Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Dýptarmælar og fiskleitartæki

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
RÍKHARDUR SIGMUNDSSON:


DÝPTARMÆLAR OG FISKLEITARTÆKI


Fiskimönnum hefur alltaf leikið hugur á því að geta fengið fyrirfram vitneskju um hvar fisk væri helst að fá, í stað þess að renna veiðarfærinu blint í sjóinn. Menn fóru því snemma að setja á sig mið líklegra staða, fylgjast með ýmsum náttúrulegum fyrirbærum, til dæmis fuglalífi á sjónum, veðurfari, fiskifræði o.fl.
Fyrir tíð dýptarmælanna er mér ekki kunnugt um að notuð hafi verið hér á landi tæki sem beinlínis gætu sýnt hvar fisk væri að finna. Þó hef ég heyrt að við síldveiðar í fjörðum austanlands hafi verið notaður stálvír með lóði til að finna torfurnar. Einnig hef ég heyrt minnst á sjókíki sem átti að gera mönnum kleift að sjá eitthvað niður í sjó.
Með tilkomu dýptarmælanna opnuðust að sjálfsögðu möguleikar á því að finna fiskitorfur, en fáir munu þó hafa gert sér grein fyrir þessum möguleika fyrr en sjálfritararnir komu á markaðinn.
Fyrstu mælarnir sem settir voru í íslenska togara voru yfirleitt ljósskífumælar, eða svonefndir neistamælar, og var dýpið lesið af glerskífu um leið og ljósglampi sást við þá tölu sem svaraði til dýpisins.
Sendirinn var hamar sem lyft var með rafsegulspólu en sterkur gormur sló honum síðan við skipsbotninn. Svonefndir „hydrophonar“ voru notaðir til að taka við endurkastinu en tíminn milli sendinga og móttöku var færður út í föðmum eða metrum á áðurnefndri skífu.
Svona var Hughes-mælirinn sem settur var í Leikni um 1927 og svona var einnig Fathometerinn í Garðari frá Hafnarfirði sem smíðaður var 1930.
Algengasti dýptarmælirinn í íslenskum togurum á árunum kringum 1930 var Marconi-neistamælirinn með kristalsbotnstykki sem var mikil framför frá hamarssendinum. (Kristalsbotnstykki voru þó viðkvæm fyrir höggum, t.d. ef skip voru í viðgerð í slipp.)
Fyrsti sjálfritandi dýptarmælirinn sem settur var í íslenskt fiskiskip var frá Kelvin Hughes verksmiðjunum í Englandi, gerður samkvæmt einkaleyfi bresku flotamálastjórnarinnar. Hér var á ferðinni ný tækni, bæði við sendingu og móttöku og einnig voru nú í fyrsta skipti niðurstöður mælinganna ritaðar á pappír þannig að samfellt og varanlegt yfirlit fékkst yfir dýpi og botnlag. Hið síðarnefnda reyndist strax mjög þýðingarmikið þar sem hægt var að gera sér grein fyrir hvort botn var sléttur eða ósléttur, harður eða mjúkur.
Ný sendi- og móttökutækni byggðist því sem á ensku nefnist „magneto striction“ eða þeim eiginleika nikkels að þenjast út eða dragast saman í breytilegu segulviði. Þessi aðferð hafði marga kosti, m.a. þann að hægt var að senda gegnum heilan botni stálskips og var því hægt að koma þeim fyrir án þess að taka skipin í slipp. Þegar nikkelkjarnarnir voru hafðir innanborðs í botni skipsins voru þeir í vatnsfylltum tönkum en innan í þeim og yfir kjörnunum voru hljóðvarpar (reflectorar) sem vörpuðu hljóðbylgjum niður og tóku síðan á móti. Þótt aðferð þessi hefði marga kosti hafði hún einnig sína ókosti og var lofttruflun (earation) versti óvinurinn. Með því að festa nikkelkjarnana utan á skipinu eins og síðar var gert bar mun minna á þessari truflun en mun meiri hætta er á skemmdum ef skip stendur við bryggju eða siglir í ís.
Ég man eftir MS 3 (magnetic stiction) sem var í norsku selveiðiskipi sem hét Veslikari. Í MS 3 færðist ritarinn lárétt fram og aftur líkt og skytta í vefstól. Pappírinn var þurr en blotnaði á sérstökum púða á leið að ritaranum.
