Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1991/Að eignast viturt hjarta

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson:

Að eignast viturt hjarta

Prestshjónin, sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson og Katrín Þórlindsdóttir.

"Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta. "(Sálm 90,12) "Þessi orð eru úr Davíðssálmum. Þó að aldir séu liðnar frá því að þessi orð voru fyrst færð í letur þá eiga þau erindi við okkur eins og allar aðrar kynslóðir sem koma og fara.
Þessi áminningarorð úr Heilagri Ritningu fjalla um þá nauðsyn að við gætum að og undirbúum okkur fyrir það sem framundan er en látum ekki hugsunarlaust berast með straumnum. Þessi orð minna okkur á að það er nauðsynlegt að gera allt klárt þegar haldið er úr höfn ef vel á að ganga.
Þau kalla fram margvíslegar hugsanir og minna okkur á að lífið er undirbúningstími og við eigum að gæta þess að lifa þannig að það sé Guði til dýrðar og náunga okkar til blessunar.

Við eigum að hafa í huga orð spámannsins Míka þar sem hann segir: "Hann (þ.e. Drottinn) hefur sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum." (Míka 6,8)
Þessi orð spámannsins eru mér kær vegna þess að þau eru svo skilmerkileg og afdráttarlaus. Þau eiga við bæði á sjó og í landi. Þau svara þeirri spurningu sem presturinn heyrir sóknarbarnið spyrja:
Hvað á ég að gera? Hvers krefst Guð af mér? Og Ritningin heldur áfram og segir: "Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum. Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika." (1. Jóh. 3,17-18)

Og bróðir okkar er hver sá sem þarfnast hjálpar okkar. Og ef við spyrjum: Hver er náungi minn? Þá svaraði Jesús þeirri spurningu í dæmisögunni um miskunnsama samverjann. (Lúk 10,25-37) Kenndu okkur Drottinn að telja daga vora. Við, sem einstaklingar, þurfum að hafa þessi orð í huga og einnig samfélagið vegna þess að það skiptir máli hvernig er stjórnað og hvaða markmið eru sett. Það skiftir máli að setja kúrsinn rétt og fara á fiskislóð ef við eigum að koma með afla að landi. Á siglingunni um lífsins ólgusjó óskum við þess öll að fari okkar verði þannig stýrt að það nái heilt heim í höfn á friðarlandi. Kristin trú kennir okkur að við eigum að munstra okkur um borð hjá honum sem sagði: "Fylgið mér." Ef hann stjórnar þá náum við heil í höfn þó að ágjöf verði og við siglum ekki alltaf sléttan sjó.

Á sama hátt og það er rétt og skylt að einstaklingurinn fylgi orði Guðs þá er samfélaginu nauðsynlegt að hlíta orði skaparans. Það skiptir máli hvaða markmið eru sett og hvað það er sem sóst er eftir. Við höfum lengi verið upptekin af því að uppfylla þarfir líkamans og við höfum viljað auka veraldlega velferð. Það er ágætt eins langt og það nær en lífið er meira en brauð og leikir. Velferð mannsins er undir fleiru komin en því einu að hafa þak yfir höfuðið og gnægð matar og drykkjar.

Það var minnst umhverfismál í kosningunum í vor og ég er sannfærður um að það verður eitt meginmál næstu framtíðar að huga að umhverfismálum. Við megum ekki falla í þá gryfju að telja umhverfisvernd vera neikvæða og andsnúna hagsmunum okkar Íslendinga. Því er víðs fjarri.
Skynsamleg náttúruvernd starfar með lífinu og framtíðinni.
Engum ætti að vera ljósari þörfin á náttúruvernd og aðgátar í umgengni við sköpunina en einmitt okkur sem höfum lífsviðurværi úr moldinni og úr sjónum. Nú er svo komið að það er brýn nauðsyn að gá að sér og minnast þess að veið eigum að vera skynsamir ráðsmenn og samverkamenn Guðs en eigum ekki í hroka og eigingirni að eyðileggja sköpunina. Við eigum að vinna að því að hér verði fagurt mannlíf í heilbrigðu og hreinu landi þar sem jafnvægi náttúrunnar er ekki raskað.

Ég minnist þess þegar ég var barn og unglingur í skóla á Siglufirði þá var það kennt að hafið væri ótæmandi matarbúr fyrir mannkynið og einnig var fullyrt þegar úrgangi og sorpi var fleygt í sjóinn að lengi tæki sjórinn við. Nú vitum við að hvorutveggja er rangt. Þó að við viljum bættan hag og velferð þá held ég að allir geti verið sammála um að það má ekki verða of dýru verði keypt. Það er ekki öllu fórnandi til að auka hagvöxt og stundarvelmegun. Við elskum í verki og sannleika þegar við leitumst við að vernda bæði mann og heim og göngum skynsamlega um þessa jörð sem er sameign alls mannkyns. "Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta."
Á hátíðisdegi sjómanna bið ég almáttugan Guð að blessa líf ykkar og starf og að hann leiði ávallt alla heila í höfn. Farsæld og fengsæld fylgi ykkur um ókomin ár.

Gamalgróið skip í flotanum, Gullborg VE; myndarleg útgerð þeirra bræðra Friðriks og Benónýs Benónýssona.