Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Minning Látinna


Bjarni Jónsson frá Garðshorni
F. 28. september 1911 - D. 9. júní 1987
13. júní var til moldar borinn tengdafaðir minn, Bjarni Jónsson frá Garðshorni í Vestmannaeyjum.
Bjarni fæddist 28. september 1911 á Ísafirði, sonur hjónanna Jóns Finnboga Bjarnasonar frá Ármúla og konu hans, Margrétar Maríu Pálsdóttir frá Eyri við Ísafjarðardjúp. Bjarni var þriðji í röð sjö alsystkina. Bjarni missti ungur móður sína og ólst upp hjá vandalausum uns hann flutti til föður síns til Vestmannaeyja og bjó hann síðan í Eyjum alla tíð.
Bjarni lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði árið 1929, og síðar Fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum.
Árið 1935, þann 26. janúar, gekk hann að eiga eftirlifandi konu sína, Ástu Haraldsdóttur frá Garðshorni í Vestmannaeyjum, dóttur hjónanna Ágústu Friðsteinsdóttur og Haralds Jónssonar. Bjarni og Ásta eignuðust þrjú börn: Magnús, fæddan 5.júlí 1934, Ágústu Björk, fædda 2. febrúar 1939, og Ástu Birnu, fædda 26. janúar 1945.
Þau Bjarni og Ásta hófu búskap í Vestmannaeyjum og fljótlega byggðu þau ofan á hús tengdaforeldra Bjarna í Garðshorni, síðar Heimagötu 40, og bjuggu þar uns Vestmannaeyjagosið hófst. En í gosinu lagðist hraunelfan að húsi þeirra hjóna, og eyðilagði húsið vegna mikils hita og gufu og var síðar jafnað við jörðu. Hin síðari ár bjuggu þau að Foldahrauni 40.
Bjarni stundaði sjómennsku framan af ævinni, fyrst sem háseti, síðar sem stýrimaður og skipstjóri. Um tíma stundaði Bjarni útgerð í félagi við svila sína, þá Hlöðver Johnsen og Trausta Jónsson, en hin síðari ár vann Bjarni við netauppsetningu og viðgerðir, lengst af hjá Netum hf. í Vestmannaeyjum. Kunnugt er mér um að Bjarni mat eigendur og starfsmenn Nets mikils, og vissulega var hann mikilsmetinn starfsmaður hjá fyrirtækinu, enda verðugur fulltrúi eldri kynslóðarinnar sem kunni ekki annað en að sýna öllum verkum alúð og virðingu, skila sínu og standa við sitt.
Kynni okkar Bjarna hófust er ég kvæntist eldri dóttur þeirra hjóna árið 1964. Bjarni var glæsimenni á velli, samsvaraði sér vel, hárprúður, og bar mjög sterkan ættarsvip eins og bræður hans, þeir Magnús og Ásgeir, og iðulega henti það mig að skjátlast, er ég mætti þeim bræðrum á götu í Reykjavík, og halda að þar færi tengdafaðir minn þó mér væri fullkunnugt um að Bjarni stundaði ekki Reykjavíkurferðir nema af brýnni nauðsyn. Bjarni var ekki mjög málgefinn maður án þess þó að vera þegjandalegur, og var einstaklega þægilegt að sitja með honum og hvíla hugann, þótt ekki væri sífellt verið að fitja upp á nýju umræðuefni.
Bjarni var mjög víðlesinn og ef sögu eða náttúrufræði bar á góma var hann í essinu sínu og var einstaklega laginn við að segja barnabörnum sínum sögur og ævintýri á þann hátt að ungviðið hlýddi opinmynnt á og fékk greið og skýr svör við öllum spurningum sem fram voru bornar.
Eftirminnileg er mér sú stund er hann fyrst bauð mér til lundaveiða með sér og fór heldur lítið fyrir hetjunni í mér þegar gengið var, eða öllu heldur sitjandi dreginn við jörðu, á leið niður fyrstu brekkuna, og um hugarfylgsni þutu hugsanir um á hvern máta hægt væri að komast hjá slíkum svaðilförum í framtíðinni. En sem betur fer bar Bjarni þarna sem svo oft endranær gæfu til að leiðbeina á þann hátt að nú í mörg ár hefur það verið mér fastur og árviss atburður að fara með Bjarna og Hlöðver Johnsen í örfáa daga til lundaveiði í Bjarnarey og þar held ég að ég hafi kynnst tengdaföður mínum hvað nánast, og ógleymanlegar eru þær fróðleiksstundir sem ég hef notið með þessum heiðursmönnum, sem voru jafnvígir á hvort heldur um var rætt jarðsögu Íslands eða náttúrufræði almennt, og lúmskan grun hef ég um að þeir hefðu báðir staðið mörgum fræðingnum snúning ef til þess hefði komið.
Fyrir um það bil einu og hálfu ári gekkst Bjarni undir magaaðgerð, en eftir þá aðgerð fór heilsufari hans hrakandi hægt og sígandi, en hann dvaldist á heimili þeirra hjóna og naut þar umhyggju og styrks frá Ástu sem á undraverðan og stórbrotinn máta annaðist mann sinn af alúð og dugnaði þrátt fyrir langvarandi eigið heilsuleysi. Er okkur sem á horfðu undrunarefni hvaðan konan sú hefur öðlast það þrek og þann kraft sem hún hefur sýnt í veikindum Bjarna. Má þakka almættinu að hún fékk að annast mann sinn fram á síðustu stundu.
Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir að hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga Bjarna sem tengdaföður og vin og þakka allt sem hann hefur gefið mér og fjölskyldu minni um leið og ég votta tengdamóður minni mína innilegustu samúð.
Anton örn Kærnested

Gísli Þorsteinsson frá Laufási.
F. 23. juní 1906 — D. 10. júlí 1987.
Mig langar í nokkrum fátæklegum orðum að minnast Gísla Þorsteinssonar frá Laufási í Vestmannaeyjum, sem andaðist í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 10. júlí síðastliðinn. Hafði Gísli um nokkurt skeið háð vonlausa baráttu við sjúkdóm sinn, svo fráfall hans kom ekki á óvart, en þó er það svo að þegar gamall og góður vinur hverfur á braut, er sæti hans orðið autt og við finnum betur en ella hvaða sess hann skipaði í raun og veru í daglegu lífi okkar.
