Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1989/Til sjós með Sævari í Gröf

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Sigurgeir Jónsson:

Til sjós með Sævari í Gröf

Sævar í Gröf

Vorið 1968 kom frændi minn Sigfús Johnsen að máli við mig og bað mig að koma sem II. vélstjóri á bát, sem hann átti og gerði út, Sæfaxa NK 102. Þar sem ég hafði ekkert annað betra við tímann að gera þetta sumar, varð það úr að ég réðist þar um borð. Sæfaxi var 100 rúmlesta tréskip, smíðaður í Svíþjóð árið 1948 með 400 hestafla mannheimvél. Skipið átti að vera á fiskitrolli þetta sumar og var skipstjóri Sævar heitinn Benónýsson frá Gröf, stýrimaður Stefán Sigurðsson (var lengi með Ölduljón VE), I. vélstjóri Óttar Þórðarson f'rá Reykjavík, II. vélstjóri sá sem þetta ritar og matsveinn Einar Marvin Ólason heitinn en hann fórst með m/b Þráni 1969. Þetta var skipshöfnin í upphafi úthalds en allnokkrar breytingar áttu eftir að verða á henni eftir því sem á sumarið leið, menn komu og fóru en fasti kjarninn allt úthaldið var Sævar, Stefán og Sigurgeir. Aðrir sem ég man eftir um borð þetta sumar voru Magnús heitinn Sigurðsson, Sigurður Jónsson Vestmannabraut 73, Einar Sigurfinnsson, Anton Óskarsson oft kenndur við Kóreu, Guðjón Gíslason matsveinn, Bjarni Bjarnason Vesturvegi 29 og Sigurður Jóhannsson frá Reykjavík. Einhverjir komu fleiri við sögu sem ég ekki man að nafngreina og gerðu stuttan stans um borð.
Ekki var liðinn langur tími af úthaldinu þegar I. vélstjóri sagði upp vegna ósamkomulags við útgerðina og tók ég þá við starfi hans um borð.
Fiskirí var gott þetta sumar. Aðallega var sótt austur að Ingólfshöfða en fyrir kom að kastað var á Víkinni ef þar var líflegt. Sævar var fiskimaður, sérlega glöggur og jafnframt heppinn. Hvort sem það var af tilviljun eða ekki, þá vorum við æði oft staddir þar sem fisk var að hafa í það og það sinnið. Eftir á að hyggja held ég að þetta hafi ekki verið eintóm heppni, heldur hafi Sævar erft þann eiginleika frá föður sínum. Og oft var Gullborg RE ekki langt undan þetta sumar og kom það sér oft vel eins og síðar verður greint frá.
Sævar var einstakur öðlingur að vera með á sjó. Nú voru þarna um borð margir af félögum hans og þeim vandaði hann lítt kveðjurnar ef eitthvað bjátaði á, kallaði þá hinum verstu nöfnum, róna og aumingja. En ekki ristu þær skammir djúpt og ævinlega var allt fallið í ljúfa löð næst þegar híft var. En aldrei mælti hann styggðaryrði við okkur Stefán þetta sumar, þótt tilefni gæfust, rétt eins og við værum af öðru sauðahúsi.
Skammirnar virtust alfarið bundnar við kunningjahópinn og þeir fengu það oft óþvegið.
Ekki var Sævar mikið fyrir að liggja í koju, nema þá á stímunum og það var ekki oft sem stýrimaðurinn togaði, venjulega stóð hann sjálfur öll tog, henti sér kannski út af í hálftíma eða svo og virtist þá úthvíldur. Allt var togað eftir miðum, dýpi og radarfjarlægðum. Ég komst eitt sinn þetta sumar til að líta í miðabókina hans Sævars og sú bók var einstök í sinni röð. Hún var öll skráð í 1. persónu nútíðar, rétt eins og eintal um sálarinnar væri að ræða, eitthvað þessu líkt: „Ég toga vestur alveg út á 50 faðma og þá beygi ég út á og passa að fara ekki dýpra en 70 faðma og það er festa á 9 mílunum.“ Fyrir kom að breytt var yfir í 2. persónu í frásögninni: „Þú mátt ekki fara nær en 4 mílur þarna,“ og var greinilegt að þessi bók var skráð nær orðrétt eftir spjalli þeirra feðganna. Því miður held ég að þessi bók hafi lent á hafsbotni þetta sumar og var það skaði, ég vildi gefa mikið til að eiga hana.

