Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1991/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Minning látinna

Jóhannes Kristinsson
Kveðja frá Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja

Ég get ekki látið hjá líða fyrir hönd þessa blaðs að minnast Jóa Kristins nokkrum orðum. Um árabil var hann einhver helsta driffjöðrin í Sjómannadagsráði, skipulagði hátíðahöldin oftlega og bjó í haginn fyrir ráðið sjálft, þannig að mun léttara var að vinna að sjómannadeginum.
Þegar ég tók við Sjómannadagsblaðinu árið 1978 var Jói sá haukur í horni sem gott var að eiga að. Hann var ákveðinn með sína meiningu, sumir sögðu frekur, en tilfellið var að oft þurfti hreinlega einhvern einn aðila til að taka af skarið í Sjómannadagsráði. Og þá var ekki síðra að hafa hann til þess.
Ég reri með Jóa eitt sumarúthald á Helgu Jóh; það úthald skiptust þeir bræður á um formennskuna og var hart sótt.

Jói var þekktur að því að tala tæpitungulaust um hlutina, segja meiningu sína umbúðalaust þegar svo bar við. Alla jafna var samkomulagið milli okkar Jóa alveg ljómandi þetta sumar; þó kom fyrir að kastaðist í kekki milli okkar um borð og sú misklíð var aldrei erfð, málið var búið um leið og búið var að þrasa út um það. Slíkur eiginleiki er mikils virði enda þeir aðilar yfirleitt minnisstæðir sem hann hafa og slíkur maður var Jói Kristins.
Sigurgeir Jónsson

Jóhannes Kristinsson
F. 11. maí 1943 - D. 14. júlí 1990. Jói var fæddur í Vestmanneyjum þann 11. maí 1943 og var því liðlega 47 ára er hann lést. Hann var fimmti af sjö systkinum, sonur hjónanna Kristins Magnússonar sjómanns og Helgu Jóhannesdóttur hjúkrunarkonu.
Hann ólst upp á mannmörgu heimili þar sem talað var tæpitungulaust og hlutirnir kallaðir sínum réttu nöfnum, og fylgdi það honum alla ævi, hann sagði óhræddur meiningu sína og lagði mál sín fyrir, þannig að allir skildu, var heill í öllum sínum málflutningi og taldi alla jafningja sína bæði háa sem lága. Það var ekkert skrítið að Vestmannaeyingur sem fæddur var á lokadaginn hneigðist að sjónum, enda stundaði Jói sjó mestan sinn starfsaldur, byrjaði sem háseti og vélstjóri en lauk síðan Stýrimannaskólanum og varð skipstjóri, fyrst hjá öðrum en síðan á eigin bátum. En örlögin höguðu því þannig að hann fór í land og hóf að starfa við fiskútflutning, en þar hófust kynni okkar fyrst að einhverju marki.

Þó ekki væri það langur tími í árum talið sem við unnum saman bundumst við sterkum böndum, og engan mann hef ég þekkt líkan honum, heilan í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur, hvort heldur var smá viðvik fyrir vini og kunningja eða barátta fyrir hagsmunum sjómanna, en hann bar hagsmuni þeirra mjög fyrir brjósti og vann ötullega að þeim málum alla tíð.
Það er kannski erfitt að meta framlag eins manns til samfélagsins, því að sjálfsögðu verða framfarir og framþróun til vegna samvinnu margra, en óneitanlega hef ég það á tilfinningunni að útgerð í Vestmannaeyjum stæði ekki með slíkum blóma og hún er í dag ef Jóa hefði ekki notið við.

En vegir Guðs eru órannsakanlegir, og í blóma lífsins, þá er allt virðist svo bjart og brekkan framundan er ekki eins brött og áður, hann er að sjá ýmis hugðarefni sín og hugsjónir rætast, ríður holskeflan yfir, hann veiktist, og í hálft annað ár berst hann við þennan sjúkdóm með sama óbilandi kjarkinum og hann barðist fyrir hugsjónum sínum áður, og við hlið hans stendur sem fyrr eiginkona hans og fjölskylda, en hin helkalda hönd sleppir ekki taki sínu og þrátt fyrir hetjulega baráttu verður hann að láta undan síga. Jóhannes lést á heimili sínu aðfaranótt 14. júlí s.l.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég heiðra minningu látins vinar og þakka honum samfylgdina. Ég sendi Geirrúnu og börnunum sjö, Tómasi, Lúðvík, Steingrími, Hjalta, Hlyni, Helgu og Sæþóri samúðarkveðjur einnig tengdadóttur, aldinni móður og tengdaforeldrum og bið þeim guðsblessunar og megi minningin um góðan dreng lifa.
Snorri Jónsson og Þyrí Ólafsdóttir.

Ragnar K. Bjarnason
F. 9. apríl 1924. - D. 26. mars 1991.
Ég get ekki látið hjá líða að minnast vinar míns og svila, Ragnars Bjarnasonar, sem lést 26. mars sl. eftir langvarandi veikindi.
Ragnar fæddist á bænum Gerðisstekk í Norðfjarðarhreppi hinn 9. apríl 1924, sonur hjónanna Halldóru Jónsdóttur, f. 1891, d. 1970, og Bjarna Sigfússonar, f. 1886, d. 1941, sem þar bjuggu. Á þessum árum var ekki talið tiltökumál þótt börnin væru mörg og svo var einmitt í Gerðisstekk. Þar urðu börnin 11 og eru 8 þeirra enn á lífi.