Gísli fæddist 23. júní 1906 í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna Þorsteins Jónssonar útvegsbónda og Elínborgar Gísladóttur, er um langan aldur bjuggu að Laufási í Vestmannaeyjum. Ólst hann upp í stórum systkinahópi á heimili mikilla umsvifa, sem hús útvegsbóndans var á þeim árum.
Gísli kvæntist árið 1940 Ráðhildi Árnadóttur og tóku þau kjörson, Gísla Má, síðar rafmagnsverkfræðing er nú býr í Reykjavík. Þau slitu samvistum.
Gísla mun lengst verða minnst fyrir þátt hans í atvinnuppbyggingu Vestmannaeyja, byltingunni sem varð í vinnslu sjávarafurða frá einhæfri söltun yfir í margslungna hraðfrystingu. Gömlu krærnar urðu að víkja fyrir stórvirkum fiskiðjuverum. Vestmannaeyjar breyttust úr verstöð í iðnaðarbæ, er nú veitti fleiri höndum atvinnu með meira öryggi en áður var.
Gísli starfaði lengi sem verkstjóri í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, hjá Einari Sigurðssyni, einum af brautryðjendum hraðfrystiiðnaðar á Íslandi, og þegar Einar flutti til Reykjavíkur, tók Gísli við rekstri hennar ásamt félögum sínum, þeim Ágústi Matthíassyni og Þorsteini Sigurðssyni. Síðar byggðu þeir félagar eigið fyrirtæki, Fiskiðjuna, á sanduppfyllingu þar sem gömlu krærnar stóðu áður. Á þessum árum var Fiskiðjan með myndarlegustu frystihúsum landsins og lengst af í hópi þeirra afkastamestu.
Kynni mín af Gísla byrjuðu fyrir alvöru árið 1953, þá er hann dubbaði mig, skólastrákinn, upp í aðstoðarverkstjóra með þeim Jóhanni Guðmundssyni og Björgvin Pálssyni yfirverkstjóra. Þetta voru erfið en skemmtileg ár. Það nánast flaut fiskur út úr öllum gáttum og þrátt fyrir langan vinnudag var alltaf tími til að slá á létta strengi og var Gísli þar fremstur í flokki.
Gísli hafði skemmtilega kímnigáfu, var mjög fróður og víðlesinn. Fylgdist hann ávallt vel með öllum nýjungum í fiskvinnslu og var ávallt tilbúinn að reyna eitthvað nýtt. Hugmyndaauðgi hans var einstök og átti hann einkar gott með að koma hugmyndum sínum á framfæri, enda slyngur teiknari. Gísli málaði töluvert í frístundum sínum og liggja margar góðar myndir eftir hann. Var hann mjög gagnrýninn á myndir sínar, þær voru ekki falar og erfitt reyndist að fá hann til þess að sýna þær opinberlega. Hann var að þessu aðeins fyrir sig eins og hann sagði gjarnan.
Það var mjög gott að eiga Gísla fyrir vin. Hann var alltaf þarna. Það var alltaf hægt að ganga að honum vísum. Það var einstaklega notalegt að setjast niður og spjalla við hann. Iðulega kom hann á óvart með vangaveltum sínum og fékk mann til að hugsa. Ekkert var honum óviðkomandi.
Vil ég þakka þessar stundir, vináttu hans og tryggð.
Magnús Bjarnason.

Ísleikur Jónsson, bifreiðastjóri.
F. 6. júní 1901 — D. 12. júlí 1987.
Ísleikur Jónsson var sonur hjónanna Þuríðar Ketilsdóttur og Jóns Stefánssonar formanns, er bjuggu í Gerðakoti undir Vestur Eyjafjöllum. Þar fæddist Ísleikur og fluttist fjölskyldan til Vestmannaeyja þegar Ísleikur var á 12. aldursári, ásamt þremur systkinum sínum, sem síðar urðu þekktir og góðir borgarar hér í bæ. Systkini Ísleiks voru Björgvin skipstjóri og útgerðarmaður, Ólavía húsmóðir, eiginkona Guðjóns Scheving málarameistara, og Guðrún húsmóðir, eiginkona Þorgils Bjarnasonar sjómanns Fagurhól. Þau systkini eru nú öll látin.
Fljótlega eftir að fjölskyldan fluttist til Vestmannaeyja byggðu þau hús við Vestmannabraut, er þau nefndu Úthlíð. Jón réðst sem formaður fyrir m/b Haffara og fórst með honum fjórum árum síðar. Ísleikur varð því fljótt að byrja að vinna og afla heimilinu lífsviðurværis ásamt systkinum sínum og móður. Í fyrstu vann hann mest við fiskverkun. En eftir að bróðir hans gerðist útgerðarmaður á m/b Gottu VE 108, sá Ísleikur um fiskverkun fyrir hann. Er heimsstyrjöldin skall á urðu þáttaskil hér á landi. Mest allur fiskur var fluttur ísvarinn til Englands, og fóru margir er unnu við fiskverkun í önnur störf. Þá gjörðist Ísleikur atvinnubílstjóri og varð meðlimur í Bifreiðastöð Vestmannaeyja 1. júlí 1941. Í fyrstu á bifreið er útgerðin átti, 1 V2 tonns Chevrolet árgerð 1929 með handlyftum palli og bar skrásetningarnúmerið V-41. Bifreið þessa átti áður Guðmundur Magnússon frá London. En hann var einn af stofnendum Bifreiðastöðvar Vestmannaeyja árið 1929.
