Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1991/Þegar Geir goði VE sökk

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Kristinn Sigurðsson frá Skjaldbreið

Þegar Geir goði VE 10 sökk 27. janúar 1943

Eftirfarandi frásögn fékk ég í hendur frá Kristni heitnum Sigurðssyni á Skjaldbreið skömmu fyrir eldgosið í Heimaey hinn 23. janúar 1973.
Í öllu því umróti sem fylgdi eldgosinu 1973 hafði lítil stílabók leynst á meðal annarra skjala, sem ég sem betur fer fann fyrir nokkru síðan.

Kristinn Sigurðsson frá Skjaldbreið.

Frásögnin er ritgerð, sem Kristinn Sigurðsson samdi nokkrum árum eftir að atburður þessi gerðist, en þá var hann nemandi í Iðnskóla Vestmanneyja. Ritgerðin lýsir öryggisleysi sjómanna, þegar björgunartæki í vertíðarbátum voru nær engin og hver gátu orðið örlög sjómanna við þær aðstæður, þegar ekki var hægt að kalla út í talstöð eftir hjálp.
Geir goði VE 10 var 21 brúttórúmlestir að stærð, byggður úr eik og furu í Reykjavík árið 1925; með 70 hestafla June Munktell vél, árgerð 1934.

Kristinn Sigurðsson sagði eitt sinn svo frá að hann hefði heitið því þegar hann komst lífs af úr sjávarháska, en það gerðist tvisvar á ævi hans, að hann skyldi leggja sig fram um slysavarnir. Við það stóð hann og var Kristinn um áraraðir formaður Björgunarfélags Vestmanneyja, en í Sjómannadagsráði sat hann í nær 30 ár. Það fór því vel á því, þegar Björgunarfélagið eignaðist fullkominn björgunarhraðbát í árslok 1988, að báturinn skyldi heitinn eftir honum.

Kristinn Sigurðsson var fæddur 2. September 1917 að Skjaldbreið í Vestmanneyjum, sem stóð austarlega við Urðaveg, en allt það svæði er nú orpið hrauni. Hann var sonur eins þekktasta sjósóknara í Vestmanneyjum á fyrstu árum vélbátanna, Sigurður Ingimundarssonar og konu hans Hólmfríðar Jónsdóttur, og ól allan sinn aldur í Vestmannaeyjum. Kristinn andaðist snögglega hinn 26. júní 1984; eftirlifandi kona hans er Bjarný Guðjónsdóttir og eignuðust þau fimm börn.
G.Á.E.

Geir goði VE.
Glaður VE

Árið 1943 var ég ráðinn sem skipstjóri á m/b Geir goða. Þegar við vorum í þriðja róðri, sökk hann og þeim atburði ætla ég að lýsa. Við lögðum af stað í róður kl. 3. 27. janúar. Vindur var suðaustan 7 til 8 vindstig, og dimmt í lofti.
Farið var NV að V 20 sjómílur og þar lögð línan. Gekk það allt vel. Er nú ekki að orðlengja það, að við drógum alla línuna og fengum 3 tonn af fiski. En meðan við drógum línuna, hafði mikið bætt í vindinn og var nú komið versta veður.
Þegar farið var að keyra bátinn móti veðrinu reyndist ekki hægt að keyra fulla ferð. Var nú keyrt með treikvartferð og gekk það allt slysalaust í fyrstu. Þegar við höfðum keyrt í þrjár klukkustundir, sagði vélstjórinn að sjór væri kominn í bátinn. Var þá farið að dæla með þilfarsdælu. En sjór jókst jafnt og þétt í bátnum. Var þá sjáanlegt að ekki var allt með felldu. Reyndum við þá að ná sambandi við land eða báta gegnum talstöð, en það tókst ekki.

Ólafur Sigurðsson frá Skuld.

Þegar hér var komið sögu, var myrkur skollið á. Var nú kominn það mikill sjór í bátinn, að vélin stöðvaðist. Sáum við nú ljós á þremur bátum, sem voru á heimleið. Sendum við þá neyðarflugelda. En ekki reyndist neinn taka eftir því. Tókum við því næst dýnur úr hvílum skipverja og náðum í olíu og fórum með upp á stýrishús og kveiktum í því. Varð þetta stórt bál, sem lýsti upp allan bátinn. Þetta reyndist samt allt árangurlaust og sigldu bátarnir, sem við höfðum séð, áfram heim. Vakti nú einn hásetinn athygli mína á því, að farið væri að loga í stýrishúsinu og spurði, hvort ekki ætti að slökkva það.
Sagði ég þá, að það væri óþarfi, því að það myndi slökkna mjög bráðlega. Sáum við nú eitt ljós enn, og bætti ég þá olíu á brennandi stýrishúsið, því að nú reið á að þessi bátur tæki eftir okkur. Sáum við von bráðar að sá, sem var við stjórn bátsins, hafði séð okkur, því að hann breytti stefnu og stefndi beint til okkar.

Reyndist þetta vera m/b Glaður, skipstjóri Ólafur Sigurðsson. Þegar þeir komu var Geir goði sem næst að fyllast af sjó. Gengum við frá dráttartaug milli bátanna. En ekki sagðist Ólafur keyra með Geir goða nema mannlausan. Settum við á okkur lífbelti. Síðan hnýtti ég taug, sem við höfðum fengið frá þeim á Glað í einn hásetann og var hann dreginn á milli báta. Sömuleiðis fór með vélastjórann. En þegar við vorum tveir eftir, komu bátarnir það nálægt hvor öðrum að fært var að hlaupa á milli. Sagði ég þá hásetanum að hoppa yfir í Glað. Sem hann gerði og tókst vel.
Síðan var ég dreginn á milli. Var nú keyrt í átt til Vestmanneyja með Geir goða í eftirdragi. Eftir 15 mínútur lagðist Geir goði á hliðina, svo að möstur námu við sjó. Lét þá Ólafur höggva á taugina. Flaut Geir goði þannig í 10 mínútur og fór ég þá að hugsa um, hvernig það væri að vera staddur um borð í Geir goða og sýndist það ekki mundi vera fýsilegt.

Þegar þetta gerðist var ekkert fleytitæki um borð í þessum bátum, sem skipshöfn gat bjargað sér á, og ef ekki barst hjálp í tæka tíð, fylgdu mennirnir bátnum í hina votu gröf. Svo hefði orðið í þetta skipti hefðu þeir á Glað ekki veitt okkur athygli, því að það var síðasti bátur, sem kom út róðri þennan dag.