Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Við minnumst þeirra látnu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Hlöðver Johnsen:


Við minnumst þeirra látnu sem gista vota gröf


FYRIR margt löngu eftir að við reistum krossinn í Bjarnarey og settum á hann nafn Sigurgeirs Jónssonar frá Suðurgarði og síðar Bjarna Ólafs Björnssonar frá Bólstaðarhlíð, sem báðir hröpuðu þar til bana og týndust, hefur blundað með mér sú hugmynd að gera hér á Heimaey eitthvað svipað til aö minnast þeirra allt of mörgu, sem látist hafa og týnst, en eiga hvergi grafreit í vígðri mold og reisa bautasteina við minnisvarðann með nafnaplötu þeirra látnu. Nú á þessu ári ákvað ég að reyna að gera þessa hugmynd að veruleika. Í upphafi ræddi ég við prestinn okkar, séra Kjartan Örn, og formann sóknarnefndar, Jóhann Friðfinnsson, og fannst þeim þetta góð og tímabær hugmynd og buðu fram sína aðstoð varðandi framkvæmd verksins. Þá hafði ég samband við forsvarsmenn sjómannafélaganna hér og fleiri félaga. Hjá öllum þessum mönnum og konum var sama jákvæða afstaðan við þessa hugmynd, og nú í dag 30/4, þegar þetta er skrifað, hafa eftirtalin félög ákveðið þátttöku sína varðandi verkið:
Sjómannafélagið Jötunn, Vélstjórafélag Vestmannaeyja, Skipstjóra og Stýrimannafélagið Verðandi, Útvegsbændafélag Vestmannaeyja, Félag Bjargveiðimanna, Sjómannadagsráð Vestmannaeyja, Kvennfélag Landakirkju og Flugleiðir h.f. Bæjarstjóri Arnaldur Bjarnason, hefur lofað því að starfsmenn bæjarins muni staðsetja og ganga frá steinunum sem nafnaplöturnar verða festar á. Mér var ljóst í upphafi að ég þyrfti að fá mér til fulltingis aðstoðarmenn til frekari framkvæmda.
Ég fór í smiðju til vina minna Sigmars Þórs Sveinbjörnssonar og Guðjóns Hjörleifssonar og var það þeim báðum ljúft og kærkomið. Guðjón mun sjá um allar fjárreiður, en Sigmar mun og hefur af sínum kunna dugnaði unnið með mér að framkvæmdinni.
Fyrirtækið S. Helgason h.f., Steinsmiðja Reykjavíkur, mun framkvæma tæknihlið verksins með því að saga og slípa sæbarða hnullungssteina, sem við Sigmar með aðstoð Hauks Guðjónssonar frá Reykjum sóttum inná Eiði, en Magnús Jónasson og hans heiðursmenn á Herjólfi hafa nú komið í hendur þeirra í Steinasmiðjunni og síðan færa þá hingað til baka allt okkur að kosnaðarlausu. Þá hafa góðir menn úr Vélaverkstæðinu Þór h.f. látið okkur í té tilsniðnar plötur úr ryðsfríu stáli, sem svo nöfnin verða sandblásin á einnig var þetta útlátalaust fyrir okkur. Hinn dapurlegi nafnalisti hefur verið unnin uppúr ársritum Slysavarnafélags Íslands ásamt kirkjubókum Landakirkju og Þjóðskrá. Upphaf þessa lista miðast í þessum fyrsta áfanga við árið 1950 og hefur Guðlaugur Sigurgeirsson unnið hann af sinni ljúfmennsku. Nafnalisti þessi telur um eitt hundrað nöfn og er það hugmynd þáttakenda að ef áhugi og ástæður leyfa verði síðar leitað aftar í öldina.

Hlöðver Johnsen, Saltabergi 30. apríl 1988.