Gamli Gullfoss, Esja og Edda fengu sjálfritandi dýptarmæla. Fyrsti togarinn sem fékk slíkan mæli var Reykjarborg í janúar 1940, undir stjórn Guðmundar Jónssonar sem kenndur var við Skallagrím. Árið eftir var settur mælir í Garðar frá Hafnarfirði, varðskipið Ægi, Rifsnesið, Skaftfelling, Helga, Jarlinn, Vébjörn og Auðbjörn á Ísafirði, gamla Narfa, Andey, Stellu, Bjarka, Þórð Sveinsson, Hring og togarann Vörð og síðan hvert skipið af öðru. Nokkrum af þessum skipum var sökkt á stríðsárunum, þar á meðal Reykjarborg og Garðari sem voru stærstu togarar Íslendinga.
Á árunum 1940-1942 voru settir Hughes-mælar í átta norsk skip hér í Reykjavík. Að minnsta kosti eitt þessara skipa, Honningvauk var seinna sent til Englands. Þegar það kom aftur hingað var ég beðinn að líta á dýptarmælinn. Ég sá strax að nýtt tæki var komið í skipið og þar eð sumir hlutar þess voru nákvæmlega eins og í dýptarmælinum fór ég að spyrja hvað þetta væri. Norsku offiserarnir litu hver á annan og urðu alldularfullir. Einn þeirra sagði mér þó síðar að það væri að vísu hernaðarleyndarmál, en hér væri kominn skelfir þýskra kafbáta: Asdic (kennt við stofnun þá eða nefnd sem falið var að finna upp varnir og vopn gegn kafbátum, Anti Submarine Detection Institute C.)
Lítt grunaði mig þá að ég ætti eftir að vinna að því tíu árum síðar að setja samskonar tæki í varðskipið Ægi til síldarleitar.
En nú tók ýmislegt að gerast sem átti eftir að hafa víðtæk áhrif á fiskveiðar framtíðarinnar. Sigurjón Einarsson skipstjóri hefur sagt mér að á meðan hann var með Garðar VE hafi sjálfritarinn aldrei verið látinn ganga lengi í einu heldur brugðið í gang til að sjá dýpið. Á herskipunum hér við land og annars staðar var hins vegar ekki verið að spara pappírinn, þar gengu sjálfritararnir stöðugt og sendu frá sér bæði lóðrétta og lárétta leitargeisla. Það gat því ekki hjá því farið að eitthvað annað en kafbátar yrðu fyrir, enda munu bæði hvalir og fiskitorfur hafa fengið að kenna djúpsprengjunum.
Eitthvað heyrðist talað um „tvöfaldan botn“ í Hvalfirði á stríðsárunum en yfirleitt var öllum svonefndu truflunum eða ójöfnum botni ekki mikill gaumur gefinn fyrr en undrið skeði næstum fyrirvaralaust. Um haustið 1946 fann Ingvar Pálmason skipstjóri allmikla síld í Kollafirði og fékk 60 tunnur í lélegar netadruslur. Síðan var fengin nót austan af landi og fékkst fullfermi rétt utan við höfnina. Jókst nú brátt þátttaka í þessum veiðum og barst leikurinn upp í Hvalfjörð en lengi vel datt engum í hug að nota dýptarmæla til að finna síld. Undarlegar lóðningar sem komu fram voru taldar drasl frá stríðsárunum. En svo fór að lokum að menn komust upp á lag með að finna síldina á mælana og haustið eftir, 1947, varð þetta svo algengt að vonlaust var talið að fást við þessar veiðar án mæla, enda var síldin mjög brellin og hvarf stundum alveg.
Hófst nú mikil uppsetningaralda og minnist ég þess að ég setti upp 15 mæla í einni lotu án þess að hlé yrði á milli. Nú var það orðin staðreynd að hægt væri að finna fisk í sjónum með nýrri og áður lítt þekktri aðferð. Þetta átti ekki aðeins við um Hvalfjörð. Í suðurhöfum var farið að nota asdic-tæki við hvalveiðar og togaraskipstjórar tóku að veita fisklóðningum meiri athygli.
Rétt er að geta þess að þegar árið 1935 hafði norska rannsóknarskipið Jóhann Hjort fengið fram þorsklóðningar á Hughes-sjálfritara. Voru það torfur upp í sjó og komu mjög greinilega fram.
Næstu tíu árin var frekar hljótt um þetta, m.a. vegna styrjaldarinnar. Frá árunum 1945-46 eru til nokkur kort með fisklóðningum gefin út af Kelvin Hughes og sjálfsagt eru fleiri til á víð og dreif.
Strax eftir stríð var farið að vinna að endurbótum á dýptarmælinum með fiskileit fyrir augum. Sendiorkan var aukin og sömuleiðis mögnun viðtækjanna, t.d. þriggja lampa magnarar með tilheyrandi spennudeilum og „generatorum“ í stað tveggja lampa batterísmagnara, og farið var að nota ný botnstykki þar sem sent var í gegnum þunnar stálplötur í stað þykkra (10-15 mm) botnplatna skipanna.
