Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/Á krabbaveiðum með enskum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sigurgeir Jónsson:

Á krabbaveiðum með enskum

Siglt í land undir íslenskri „navigasjón.“

Á síðasta sumri var ég við nám í Englandi um nokkurt skeið. Í lok námstímans flaug mér í hug að láta gamlan draum rætast, draum sem verið hafði að gerjast með mér um nokkurra ára skeið. Mig hafði lengi langað til að fylgjast með krabbaveiðum fiskimanna í Norfolk; hafði raunar ákveðið að gera þetta árið 1985 en þá höguðu örlögin málum á annan hátt. En nú sá ég fram á tækifæri til að láta af þessu verða og ákvað að vinda bráðan bug að málinu.
Ég dvaldist í Norwich, sem er höfuðstaður Norfolksýslu, og gestgjafi minn á staðnum vildi allt fyrir mig gera til að koma þessu ætlunarverki mínu í framkvæmd. Sjálfur er hann forstöðumaður fyrir sjóminjasafni í Norwich og mikill áhugamaður um allt sem að sjó og sjómennsku lýtur. Áður en langt um leið hafði hann haft samband norður til Cromer, þar sem höfuðkrabbaveiði Englendinga fer fram, og reddað öllu fyrir mig gistingu og fæði, ásamt viðtali og sjóferð með þekktasta fiskimanninum á staðnum.
Þessi greiðugi gestgjafi minn ók mér síðan á sunnudegi norður eftir, u.þ.b. hundrað kílómetra leið sem er frá Norwich til Cromer.

Af staðháttum í Cromer

Cromer er lítill fiskimannabær á norðurströnd Norfolk og er íbúafjöldinn í kringum 5000 manns. Það er að segja yfir vetrartímann. Að sumri dvelja í Cromer milli 40 og 50 þúsund manns, því staðurinn er einn af vinsælustu sumardvalarstöðum Englendinga. Að stórum hluta eru þetta ellilífeyrisþegar og eftirlaunafólk og því heldur rólegra yfir öllu en t.d. í Blackpool og Great Yarmouth þar sem yngra fólkið eyðir sínum sumarleyfum. Þarna í Cromer var til að mynda enginn næturklúbbur og eftir miðnætti sást ekki hræða á ferli utandyra. Svona til marks um aldur sumargesta í Cromer má nefna að á hótelinu mínu, þar sem voru tólf gestir auk mín, var ég langsamlega yngstur, þó svo að ég héldi upp á 47 ára afmælið þarna, næsti maður var rúmlega sextugur. En þetta var gott fólk, eins og raunar Englendingar upp til hópa, glaðlynt og brosmilt og allir af vilja gerðir tíl að aðstoða þennan útlenda "ungling" sem ætlaði á sjó að veiða krabba í sumarfríinu sínu.

James, unglingurinn um borð, hirti aflann úr gildrunum.
Kapteinninn um borð, Richard, sá um beitninguna. Gildra er klár á stjórnborðslunningunni og bíður þess að fara.
Séð yfir „dekkið“ á miðjum drætti.
„Smoke - time“ meðan keyrt er milli trossa.

Ég ætlaði að hafa samband við "kapteininn"minn sama dag og ég kom en var þá tjáð að hann væri sofandi, ætlaði á sjó kl. tvö um nóttina. Ég ákvað því að nota þennan fyrsta dag og svo daginn eftir til að skoða mig um í bænum og geyma sjóferðir til þriðjudags. Og þarna í Cromer er margt að sjá og engin þörf á að láta sér leiðast. Það er svo allt önnur saga sem ekki verður rakin hér.

Túrinn undirbúinn

Ken dró af koppnum, alltaf berhentur, einstaklega flinkur spilmaður.