Víðfræg mynd af Binna í Gröf. Þeir feðgarnir voru mikið á sömu miðum þetta umrædda sumar

Sævar var kappmaður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og eins og venjan er með fiskimenn, þá gekk oft mikið á þegar verið var að taka trollið, ekki síst ef gott var í. Á þessum tímum var „rússinn“ ekki kominn til sögunnar heldur var rópakerfið alls ráðandi og belgurinn venjulega halaður inn á höndum. Alltaf var Sævar þar fremstur í flokki og átökin allsvakaleg. Einhverju sinni vorum við nýbúnir að snæða hádegismat þegar híft var. Sævar var alltaf jafn lengi að borða úti á sjó, máltíðin tók nákvæmlega þrjár mínútur, sama hvað í matinn var og má þá nærri geta að lítið var tuggið, heldur rann þetta nokkuð beina leið niður. Súpu drakk hann ævinlega úr krús ef hann þá mátti vera að því að bæta henni við. Svo var hann rokinn út. í þetta skiptið höfðum við rekið í gott ufsahal og mikill hamagangur í skipstjóranum að ná inn belgnum. Slík voru átökin að í miðjum klíðum stóð gusan út úr honum, soðningin frá því í hádeginu, ásamt kartöflubitum fór ómelt í sjóinn. Þegar loksin var búið að ná öllu inn og búið var að láta trollið fara á ný, læddist Sævar aftur í borðsal og endurtók máltíðina, aftur á nákvæmlega þremur mínútum.

Öll var skipshöfnin þetta sumar heldur í ölkærara lagi og var skipstjórinn engin undantekning frá því. Æði var oft var við það eftir að löndun var lokið og helgarfrí framundan að einhverjir biðu aftur í borðsal, reiðubúnir að hella upp á mannskapinn, oftast drykkjufélagar Sævars sem þar voru mættir. Það var furðulegt hve Sævar átti alltaf erfitt með að koma fyrsta sopanum niður. Þarna stóð hann með krús í höndum, titrandi af ákefð, reyndi að koma innihaldinu niður, ældi ofan í krúsina, reyndi aftur, ældi á ný og þannig var áfram haldið þar til honum tókst að halda vökvanum niðri. Þar með voru öll vandamál úr sögunni. Þetta mun ekki nýtt í sögunni með þá sem háðir eru áfengi að maginn geri uppreisn, sálrænt atriði sem margir drykkjumenn kannast við.
Og ævinlega kvaddi Sævar okkur með sömu orðum þegar farið var í helgarfrí, „Þið vitið hvar ég verð ef ég verð ekki mættur á sunnudaginn.“ Og allt passaði það, við Stefán fórum oft á sama staðinn á sunnudagskvöldum þegar halda skyldi úr höfn, til að ná í skipstjórann. Það var aldrei neitt vandamál, hann kom um borð, helst stundum að hann æsti sig ef einhverja aðra vantaði úr skipshöfninni við brottför, átti þá til að tala um „helvítis rónalýð.“ Svo lagði hann sig á útstíminu, bað um að ræsa sig á Víkinni og kom þá upp eins og nýsleginn túskildingur, klár í slaginn, lét ekki standa upp á sig í neinu þegar út í sjó var komið. Sennilega voru helgarfríin miklu meiri þrældómur hjá honum heldur en vinnan úti í sjó en þetta var hans lífsmáti, svona vildi hann hafa það og svona var það. Hitt er svo annað að fáir þola slíkt líferni til lengdar enda fékk Sævar að kenna á því, lést langt um aldur fram en líklega lífsreyndari en margur eldri maðurinn.

Heldur óvenjuleg mynd af Sævari í Gröf. Það var ekki oft sem hann var myndaður í sparigallanum