Ísleiki farnaðist akstursþjónustan vel og eignaðist hann margar góðar bifreiðar er báru númerið V-79. Ísleikur var dugnaðarmaður, ósérhlífinn og eftirsóttur bifreiðastjóri. Á árum áður er hér voru fáir einkabílar átti hann fáar frístundir á degi sem nóttu. Þar sem bifreiðastjórar voru kallaðir til nær allrar þjónustu er nafni nefnist og kom jafnan nafn Ísleiks er ræsa þurfti út bílstjóra utan opnunartíma stöðvarinnar, sem sýnir hvern hug Eyjabúar báru til hans. Ekki lá hann heldur á liði sínu eftir að endurreisnarstörf hófust hér 1973. Þá kom hann til liðs við félaga sína, og gaf ekki öðrum eftir þótt kominn væri á áttræðisaldur.
Ísleikur varð fyrir alvarlegu slysi er hann var að vinna við bíl sinn árið 1975 og varð ekki vinnufær eftir það.
Á unglingsárum tók hann þátt í íþróttum og var einn af stofnendum Knattspyrnufélagsins Týs (1. maí 1921) og fylgdist jafnan vel með framgangi þess félags.
Árið 1930 hóf Ísleikur búskap með eftirlifandi eiginkonu sinni, Elínborgu Pétursdóttur frá Eyrarbakka. Þau festu kaup á húseigninni Heiðarbrún við Vestmannabraut, og hefur heimili þeirra staðið þar síðan.
Ísleikur lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 12. júlí s.l.
Að leiðarlokum er Ísleiki þakkað gott samstarf og fyrir frábæra þjónustu. Blessuð sé minning Ísleiks Jónssonar.
Magnús Guðjónsson.

Karl Guðmundsson, skipstjóri.
F. 17. júlí 1922 — D. 28. ágúst 1987
Laugardaginn 5. september var borinn til moldar frá Landakirkju Karl Guðmundsson skipstjóri, en hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 25. ágúst s.l. eftir langvarandi veikindi.
Kalli á Hafliða eins og hann var alltaf kallaður meðal Eyjamanna var sonur hjónanna Guðmundar Gíslasonar verslunarmanns og Mörtu Þorleifsdóttur og ólst hann upp að [[Brekastígur |Brekastíg]] 25 hér í bæ.
Kalli fór ungur til sjós eins og tíðkaðist hér í Eyjum á þeim árum, eða 15 ára gamall, fyrst sem háseti, en síðan sem vélstjóri og skipstjóri á mótorskipinu Gottu og Tjaldi áður en hann fór í útgerð sjálfur.
Árið 1962 keypti hann með félaga sínum Ármanni Böðvarssyni vélstjóra bátinn Hafliða VE 13 og var Kalli skipstjóri á honum. Reyndist þetta happa og gæfu útgerð hjá þeim félögum, ævinlega kom farkosturinn heill að landi og aldrei urðu nein óhöpp. Drjúgur er aflinn sem Hafliði hefur skilað að landi í gegnum árin, enda kunnáttumaður við stjórnvölinn.
Árið 1981, þann 7. júlí, er þeir voru að koma úr fiskiróðri komu þeir auga á litla stúlku sem hafði fallið í sjóinn af syðri hafnargarðinum, en þar hafði hún verið við leik ásamt fleiri börnum. Gat hún enga björg sér veitt þegar þeir félagar á Hafliða björguðu henni.
Kalli var mikill félagshyggjumaður, enda valdist hann til forystu og meðstjórnarstarfa í félögum sjómanna hér í Eyjum. Hann var í stjórn Útvegsbændafélagsins, Skipstjóra- og stýrimannafélagsins og í stjórn Sjómannadagsráðs í mörg ár.
Árið 1943 var mikið gæfuár fyrir Kalla því þá giftist hann konu sinni Símoníu Pálsdóttur. Byrjuðu þau búskap að Þrúðvangi, en keyptu síðan Brekastíg 25, æskuheimili Kalla, þegar foreldrar hans fluttu til Reykjavíkur, síðar þegar fjölskyldan stækkaði fluttust þau að Sóleyjargötu 4.
Kalli og Símonía eignuðust 3 börn, þau eru Marta, gift Helga Sigurlássyni; Ingi Páll, giftur Svönu Högnadóttur og Áróra, en hún bjó með föður sínum að Sóleyjargötu. Kalli missti konu sína 1978.
Ég kynntist Kalla fyrst er ég fór að taka þátt í starfi Sjóstangveiðifélags Vestmannaeyja. Þá reri ég stundum á Hafliða þessa tvo daga sem sjóstangveiðimótin stóðu yfir. Var oft gaman að fylgjast með áhuga þeirra félaga, Kalla og Mannsa. Alltaf voru þeir tilbúnir með rúllugogginn til að hjálpa okkur sem vorum að veiða, ef vænir fiskar komu upp á yfirborðið.
Og eins er ég var kosinn í stjórn félagsins og þurfti að standa í því ásamt félögum mínum i stjórninni að útvega báta fyrir mótin, alltaf var Kalli tilbúinn til að lána okkur bátinn sinn.
Er ég heimsótti Kalla, þegar hann lá á Sjúkrahúsinu hér í vetur, vissi hann að Hvítasunnumótið var framundan hjá okkur. Sagði hann þá að við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af Hafliða, hann væri búinn að gera ráðstafanir til þess að við fengjum bátinn í mótið, þó hann gæti ekki farið með okkur í þetta sinn.
Svona var Kalli, alltaf tilbúinn til að rétta okkur SJÓVE félögunum hjálparhönd.
Ég vil fyrir hönd félaga í Sjóstangveiðifélagi Vestmannaeyja þakka Kalla fyrir góð kynni og alla hjálpsemina á liðnum árum, far þú í friði vinur.
Ég sendi börnum, barnabörnum og öðrum ættingjum Kalla mínar dýpstu samúðarkveðjur.
Pétur Steingrímsson, formaður SJÓVE.

Óli Kr. Sigurjónsson
F. 6. ágúst 1940. - D. 2.september 1988.
Við vorum synir bræðra. Hjá okkur hét hann Óli frændi, en alls staðar var hann kallaður Óli Tótu, kenndur við móður sína, að gömlum og góðum vestmanneyskum sið. Það var að sínu leyti við hæfi, því frá henni og móðurfrændum sínum austfirskum fékk hann sitt dökka og framandi yfirbragð.
