Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Seley

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Seley


Rétt þótti að láta hér fylgja frekari upplýsingar um Seley. Myndina hér á síðunni tók Ómar Ragnarsson og veitti hann góðfúslegt leyfi til að birta hana í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja.

Í ritinu Landið þitt - Ísland, segir þetta um Seley: ,,Klettaeyja tvær og hálfa sjómílu undan mynni Reyðarfjarðar. Eyjan er lág og grasi vaxin, um hálf sjómíla á lengd. Nokkur sker liggja frá henni til norðurs og suðurs. Æðarvarp mikið var í Seley. Hún var eign staðarins á Hólmum.
Úr Seley var sóttur sjór áður fyrr en ekki var þar föst búseta. Var einkum sótt til hákarla-, lúðu- og skötuveiða. Rústir verbúða sjást enn á eyjunni og einnig eru þar aflraunasteinar vermanna sem nefndust Hrúturinn, Ærin og Lambið...
Munnmæli herma að 13 Reyðfirðingar hafi komist undan tyrkneskum sjóræningjum í Seley og bjargast þannig. Í Seley er viti, reistur árið 1956."
Ásmundur Helgason frá Bjargi segir talsvert frá Seley í bók sinni Á sjó og landi. Nokkrir molar úr bók hans fara hér á eftir. Seley var aðalverstöð Reyðfirðinga fyrr og stærsta útver á Austurlandi. Um miðja 18. öld réru frá Seley 16 bátar, en 20 árum síðar hafði þeim fækkað um helming. Útver var þar framundir 1930. Verbúðir voru margar þá er mest var útgorðin. Flestir bátanna voru 4-6 mannför.
Vertíð byrjaði oft mánuði af sumri. Sumir bændur fóru fyrr til róðra, sumir um páska. Róðrum var hætt um 13-14 vikur af sumri.
Í Seley voru nokkrar lendingar, Nyrstahöfn mót norðri, en Halar þar sem eyjan er lægst. Úr suðlægu brimi í norður-norðaustan brim var ráðlegast að „hleypa á Hala". en þar eru 60-70 faðma ósléttar klappir. Bóndavarða er þar sem eyjan er hæst.
Seleyjarbátar voru kjölstuttir, þeir sigldu illa í beitivindi og bar oft af leið.
Útróðrarmenn greiddu Hólmakirkju eða presti uppsátursgjald. Um aldamótin var gjaldið 10 krónur. Þeir máttu taka kríuegg til skiptis, en ekki steypa undan. Áhöfn var gefin 10-20 æðaregg. Sá var siður í Seley framyfir aldamót að veiða sel með byssuskotum, en ekki mátti minna en þúsund metra fjarlægð frá landi (Seley).
Einar Friðriksson frá Hafranesi segir frá Seley og útgerð þar í Heima er best 1987. Hann gerði út tvo árabáta í Seley með öðrum árið 1910. Þeir félagar lágu við í Seley frá því er fór að fiskast á vorin fram í ágúst. Fóru fjórir menn með annan bátinn um sumarmál og stunduðu hákarla- og þorskveiðar. Hinn báturinn kom í miðjan maí. Í Seley höfðu þeir viðlegu ár hvert til 1916.
Einar skrifaði að Seley hafi verið með afbrigðum skemmtileg verstöð og honum kærust verstöðva austanlands. En þar sé brimasamt og oft þurfti alla aðgát við lendingu. Þar þurfti ekki langt að róa með handfæri, föllin beri bátinn fram og aftur. Oft mikill fiskur á 20 föðmum milli Seleyjar og Eyjaskers. Stundum voru þeir Einar og menn hans um 14 tíma á sjó og þótti sæmilegt að fá eitt skippund af fiski miðað við fullverkað. Flutningar voru erfiðir, flytja fiskinn í land og salt út í Eyjuna.
Eftir að fiskur hætti að fást fyrir innan Seley, gat fengist hátt í bát lítið eitt utan við hana. Utar var betri ástaða, brást ekki fiskur. Var því stundum teflt á tæpasta vað í því að brjótast sem lengst út. Öll sumur þeirra félaga í Seley voru fremur aflarýr.
Lending er góð landmegin, að austan lóðrétt hyldýpi við bergið. Svo er sagt að eitt sinn hafi breskur togari siglt á land í Seley á hægri ferð í mikilli þoku, sett á fulla ferð afturábak og haldið áfram að veiða.
Í lok minninga sinna segir Einar í Hafranesi frá grágrýtisbjargi eða steini efst í Hjallabyggð, sem er önnur mesta hæð á Seley. Steinn þessi var í mannhæð. Hann hafi staðið þar um aldir, en sé nú horfinn. Við steininn stóðu menn oft forðum daga, gáðu til veðurs eða horfðu á sólarlagið sem er fagurt í Seley.
Einar kom fyrst í Seley árið 1890, þá 12 ára. Var með föður sínum sem gerði út á lúðu og hákarl. Hann sagði drengnum, að eitt sinn hefði steinninn færst til í stórbrimi. Einar segir að steinninn hafi verið að færast til næstu ár og loks 1930 kom svo, ,,að hann veltist inn af sínum gamla hástól niður í nyrðri enda skoru þeirrar sem aðskilur ytri og innri Hjallabyggð, eða efri og neðri sem sumir kalla. Þar liggur steinninn stóri, líklega brotinn, innan um aðra steina."
Einar skrifar: ,,Þarna niðri fundum við stað sem brimið hafði sprengt þetta heljarstóra bjarg úr stalli og flutt svo upp þessa háu brekku, þrep af þrepi, alla leið á Hjallsbyggð og loks inn af henni eins og fyrr segir."
Oddur Sveinsson (1981-1966) kennari m.m. á Akranesi skrifaði Guðmundi Finnbogasyni landsbókaverði, staddur í Seley í júlí 1915: ,,Ég ligg hér við í veri og stunda róðra í sumar. Hér er gott að vera og mér finnst Seley besti dvalarstaður, sem ég hef komið í á Austurlandi. Hér eru hleinar og sker, varir og klappir og fuglasöngur eins og heima... Það magnar sálina að sitja á stuðlaberginu á utanverðri eynni, þegar aldan flýgur á bjargið. Hún þrengir sér eins og foss inn í bjargskorurnar og sogast út aftur, með svo miklum krafti, að dunar um alla eyna."