Um þrjúleytið á þriðjudag rölti ég í Garðastræti 7, í gamla bænum, þar sem Richard Davies fiskimaður býr og rekur einnig fiskbúð ásamt konu sinni Julie. Sá var maðurinn sem mér hafði verið bent á að hafa samband við vegna krabbaveiðanna. Ég kynnti mig þarna í búðinni fyrir hávaxinni konu dökkhærðri, grannvaxinni og myndarlegri, sennilega um fertugt. Hún brosti sínu elskulegasta brosi (eins og raunar Englendingar gera gjarnan) og bað mig að bíða, Rick væri rétt ókominn. Og biðin varð ekki löng, innan stundar snaraðist inn í búðina vörpulegur maður, fremur lágur vexti en þrekinn, rauðskeggjaður og svipmikill. Einhvern veginn fannst mér að svona hefðu norrænir víkingar litið út til forna. Handtakið var fast og traustvekjandi þegar við heilsuðumst. Hann kannaðist strax við komumann og erindi hans og það var hið auðsóttasta mál að fá að skreppa með í róður. Bara að mæta kl.2 um nóttina og betra að vera vel klæddur þar sem oft væri kalt í morgunsárið.
Því sem eftir leið dags var eytt til áframhaldandi skoðunar á bænum og þá sérstaklega sjóminjasafninu sem er einkar skemmtilega upp sett lítið safn í gömlu íbúðarhúsi fiskimanns. Sérstaklega skoðaði ég vel veiðarfæri sem þar eru og notuð voru fyrrum við krabbaveiðar.
Safnvörðurinn, mikill áhugamaður um ísland, var raunar hér í Eyjum í gosinu, tjáði mér að sáralítið hefði breyst í tímans rás um veiðiaðferðir, hið eina sem hægt væri að tala um að hefði breyst væri að bátarnir væru nú vélknúnir, annað væri því sem næst óbreytt.

Haldið í hann

James sá um að drekkja krabbanum í stóreflis keraldi með volgu vatni.

Ekki þorði ég að taka á mig náðir eftir kvöldverð, hræddur um að ég kynni að sofa af mér róðurinn og stytti mér stundir við lestur fram til kl.2. Þá bjó ég mig sem best ég kunni og rölti gegnum bæinn niður í Garðastræti. Ég man að mér þótti það furðulegt í öðrum eins ferðamannabæ að ekki skyldi vera nokkur sála á ferli í bænum utan mín. En þannig var þetta, hvergi nokkur á stjái. Raunar mætti ég lögreglubifreið staðarins á leiðinni niður að höfn og þeir sáu ástæðu til að spyrja mig um ferðir mínar svo seint að kvöldi (eða árla morguns). En sú skýring var tekin fullgild að ég væri á leið a sjó. Richard Davies var vaknaður og eftir mér beið rjúkandi kaffi.
Meðan ég gerði mér gott af því, fór hann fram í þvottahús og fann handa mér klofstígvél og sjóstakk. Á lóðinni bak við fiskbúðina, þar sem fiskverkunin var til húsa, voru svo hinir tveir úr áhöfninni mættir og voru í óðaönn að koma beitukössum fyrir á pallbíl útgerðarinnar. Þetta voru tveir þaulvanir sjómenn frá Cromer, Ken rúmlega fertugur, dökkleitur og með mikið svart alskegg og James, ungur maður og ljóshærður.

Og nú var haldið niður á strönd. Hafnarmannvirki eru engin í Cromer og útræði þar stundað á svo til sama hátt og frá Landeyjasandi fyrrum, skipin sjósett beint frá fjörunni og dregin á land að afloknum róðri. Að vísu hefur tæknin haldið innreið sína í Cromer og með hverju skipi fylgir vagn og dráttarvél, þannig að erfiði er lítið sem ekkert við sjósetningu og landtöku. Skipin, sem notuð eru við þessar veiðar, eru nær öll úr trefjaplasti, opin og 5-7 metrar að lengd, nokkuð breiðari og kubbslegri en gengur og gerist með trillurnar okkar.
Beitukössunum var skutlað um borð og síðan fór öll áhöfnin ásamt farþeganum um borð í bátinn sem enn stóð á vagninum upp á malarkambi. Utanaðkomandi maður sá um að gangsetja dráttarvélina og bakka okkur niður fjöruna og út í sjó. Þar var vélin sett í gang og haldið af stað.