Óli var tæpum áratug eldri en ég og þess vegna vorum við ekki félagar í venjulegri merkingu þess orðs. Samt er að svo að þegar ég hugsa til Vestmannaeyja bernsku minnar en hann einhvers staðar í grenndinni. Ég á bágt með að hugsa til Sólnessheimilisins, sem hvarf í hraunið, án þess að sjá hann þar á vakki, annaðhvort að dedúa eitthvað eða þá að koma eða fara, mér var eiginlega aldrei almennilega ljóst hvort heldur var. Og herbergið hans niðri í kjallara var hálf dularfullt. Ekki var síður ævintýralegt þegar hann fór í siglingar uppúr tvítugu. Ég held að hann sé sá eini úr þessari fjölskyldu sem gerði alvöru úr því að sigla þangað sem aðra dreymdi um að fara og sungu um, svo sem eins og frá Singapúr til Mexíkó, og sjálfsagt hafa verið þar einhverjar stelpur á rölti með rós í hárinu, þó ekki sé víst að mikið hafi orðið úr gítarspili undir gluggum. Á þess konar flandri var hann í ein fjögur ár, en það endaði skyndilega þegar hann slasaðist mikið, langt úti í löndum, reyndar á Kanaríeyjum löngu áður en lífsþreyttir Íslendingar fóru að halda jólin þar.
Og þegar ég hugsa um lunda dettur mér líka Óli í hug, því hann var lunkinn við slíkan veiðiskap eins og frændur hans fleiri. Ætli það hafi verið mörg síðsumrin sem liðu án þess að hann kæmi kjagandi inní Bæ með eina kippu á bakinu sem hengd var útundir vegg, án þess að segja margt. Ekki þar fyrir, hann gat líka verið hinn mesti spjalljóri þegar hann vildi það við hafa.
Og svo átti hann afmæli á þjóðhátíðinni eða þar um kring og auðvitað fékk hann sér þá svolítið í aðra öxlina og reyndar stundum oftar. Þá sté hann ölduna óvenju stíft og vaggaði án þess að það yrði neinum öðrum til tjóns.
Annars stundaði Óli alltaf sjó. Hann var að vísu fæddur í landi, en varla hefur hann verið nema stráklingur þegar hann fór á sjóinn. Ég þykist a.m.k. muna eftir honum róandi með honum pabba um miðjan sjötta áratuginn þegar hans útgerðarævintýri stóð sem hæst, í því harðsvíraða strákagengi, sem stundum var á honum Hersteini, og jafnvel fyrr. Gott ef hann átti ekki einhvern hlut í vísunni sem byrjaði svona: „Kaldir gæjar sigla sæ ..." nema það hafi verið hann sem sneri út úr henni, því hann var laginn við vísur og hafði gaman af skáldskap. Hann reri með mörgum og þó lengst af á litlum bátum, stundum með föður sínum og seinustu árin á sínum eigin bát. Þrautseigur og duglegur sjómaður sem kunni vel til sinna verka. Ævistarf hans var að veiða fisk, þó að ekki safnaði hann miklum veraldlegum auði á þeirri iðju frekar en margir starfsbræður hans, enda var hann svo sem enginn safnari.
Annars var hann Óli einhvern veginn þannig að hann passar alls ekki inn í neina skrifaða grein og allra síst eitthvað sem á að vera minningargrein.
En svona er það þegar sviplegir atburðir gerast. Eftir að Hvítings var saknað hafa rótast upp minningar lengst aftan úr hugskoti sem tengjast þessum frænda mínum. Og ég sá hann svo sem fyrir mér glottandi að þessu öllu saman með pírð augu þar sem hann rær í hinni víkinni og ætli vinur hans, sá gamli á staurlöppinni, sé ekki að dorga þar í grenndinni. Og ætli þeir ... jæja, sleppum því. En ég veit að hann Óli fyrirgefur mér þetta pár.
Við öll sendum Sigga og Tótu, Marý og Sigrúnu og þeirra börnum okkar heitustu kveðjur á þessum minningardegi.
Gunnlaugur Ástgeirsson

Guðfinnur Þorsteinsson, Brekastíg
F. 27. apríl 1951 — D. 2. september 1987
17. október var haldin minningarathöfn í Landakirkju í Vestmannaeyjum um þá félaga, Guðfinn Þorsteinsson og Óla Sigurjónsson, sem fórust með vélbátnum Hvítingi VE 22, þann 2. september s.l.
Í litlu sjávarplássi grípur alltaf mikill ótti um sig þegar fréttist, að báts sé saknað og leit sé hafin. Það gerði vonskuveður eftir að þeir félagar lögðu á sjóinn í sína hinstu för og þeir áttu því miður ekki afturkvæmt, eins og alltof oft gerist á sjónum.
Guðfinnur Þorsteinsson kom til starfa í fyrirtæki okkar í ársbyrjun 1981 og var vélstjóri á vélbátnum Heimaey VE 1 frá þeim tíma og til s.l. sumars. Hann hafði verið frá 1973 á bátum frá Vestmannaeyjum og var orðinn búsettur í Eyjum. Hann var samviskusamur starfsmaður, hugsaði vel um vélina og sína hluti og var kunnáttumaður á sínu sviði. Hann hafði líka fylgst með bátnum, þegar hann var í ýmsum breytingum og hafði leyst þau störf samviskusamlega af hendi. Allir starfsmenn fyrirtækisins, sem höfðu samvinnu við hann, gáfu honum hið besta orð.
Guðfinnur var dulur að eðlisfari og tjáði ekki hug sinn öllum, en þeim sem náðu að kynnast honum vissu að þeir áttu þar hauk í horni. Hann fæddist í Kópavogi þann 27. apríl 1951, og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Jóna Þorsteinsdóttir og Þorsteinn Sigurjónsson, sem er látinn, en Guðfinnur átti tvö systkini.
Guðfinnur var einhleypur.
Ég vil votta öllum aðstandendum Guðfinns og Óla Sigurjónssonar dýpstu samúð vegna hins ótímabæra andláts þeirra og bið þeim Guðs blessunar í framtíðinni.
Sigurður Einarsson.