Eins og nærri má geta þurfti slíkur barnahópur mikils við en þá fóru líka allir að vinna um leið og þeir mögulega gátu. Svo var einnig um þessi systkini. Þau réttu fljótt hjálparhendur að búskapnum og drengirnir byrjuðu róðra á trillu með föður sínum um eða fyrir fermingu eins og þá var algengt. Nokkur búskapur var einnig stundaður og með mikilli vinnu og hagsýni, sem þá var nauðsynleg fólki og almennt í blóð borin, var afkoma þessarar fjölskyldu góð eftir því sem þá var um að ræða.
Ragnar byrjaði sjóróðra með föður sínum og bræðrum þegar hann var um fermingu. Síðan tóku við stærri bátar, bæði frá Neskaupstað og svo á vetrarvertíðum í Vestmanneyjum. Þá fóru margir Austfirðingar hverja vertíð til Vestmannaeyja og hélst svo allt fram á síðari ár. Ragnar var ungur maður þegar hann settist að í Vestmannaeyjum þar sem systur hans tvær voru þá farnar að búa. Hann settist þar í vélstjóraskóla og öðlaðist vélstjóraréttindi. Síðan var hann í áratugi vélstjori á ýmsum bátum í lengri og skemmri tíma. Hann þótti hinn traustasti maður í hvítvetna og snyrtimenni með afbrigðum. Ragnar stundaði sjóinn allt þar til hann missti heilsuna árið 1981, en eftir það var hann lengst af húsvörður í Útvegsbankanum í Vestmanneyjum þar til síðasliðið vor að hann fór á spítala sem hann átti ekki afturkvæmt frá.

Árið 1957 kvæntist Ragnar eftirlifandi konu sinni, Pálínu Jónsdóttur frá Norður-Hjáleigu í Álftaveri. Þau hófu búskap á Miðstræti 9 og bjuggu þar til ársins 1969 að þau fluttu í nýtt hús við Bakkastíg 4. Ekki fengu þau þó notið þess góða húss nema skamman tíma því það fór undir hraun í gosinu 1973. Þá bjuggu þau í Reykjavík og Kópavogi fram á sumarið 1974 að fjölskyldan fór aftur heim til Vestmanneyja og keypti þá hús í byggingu á Höfðavegi 46 þar sem pau bjuggu síðan. Meðan fjölskyldan bjó í Reykjavík var Ragnar á Vestmanneyjabáti og því sjaldan heima.
Þeim Pálínu varð tveggja dætra auðið. Þórunn fædd 1957, sjúkraþjálfi í Reykjavík, maki Matthías Magnússon frá Þórshöfn á Langanesi, eiga tvö börn, Pálínu Björk og Sigmar Þór; Sigríður Fædd 1960, fóstra í Vestmanneyjum, maki Jón Oddsson frá Siglufirði, eiga tvö börn, Rögnu Kristínu og Hafþór.

Þegar ég settist niður að skrá þessi kveðjuorð komst ég að því að þótt vinátta okkar og tengsl hafi staðið í á fjórða tug ára þá veit ég ótrúlega lítið um líf Ragnars fyrir þann tíma. Honum var nefnilega ekki tamt að tala mikið um sjálfan sig. Hann var maður hógværðar, hjálpsemi og heiðarleika. Gestrisinn var hann með afbrigðum og hafði yndi af að fara með gesti sína í skoðunarferðir um Heimaey. Hann var okkur sem eftir lifum góð fyrirmynd. Ég og fjölskylda mín þökkum Ragnari Bjarnasyni samveruna og vottum aðstandendum hans samúð.
Hergeir Kristgeirsson.

Sigurður F. Sveinbjörnsson
F. 5. september 1923. - D. 31. október 1990.
Við leiðarendann vinur hve lágvær ég er og langsótt í orðanna sjóð. Mér finnst eins og allt hafi þagnað með þér og þorrið hvert stef og hljóð. (Ási í Bæ)

Bróðir minn, Sigurður Fríðhólm Sveinbjörnsson, andaðist á heimili sínu 31. október síðasliðinn.
Sigurður fæddist í Skógum í Vestmannaeyjum 5. september 1923, sonur hjónanna Sveinbjörns Ágústs Benónýssonar og Hindriku Júlíu Helgadóttur. Þegar hann var nokkurra mánaða gamall fluttist fjölskyldan í húsið að Brekastíg 18 sem þau höfðu þá byggt sér og bjuggu þar alla tíð síðan. Sigurður átti tvö yngri systkini, Herbert Jóhann og Jóhönnu Herdísi.
Eftir barnaskólanám fór Sigurður í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja og vélstjóranám. Síðar lærði hann múraraiðn hjá Óskari Kárasyni, múrarameistara. Það starf stundaði hann svo til æviloka og eru það ófá hús í Vestmanneyjum sem hann hefur lagt á gjörva hönd, enda þótti hann mjög duglegur og hæfur múrari.

Sigurður giftist 24 ára gamall eftirlifandi konu sinni, Rebekku Katrínu Hagalínsdóttur, ættaðri frá Sæbóli í Grunnavík, mikilli merkis og myndarkonu sem öllum er til þekkja þykir vænt um. Þau byggðu sér hús á Brimhólabraut 3 og hafa búið þar alla tíð síðan.
Þau eignuðust fimm börn: Matthildi, húsmóður í Vestmanneyjum sem á tvö börn; Herdísi, húsmóður í Danmörku, sem á tvö börn; Rannveigu, húsmóður í Vestmannaeyjum, sem á eitt barn; Sveinbjörn Ágúst, sjómann í Vestmannaeyjum, og Önnu Maríu, húsmóður í Reykjavík, sem á tvö börn. Barnabörnin eru orðin sjö.
Sigurður var mjög barngóður og hændust barnabörnin mjög að honum. Sérstakur sólargeisli nú síðustu árin var lítill dóttursonur hans og nafni Sigurður Óttar, sem var þeim hjónum báðum til óblandinnar ánægju.

Ungur keypti Sigurður sér harmónikku sem þá var draumur margra ungra manna og spilaði á hana mátti segja daglega alla tíð, sér og öðrum til ánægju. Einnig hafði hann mjög gaman af fiðlu og fleiri hljóðfærum sem hann átti og mátti segja að hljómlist væri hans líf og yndi. Fljótlega gekk hann í Lúðrasveit Vestmanneyja og spilaði með henni alla tíð. Fáir munu þeir tónlistarviðburðir hafa verið í Vestmanneyjum sem hann lét sig vanta á.
Sigurður var maður glaður og reifur og tók fagnandi og opnum örmum gleðistundum lífsins. Hann var snar í snúningum og viljugur svo af bar. Hann var trygglyndur og vinfastur og kom daglega upp á Brekastíg til foreldra sinna meðan þau lifðu og til bróður síns sem bjó þar síðar.