Annað var það sem Sævar kunni sé lítið hóf í, það voru reykingarnar. Ég er helst á því að hann hafi átt óstaðfest Íslandsmet í reykingum, jafnvel heimsmet. Og reykingamátinn var engu líkur. Filtersígarettur gat hann ekki reykt, hans sort var Camel, því að stór hluti af reykingunum var að tyggja annan endann af sígarettunni. Líklega hefur það verið um þriðjungur af hverri sígarettu sem hann japlaði upp meðan hinn hlutinn brann. Og aldrei sá ég hann taka ofan í sig reyk á sama hátt og flestir reykingarmenn gera, með djúpum sogum, hjá honum voru þetta smáir og jafnir skammtar í einu í hvert sinn sem hann andaði að sér. Ég er helst á því að honum hefði svelgst á, hefði hann þurft að anda að sér hreinu lofti, nikótínlausu. Aldrei gekk hann með eldspýtur á sér, þurfti þeirra ekki með nema rétt þegar hann vaknaði til að kveikja sér í fyrsta naglanum, svo var kveikt í þeirri næstu með stubbnum. Fyrir kom að hann „missti niður dampinn“ eins og við kölluðum það þegar drapst í hjá honum, þá kom hann hlaupandi eins og byssubrenndur niður á dekk til að fá eld því aldrei hafði hann eldspýtur í stýrishúsinu. Þegar hann stóð allan sólarhringinn við að toga, fóru milli átta og níu pakkar og það met á ég ekki von á að verði slegið í bráð.
Það liggur í hlutarins eðli að oft varð tóbakslaust um borð, því ekki var alltaf fyrirhyggja ráðandi um tóbaksbirgðir þegar lagt var úr höfn. Allir um borð voru tóbaksmenn þó enginn kæmist í hálfkvisti við skipstjórann. Því var það oft í endaða túra og á heimstímum að tóbakslítið var og stundum tóbakslaust. Þá var búið að tína upp hvern einasta stubb sem fyrirfannst um borð og klára píputóbakið frá kokknum, allt nýtt til hins ítrasta. Svo fór Sævar á handahlaupum upp með spottanum þegar komið var í höfn að redda tóbaki.
Einhverju sinni urðum við tóbakslausir austur við Höfða og var þá um sólarhringur eftir á veiðum. Gullborgin var þarna skammt frá okkur og Sævar kallaði í gamla manninn og bað hann að redda nokkrum pökkum. Það var ekki nema sjálfsagt, við hífðum og renndum yfir að Gullborginni. Binni henti böggli yfir til okkar og í honum voru sex pakkar af Camel. Þeim var skipt jafnt niður, þ.e.a.s. Sævar fékk fjóra pakka en við hinir, fjórir talsins, fengum tvo pakka saman. Ég held ég ljúgi engu til að hann hafi leitað á náðir okkar á heimstíminu með tóbak, búinn með skammtinn.

Á Bæjarbryggjunni. Lengst til vinstri grillir í Sævar, Friðrik bróðir hans og Binni fyrir miðri mynd. Af öðrum kunnuglegum andlitum má nefna Steina á Kirkjulandi og Dódó

Á þessum árum voru bátar saman í svonefndum ,,kóda“ eða dulmáli um aflabrögð. Þetta var aðallega gert til að aðkomubátar fréttu ekki af aflabrögðum samstundis og sömuleiðis voru nokkur brögð að því að kódinn væri notaður til að vara við ferðum varðskipa. Sævar var í kódafélagi með Binna, föður sínum og mági sínum Gísla á Elliðaey. Alltaf var verið að skipta um kóda og fá nýja. Sjaldnast voru allir þrír bátarnir í landi í einu, þannig að oft voru tveir með nýjan kóda en einn með gamlan. Ósjaldan olli þetta ruglingi og stundum tómri vitleysu þegar upp voru gefnar tölur sem enginn botnaði nokkurn skapaðan hlut í og var það oft æði broslegt að fylgjast með talstöðvaviðskiptunum þegar þannig stóð á. Oftast endaði það með einhverjum heimatilbúnum athugasemdum og tilvitnunum í enn eldri kóda þannig að yfirleitt vissi allur flotinn um aflabrögð eftir þessi orðaskipti.
Aflabrögðin voru dágóð þetta sumar og Sævar lunkinn að vera á réttum stað á réttum tíma. Einhverju sinni var trollið látið fara á Víkinni. Þegar togað hafði verið í tæpan klukkutíma kemur Sævar og biður okkur að hífa, það sé búið að lóða svo svakalega allt togið. Svo var gert og þegar lengjan er komin að síðunni, kemur í ljós að trollið er fullt af fiski, flytur lit um opið. En veiðarfærið þoldi ekki allan þennan fisk, svo belgurinn rifnaði niður að pokagjörð og það eina sem við náðum var einn poki af golþorski. Það var sannarlega sárgrætilegt að horfa á allt þetta magn af fiski synda í burtu og fá ekki aðhafst.
Okkur var tilkynnt að síðasti löndunardagur í Eyjum fyrir Þjóðhátíð yrði á mánudegi og það þótti okkur heldur súrt í broti þar sem gott fiskirí hafði verið og fannst okkur lítið vit í því að missa þrjá daga í eitthvert reiðileysi. Því varð það úr að útgerðarmaðurinn fékk fyrir okkur löndun á miðvikudegi í Þorlákshöfn og vorum við hæstánægðir með það. Við lönduðum í Vestmannaeyjum á fimmtudegi í vikunni fyrir Þjóðhátíð, tókum óhemju af ís og fórum út um kvöldið. Þess var vel gætt að hafa nóg af tóbaki með í þetta sinn, ég man að Sævar kom með átta karton undir handleggnum.