Gísli Stefánsson, bifreiðastjóri.
F. 12. febrúar 1912 — D. 7. september 1987.
Laugardaginn 19. september s.l. var til moldar borinn frá Landakirkju kær vinur okkar, Gísli Stefánsson.
Gísli var ekki allra, en þeim sem hann tók þá var það heit vinátta. Hann var dulur maður og flíkaði ekki hugsunum sínum við Pétur og Pál. Kær vinátta myndaðist milli okkar og var heit og óskert. Margt fór okkur í milli, sem fór ekki annað. Þegar ég giftist þá tók fjölskylda Gísla konunni frábærlega vel, en hún var frænka Ríkeyjar, konu Gísla, sem látin er fyrir allnokkrum árum. Þegar ég var drengur þá man ég vel eftir barnavininum Gísla í Boston, en þar verslaði Gísli um árabil. Margur kandísmolinn féll þá í minn lófa. Gott var að koma þar sérstaklega ef maður var blautur og kaldur eftir fjörulall, pallaferðir, Bæjarbryggju- og Edinborgartúra. Þá var tekið ljúflega á móti mér og gott var að fá að hlýja sér.
Gísli bjó um árabil á Sigríðarstöðum norðan í Stórhöfða og rak þar hænsnabú ásamt versluninni. Það voru oft slarksamar ferðir niður í bæ og heim. Fyrst man ég hann á reiðhjóli, en síðar á BSA-mótorhjóli, stóru og voldugu. Þá var Gísli aldeilis stór persóna í mínum augum.
Farartæki voru þá ekki á hverju heimili eins og er í dag. Á þessu hjóli flutti hann flestar nauðsynjar til og frá heimilinu, og var oft lítið pláss fyrir ökumanninn.
Árið 1961 urðum við vinnufélagar á Vörubílastöðinni og unnum saman í einn áratug. Þá urðum við perluvinir og upp frá því myndaðist vinátta, kærleiksvinátta við fjölskylduna á Faxastíg 21.
Gísli var mikill náttúruunnandi og sá fegurð í öllu landslagi. Það var gaman að fara með honum í bíltúr um eyjuna okkar kæru. Margan fróðleikinn fékk ég um ýmis örnefni svo og sögu margra merkra staða.
Sameiginlegt áhugamál áttum við, en það var garðrækt. Við áttum kartöflugarða hlið við hlið. Oft var farið í garðaleiðangra og spáð í uppskeruna, það voru ógleymanlegir spjalltúrar sem enduðu með kaffisopa í Mjölni.
Gísli fór ekki víða í heimsóknir en hjá okkur var hann ævinlega eins og heima hjá sér, kom og fór þegar hann vildi. Það var stórt áfall fyrir hann þegar við tókum þá ákvörðun að flytja til Reykjavíkur síðastliðið sumar.
Nú ert þú farinn á fund feðra þinna, eins og þú sagðir svo oft við mig. Ég og fjölskylda mín bið algóðan Guð að blessa börnin hans, tengdasyni og barnabörnin sem hann unni svo mjög.
Guð blessi minningu þína, kæri vinur.
Hilmar frá Grundarbrekku

Grétar Halldórsson.
F. 8. desember 1952— D. 19. september 1987.
Laugardaginn 13. febrúar. var minningarathöfn um fyrrverandi mág minn. Grétar Halldórsson, í Landakirkju í Vestmannaeyjum. Og þann dag hefði dóttir mín Guðrún Ágústa orðið 29 ára gömul ef hún hefði lifað, en hún dó 5 ára gömul og er hún fæddist var Grétar aðeins 6 ára gamall. Þegar ég lít til baka þá finnst mér það vel tilheyra, að þessa yngsta föðurbróður hennar skuli vera minnst á þessum degi, því þeim samdi mjög vel og lenti hann oft í að passa hana á meðan hún lifði.
Grétar Halldórsson var aðeins 4 ára gamall er ég mægðist við hann. Þessi litli snáði var ósköp góður og meðfærilegur. Oft var hann hjá mér er móðir hans þurfti til lækninga í höfuðborgina. Stundum sögðum við að það væri eins og hann léki sér við einhvern ósýnilegan því svo gat hann dundað sér einn lengi. En svo var að hann var tvíburi, en hinn tvíburinn, líka drengur, dó í fæðingunni.
Foreldrar Grétars voru hjónin Ágústa Sveinsdóttir og Halldór Jónsson frá Garðsstöðum hér í bæ. Þau hjón eru bæði dáin. Halldór dó 4. júlí 1976, Ágústa dó í endaðan júní 1984. Þau hjón bjuggu í Byggðarholti, Vestmannaeyjum, frá 1956, eða þangað til þau urðu að flæmast burt af eynni ásamt öllum öðrum 1973 er gosið hófst. En þau komu aftur í september 1973 og keyptu þá húsið númer 49 við Heiðarveg og bjuggu þar allt til síðasta dags. En Grétar stofnaði þá heimili með unnustu sinni, Guðnýju Bóel Guðbjartsdóttur. Grétar og Guðný giftu sig 6. júní 1976 og eignuðust þau 2 börn. Mjög elskuleg og myndarbörn í alla staði. þau eru Guðbjartur Grétar, fæddur 9. október 1973 og Sigrún Harpa, fædd 5. mars 1975. Grétar var yngsta barn foreldra sinna ásamt tvíburabróðurnum sem dó. Eftir eru 3 eldri systkini hans, en þau voru 5 systkinin. Grétar ólst upp hér í Eyjum og eins og aðrir peyjar undi hann sér vel, dafnaði og varð glæsilegur ungur maður. A uppvaxtarárum sínum voru alltaf saman 5 peyjar sem allir voru jafn gamlir. Og er ég hugsa til baka finnst mér svo undarlegt, að af þessum 5 peyjum eru 3 farnir. Fyrst Alli Hjörtur, hann drukknaði fljótlega eftir gos, svo Þorvaldur sem dó í bílslysi í september 1979, og svo nú Grétar sem týndist á skipi sem hann var á út í Kanada og enginn veit um örlög þeirra sem á skipinu voru eða skipsins. Enginn veit sína ævi fyrr en öll er, stendur einhvers staðar og á það vel við hér því þegar ungur maður eða menn, eins og þessir, sem voru fullir af lífsorku fara svona, einn, tveir, þrír. Það er alveg hræðilegt í mínum augum. Ég held að ég geti seint sætt mig við örlög Grétars og held að ég tali fyrir hönd margra. Að fara lengst út í heim tæplega 35 ára gamall bara til þess eins að deyja.