Sigurður átti mörg lög sem hann hafði samið og einnig texta við sum þeirra. Þau hjónin höfðu gaman af að kasta fram stökum og var oft glatt á hjalla í kringum þau og gaman að vera með þeim. Sérstakar þakkir vil ég flytja þeim hjónum fyrir alla þá ástúð og umhyggju sem þau sýndu mér þegar ég dvaldi á heimili þeirra, oft langtímum á sumrin þegar heimþráin seiddi mig til Vestmannaeyja. Það var bjartur og fagur haustdagur í Vestmanneyjum 31. október. Sigurður hafði sótt konu sína suður á flugvöll en hún hafði skroppið til Reykjavíkur. Seinna um daginn fóru þau í ökuferð út um Eyju í blíðviðrinu, eins og þau gerðu svo oft, og um kvöldið höfðu þau setið að tafli, sem var sömuleiðis þeirra uppáhaldsiðja. Um miðnættið kom kallið mikla. Sigurður hneig út af og starfsdegi hans var lokið. Hann endaði ánægjulega í félagsskap sinnar góðu konu sem honum þótti alla tíð mjög vænt um og mat mikils.

Við leiðarendann vinur, hve lágvær ég er og langsótt í orðanna sjóð. (Ási í Bæ)
Ég þakka góðu dagana heima í Vestmanneyjum við söng og spil og ljóð. Megi bróðir mínn hvíla í friði almættisins. Hjartans þökk fyrir allt.
Jóhanna Herdís Sveinbjörnsdóttir.

Páll Scheving
F. 21. janúar 1904 - D. 15. apríl 1990.
Páll Scheving var maður sem mér þótti vænna um eftir því sem ég kynntist honum betur. Hann var einlægur í öllu viðmóti og barðist ótrauður fyrir hugsjónum sínum, hreinskilinn og hreinskiptur, en mat að verðleikum hvem góðan mann hvort sem hann var honum sammála í lífskoðun eða ekki. Páll Scheving var myndarlegur maður, karlmannlegur og hressilegur í fasi, alúðlegur og hrókur alls fagnaðar í góðum félagahópi; vinur vina sinna og traustur félagi.

Páll Scheving fæddist að Steinstöðum fyrir ofan Hraun í Vestmanneyjum hinn 21. janúar 1904 og voru foreldrar hans hjónin Sveinn Pálsson Schev-ing og kona hans Kristólína Bergsteinsdóttir frá Fitjamýri undir Eyjafjöllum. Síðar fluttu þau hjón frá Steinstöðum niður í bæinn að Hjalla við Vestmannabraut. Sveinn Scheving setti á sinni tíð svip á bæjarlífið í Vestmanneyjum sem yfirlögregluþjónn og meðhjálpari í Landakirkju um fjöldamörg ár. Hann var skaftfellskrar ættar, fæddur að Görðum í Mýrdal. Þau hjón eignuðust sjö börn og komust fjögur þeirra til fullorðinsára.
Páll hneigðist ungur að vélum og véltækni og haustið 1919, þegar hann var 15 ára gamall var hann ráðinn lærlingur í rafvirkjun og vélgæslu hjá Rafveitu Vestmanneyja. Hann lauk iðnnámi árið 1923 og starfaði síðan við Rafveituna næstu sjö árin og reyndist þar góður verkmaður og verkhygginn. Eins og allir Eyjamenn var Páll í daglegri snertingu við sjávarfang og sjósókn. Hann eignaðist vélbátinn Fylki VE 14 og gerði hann út í þrjár vetrarvertíðir, árin 1934-1936. Fylkir var þá stærsti og glæsilegasti bátur Eyjaflotans, 42 rúmlestir að stærð. Formaður var Guðjón Tómasson í Gerði og var hann eina vertíðina fiskikóngur Eyjanna á Fylki. Á þessum árum brá Páll sér yfir sumarið norður til síldveiða á Fylki og fleiri bátum og skrifaði skemmtilega frásögn í Sjómannadagsblað Vestmanneyja árið 1976, þegar hann var vélstjóri á elsta Sævari VE 328 með Binna heitnum í Gröf, síldarsumarið 1940.
Eftir vetrarvertíðina 1936 hætti Páll í útgerð og gerðist vélstjóri hjá Ísfélagi Vestmanneyja, þar sem hann var í sjö ár, en þá réðist hann til Lifrarsamlags Vestmanneyja, og starfaði þar síðan óslitið í 30 ár sem vélstjóri og síðast verksmiðjustjóri.

Lengst mun Páls Schevings verða minnst fyrir ótrauða baráttu hans að félagsmálum og virka stjórnmálabaráttu í röðum Sjálfstæðismanna.
Hann átti um áratuga skeið sæti í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins og var fulltrúi flokksins í Bæjarstjórn Vestmannaeyja í tvö kjörtímabil, frá 1954-1958 og 1958-1962, en síðara kjörtímabilið sat hann í bæjarráði. Páll átti einnig sæti í fjölmörgum nefndum og ráðum á vegum Vestmannaeyjabæjar. Hann gekk að þessum störfum með brennandi áhuga hugsjónamannsins og vann ætíð Vestmannaeyjum, sem hann unni, bæði af velvild og framsýni. Á vettvangi Vélstjórafélags Vestmanneyja barðist hann fyrir bættum kjörum og aukinni menntun vélstjóra.

Á yngri árum var Páll Scheving í röðum bestu íþróttamanna á Íslandi. Hann átti viðurkennt Íslandsmet í langstökki, en í hástökki stökk Páll langt yfir þágildandi, viðurkenndu íslandsmeti með sérstökum stökkstíl, sem hann hafði tekið upp löngu áður en slíkur stíll var viðurkenndur. Þessi aðferð var síðar og er enn þann dag í dag notuð af öllum bestu hástökkvurum bæði hér á landi og annars staðar. Páll var einn af stofnendum knattspyrnufélagsins Týs árið 1921 og var fyrsti ritari félagsins. Hann var síðar kjörinn heiðursfélagi Týs.

