Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Sjómannadagurinn 1992

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
SJÓMANNADAGURINN 1992


Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur 13. og 14. júní. Hátíðarhöldin hófust á laugardeginum kl. 13:30 með kappróðri og koddaslag. Að þessu sinni var óvenjulítil þátttaka í leikjum dagsins, en töluverður mannfjöldi var samankominn í Friðarhöfn að fylgjast með.
Borðhald og dansleikir voru í Samkomuhúsi Vestmannaeyja, Höfðanum og Alþýðuhúsinu og hófust kl. 20:30. Hljómsveitirnar sem spiluðu voru Karma í bíósal og Prestó í Hallarlundi. Á Höfðanum spilaði hljómsveitin Sue Ellen og í Alþýðuhúsinu spiluðu Eymenn og Bryndís. Dansleikirnir voru til kl. 4:00. Að morgni sunnudagsins kl. 10:30 var opnuð sýning er nefndist „Sjósókn í Vestmannaeyjum“ og stóð sjómannadagsráð fyrir sýningunni ásamt bæjarsöfnunum. Meðal þeirra sem sýndu voru: Björgunarfélag Vestmannaeyja, Slysavarnardeildin Eykyndill, Póstur og sími, Náttúrugripasafnið og einstaklingar og fyrirtæki. Um 500 manns komu á sýninguna fyrsta daginn. Kl. 13:00 hófst hin hefðbundna dagskrá sjómannadagsins með sjómannamessu í Landakirkju. Séra Bjarni Karlsson prédikaði og eftir messu var minningarathöfn við minnisvarðann um drukknaða og hrapaða. Einar J. Gíslason sá um þann þátt í 35. skipti. Einar sagði við þetta tækifæri að hann hefði staðið þarna á hverjum sjómannadegi síðan 1957 og á þessum árum hefði það aðeins gerst þrisvar að enginn sjómaður hefði horfið úr röðum okkar og þetta ár, 1992, er eitt af þeim. Eftir kaffiveitingar í Alþýðuhúsinu, sem Eykyndilskonur sáu um með miklum myndarbrag, hófst dagskrá á Stakkagerðistúni kl. 15:30 með leik Lúðrasveitar Vestmannaeyja. Ræðu dagsins flutti Guðjón A. Kristjánsson forseti F.F.S.Í.
Einar J. Gíslason sá um að heiðra aldraða sjómenn og veita viðurkenningu fyrir björgunarafrek. Að þessu sinni voru þeir Bjarnhéðinn Elíasson, Ólafur Þórðarson frá Suðurgarði og Kristinn Pálsson heiðraðir fyrir störf sín á sjónum.
Fyrir björgunarafrek voru heiðraðir þeir Guðjón Björnsson og sonur hans, Jón Ingi, fyrir að bjarga Kjartani Má Ívarssyni þegar bátur hans Fáfnir VE-181, fórst hér vestan við Eyjar. Áhöfn Guðrúnar VE var heiðruð fyrir að bjarga manni úr höfninni á Hornafirði.
Bergvin Oddsson, skipstjóri og áhöfn á Glófaxa VE, fékk viðurkenningun frá Siglingamálastofnun ríkisins fyrir góða umhirðu á skipi og björgunarbúnaði. Að endingu voru veitt verðlaun fyrir leiki laugardagsins. Því miður er ekki hægt að hafa hér með tíma í róðrarkeppni því þeir finnast ekki þrátt fyrir mikla leit.
Hljómsveitin Karma skemmti á túninu og ýmislegt annað var gert til skemmtunar.
Kl. 16:00 var skákmót í Safnahúsinu sem sjómenn og landmenn tóku þátt í. Ekki er Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja kunnugt um úrslit mótsins. Á sunnudagskvöld kl. 22:00 hófust svo dansleikir í öllum húsum og stóðu til kl. 3:00.

S.Þ.S.