Það sannast best hér máltækið enginn ræður sínum næturstað. Svo sannarlega höfum við reynsluna af því hér. Ég mun alltaf meta tryggð og vináttu Grétars við mig og mína, bæði í þessi rúm 20 ár sem ég var honum tengd, og svo ekki síst árin sem á eftir komu. Það hallaðist ekki á vináttuna. Hann breyttist ekki í minn garð.
Ef litið er til baka og horft á þennan snáða verða að fulltíða manni þá er svo sem ýmislegt sem miður var, en hver er gallalaus í þessum heimi. En ég get borið um það, að hvenær sem var, var þessi drengur mér kær og góður allt til hins síðasta.
Guðný mín og börn, ég votta ykkur dýpstu samúð svo og systkinum hans. Eg veit að þið eigið bágt með að sætta ykkur við þessi örlög hans eins og við öll. Ef annað líf er til, sem ég efa ekki, þá veit ég að hann er hjá sínum foreldrum og öllum nánum ættingjum. Þau hafa glöð tekið á móti honum því hann var þeim svo kær.
Jóhanna

Hinrik Jóhannsson
F. 13. apríl 1907 - D. 25. október 1987.
Hinrik Jóhannsson var fæddur að Skálum á Langanesi 13. apríl 1907. Foreldrar hans voru Jóhann Stefánsson bóndi að Skálum og María Jónatansdóttir frá Grímsey.
Hinrik var í foreldarahúsum til 16 ára aldurs og vann þar þau störf sem til féllu, bæði til sjós og lands, á stóru og afskekktu heimili. Sextán ára hleypti Hinrik heimdraganum og réðst til Vestmannaeyja til þeirrra Eiríks Ásbjörnssonar og Björns Bjarnasonar frá Bólstaðarhlíð á bát þeirra Emmu Ve 219. Fyrstu árin fór Hinrik heim að Skálum á sumrin og stundaði þaðan róðra. Fljótlega eftir fráfall föðurins fluttist Hinrik alfarið til Vestmannaeyja og var til heimilis hjá þeim hjónum Eiríki og Ragnheiði ÓlafsdótturUrðavegi 41 og taldist heimilismaður hjá þeim eftir það til ársins 1973 en síðan að Boðaslóð 26. Í ein þrjátíu og átta eða níu ár vann Hinrik við útgerð Eiríks, 36 ár á bátum hans, sem báðir báru nafnið Emma, Emma Ve 219 og Emma II Ve l. Fyrstu árin eftir að Rikki, en svo var hann oftast nefndur, hætti til sjós vann hann við fiskverkun hjá Eiríki. Síðan réðst hann til Fiskiðjunnar og vann þar á meðan heilsan leyfði.
Um störf Rikka til sjós þarf ekki mörg orð. Að vera hjá sömu útgerð í u.þ.b. fjörtíu ár segir meira en einhver upptalning á kostum hans. Hann var harður sjómaður og fylginn sér. Maður sem vinnur ekki nema hjá tveimur fyrirtækjum á langri starfsævi hefur ekki verið illa liðinn. Þó Rikki hafi ekki bundið bagga sína sömu hnútum og flestir samferðamenn hans þá komst hann vel af við sína samferðamenn.
Í ágúst 1976 veiktist Rikki alvarlega og er þá staddur á Selfossi, upp frá þessu á Rikki ekki afturkvæmt til vinnu. Frá Selfossi fer hann til endurhæfingar á Grensásdeildina og þaðan á Hraunbúðir hér í eyjum eða 1977 og er þar vistmaður til ársins 1983 en þá leggst hann inn á Sjúkrahús Vestmannaeyja og lést hann þar 25. október 1987.
SÓ/ÓL

Stefán Guðjónsson, Hólatungu.
F. 8. maí 1904 — D. 4. nóvember 1987.
14. nóvember s.l. var til moldar borinn frá Landakirkju í Vestmannaeyjum Stefán Guðjónsson, sem andaðist á heimili sínu. Hólatungu, þann 4. nóvember. Stefán, eða Stebbi í Hólatungu eins og hann var alltaf kallaður í Eyjum, var fæddur að Raufarfelli, A-Eyjafjöllum. Foreldrar hans voru Ingveldur Jónsdóttir frá Lambafelli, A-Eyjafjöllum og Guðjón Tómasson frá Selkoti í sömu sveit. Þau bjuggu að Raufarfelli og eignuðust 13 börn, en 9 komust til fullorðinsára.
Hjörleifur, Guðný, Tómas, Þorbjörg og Gróa eru látin, en Anna og Ragnhildur búa undir Eyjafjöllum og Sigurjón býr í Vestmannaeyjum.
Stebbi kom fyrst til Eyja á vetrarvertíð árið 1927 og réð sig á mb. Ófeig, og var þar í nítján ár, en það var einmitt í Eyjum að hann kynntist ungri stúlku, Rósu Runólfsdóttur frá Norðurvík í Mýrdal, V-Skaftafellssýslu, og þau giftu sig árið 1932. Þau byrjuðu sinn búskap að Búðarfelli í Vestmannaeyjum en fluttu síðan að Hólatungu, og var hjónaband þeirra alla tíð mjög gott. Þeim varð tveggja barna auðið. Þau eru Ingveldur, sem er gift Rögnvaldi og búa þau í Kópavogi og Guðjón, sem er giftur Ernu Tómasdóttur og búa þau í Vestmannaeyjum.
Árið 1946 varð Stebbi að hætta á sjónum og fór að vinna í landi vegna veikinda konu sinnar og hófst nú sameiginleg barátta ungra hjóna við erfiðan sjúkdóm, sem sigraði að lokum og Rósa lést þann 25. apríl 1948, aðeins 38 ára gömul.
