hlutfall ef miðað er við hvernig aldurssamsetning í þorskafla var um 1960. Samtals voru árgangarnir frá 1983 og 1984 í þessari mælingu um 60% aflans.
En hvaðan kom þessi fiskur og hvar hafði hann haldið sig fram að þessu? Enga skýringu hef ég á því og ekki hef ég heldur fengið svör um þetta hjá þeim skipstjórum og sjómönnum sem ég hef borið þetta undir. Árhringir í kvörnum sýndu þó að þessi þorskur hafði alist upp í hlýjum sjó og því væntanlega vaxið upp hér sunnanlands.
Ef litið er nánar á vertíðarafla þorsks 1990 kemur í ljós að sýni gefa ákaflega breytilegt samband milli aldurs og lengdar (mynd 6). Hluta af þessum breytileika má skýra með mismunandi veiðanleika veiðarfæra (net - troll) og mismunandi möskvastærð (net), samanber að smærri þorskur veiðist eftir páska þegar smærri möskvi (6") er tekinn í gagnið. Þessar niðurstöður sýna svo ekki verður um villst að það er oft ákaflega hæpið að reyna að ráða í aldur þorsks út frá lengdinni einni saman. Því er ljóst að uppvaxtarskilyrði þorsks á Íslandsmiðum eru geysilega breytileg. Getur munað yfir 50% á lengd jafngamalla fiska eftir því hvar þeir alast upp, ekki síst þegar árgangarnir eru stórir eins og árgangarnir frá 1983 og 1984 voru. Í þessu samhengi sem hér um ræðir stendur þó upp úr að smærri þorskurinn veiðist að jafnaði dýpra en sá stærri á því svæði sem hér um ræðir.

HLUTFALL ÁRGANGA í VERTÍÐARAFLANUM
Athyglisvert er að skoða hvaða árgangar bera uppi veiðina síðustu árín. Margoft hefur komið fram í skýrslum Hafrannsóknastofnunar að það hafa aðeins tveir sterkir þorskárgangar komið fram á síðustu 10 árum. Þetta eru árgangarnir frá 1983 og 1984. Eins og flestum mun kunnugt virðast allir árgangar frá 1985 til 1992 vera slakir þó 1985-árgangurinn sé skástur eða í tæpu meðallagi. Samkvæmt þessari vitneskju var einnig búist við að þessir tveir sterku árgangar bæru uppi veiðina í nokkur ár. Sú hefur raunin líka orðið. Á undanförnum fjórum vertíðum hefur hlutfall þessara tveggja árganga samanlagt verið frá 60% upp í 80% af veiddum þorskum í net og frá tæpum 40% upp í um 90% í troll (myndir 7 og 8). Þetta þýðir að 4 - 9 af hverjum 10 veiddum þorskum á vertíðum síðustu fjögur árin hafa verið úr þessum tveim árgöngum. Árið 1989 var árgangurinn frá 1983 (þá 6 ára) mikilvægastur en árin 1991 og 1992 var annar hver þorskur sem veiddist í net úr árganginum frá 1984, þ.e. 8 ára (mynd 7). Menn hafa verið að furða sig á því að þorskurinn í kantinum og inni á grunni fari sífellt stækkandi undanfarin ár. Skýringin er sú að veiðin byggist að stærstum hluta á sömu árgöngunum ár eftir ár og þorskurinn úr þessum árgöngum verður sífellt stærri eftir því sem hann eldist. Þess vegna hækkar meðalaldur hrygningarstofnsins sem kemur fram í jafnstærri fiski í aflanum. Þá virðist einnig að þorskur, sem orðinn er kynþroska og genginn á hrygningarslóð, hverfi ekki til baka austur og norður um í ætisleit að lokinni hrygningu í sama mæli og gerðist áður fyrr þegar þorskstofninn var stærri. Árgangaskipan á þorskafla í net á vertíðinni 1992, sem landað var í Vestmannaeyjum, er sýnd á myndum 9 og 10 fyrir grunnslóð og djúpslóð. Þar sést hve mikla yfirburði árgangurinn frá 1984 hefur í veiðinni. Einnig kemur vel fram hve farið er að ganga á árganginn frá 1983. Árgangurinn frá 1985 nær því að vera að jafnaði fjórði til fimmti hver fiskur í netaveiðinni.
Það hefur einnig komið fram í vertíðaraflanum að árgangar frá 1986 og 1987 hafa verið mjög slakir (myndir 9 og 10). Þetta kemur heim og saman við fyrstu spá Hafrannsóknastofnunar um að þessi árgangar væru lélegir.

LOKAORÐ
Eins og rakið hefur verið hér að framan hefur vertíðarþorskveiðin síðustu árin einkum mætt á tveimur árgöngum, þ.e. frá 1983 og 1984. Mælingar frá vertíðinni 1992 sýna að mjög er farið að ganga á árganginn frá 1983 en 1984, árgangurinn var enn ótrúlega sterkur í veiðinni. Sennilega mun árgangurinn frá 1984 enn verða öflugur í veiðinni á vertíðinni 1993, en öll gögn benda þó til þess að hann fari minnkandi úr þessu. Afleiðingin verður væntanlega sú að það dregur úr þorskveiði á vertíðum næstu árin vegna þess hve þeir árgangar sem eiga að leysa hann af hólmi er lélegir. Þá er spurningin hvort von sé á að eitthvað gangi inn af þorski annars staðar frá, t.d. frá Grænlandi. Á því eru afar litlar líkur.
Það er nú orðið ótrúlega brýnt að klak heppnist hjá þorskstofninum þannig að öflugur árgangur nái að vaxa upp. Allir árgangar frá 1985 eru lélegir samkvæmt seiðarannsóknum og öðrum rannsóknum sem fara fram á ungþorski (t.d. í togararalli). Þó má benda á að meira hefur borið á ungþorski hér við suðurströndina síðustu sumur (1991 og 1992) en árin þar á undan. Þetta er þorskur úr árgöngum frá 1989 og 1990. Ekki er þó ljóst hve mikið magn þetta er og menn reikna ekki með að það skipti sköpum varðandi stærð þessara árganga. Þetta er þó ljós punktur í stöðunni fyrir miðin hér í kringum Eyjar. Hlutfall þessara árganga í veiði í botntroll í leiðangri í júlí 1992 komst í 60 til 70% af mældum þorskum kringum Vestmannaeyjar og á svæðinu frá Pétursey að Vík (mynd 11). Þetta er hraðvaxta fiskur sem skilar sér mun fyrr inn í veiðina sem nýtanlegur fiskur en jafngamall fiskur fyrir norðan og austan.