Páll var einn af stofnendum Vélstjórafélags Vestmanneyja 29. nóvember 1939 og var kjörinn fyrsti formaður félagsins, en stofnendur voru 42 að tölu. Páll lýsti vel aðdraganda að stofnun Vélstjórafélagsins í ágætri ræðu, sem hann flutti, þegar haldið var upp á 30 ára afmæli félagsins og birtist meginefni ræðunnar í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja árið 1971. Þar bendir Páll m.a. á, að hann hafi ekki verið einn af hvatamönnum að stofnun félagsins. Þetta ber vitni um hógværð Páls og heilindi, en kjör hans sem fyrsta formanns sýnir aftur á móti hvert traust samferðamenn og félagar Páls Schevings báru til hans. Páll var formaður Vélstjórafélags Vestmanneyja til 1941 og aftur 1950-1953 og kom oft fram í nafni Vélstjórafélagsins. Í fysta skipti sem Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í Vestmannaeyjum, 2. júní 1940, talaði hann fyrir hönd vélstjóra. Ásamt formönnum hinna sjómannafélaganna í Vestmannaeyjum, Árna Þórssyni formanni skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi og Guðmundi Helgasyni formanni sjómannafélagsins Jötuns vann Páll Scheving að undirbúningi fyrsta sjómannadagsins í Eyjum.
Í hátíðarræðu sinni á fyrsta sjómannadeginum hvatti hann menn til að efla vélstjóramenntun í Vestmanneyjum, en Páll Scheving var alla tíð góður og öflugur talsmaður sjómannamenntunar í Vestmanneyjum og ritaði um það greinar í Fylki, flokksblað Sjálfstæðismanna, sem hann ritstýrði lengi af miklum dugnaði og áhuga.

Um og eftir 1950 var komið á sjóvinnunámi við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum, netabætingum og tóvinnu ásamt meðferð véla og eignaðist skólinn lítinn mótor í því skyni. Páll Scheving hafði á hendi kennslu í vélfræði, sem var bæði bókleg og verkleg, en starfsmenn Veiðarfæragerðar Vestmannaeyja , Magnús Magnússon netagerðarmeistari og synir hans Guðjón og Kristleifur, kenndu netavinnu. Þetta voru vinsælar námsgreinar, sem komu öllum að góðu gagni og á þeim tíma var þetta mekilegt framtak í skólamálum, en kennsla fór fram í kjallaranum á Goðasteini, íbúðarhúsi Þorsteins Þ. Víglundssonar skólastjóra Gagnfræðaskólans.

Páll Scheving kvæntist árið 1929 Jónheiði Steingrímsdóttur, sem var ættuð frá Akureyri og eignuðust þau þrjú börn, sem lifa foreldra sína. Þau hjón bjuggu alla tíð að Hjalla við Vestmannabraut. Jónheiður var ágæt leikkona og driffjöður í Leikfélagi Vestmanneyja; hún andaðist árið 1974.
Til hinstu stundar var Páll Scheving reifur og hress, en hann andaðist á páskadag hinn 15. apríl 1990 að Hraunbúðum í Eyjum, þar sem hann hafði dvalist síðustu tvö æviárin og bar andlát hans brátt að. Minningin um góðan dreng lifir.
Guðjón Armann Eyjólfsson

Sigurður Jóelsson frá Sælundi.
F. 1. ágúst 1917 - D. 29. apríl 1991.
Hann var fæddur 1. ágúst 1917, sonur Jóels Eyjólfssonar frá Kirkjubæ í Vestmanneyjum og síðari konu hans Októvíu Einarsdóttur frá Bjólu í Holtum, sem bjuggu að Sælundi í Vestmanneyjum, er stóð á horni Vesturvegar og Bárugötu.
Fyrri kona Jóels var Þórdís Guðmundsdóttir frá Vesturhúsum í Eyjum, en hún andaðist árið 1907 frá tveimur kornungum sonum þeirra Jóels, þeim Þorgeiri og Guðmundi, sem fóru við lát móður sinnar í fóstur til vina og ættingja.
Eftir andlát móður sinnar árið 1929 dvaldi Sigurður áfram á Sælundi hjá föður sínum og bróður, Þorgeiri, sem hóf skömmu síðar búskap á Sælundi með fyrri konu sinni Guðfinnu Lárusdóttur frá Álfagróf í Mýrdal. Mjög kært var með þeim bræðrum, Þorgeiri og Sigurði og byrjaði Sigurður sjómennsku kornungur með Þorgeiri á Lundi VE 141, en Þorgeir var þá kominn í röð fremstu formanna í Eyjum og stundaði Sigurður sjóinn yfir 40 ár.

Líf og störf Sigurðar Jóelssonar voru samofin Eyjunum, sem hann var tengdur mjög sterkum böndum. Hann fór rétt 15 ára gamall með Jóel föður sínum og Sigurgeiri Jónssyni frá Suðurgarði til bjargsiga og eggjatöku í Bjarnarey, en þeir voru báðir tveir afburða fjallamenn og í hópi þeirra bestu, sem hafa veið í Vestmanneyjum. Af þeim lærði Sigurður handtökin. Sín manndómsár var Sigurður Jóelsson forystumaður í fjallafeðum og eggjatöku í öllum úteyjum Vestmannaeyja og þekkti hann þar má segja hverja snös og þúfu.
Sigurður Jóelsson var myndarlegur maður, fríður sýnum eins og allt hans móðurfólk, þrekvaxinn og karlmenni að burðum, fjaðurmagnaður og léttur á sér eins og verið hafði Jóel faðir hans, sem fram á efri ár var kattliðugur og einn mesti fjallamaður í Eyjum um sína daga.
Það hafa menn sagt mér sem fóru með Sigurði til eggja í Súlnasker, að unun hafi verið að sjá hann fara á lærvaði suður af Skerinu á Helli. Það hafi verið gert af slíkri leikni og kunnáttu aö hefði mátt líkja við list. Hann spyrnti langa spyrnu út frá berginu um leið og hann slakaði lausum vaðnum og síðan stöðvaði hann jafnléttilega við bergið. Sigurður var jafnfimur laus í bergi, en bundinn á öðrum í eggjaferðum var hann vegna krafta sinna hverjum manni léttari, þegar hann kom úr ofanferð og var þá oft með ótrúlegt magn af eggjum í einum barmi.