Þetta voru erfiðir tímar hjá Stebba með 2 börn, Ingveldi tæpra 16 ára og Guðjón 12 ára. Það síðasta sem þeim hjónum fór á milli áður en hún skildi við var það að halda fjölskyldunni saman, og það gerði hann. Það hefur oft verið erfitt í Hólatungu, en Stebbi og krakkarnir stilltu saman strengi sína og aldrei urðu erfiðleikarnir það miklir að ekki hefði ráðist fram úr þeim. En þannig var Stebba best lýst, tryggur, heiðarlegur, duglegur og mikill baráttumaður.
Þegar Stebbi hætti á sjónum þá fór hann að vinna í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja og vann þar í tæp 27 ár, eða fram að eldgosinu árið 1973. Eftir gos stefndi hugur hans til Eyja og um leið og byrjað var að takatil hendinni þá var Stebbi mættur og vann hann ötullega við hreinsun og uppbyggingu á eyjunni sem honum var svo annt um, enda gaf Stebbi okkur ungu mönnunum ekkert eftir í vinnu.
Síðan fór hann að vinna hjá Vestmannaeyjabæ við Fjarhitun Vestmannaeyja undir stjórn Högna Sigurðssonar frá Vatnsdal, og fór alveg sérstaklega vel á með þeim félögum, sem og einnig öðrum starfsmönnum þar. Stebbi hafði það mikla ánægju af því að vinna, að það var ekkert á dagskrá hjá honum að fara að hætta að vinna, þegar hann var kominn á eftirlaun. Hann hætti ekki að vinna fyrr en árið 1985, þá 81 árs að aldri, og maður hafði það á tilfinningunni að honum hafi samt fundist hann hætta heldur snemma, enda voru það ekki margir vinnudagarnir sem Stebbi var frá á sinni starfsævi.
Stebba kynntist ég fyrst í gosinu, en þá vorum við saman í vinnuhóp við hreinsun bæjarins. Síðan áttu leiðir okkar eftir að liggja meira saman, er ég giftist sonardóttur hans og frá þeim tíma hefur samband okkar verið mikið og gott, og nú er skarð fyrir skildi á Ásavegi 26, en þangað kom hann oft og það var oft gaman að glettast yfir kaffibolla og þá kom oft í ljós þessi.. orgínal týpa" sem Stebbi var, háalvarlegar umræður urðu oft meinfyndnar á sömu mínútunni.
Að leiðarlokum vil ég og fjölskylda mín þakka Stebba fyrir ánægjulegar samverustundir. Börnum og öðrum aðstandendum vottum við innilega samúð okkar.
Guð blessi minningu hans.
Guðjón Hjörleifsson

Magnús Sigurðsson
F. 29. apríl 1924. - D. 18. nóvember 1987.
Magnús lést að heimili sínu Valhöll, 18. nóv. sl. Foreldrar hans voru hjónin Margrét Stefánsdóttir og Sigurður Þórðarson frá Neðri-Dal í Mýrdal.
Þau bjuggu mest af sínum búskap á Boðaslóð 2, sem þau byggðu á kreppuárunum, og ætluðu að láta húsið heita Hraunból. En þar sem það hafði ekki verið tekið fram við þinglýsingu þá átti það að kosta aukalega nokkrar krónur, en þar sem þær voru ekki til þá varð nafninu aldrei komið á húsið. Svona var nú fátæktin á þessum árum.
Maggi Sig, en svo var hann oftast nefndur, gekk ungur í skátahreyfinguna og starfaði þar af miklum krafti í fjölda ára, enda var hún mjög öflug og áhrifamikil á þeim árum, meðal ungs fólks hér í Eyjum. Hún efldi áhuga fyrir útilífi og þekkingu á Eyjunum, örnefnum og sögu þeirra á margan hátt. Og það kom enginn að tómum kofanum hjá Magga þegar um slíkt var að ræða. Það var gengið um Heimaey og úteyjar reyndar líka, þetta var skoðað og örnefni lærð og þekkt mið og annað sem laut að nánari þekkingu.
Maggi fór ungur að vinna við skip og sjó, varð hörkumikill beitningamaður, handfljótur og kappsamur. Svo fór hann að róa og féll honum starfið strax mjög vel og var duglegur og lipur sjómaður. Hann náði sér í formannsréttindi og var stýrimaður á bátum einhvern tíma.
Hann var lengi með Binna í Gröf bæði sem háseti en þó lengst af sem matsveinn, þar sem hann hafði orðið fyrir áfalli er gerði það að verkum að hann átti erfiðara með að vinna á dekki.
Þá var hann líka með skáldinu og ævintýramanninum Ása í Bæ á Hersteini í margar vertíðir, og það sagði hann að hefðu verið einhver skemmtilegustu árin sem hann hefði átt um dagana. Og var þar margt sem kom til. Mikill og góður afli og þessi ógleymanlegi félagsskapur sem ríkti þar um borð alla tíð.
Maggi var vel skýr og fylgdist vel með því sem var að gerast í Þjóðlífi voru hverju sinni. Hann ólst upp á kreppuárunum og kannaðist vel við fátæktina og mundi þau árin vel. Hann skipaði sér fljótlega í hóp hinna vinstrisinnuðu manna og tók ávallt svari hinna fátæku og smáu.
Hann las mikið og mundi vel það sem hann las. Einnig var hann góður útvarpshlustandi og er hann var til sjós var hann ávallt með útvarpið opið þó svo hann væri að vinna, það truflaði hann ekkert frá kokkaríinu.
Það var alltaf líf og fjör í kringum hann, margir komu til hans á loftið í Valhöll og sumir gistu þar stundum tíma og tíma.
Árið 1984 er hann varð sextugur voru þar margir samankomnir til þess að gleðjast með honum í mikilli veislu og góðum fagnaði í undrafögur veðri. Er þetta ein skemmtilegasta afmælisveisla er ég hefi setið. Það var Ási með gítarinn og aðrir úrvalsgóðir skemmtikraftar. Það var sungið og sögur sagðar af hreinni list meðan að dagur entist.