Það var hálfkalt þennan morgun, auk þess rigningarsuddi og farþeginn var fljótur að klæða sig í stakk og stígvél að hætti heimamanna. Um það bil klukkutíma stím var út að gildrunum og fátt hægt að hafa fyrir stafni á leiðinni, hvergi skjól né afdrep, bara að tylla sér á þóftu og sötra kaffi sem nóg var af á brúsum. Þeir félagar mínir voru hinir skrafhreifnustu á leiðinni og þurftu margs að spyrja um fiskveiðar á Íslandi. Einhvern veginn held ég að þeir hafi lítt tekið mig trúanlegan um aflamagn, þá sérstaklega þegar talið barst að humarveiðum við Ísland. Þarna telja nefnilega krabba- og humarveiðimenn afla sinn í stykkjatali en ekki í tonnatali eins og við gerum. Því held ég að þeim hafi þótt mínar tölur heldur óraunverulegar.

Siglt án ljósa

Engin siglingtæki voru þarna notuð, að vísu var kompás í skáp undir framþóftunni og sagði kafteinninn að hann væri notaður í þoku. Í sama skáp voru björgunarvesti geymd. Nú var svartamyrkur þegar lagt var af stað og leist mér ekki á blikuna þegar engin siglingaljós voru kveikt um borð. Nú sá ég slík ljós kveikt um borð í öðrum skipum sem voru okkur samferða út. Ég impraði á þessu við Richard og það lá við að yrði hálfkindarlegur á svipinn þegar hann teygði sig undir vélarhlífina og kveikti á ljósunum. Hann var búinn að toga út úr mér að ég væri kennari við stýrimannaskóla og sagði brosleitur við mig að líklega hefði hann ekki fengið háa einkunn hjá mér í skólanum fyrir slíka gleymsku.

Áfram hélt hann að rigna og gerði erfitt fyrir um myndatökur. Þeir piltar sögðu mér að örvænta ekki, hann stytti ábyggilega upp þegar á liði. Þeir áttu átta trossur í sjó, sem lagðar höfðu verið daginn áður, hver trossa með 25-30 gildrum. Afli hafði verið tregur upp á síðkastið, þetta 300-400 krabbar eftir daginn. Góður afli sögðu þeir að væri 600 krabbar og fyrirtaksafli yfir 700. Mjög hentu þeir gaman að þegar ég sagði þeim hver venjan væri á íslandi, þegar aðskotadýr færu með í róður, að kenna þeim um aflaleysi og hlógu dátt þegar ég bætti við að oft væri rætt um að henda slíkum fiskifælum í sjóinn. Töldu rétt að athuga þann möguleika á heimleiðinni ef ástæða yrði til.

Landtaka. Dráttarvélar eru notaðar við landtöku og sjósetningu.
Aflinn kominn upp í vinnslustöð. Þeir Richard og John, sonur hans hans, gæpaflokka krabban.
Svipmynd úr fiskbúðinni sem þau Richard og Julie eiga. Hluti af góðgætinu í forgrunni.
Krabbagildra af þeirri gerð sem notuð hefur verið um langan tíma í Cromer.

Ekki gekk andskotalaust að finna fyrstu baujuna. Bæði byrgði suddinn sýn og eins var nokkur vindur svo að hvíttaði í öldu. En eftir hálftíma dól fannst hún. Færið var híft inn á koppi aftast á lunningunni bakborðsmegin og var fljótdregið þar sem dýpi er þarna aðeins 10-15 faðmar. Stjórinn var innbyrtur og síðan kom fyrsta gildran í ljós. Gildrurnar, sem notaður eru við þessar veiðar, eru u.þ.b. 40 cm breiðar og álíka háar og 70 cm á lengd. Þær eru gerðar úr járn- eða trégrind og net riðið utan á þær. Ofan á þeim eru tvö "einstefnuop" þar sem krabbinn nær að skríða inn en kemst ekki aftur út. Hver gildra er með tveim hólfum og í hvoru hólfi teygjuband strengt yfir botninn til að festa beituna. Beitan, sem notuð er, er aðallega hausar og beinagarðar úr þoski. Þá beitu má kaupa vægu verði frá fiskvinnslustöðvum.