Lundaveiðmaður var hann ágætur og stundaði alltaf lundaveiði á sumrin þegar hann var heima, en nokkur sumur fór hann til síldveiða við Norðurland og var þá m.a. á aflaskipinu Helga Helgasyni með Arnþóri Jóhannssyni skipstjora. Sigurður hafði legið við til lundaveiði í nær öllum úteyjum Vestmanneyja, en lengst á unga aldri í Suðurey og Álsey. Hin síðari árin veiddi hann aðallega í Ystakletti og Stórhöfða.

Sigurður lauk vélstjóraprófi árið 1941 og var yfir 20 vetrarvertíðir vélstjóri með Þorgeiri bróður sínum, sem var einn mesti fiskimaður í Vestmanneyjum á sinni tíð, t.d. fiskikóngur og aflahæstur á vetrarvertíð 1949. Sigurður lauk einnig skipstjórnarnámi og var um tíma skipstjóri með Kap og fleiri báta, en síðustu 8 árin sem hann var á sjó, átti hann lítinn trillubát, Bensa litla, ásamt Jóel syni sínum. Sigurður stundaði sjóinn fram undir sjötugt og sóttu þeir feðgar oft stíft og fiskuðu ágætlega. Sigurður kvæntist frændkonu sinni Fanneyju Ármannsdóttur hinn 22. desember 1945 og var það þeirra mikla hamingja, sérstaklega kært var á milli þeirra hjóna og þau samhent í öllum verkum. Sonur þeirra er Jóel stýrimaður, kvæntur Ingu Steinu Ágústsdóttur, sem ættuð er úr Vestmannaeyjum. Þau eiga tvö börn, Sigurð og Fanneyju.

Fanney og Sigurður reistu sér myndarlegt íbúðarhús við Kirkjubæjarbraut 7 og fluttu í húsið árið 1952. Allt fór það á kaf í ösku í eldgosinu 1973 en eftir að eldgosinu lauk sýndu þau hjón mikla eljusemi og þrautseigju við að hreinsa út vikurinn og fluttu fyrst allra í hverfið á haustdögum 1973.
Ég hafði þekkt Sigurð Jóelsson frá því ég man eftir, bæði áttum við til frændsemi að telja, en faðir minn og Sigurður voru bræðrasynir og svo var mikið vinfengi milli foreldra minna og hjónanna á Sælundi, Finnu og Þorgeirs. Ég man hann þar ungan, glaðværan mann, en þó er það svo undarlegt að ég kynntist honum fyrst vel, eftir að vík var orðin á milli vina hin síðustu ár eftir eldgos í Heimaey.
Þegar ég hefi komið til Vestmannaeyja eftir eldgosið hef ég ætíð átt góða stund hjá þeim hjónum, Sigurði og Fanneyju, notið gestrisni þeirra og höfðingsskapar. Þakka ég nú góðar stundir, sem urðu færri en ég hefði kosið. Við sátum stundum á spjalli heilu dagana og fræddi Sigurður mig um fjallaferðir og örnefni í Vestmanneyjum, sem við höfðum báðir áhuga á, en hann þekkti út í hörgul. Ég dáðist þá oft að þekkingu hans og nákvæmni. Hann var hafsjór af fróðleik um þessa hluti, nákvæmur og minnugur, hafði góða frásagnargáfu, og sá oft hið broslega við tilveruna. Ég fór í hvert skipti fróðari af hans fundi og mun verulega sakna hans næst er ég kem til Eyja, en enginn má sköpum renna. Sigurður Jóelsson andaðist snögglega á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja hinn 29. apríl 1991 og var útför hans gerð frá Landakirkju hinn 4. maí. Minningin um góðan dreng og vammlausan lifir. Blessuð sé minning Sigurðar Jóelssonar.
Guðjón Ármann Eyjólfsson.

Eggert Gunnarsson.
F. 4. september 1922 - D. 4. janúar 1991
Eggert var fæddur í Vestmannaeyjum 4. september 1922. Hann var 68 ára þegar hann varð bráðkvaddur. Foreldrar hans voru hjónin Sigurlaug Pálsdóttir og Gunnar Marel Jónsson skipasmiður. Eggert ólst upp á heimili foreldra sinna að Vestmannabraut 1 í stórum hópi systkina en Eggert átti 11 alsystkini og 3 hálfsystkini. Fimm alsystkini eru eftirlifandi og 2 hálfsystur.
Á æskuheimili Eggerts var gestkvæmt og margt spjallað í dagsins önn og leik og sannarlega mótar það manninn sem fyrir honum er haft í upphafi ferðar. Barnungur fylgdi Eggert föður sínum í Slippinn en þar varð síðan starfsvettvangur hans alla tíð til síðasta dags. Eggert dvaldi nokkur sumur og einn vetur að Hólmahjáleigu í Landeyjunum hjá ágætu fólki og átti hann þaðan góðar minningar um dvölina þar sem var honum góður skóli og alla tíð fylgdist Eggert með mannlífi og ábúendum í sveitinni.