Fisksjáin kom til sögunnar, en hún sýndi fisk í mun stærri mælikvarða en sjálfritararnir. Ein slík var sett í Ægi árið 1954 og var tengd við MS 24 mæli. Þessi samstæða var kölluð „Kingfisher“ en nöfn eins og Fishfinder, Fishmaster, Fishlube o.fl. voru nú orðin algeng og sýndu að það sem áður var aðeins dýptarmælir var nú jafnframt orðið fiskileitartæki.
En nú kom stóra stökkið. Allt frá 1947 höfðu viðræður og bréfaskriftir farið fram milli íslenskra aðila og K.H. um möguleika á að kaupa hingað stórt asdic-tæki sem gekk undir nafninu „Echo Whale Finder“.
Margir menn komu hér við sögu og bréfabúnkarnir um þetta mál eru ærið þykkir. Loks var pöntunin staðfest og fyrstu hlutar tækisins komu til landsins í júlí 1963. 20. ágúst 1963 hófst reynsluferðin og var farið austur fyrir land. Smáar síldartorfur fundust 100 mílur austur af Digranesi og komu inn á asdicið í allt að 1500 metra fjarlægð.
Í „Echo Whale Finder“, og eins í sjómælingamælum sem notaðir voru í rannsóknarskipum, voru notaðir lampasendar í stað hinna einföldu neistasenda. Með þessum nýju sendum var hægt að nota sama botnstykki fyrir sendingu og móttöku. Þetta var nú farið að nota í hina almennu fiskleitarmæla eins og t.d. MS 29.
MS 29 hefur „hvítlínu“, þrjár púlslengdir, stillanlegan pappírshraða og fjóra mismunandi skala og lóðningafjölda. Við hann er svo hægt að tengja tvær gerðir af fisksjám. Það þykir nú orðið svo sjálfsagt að mælarnir sýni fisk að ef skipstjóri kvartar yfir að mælirinn lóði ekki er eins víst að hann eigi við að hann sýni ekki fisk.
„Echo Whale Finderinn“ var að sjálfsögðu alltaf stórt og dýrt tæki fyrir fiskibáta okkar sem þá voru fæstir yfir 100 tonn.
K.H. Fisherman's Asdic sem kom á markaðinn 1956 þótti einnig nokkuð dýrt og fengu bátaeigendur, sem höfðu áhuga á þessu tæki, daufar undirtektir hjá bönkum. Þó var fyrsta tækið af þessari gerð sett í íslenskan bát 1959.
Nokkru síðar kom á markaðinn Fisherman's Asdic Mark 2 og var nokkru einfaldara og nærri þriðjungi ódýrara. Bæði þessi tæki eru að miklu leyti sjálfvirk þannig að þau leituðu sjálf yfir það svið sem þau eru stillt á og hægt er að hækka og lækka geislann í sjónum eftir því hvort torfur standa djúpt eða grunnt.
Það nýjasta í fiskleitartækni frá Kelvin Hughes er tækjasamstæða sem nefnd hefur verið „Humber Gear“, kennd við Humberfljót þar sem stærstu fiskihafnir Breta eru. „Humber Gear“ samanstendur af tveimur sjálfriturum og sýnir annar allt sviðið frá skipi til botns en hinn aðeins 4 faðma næst botni og er sú mynd að sjálfsögðu mun stærri og greinilegri. Báðir hafa hvítlínu. Þá er fisksjá (C.R.T. Scale Expander) með svonefndum „Seabed Lock“ sem gefur stöðuga mynd í stað blossandi eins og er á eldri fisksjám. Sendirinn er mjög kraftmikill, gefur út 8 kílóvött og púlslengdir eru 0,5 - 1 og 2 millisekúndur. Botnstykki eru tvö og annað hreyfanlegt upp og niður eins og asdic-botnstykki. Merkilegasti hluti þessa tækis er nokkurs konar upptakari sem velur og geymir innkomin „signöl“ og sendir þau síðan til annars sjálfritarans eða fisksjárinnar.
Um næsta skrefið í fiskleitartækni vil ég engu spá, en þar sem Óðinn VE er nú farinn að taka myndir af öllu sem fram kemur á ratsjánni kæmi mér ekki á óvart að einhvers konar neðansjávarsjónvarp yrði það sem næst kemur.
Fyrstu Vestmannaeyjabátarnir sem fengu dýptamæli voru Skaftfellingur og Helgi árið 1941 og í árslok 1943 höfðu verið pantaðir 80 mælar fyrir íslensk skip.
Ég fór til Eyja um þetta leyti og setti upp fimm mæla, að mig minnir í Vonina, Sjöstjörnuna, Baldur og tvo aðra báta. Mælir fyrir Jón Þorláksson, síðar Sjöfn VE-37, var pantaður 7. mars 1942.

Ríkharður Sigmundsson