Ströng stærðarmörk

Áhöfnin skipti þannig með sér verkum að Ken dró af koppnum, James opnaði gildrurnar, hirti krabbann úr þeim og henti kuðungum og öðru rusli og Rick beitti síðan á nýjan leik og lagði. Oftast er lagt beint, þ.e.a.s. hver gildra látin fara strax en fyrsta trossan var þó dregin í bátinn og gildrunum raðað vendilega í fremsta rúmið. Ástæðan var sú að kafteininum þótti hún ekki á fiskilegum stað og ákvað að færa hana. Auðsýnilega var þetta ekki í fyrsta sinn sem þessir menn unnu að þessum störfum. Allt gekk þetta einstaklega fumlaust fyrir sig, hvert handtak virtist svo til sjálfvirkt, allt frá upphafi til enda. Sérstaklega dáðist ég að handtökunum hjá Ken á koppnum, flínkari "spilmann"man ég ekki eftir að hafa séð.

Ekki var aflinn mikill í fyrstu trossuna en glæddist þegar hinar voru dregnar. Einkunnin, sem fyrsta trossan fékk, var "poor" en hinar fengu ýmist "poor" eða "fair", sem myndi útleggjast á íslensku sem "lélegt'og "í lagi". Ekki tókst mér að toga út úr þeim hvort þetta væri betri afli eða lélegri en daginn áður. Í sumum gildranna var enginn krabbi, einn til tveir í öðrum og jafnvel fjórir til fimm í nokkrum þeirra. Þessi krabbategund er ólík þeim sem við þekkjum hér við land, hvað líkust töskukrabba en nokkru stærri. Ströng stærðarmörk eru ríkjandi og var undirmálskrabba samstundis hent í sjóinn þar sem þung viðurlög eru við að koma með slíka vöru í land. Þá tók ég einnig eftir því að James henti ekki öllum smákrabba fyrir borð, suma lét hann viljandi detta inn fyrir lunninguna. Ég undraðist þetta nokkuð en á landstíminu fékk ég að vita tilganginn.

Í fjórðu trossunni kom í ljós svartur humar í einni gildrunni. Humar af þessari stærð hefði þótt með ólíkindum hér í Háfadýpinu og hélt ég að hér væri mikill happafengur kominn. Eftir að mælistiku hafði verið brugðið á humarinn var hann látinn fjúka í sjóinn aftur. Skýringin var sú að hann næði ekki máli. Eftir þetta hafði ég hljótt um humarsögur af Íslandi.
Þeir félagar mínir höfðu rétt fyrir sér með að hann mundi stytta upp þegar á liði morguninn. Og eftir því sem birti varð betra um myndatökur. En satt best að segja var farþeganum orðið nokkuð kalt á puttunum þarna um morguninn og harmaði hann það sáran að hafa ekki fjárfest í vettlingum daginn áður. Þá uppgötvaði hann allt í einu fyrir klára hendingu aðferð til að hlýja sér á höndunum. Ég hafði fengið á mig slím af beitu sem ég hirti upp úr kjalsoginu og teygði mig út fyrir til að skola af mér. Þá komst ég að því að sjórinn var ylvolgur og átti eftir þetta ekki í vandræðum með kalda fingur.