16 ára gamall fór Eggert til sjós og um árabil stundaði hann sjómennsku á vertíðum og aflaði sér vélstjóraréttinda en lærði einnig skipasmíði hjá föður sínum og starfaði með honum í Dráttarbraut Vestmanneyja h/f. Um 1954 hætti Eggert til sjós og sneri sér alfarið að vinnu í Slippnum en þar átti sér stað mikil uppbygging á þeim árum. Eggert var mikill og góður verkmaður. Útsjónarsamur og fljótur að átta sig og finna heppilegar lausnir. Hann var hagleikssmiður og þjónaði viðskiptavinum sínum af mikilli alúð og áhuga og var ávallt reiðubúinn þegar eftir þjónustu hans var kallað. Skyldurækni var honum í blóð borin. Það er sannarlega mikils virði fyrir bæjarfélag eins og Vestmannaeyjar sem byggir allt sitt á fiskveiðum og fiskvinnslu að eiga hæfileikamenn til að upp¬byggja og viðhalda bátaflotanum. Eggert var mikill eljumaður og í vinnu öllum stundum og hafði lifandi áhuga á því sem hann var að gera.

Eggert kvæntist Jónu Guðrúnu Ólafsdóttur 15. nóvember árið 1947. Var hjónaband þeirra farsælt og þau samhent í blíðu og stríðu og milli þeirra ríkti gagnkvæm virðing og hlýja. Byrjuðu þau búskap í Miðey en bjuggu síðan á æskuheimilli Jónu að Víðivöllum allt til ársins 1972 þegar þau fluttu að Sóleyjargötu 12 sem Eggert byggði og vandaði sem best hann mátti. Jóna og Eggert eignuðust 6 börn. Ólaf, Svövu, Gunnar Marel, Guðfinnu Eddu, Sigurlaugu og Óskar.
Eggert var um margt sérstakur og gekk ekki alltaf alfaraleið og hafði fastmótaðar skoðanir á mönnum og málefnum. Hann var hreinskiptinn og sagði hug sinn allan án þess að fara í mann-greiningarálit. Eggert var fróðleiksfús og minnugur og hafði áhuga á andlegum málum og var einlæglega trúaður. Hann var mikill Vestmannaeyingur og þekkti örnefni og sögu eyjanna og hann var góður sagnaþulur. Hann var mikill úteyjamaður frá æskuárum og alla tíð og bar mikla virðingu fyrir náttúrunni og öllu lífi. Og hann rétti minnimáttar hjálparhönd þegar það var á hans valdi.

Bjarni Brynjar Víglundsson
F. 26. maí 1966 - D. 28. apríl 1991
Bjarni Brynjar var fæddur á Akureyri 26. maí árið 1955. Foreldrar hans eru hjónin Hermína Marinósdóttir og Víglundur Arnljótsson og ólst Bjarni upp í foreldrahúsum ásamt systkinum sínum en Hermína og Víglundur eignuðust 14 börn og eru 10 eftirlifandi.
Bernskuárin liðu við leik og nám norður á Akureyri og Bjarni tók þátt í íþróttum og var ákafur stuðningsmaður KA alla tíð. Bjarni fór ungur að vinna fyrir sér og var við almenn störf í landi en hóf sjómennsku árið 1978 og var síðan við störf á sjó og í landi þar til hann flutti til Vestmanneyja ásamt fjölskyldu sinni í febrúar 1984 en hér hefur Bjarni aðallega stundað sjómennsku og lengst verið á Bjarnaey í rúmlega 4 ár en hafði nýlega byrjað á Berg VE þegar slysið varð.

Árið 1977 hóf Bjarni sambúð með heitkonu sinni Hafdísi Sveinsdóttur frá Akureyri og þrem árum síðar gengu þau í hjónaband. Eignuðust þau tvo drengi, Víglund Brynjar og Ævar Þór, og var Bjarni þeim sérstaklega ástríkur og umhyggjusamur faðir og góður félagi. Einnig reyndist Bjarni Brynhildi, dóttur Hafdísar, ákaflega vel en hún kom inn á heimili þeirra árið 1982. Bjarni var góður heimilisfaðir, glaðsinna, hjálplegur og hugulsamur. Þannig verður hans minnst og einnig munu vinnufélagar hans minnast hans og þakka samstarf og samfylgd en Bjarni var samviskusamur og góður og glettinn félagi sem gott var að vera með í starfi og leik.

Aðalsteinn J. Gunnlaugsson.
F. 14. júlí 1910 - D. 27. febrúar 1991
Aðalsteinn Júlíus var fæddur að Gjábakka hér í Vestmanneyjum 14. júlí árið 1910. Foreldrar hans voru hjónin Elísabet Arnoddsdóttir og Gunnlaugur Sigurðsson. Aðalsteinn ólst upp að Gjábakka austur á Eyju og var elstur 9 alsystkina og eru nú eftirlifandi 7 systkinanna og eldri hálfbróðir. Átti Aðalsteinn góðar minningar frá bernsku- og æskuheimili sínu og alla tíð var gott samband systkinanna.
Ólst Aðalsteinn upp að hætti ungra drengja hér í Eyjum þar sem hafið lokkar og laðar og umræðuefni innan og utan heimilis eru tengd aflabrögðum og sjósókn. Aðalsteinn var liðtækur vel í íþróttum og afreksmaður á yngri árum.

Hann byrjaði ungur til sjós og hann aflaði sér menntunar bæði til skipstjórnar og sem vélstjóri. Nokkur ár vann Aðalsteinn í landi við vélgæslu hjá fyrirtæki Einars Sigurðssonar en fór aftur á sjóinn árið 1940 allt til ársins 1971 þegar hann varð að hætta til sjós vegna veikinda.
Lengst af var Aðalsteinn mótoristi en formaður og útgerðarmaður um sinn.
Síðla árs 1973 hóf Aðalsteinn störf hjá Sjúkrahúsi Vestmanneyja og var þar við umsjónarstörf allt til loka ársins 1989 og líkaði þar vel.

