Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Minningar um föður minn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
KRISTINN VIÐAR PÁLSSON:


MINNINGAR UM FÖÐUR MINN


Oft á æviskeiði lítum við til baka og rifjum upp ýmis atvik sem á dagana hefur drifið. Sumt af því hefur horfið í dul sinni út í fjarskann, en annað gleymist aldrei, kannski það sem dýpst hefur sett sín mörk á tilveruna og endurminningin ekki náð að afmá. Því hversu langa leið sem tíminn líður áfram inn í bláma fjarlægðarinnar bergmálar ætíð andi hins liðna í vitund okkar. Þannig birtist hugblær hinna liðnu daga þegar ég lít á lífsgöngu látins manns sem ég ætla að reyna að festa á blað í fáum dráttum. Hún verður mitt leiðarljós að þeirri sögu sem faðir minn lét eftir sig.
Hann hét Páll Jóhannes, fæddur í Búðarkaupstað á Fáskrúðsfirði hinn 29. janúar árið 1898, eitt af fjórum börnum þeirra hjóna Snjólaugar Jónsdóttur og Guðmundar Michelsen sem ættaður var frá Færeyjum. Hin systkini hans voru Guðný Petra, Sigurlaug og Friðjón. Öll eru þau látin og hvíla hér í Landakirkjugarði. Einnig ólu þau upp þrjú önnur börn. Eflaust hefur æska hans og unglingsár verið lík og hjá öðrum ungmennum sem þá voru að alast upp í litlu sjávarþorpi á Austfjörðum á fyrri hluta aldarinnar þar sem flest störf tengdust fiskveiðum og fátt í annað að venda. Allir urðu að leggja sínum lið í erfiðri lífsbaráttu og ekki spurt um mátt né menntun. Guðmundur faðir hans átti opinn róðrarbát og stundaði veiðar ásamt hásetum sínum þau ár sem hann bjó fyrir austan. Hann var aflasæll og undi sér vel. Þegar faðir minn hafði aldur til fór hann í skipsrúm hjá honum og réri á Færeying eins og báturinn var nefndur eftir byggingarlagi sínu í gegnum árin. Þegar vélvæðingin hélt innreið sína vék hinn hljóðláti kliður áralagsins fyrir hávaðasömu mótorskellunum og miklir umbrotatímar fóru í hönd. Þetta freistaði ungra og upprennandi sjómanna og því réð hann sig á einn þessara nýju báta, Heklu, 12 smálesta bát sem keyptur var frá Færeyjum, glæsilegur farkostur að sögn. Framtíðin beið og nýtt ár gekk í garð með frosti og fannkomu. Örlögin höfðu lagt gildrur sínar fyrir óharnaðan unglinginn, vertíðin byrjaði vel, allt lék í lyndi framan af en óveður var í aðsigi.
Í aprílbyrjun gerði aftakahríðarveður og gaf ekki á sjó í marga daga. Lágu bátar við ból úti á firðinum, veðrið færðist frekar í aukana en hitt. Um morguninn 7. apríl 1915 tóku menn eftir því að Hekla var að losna af legufærum. Kom skipshöfnin sér saman um að róa um borð og færa bátinn innar í fjörðinn og halda sjó meðan mesti veðurofsinn gengi yfir. Auk föður míns, sem var yngstur skipverja, voru þar Guðjón móðurbróðir hans háseti, þrekmenni mikið, Árni Árnason vélamaður og skipstjóri var Stefán Jakobsson, maður mikill að burðum. En veðrið hélt áfram að versna og olía á þrotum. Var þá sýnt að freista yrði þess að keyra bátinn á land á heppilegum stað og festa hann þar, en til þess þurfti að koma línu í land. Guðjón háseti bauðst til fararinnar. Batt hann um sig streng og þegar báturinn kenndi grunns stökk hann, Válegur brimgnýrinn barst að eyrum þeirra sem á ströndinni biðu og hugðust hjálpa til við landtökuna. En oft fer öðruvísi en vonast er til. Eins og hendi væri veifað kom stormkviða sem lagði bátinn á hliðina og rak hann frá landi út í hríðarsortann. Svo rétti hann sig við og skipverjar drógu þungan strenginn um borð. En sú sjón sem við blasti gleymdist aldrei, því á endanum var Guðjón háseti örendur. Hafði hann bundinn dregist út með bátnum og ekki náð að losa sig og enginn séð það. Báturinn hafði klakað mjög og var þungur á öldunni. Átti nú að reyna á öðrum stað og komast þar á land en það var eins og veðurguðirnir ærðust í þessum hildarleik storma og kulda. Í landi fylgdust menn með viðureign þeirra við náttúruöflin. Var nú komið að föður mínum að koma festum í land. Hann var reiðubúinn þegar kjölurinn nartaði í fjöruna. Það hefur verið sagt að vonin sé það síðasta sem deyi með manninum. Hann vissi af ástvinum sínum í landi sem eygðu þá von að fá hann heilan á húsi. Með trúna á lífið stökk hann út í óvissuna. Í flæðarmálinu braust hann um með líflínuna. En ekki er ein báran stök, strengurinn rann úr greipum hans er bátinn tók út á ný. Í fjörunni gripu sterkar hendur unglinginn og komu honum í öruggt skjól. Skömmu síðar komust þeir, sem eftir voru um borð, til lands heilir á húfi en mikið þjakaðir. Þessi lífsreynsla þeirra skildi eftir sig djúp sár á sálarlífi þeirra sem seint greru.
