Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/ Vélskólinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Vélskólinn veturinn 1989 - 1990

Gangsetning

Um borð í Hval. Kristján Jóhannesson ábúðarfullur við gufutörnarann.

Framhaldsskólinn var settur 1. september 1989, en kennsla hófst ekki fyrr en 6. september vegna þess að nokkrir kennarar skólans fóru á námskeið til Reykjavíkur, vegna svokallaðs U-F náms sem þeir stunda við Kennaraháskóla Íslands. Í vor hafa 5 kennarar við skólann lokið þessu námi sem er í uppeldis- og kennslufræðum og hófst haustið 1988. Hefur námið verið stundað með fullri vinnu og rúmlega það. Með nýjum lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, sem tóku gildi 1987, verður að hafa próf í þessum greinum auk sérgreinar til þess að mega telja sig framhaldsskólakennara.

Nemendur á haustönn

Á haustönn stunduðu 7 nemendur nám á 1. stigi sem veitir réttindi til vörslu 220 kw aðalvélar í skipi og sem vélavörður ásamt yfirvélstjóra á 750 kw aðalvél í skipi. Þessir nemendur voru Agnar Hjálmarsson, Davíð Þ. Einarsson, Gísli T. Ægisson, Heiðar Egilsson, Henry M. Kristjánsson, Kristófer Guðlaugsson og Þorvaldur Hreiðarsson. Þessir nemendur stóðust allir próf.
Á haustönn stunduðu 9 nemendur nám á 2. stigi sem veitir réttindi á allt að 750 kw aðalvél í skipi eftir tiltekinn siglingartíma. Þessir nemendur voru Benóný Benónýsson, Gunnar I. Gíslason, Pétur Erlingsson, Svanur Gunnsteinsson, Kristinn Valgeirsson, Sveinn Matthíasson, Willum Andersen, Eggert Björgvinsson og Magnús F. Valgeirsson. Tveir þeir síðast töldu luku prófum 2. stigs eftir haustönn, en Eggert hafði verið utanskóla nemandi í einu fagi. Haustannarslit fóru svo fram 16. desember í Félagsheimilinu.

Nemendur á vorönn

Vorönn hófst með kennarafundi 8. janúar. Ekki var 1. stig starfrækt á vorönn, en í 2. stigi eru 7 nemendur sem halda áfram eftir haustönn og Óskar Þ. Jóhannesson sem byrjaði í 2. stigi á vorönn. Væntanlega ljúka þrír þeirra 2. stigs prófi í vor og vonandi fá hinir vélavarðaréttindi, en þeir ljúka ekki námi í 2. stigi í vor. Skólaslit verða 19. maí en ekki er hægt að greina frá því hver fær vélstjóraúrið frá Vélstjórafélaginu vegna þess að ekki liggja fyrir úrslit prófa.

Nemendur Vélskólans ásamt tveimur kennurum sínum.

Kennarar

Þeir sem hafa kennt á vélstjórnarbraut í vetur eru þessir: Kristján Jóhannesson stærðfræði, kælitækni, eðlisfræði, rafmagnsfræði, vélfræði reikning, vélagæslu, vélstjórn bóklega, teikningu og stýritækni. Karl Marteinsson smíðar, logsuðu og rafsuðu, vélstjórn verklega og efnafræði. Baldvin Kristjánsson og Cynthia Ann Farrell ensku. Birgir Sigurðsson stærðfræði. Áslaug Tryggvadóttir dönsku. Kristín Sigurðardóttir íslensku. Helga Kristín Kolbeins efnafræði. Elías Baldvinsson eldvarnir. Ólafur Lárusson skyndihjálp. Skólastjóri Slysavarnaskólans er Þórir Gunnarsson og kennarar Höskuldur Einarsson og Halldór Almarsson.

Skólastarfið

Skólastarfið hefur gengið truflanalaust, mikið kennt og vonandi enn meira lært. Þann 2. október kom hingað til Vestmannaeyja Slysavarnaskóli sjómanna og hélt tvö námskeið fyrir nemendur Vélskóla og Stýrimannaskóla, fyrri og seinni hluta. Farið var í skoðunarferð um borð í Hval 8 með 1. stigs nemum. Sá Hermann Haraldsson tæknifræðingur hjá Skipalyftunni um leiðsögn. Þar um borð er gufuvél og vélarúm mjög frábrugðið því sem menn eiga að venjast. Styrk úr undanþágusjóði fengu 11 nemendur 15 þúsund á mann fyrir haustönn. Í nóvember og desember vann Tryggvi Gunnarsson að því að gera upp gamla vél fyrir Byggðasafnið og hafði aðstöðu í vélasal skólans til þess.
Þann 26. apríl var skoðuð dælu- og kyndistöð bæjarveitnanna og sá Guðni Grímsson yfirvélstjóri um leiðsögn. Þá má ekki gleyma skoðunarferð um borð í nýjasta skipið, Ófeig, og þar fræddi okkur Kristján Guðmundsson yfirvélstjóri.

Vélskóli Íslands verður 75 ára á þessu ári og verður meðal annars gefin út bók um skólann í því tilefni. Verður skólans hér getið í henni. Þá má geta þess að lokum að ríkissjóður yfirtók allan kostnað við rekstur skólans eftir áramótin, en áður hafði bæjarsjóður séð um reksturinn með ríkssjóði.
Með bestu kveðjum til sjómanna.

Kristján Jóhannesson vélfræðingur