Þegar komið var að lokum þá var Aðalsteinn þrotinn að kröftum og heilsan farin. En aldrei var kvartað og áfram haldið meðan stætt var. Lífsins glímutök á langri leið voru stundum hörð og óvægin en það var ekki gefist upp og með Aðalsteini er fallinn í valinn góður og gegn samborgari. Hann var samviskusamur og harðduglegur við hvaðeina sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var dulur og flíkaði ekki tilfinningum sínum en var góður félagi og margt spjallað á góðri stund þó Aðalsteinn væri ekki margmáll né opinskár um sína hagi og tilfinningar. Aðalsteinn kvæntist 21. desember árið 1940 Tómasínu Olsen og var heimili þeirra frá árinu 1950 að Hólagötu 15. Þar bjó Tómasína fjölskyldunni fallegt heimili. Þau eignuðust 3 börn. Elstur er Guðmundur Hreinn þá Edda og yngstur er Atli.

Bjarni Ólafsson.
f. 18. okt. 1932 - d. 23. feb. 1990. Vinur minn, Bjarni Ólafsson, er látinn, langt um aldur fram. Hann var Siglfirðingur að ætt og uppruna og ólst þar upp við ýmis störf fram til tvítugsaldur. Þá hitti hann Hafnfirðinginn Erlu Olsen sem litlu seinna varð eiginkona hans. Þau hófu búskap í Hafnarfirði en fluttu fljótlega til Vestmannaeyja og bjuggu þar allt fram að gosi. Bjarni var nokkurn tíma í frystihúsi, síðan tók hann við verkstjórn í slippnum hjá Ársæli Sveinssyni og loks sem kokkur á Ísleifi VE. Og þar var það sem fundum okkar Bjarna bar fyrst saman. Við vorum samskipa á Ísleifi um nær tveggja ára skeið. Ég leysti hann stöku sinnum af í eldamennskunni um borð og það var erfitt. Það er ekki erfitt að leysa eiturbrasara og skítkokka af. En Bjarni var afburðagóður kokkur og það er erfitt að leysa slíka menn af. Enda fékk maður stundum að heyra að betra hefði þetta nú verið hjá Bjarna. En Bjarni var meira en góður kokkur, hann var einstaklega góður félagi og vinur vina sinna. Hann var félagslyndur, hafði gaman af að taka í spil og lyfta glasi á góðri stund, skapgóður og gestrisinn með afbrigðum. Það fékk ég að reyna eftir að þau hjónin höfðu flutt frá Eyjum og sest að í Keflavík. Um árabil stóð ég í hljómsveitaferðalögum á Suðurnesjum og það útheimti gistingu. Þá var gott að eiga þau að Bjarna og Erlu í Keflavíkinni. Alltaf stóð heimilið á Hringbrautinni opið fyrir spilagosanum úr Eyjum, eins og Bjarni orðaði það, allt hið besta ævinlega framreitt í mat og drykk. Aldrei minnst á borgun, það hefði Bjarni talið hreina móðgun.

Bjarni átti við heilsuleysi að stríða síðustu árin en ekki virtist það draga úr lífsgleðinni að marki, andlegur þróttur var svipaður og áður. Við höfð¬um það á orði um áramótin félagar hans hér í Eyjum að næst þegar við ættum leið suður saman, þyrftum við að skreppa suður eftir og taka í spil. Að vísu fórum við saman suður eftir, en ekki til að spila, heldur til að fylgja honum til grafar. Ég get ekki að því gert en það flögraði að mér í erfidrykkjunni hvort það væri ekki við hæfi að taka fram spilin og gefa einn hring. Svona má nú víst ekki hugsa á slíkum stundum en ég er klár á að Bjarna hefði ekki mislíkað það, hefði sennilega brosað breitt að handan. Hann var nefnilega þannig maður.
[[Sigurgeir Jónsson}}.

Óskar M. Gíslason
F. 27. maí 1915 - D. 28. febrúar 1991
Það var mikið lífslán að kynnast Óskari Magnúsi Gíslasyni náið fyrir 35 árum, en það varð þegar ég giftist systurdóttur hans. Frá þeim tíma höfum við verið góðir vinir.
Hann fæddist 27. maí 1915 og lést 28. febrúar s.l. Óskar var kominn af Guðbrandi Þorlákssyni biskupi, Presta Högna og Fjalla Eyvindi. Foreldrar hans voru Gísli Jónsson skipstjóri og útgerðarmaður og Guðný Einarsdóttir á Arnarhóli í Vestmannaeyjum. Hann var þriðja barn þeirra og annar sem deyr. Hafsteinn Eyberg bróðir hans lést barn að aldri. Önnur sem lifa eru Guðný Svava, Salóme og Kristín Þyrí húsmæður og Einar Jóhannes fyrrverandi forstöðumaður Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavík.

Á Arnarhóli var rótgróið útvegsbændaheimili, þar sem útgerð og landbúnaður var stundaður. Fjölskyldan öll tók þátt í útgerðinni, beitingu og verkun aflans og landbúnaðarstöfunum, heyskap og hirðingu kúa og kinda.
Fjórtán ára beitti Óskar hjá pabba sínum upp á hálfan hlut á móti jafnaldra og æskuvini sínum Ármanni Friðrikssyni á Látrum síðar skipstjora og útgerðarmanni í Reykjavík. Þar með hófst 35 ára sjómannastarf. 1935 aflaði hann sér skipstjórnarréttinda hjá Sigfúsi Scheving í Vestmannaeyjum og 1937 varð hann skipstjóri á Víkingi, bát fjölskyldunnar, sem var einnig sameign frændfjölskyldunnar á Hlíðarenda. Hann eignaðist þá líka 1/3 hlut Guðjóns Einarssonar í Breiðholti í bátnum.
Það hafði verið góður skóli að alast upp á sjónum hjá Gísla, sem var heppinn og farsæll skipstjóri í nær 30 ár á Eyjamiðum. Oft minntist Óskar á það.