Það birtir og syrtir í öllu lífi. Gagnkvæmt hefur það verið í gegnum tíðina að Eyjamenn sóttu atvinnu á Austfirði og austanmenn hingað þegar mikið aflaðist. Því vildi faðir minn kynnast þeirri verstöð sem hann hafði heyrt svo mikið talað um. Ár eitt í vetrarbyrjun kemur hann hingað til Eyja með hópi vertíðarmanna sem dvalist höfðu hér og héldu til í kjallaranum á Hól við Miðstræti hjá séra Jes sem þá átti útgerð. Austfirðingar voru gleðimenn miklir og héldu vel hópinn og annálaðir fyrir dugnað. Pabbi var með afbrigðum handfljótur og var mikið sóst eftir slíkum mönnum í lagningu línunnar sem þá var lögð með öðrum hætti en nú á dögum. Sem kunnugt er voru línuveiðar mikið stundaðar í byrjun hverrar vertíðar. Hann varð fyrir því óláni, eða láni í óláni eins og hann sagði, að fá ígerð í hendi af völdum önguls sem festist og reif upp lófann. Það hafði þær afleiðingar að hann missti framan af fingrum hægri handar og varð frá vinnu um nokkurt skeið. Hér í Eyjum var þá vinnukona, ung stúlka frá Stokkseyri sem Þuríður hét, og meðan á veikindum hans stóð kynntist hann henni og allt annað gleymdist nema hún.
Í lok vertíðar fara þau saman til Fáskrúðsfjarðar og deildu húsi með foreldrum hans. Einhverju sinni sagði hann að mamma hefði verið eins og vorblærinn sem fyllti húsið af glaðværð og hlýju. Á næstu árum var hann flestar vertíðir hér í Eyjum en kom svo heim til sín á vorin og réri sumar og haust með föður sínum fyrir austan. Franskar skútur komu oft til Fáskrúðsfjarðar á þeim árum. Kynntist pabbi sumum þessara langsigldu flandrara sem oft bjuggu við vosbúð langt frá sinni heimabyggð. Mamma seldi þeim prjónavörur sem hún hafði gert, en fékk í staðinn ýmsar vörur sem sjaldséðar voru í byggðinni. Svona gekk lífið um hríð. En brátt verða þáttaskil í lífi þeirra. Eyjan í suðri hefur náð sterkum tökum á þeim hjónum og ýmislegt hefur orðið þess valdandi að þau ákveða að flytja sig um set. Það eru erfið ár, sorgin gefur engum grið. Þau hafa misst eitt barna sinna. Eftir það er ekkert eins og áður. Með þrjú börn sín kveðja þau æskustöðvarnar hans og sigla til fyrirheitna landsins. Það er árið 1935.
Fagran vormorgun blöstu Vestmannaeyjar við stafni. Ný framtíð og jörð að vakna til lífsins. Hér var ört vaxandi bær og byggðin óðum að stækka og laðaði til sín fólk frá öllum landshlutum. Hér vöknuðu bjartar vonir og brár. Hafið, þetta mikla forðabúr sem ræður lífi og lyndi sjómannsins, hélt áfram að heilla hann. Öldur Atlantshafsins voru gjöfular. Hann réð sig til Guðlaugs Halldórssonar á Sólbergi sem lengi var formaður hér og hinn ágætasti hagleiksmaður. Mat faðir minn hann mikils og var gott vinarþel á milli þeirra. Á árdögum vélmenningar voru bátar ekki stórir á nútímamælikvarða og því mæddi mikið á þeim sem við stjórnvölinn stóðu hverju sinni, einkum þegar stórviðri geisuðu. Vélarnar voru tveggja strokka og púströr allsver. Liðu stórir reykhringir upp í loftið þegar þær voru í gangi og var oft hægt að þekkja bátana á því úr fjarlægð.