„Einn af köppum kóngs þetta sumar“, Einar „klink“ Sigurfinnsson

Stýrimaðurinn var á vakt á útstíminu eins og venjulega og ég var á vakt í vél. Veður var gott, suðvestan andvari en svartaþoka. Ég kíkti upp í brú þegar komið var austur undir Alviðru og fékk þær fréttir að halda ætti beint austur að Höfða. Síðan fór ég niður í káetu og tók að glugga í dagblöðin sem ég hafði haft með mér að heiman. Ekki hafði ég lengi lesið þegar mikið högg kom á bátinn bakborðsmegin. Ég þaut samstundis upp og sá skip hverfa í sortann aftur undan á bakborða. Ljóst var að hér hafði orðið árekstur. Ég hélt fram stjórnborðsganginn og sá þegar ég kom fram fyrir stýrishús að eitthvað hafði meira en lítið gengið á, bakborðslunningin mölbrotin og vanturinn slitinn svo að bóman sveiflaðist til og frá. Sævar var kominn upp og bað okkur Stefán að opna lestarlúguna til að gá hvort leki hefði komið að bátnum. Við gerðum það og mikið rétt, þarna vall sjórinn grængolandi inn. Okkur varð strax ljóst að þarna yrði engu bjargað og drifum okkur í að koma gúmbátunum út. Sá fyrri blés ekki upp en sá seinni reyndist í lagi og létti okkur óneitanlega við það. Sæfaxi var farinn að hallast töluvert þegar þessu var lokið. Mannskapurinn var allur kominn upp, reyndar hafði matsveinninn ekki rumskað við höggið og ekki fyrr en fór að gutla inn í kojuna hans að hann áttaði sig á hvað um væri að vera. En Sævar var alls ekki sáttur við að geta engu bjargað úr bátnum. Í stýrishúsinu var nýlegt asdikktæki og þarna var hann kominn á fulla ferð með skiptilykil að reyna að skrúfa það laust. Til þess vannst þó enginn tími. Við vorum komnir um borð í gúmbátinn, Sævar síðasti maður, í þann veginn að stökkva um borð til okkar þegar hann allt í einu snýst á hæli og hleypur inn í borðsal. Okkur varð hreint ekki um sel, þar sem báturinn gat farið niður á hverri stundu. En eftir skamma stund birtist Sævar á lunningunni og hoppar um borð til okkar með átta karton af Camel undir öðrum handleggnum og sparifötin hans Stebba stýrimanns undir hinum. „Mér fannst alveg óþarfi að láta þetta sökkva með honum,“ sagði hann svo sigri hrósandi um leið og við skárum á fangalínuna. Eftir skamma stund var Sæfaxi horfinn í djúpið og allt hafði þetta gerst á innan við tíu mínútum svo að sæmilega hefur gatið verið stórt sem á 30 hann kom við áreksturinn. Við áttum ekki langa dvöl í gúmbátnum, báturinn, sem hafði keyrt okkur niður, lónaði þarna í nágrenninu og þar var okkur fljótlega kippt um borð. Það var Bliki ÞH, 70 lesta trébátur sem gerður var út frá Vestmannaeyjum, var á leið í land með bilaðan radar. Það mun hafa verið ein aðalorsökin fyrir því að svo fór sem fór.
Það varð því minna úr þessum stóra Þjóðhátíðartúr en til hafði verið ætlast en lán í óláni að engan sakaði, allir sluppu heilir á húfi. Og eins og Sævar sagði: „Það var bara verst að ná ekki helvítis asdikkinu, hefði hann hangið uppi fimm mínútum lengur, þá hefði ég náð því.“
Þetta var eina úthaldið sem við Sævar vorum samskipa en minnistætt var það. Og oft minnist Sævar á ýmsla atburði þessa sumars þegar við hittumst eftir þetta. „Manstu þegar belgurinn rifnaði á Víkinni? Manstu þegar hann sökk? Manstu þegar ég náði ekki asdikkinu?“
Sævar batt ekki sömu hnúta í lífinu og samferðamenn hans, í mínum huga er hann hálfgerð goðsögn, maður sem ekki er hægt að gleyma, bæði fyrir þá hluti sem prýddu hann og sömuleiðis fyrir það sem ekki var beint til eftirbreytni. Það eru slíkir menn sem munað er eftir, hinir gleymast.