Víkingur var gerður út á línu og net á vetrarvertíðum og á öðrum árstíma oft á dragnót. Á sumrin fór Óskar oft á síld fyrir norðan á öðrum bátum, Víkingur var aldrei gerður út á þann veiðiskap. Óskar varð fljótt einn af þessum Eyjaskipstjórum, sem gjörþekktu Eyjamiðin, og það áður en dýptarmælir, astic og radar komu til sögunnar. Þekkti öll hraun og grunn eftir landmiðum einum saman eins og þá var einungis notast við. Það var gaman að heyra hann segja frá þessu. Hann var það sem kallað er miðaglöggur. Hann þurfti ekki að líta í kort eða á blað þegar hann lýsti hafsbotninum hér í kringum Eyjar. Hann hafði þetta allt í kollinum og örnefnin hér á Eyjunum þekkti hann mjög vel.
Alltaf skilaði Víkingur eigendum sínum arði. Aldrei þurfti að fara til bankastjóra í upphafi vertíðar til þess að fá lán fyrir veiðarfærum eða öðrum nauðsynjum. Ég held að þetta nægi til að lýsa afkomunni. Alla skipstjóratíð Óskars á Víkingi var frændi hans Júlíus Snorrason á Hlíðarenda sameignarmaður og vélstjóri. Fleiri voru um borð hjá honum árum saman. Mér er minnisstætt frá því ég var strákur, löngu áður en ég þekkti Óskar að ég heyrði talað um að hann hefði fyllt bátinn úr helmingnum af netunum, farið í land og losað, út aftur, en þá var komið vonskuveður með snjókomu. Báturinn var aftur fylltur og öllu skilað heilu í höfn. Ég man pabba minn og fleiri sjómenn tala um að þarna hefði verið vel að verki staðið. Góð sjómennska sýnd.

Árið 1953 seldu feðgarnir og Júlíus Víking, Óskar tók þá við skipstjorn á Mugg fyrir Helga Benediktsson. Einar bróðir hans varð þá vélstjóri hjá honum. Allt gekk það vel. 1956 kaupa þeir bræður svo Gæfu, vélbát frá Seyðisfirði og voru þeir saman á henni til 1964 að þeir seldu hana. Á Gæfu voru þeir aðallega á handfærum á veturna, og snurvoð, fiski- og humartrolli á sumrin. Útgerð þeirra bræðra var farsæl eins og verið hafði á Víkingi. Óskar skipstjóri og Einar vélstjóri.
Eftir að Óskar hætti sjómennsku varð hann verkstjóri hjá Vestmanneyjabæ. Hann varð fljótt formaður Verkstjórafélags Vestmannaeyja og starfsmaður félagsins þangað til í janúar sl. Fyrr á árum var hann í Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðanda, og á síðasta sjómannadag, 1990, heiðraði félagið hann fyrir vel unnin störf á sjónum og fyrir félagið.

Strax á unglingsárunum gagntók boðskapur Hvítasunnuhreyfingarinnar hug hans. Móðir hans Guðný var ein af stofnendum Betelsafnaðarins í Vestmanneyjum, og á barna- og unglingsárunum fylgdi hann henni á samkomur. 4. desember 1932 tók hann afstöðu með Jesú Kristi, og frá þeim tíma hefur hann verið ein styrkasta stoðin í starfinu í Betel.
Alltaf starfað þar af fullum krafti. Engan þekki ég, sem mér finnst bera nafn kristins manns með eins miklum sóma og Óskar. Ákveðið og öfgalaust. Hann var aldrei uppáþrengjandi með trú sína, en mikið voru bænirnar hans fallegar, ef hann var beðinn að gera bæn í fjölskyldusamkvæmum og við önnur tækifæri. Ég veit að margir leituðu til hans í erfiðleikum og höfðu gott af. Hann var mjög áheyrilegur í ræðustól í Betel og naut sín þar vel við að skýra orð ritningarinnar. Maður kom heldur ekki að tómum kofanum, ef spurja þurfti um trúarleg efni. Biblíuna, sem hann las daglega frá barnsaldri, þekkti hann svo einstaklega vel. Kristín Jónína, konan hans var þarna líka svo þétt við hliðina á honum. Hún hefur eins og hann verið meðlinur í Betel frá upphafi, og er núna eini núlifandi stofnandinn. Það hefur verið þeim hjónum mikil gleði að synirnir 4 eru allir kraftmiklir boðendur orðsins, og söfnuðurinn starfar af krafti.

Óskar var með allra stærstu og þreknustu mönnum, vel vaxinn og sterkur. Árum saman fór hann á góðviðrisdögum vestur á Hamar, stakk sér í sjóinn og synti. Þetta kom sér vel, þegar hann var á sjónum hjá pabba sínum á Víkingi. Einu sinni í vondu veðri misstu þeir út mann, Óskar stakk sér þegar í sjóinn og varð sá gæfumaður að bjarga þarna félaga sínum.
Skapið var einstaklega ljúft, og það var alltaf mikil gleði í kringum hann. Hann fylgdi Sjálfstæðisflokknum alltaf vel. Engin hálvelgja þar frekar en annarsstaðar, og taldi ekkert betra en að áhrif stefnu hans væru sem mest á þjóðfélagið.
Hann las mikið og var minnugur á það. Hann þekkti sögu Eyjanna sem hann unni svo mikið mjög vel. Þessvegna voru alltaf líflegar umræður í viðurvist hans. Mér fannst ég alltaf læra og fræðast af honum. Það var alltaf gott að kveðja hann.

Óskar og Kristín Jónína Þorsteinsdóttir frá Fagradal í Eyjum giftust 21. desember 1946 og eignuðust þau 6 börn, 5 syni og 1 dóttur. Elsti sonurinn Þorsteinn dó barn, en hin eru Þorsteinn eðlisfræðingur í Álverksmiðjunni, Anna hjúkrunarfræðingur, Gísli, Snorri og Kristinn kennarar. Allt er þetta búandi fólk, Þorsteinn á Álftanesi, Anna í Hafnarfirði, Gísli og Snorri í Eyjum og Kristinn í Kanada. Barnabörnin eru 18 og barnabarnabörnin eru 2. Að þeim er mikill harmur kveðinn, en minningin um glæsilegan og góðan heimilisföður er mikill styrkur fyrir þau öll.
Friðrik Ásmundsson.