Bryggjur voru ekki margar né stórar og varð að geyma báta við ból úti á höfn þegar lokið hafði verið við löndun sem oft var erfiðleikum háð eftir því hvernig stóð á flóði. Aflanum var hent með handafli upp á þilfar, síðan upp á bryggju og loks upp á bíl eða þar til gerðan vagn. Bátnum var síðan siglt að bóli en einhverjir af áhöfninni sóttu þá sem eftir voru um borð á árabát sem vanalega var geymdur í Skildingafjöru. Þessar ferðir voru oft hættulegar og hlutust af slys sem sagan geymir. Þessum mönnum á þjóðin mikið að þakka sem fórnuðu lífi og limum við að draga björg í bú við vosbúð í vályndum veðrum. Þótt veðrið sé breytingum háð og aukin þægindi hafi aukið lífsbaráttuna eru auðæfi hafsins ekki óendanleg og vanhirða um þau getur orðið okkur að fjörtjóni. Íslensk sjómannastétt, sem hert er í aldabaráttu við óblíð veðuröfl, veit að hverju má stefna.
En hver var þáttur sjómannskonunnar sem vissi af eiginmanni sínum á litlum bát og vanbúnum til að takast á við ofurefli hafsins? Þar bjó angist í augum ef ekkert hafði frést seint að kveldi. Þá var reynt að afla frétta í skýlinu á Básaskersbryggju, eða hímt undir virkisveggnum á Skansinum. Sumir komu seint, aðrir aldrei.
Móðir mín átti margar andvökunætur. Þegar við héldum að hún svæfi, þá vakti hún eftir manni sínum. Kannski þurfti að færa honum ný föt eða vettlinga. Það var margt sem heill hugur gat áorkað. Þegar móðir mín var að búa hann til sjós fylgdu honum ávallt blessunarorð og koss á kinn.
En á annarri slóð var einnig rekin útgerð þar sem engin landhelgi né aflatakmörk voru til. Það var í þá tíð þegar Botninn var ein samfelld sandfjara frá Friðarhöfn inn að Litlu-Löngu. Þar undu ungir drengir daglangt og sigldu heimasmíðuðum bátum sínum með rá og reiða fullhlöðnum eftir flæðarmálinu. Aflinn var skeljar og kuðungar sem tíndir voru í fjörunni. Pabbi hafði gaman af þessu og fylgdist oft með þegar hann var að tína eldivið til húshitunar sem mikið var af í fjörunni. Hann hafði mikla unun af og áhuga á að hjálpa til svo betur mætti fara. Hann hafði um tíma verið á einu af skipum Fellsútgerðarinnar sem hér var starfrækt um hríð og sigldi með afla. Þá gaf hann okkur bræðrum skútu sem var í okkar augum slík gersemi að við tímdum vart að vatna þær nema á sólskinsbjörtum dögum þegar lognaldan lék sér við þangið. Þetta var skemmtilegur tími og skilur eftir sig andblæ sem seint gleymist. Það er bjart yfir bernskunni.
Næstu árin var hann á síldar- og vetrarvertíðum með þekktum skipstjórum. Sjötti áratugurinn er genginn í garð. Það var haustið 1952. Hann var þá skráður skipverji á Guðrúnu VE, skipstjóri var Óskar Eyjólfsson, kenndur við Laugardal. Þeir þekktust vel og hugðist pabbi vera þar áfram um veturinn. En örlög ráða eða undirmeðvitundin sem er óráðin gáta og hvíslar sínar leyndustu hugsanir. Var hún að verki eða höfðu æðri máttarvöld ákveðið annað? Rétt um áramótin 1953 hætti hann til sjós. Lagt var að honum að halda áfram en hann sat við sinn keip. Ákvörðun hans varð ekki haggað. Hvað olli því spurði ég aldrei, en 23. febrúar þá um vertíðina fórst Guðrún VE með fimm mönnum. Pabbi réðst til starfa í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja þar sem starfsævi hans lauk haustið 1954 þegar heilsa hans brást.
Allt er í heiminum hverfult og hið mannlega ekki síður. Vorið sama ár var hann líkmaður við útför lítillar stúlku. Honum varð fótaskortur við kistuna. Þá mælti hann: „Kannski ég verði sá næsti.“ Allt sem lifir á sitt sólsetur. Árið eftir, 1. maí 1955, lést hann á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Vorið var komið og hin fagra veröld að lifna úr viðjum vetrar. Þegar ég stóð við gröf hans vissi ég að ég var að kveðja hraustan mann, þrekvaxinn með kaskeiti á höfði, mann sem átti við ramman reip að draga því freistingarnar verða á vegi hvers einasta manns. Sumir sigrast á þeim en aðrir verða undir í þeirri baráttu. Kannski var hann of veiklundaður til að berjast gegn einni þeirra. Vissulega líða stundir ævinnar í birtu og skugga, en allar þær auðnustundir sem hann hafði gefið okkur fannst mér hafa liðið eins og örfleyg augnablik. Þótt fjarlægðir mildi allt og fegri í minningunni er í myndum daganna ástríkir foreldrar það fegursta og besta sem barnssálin geymir og hefur að leiðarljósi í framtíðinni