Íslensk "navígasjón"

Um klukkan sjö um morguninn var drætti lokið og haldið aftur í land. Mér var tilkynnt að ég fengi heimstímið, mætti standa við stýrið og sýna í verki kunnáttuna í íslenskri "navígasjón". Á meðan tóku þeir hinir við að flokka aflann, mæla vafakrabba og koma þeim fyrir í plastkössum.
Síðan tók við hið mesta furðuverk hjá þeim. Þeir tóku til við að traðka sem óðir væru á smákröbbunum sem áður er getið og lágu í hrúgum í tveimur öftustu rúmunum. Mig furðaði á þessu en fékk þá skýringu að þessi krabbategund væri óæt, þætti hinn mesti ódráttur þar sem þeir skriðu í gildrurnar og ætu beituna áður en aðalkrabbinn kæmist nálægt. Því væri reynt að stemma stigu við frekari fjölgun hans með þessum hætti. Eftir að fótatraðkinu hafði linnt, var hrúgunni mokað í sjóinn. Siglingin í land gekk að óskum og voru menn kátir á leiðinni. Þessir þremenningar voru einkar glaðlyndir og stutt í hláturinn hjá þeim. Þá sá ég þess ýmis merki að ekki er mikill munur á íslenskum sjómönnum og enskum. Til dæmis fékk "unglingurinn" um borð, James, heilmikla yfirhalningu hjá hinum tveimur á landstíminu, þegar þeir lögðu hann á miðþóftuna og kitluðu hann rækilega.

Landtakan var ívið vandasamari en sjósetningin. Siglt var þar til skipið kenndi grunns, þá stukku allir fyrir borð og studdu við, þar til dráttarvél ásamt vagni kom niður í flæðarmál og renndi undir stefnið. Báturinn var síðan dreginn með spili upp á vagninn og svo upp á kamb.

Krabbanum drekkt!

En dagverkinu var langt í frá lokið þótt bátur og afli væri kominn á land. Hluti af starfi sjómannsins þarna er að sjá um verkun aflans. Og sá þáttur þótti mér einkar forvitnilegur. Byrjað er á að fara með kassana með aflanum upp í fiskvinnsluhúsið bak við fiskbúðina. Þar er aflinn talinn og flokkaður í gæðaflokka, bæði eftir stærð og eins því hvort eitthvað sést á krabbanum. Og þá var að drepa krabbana. Aðferðin, sem notuð er við það, kom mér mjög á óvart. Krabbanum er drekkt! Hann er settur í vatn, sem hefur verið soðið og er þar af leiðandi súrefnissnautt og heldur ekki lengi lífi í þeim vökva. Þegar hann er dauður, tekur við næsta stig vinnslunnar, þar sem hann er soðinn í heilmiklum potti í ákveðinn tíma og við ákveðið hitastig. Þá er gengið frá honum í frauðplastkassa og þar með er hann klár á markað. Þó er sumt af honum sett í áframhaldandi vinnslu sem tvær stúlkur sjá um. Þær brjóta allt krabbakjöt úr skel og klóm og pakka því svo vendilega í sjálfa skelina. Þar með er gómsætur málsverður tilbúinn. Öll hótel í Cromer bjóða að sjálfsögðu upp á Cromerkrabba sem sérrétt og að auki er þessi krabbi á boðstólum um allt Norfolkfylki og víðar.

Sjálf sjómennskan er ekki nema helmingur af starfi áhafnarinnar. Sjóferðinni lauk um áttaleytið um morguninn en ekki var búið að ganga frá aflanum og gera klárt fyrr en um tvöleytið sama dag.
Hásetarnir tveir eru ekki ráðnir upp á hlut, heldur hafa þeir fast kaup. Aftur á móti sagði Richard mér að hann borgaði sínum mönnum alltaf "premíu" fyrir góðan afla enda væri þetta hvort tveggja úrvalsmenn sem hann vildi fyrir alla muni hafa áfram í sinni þjónustu.

Löndun. Allt er unnið að meira og minna leyti með handafli.

Metafli þann daginn

Sjómennska gengur í erfðir í Cromer. Flestir þeir, sem þarna stunda sjó, eru komnir af fiskimönnum í marga ættliði. Faðir Richards, afi og langafi voru allir fiskimenn og sonur hans er einhver efnilegasti fiskimaðurinn í Cromer. hann lagði humargildrur þennan dag og kom með góðan afla að landi, u.þ.b. 300 humra af stærstu sort. Já, talandi um aflabrögð. Hver skyldi aflinn hafa verið eftir daginn hjá okkur?
Það var ekki fyrr en um hádegið að ég allt í einu uppgötvaði að engu styggðaryrði hafði verið í mig hreytt sem fiskifælu, né heldur hótað að henda mér í sjóinn. Enda tjáði Richard mér brosandi að ekki hefði verið ástæða til þess, aflinn í þessum róðri sá besti um langan tíma, 750 krabbar. Og enn roggnari varð Íslendingurinn náttúrlega þegar hann frétti að mestur afli hjá öðrum þennan dag hefði verið 450 stykki. Að sjálfsögðu taldi hann þetta ekki neina tilviljun, þessi ágæti afli væri varla öðru að þakka en nærveru hans. Þeir þremenningar impruðu meira að segja á því hvort ekki væri hægt að fá þetta íslenska "lukkutröll" í annan róður!

Íslenskt nafn á næsta bát?

Richard Davies er líklega þekktastur fiskimannanna í Cromer. Hann er formaður björgunarsveitarinnar á staðnum en sú sveit er þekkt víða um England vegna áræðis og dugnaðar við erfiðar aðstæður. Hann er skipstjóri á björgunarbát sveitarinnar, tók við því starfi af föður sínum. Sá bátur er geysivel útbúinn tækjum og öll aðstaða björgunarsveitarinnar til mikillar fyrirmyndar. Og Richard Davies er maður sérkennilegur á margan hátt. Ég gleymdi að segja frá því að báturinn hans heitir því sérkennilega nafni "Mel-Y-Mor." Mér lék forvitni á að vita hvað nafnið merkti og fékk söguna. Þegar hann keypti bátinn nýjan, fyrir sex árum, var hann búinn að ákveða að hann skyldi heita "Sea Honey" eða Sjávarhunang. Þar sem hann var mættur með málningu og pensil til að mála nafnið á kinnunginn, bar þar að Walesbúa sem þarna var ferðalangur. Richard spurði hann hvernig sjávarhunang væri sagt á gelisku, mállýsku Walesbúa, og fékk þau svör að það væri Mel-Y-Mor. Þar með var það nafn málað á kinnunginn og hefur reynst vel. Nú er Richard búinn að leggja drög að nýjum báti, stærri og vandaðri. Þau hjón buðu mér til kvöldverðar þennan sama dag, þar var að sjálfsögðu Cromerkrabbi sem aðalréttur, feikn góður matur, ásamt öðru sjávarfangi úr fiskbúðinni. Aldeilis frábær máltíð. Yfir borðum sýndi hann mér stoltur teikningar af nýja bátnum og sagði að nú þyrfti hann að finna nafn á hann. Ég var með íslenska skiptimynt í vasanum sem ég sýndi honum og var hann einkar hrifinn af því að hafa myndir af fiskum á peningum. Þó varð honum öllu starsýnna á myndina framan á peningnum og mátti ég segja honum söguna af landvættum Íslands. Það þótti honum góð saga, hvessti síðan augun á myndina af bergrisanum úr skjaldarmerkinu og spurði hvernig "giant" væri á íslensku. Ég tjáði honum að það væri risi og þar með Ijómaði hann allur. Það verður nafnið á nýja bátnum, sagði hann. RISI !

Ég þykist þess nokkuð fullviss, ef mér endist aldur og heilsa til að ég eigi eftir að sækja heim á nýjan leik þessa geðþekku fiskimenn í Cromer, jafnvel skreppa í annan krabbatúr með þeim. Og óneitanlega væri gaman að því ef fiskibátur í framandi heimshluta bæri nafn úr norrænu goðafræðinni: RISI