Seinustu árin átti Maggi við veikindi að stríða ásamt ýmsu öðru er á hann sótti. Hann varð oft að fara á sjúkrahús og dvaldi þar lengri og skemmri tíma.Hann gafst þó aldrei upp og sigldi þann sjó er hann taldi færan, en mér er þó til efs að hann hafi nú alltaf fundið rétt strikið á þeirri siglingu.
Ungur giftist hann góðri og myndarlegri konu, Guðrúnu Kristófersdóttur Guðjónssonar frá Oddstöðum, og eignuðust þau fjögur börn. Sigmar sem er stýrimaður og skipstjóri á Sindra VE. Kristín Þóra bankamaður og húsmóðir í Reykjavík. Bjarney bankamaður og húsmóðir í Reykjavík. Jónína fiskvinnslukona og húsmóðir hér í Eyjum.
Þau hjónin slitu samvistum og eftir það bjó hann einn utan seinustu árin að vinur hans og kunningi Georg Jensen hefur búið hjá honum og verið honum til halds og traust er veikindi höfðu plagað hann.
Börnum hans og ættingjum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Og villunótt mannkyns um veglausa jörð
svo voðalöng orðin mér finnst,
sem framfara skíman sé skröksaga ein
og skuggarnir enn hafi ei þynnst.
Því jafnvel í fornöld sveif hugur eins hátt
og hvar er þá nokkuð, sem vinnst.
Step. G. Step.
Sigmundur Andrésson.

Guðjón Pálsson, skipstjóri.
F. 10. maí 1936 - D. 20. nóvember 1987.
Guðjón var fæddur í Reykjavík 10. maí 1936, sonur hjónanna Páls Guðjónssonar og Jónínu Guðjónsdóttur.
Snemma hneygðist hugur hans til sjávar og er óhætt að segja að sjórinn hafi átt hug hans alla tíð. Árið 1957 lauk Guðjón fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík og 2. janúar 1958 kom hann til Vestmannaeyja, þar sem hann átti eftir að dvelja alla sína tíð.
Í Vestmannaeyjum kynntist Guðjón eftirlifandi konu sinni, Elínborgu Jónsdóttur frá Laufási. Eignuðust þau tvö börn, Eyjólf núverandi skipstjóra á Gullberginu og Önnu nema í FIV. Elínborg reyndist Guðjóni góð eiginkona og stóð sem klettur við hliða hans í öllum hans veikindum.
Í Vestmannaeyjum hóf Guðjón sjómennsku sína sem stýrimaður hjá Óskari Ólafssyni á Sigurfara. Árið 1960 gerðist Guðjón skipstjóri á Hafbjörgu VE, sem Ingólfur Theódórsson netagerðarmeistari gerði út. Frá þeim tíma var Guðjón síðan skipstjóri á ýmsum bátum fram til ársins 1970 er hann ásamt tengdaföður sínum, Jóni Guðleifi Ólafssyni, og Ólafi Má Sigmundssyni festi kaup á Gullbergi frá Seyðisfirði.
Árið 1973 réðust þeir félagar út í nýsmíði og létu smíða Gullberg VE 292 fyrir sig í Noregi. Þann bát hafa þeir gert út síðan og hefur Guðjón verið þar skipstjóri alla tíð.
Guðjón var farsæll skipstjóri, hann aflaði vel og var margar vertíðir aflakóngur í Eyjum.
Kynni okkar Guðjóns hófust fljótlega eftir að ég kom til Eyja og tengdumst við fljótlega vináttuböndum sem hafa haldist alla tíð síðan. Báðir vorum við í sama starfi og höfðum því um sameiginleg hagsmunamál að ræða, þannig að samstarf og samvinna var ætíð góð okkar á milli. Nánust varð þó samvinna okkar frá árinu 1973 en þá hófum við undirbúning að byggingu eins skipa, Gullbergs VE 292 og Hugins VE 55, sem við fengum afhenta á árunum 1974 og 1975. Upp frá þeim tíma höfum við mest stundað loðnuveiðar og þar sem um systurskip var að ræða þá var ætíð talsvert kapp á milli skipanna, en þó var það kapp ætíð meira af gamni en alvöru.
Guðjón var hugamaður mikill og keppnin var honum í blóð borin. Hann var hreinskiptinn og lá ekki á meiningu sinni. Hann talaði hreint út um alla hluti og vandaði því ekki kveðjurnar ef honum fannst óréttlæti vera á ferð.
Fyrir rúmum þremur árum kenndi Guðjón fyrst þess meins sem hann hefur á hetjulegan hátt barist við síðan. Það var ekki hans stíll að gefast upp. Guðjón hugsaði ætíð til framtíðarinnar og horfði fram á veginn. Hann lifði og hrærðist í útgerðinni og sló þar hvergi slöku við, þrátt fyrir veikindi sín. Hann stundaði sjóinn af kappi allt fram til þess síðasta og sýnir það ef til vill best þann kraft og vilja sem hann var gæddur.
Síðast átti ég samtal við Guðjón fáum dögum áður en hann lést og kom mér þá ekki til hugar að það væri okkar síðasta samtal, þar sem hann virtist hress sem endanær og fullur af lífsvilja. Það var enga uppgjöf að heyra, hugurinn var allur bundinn við framtíðina og framkvæmdir í henni.
Guðjón hefur nú lagt í sína síðustu ferð. Ég kveð vin minn Guðjón hinstu kveðju en eftir stendur minning um góðan vin og félaga sem ég veit á að ég á eftir að sakna.
Við Kristín sendum Elínborgu, börnunum og öðrum ástvinum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja þau í sorg sinni.
Blessuð sé minning Guðjóns Pálssonar.
Guðmundur Ingi Guðmundsson

Óskar Jónsson
F. 4. desember 1906 — D. 8. desember 1987.
Óskar var fæddur í Hallgeirsey Austur-Landeyjum 4. desember árið 1906 og var því nýlega orðin 81 árs þegar hann lést 8. desember s.l. Foreldrar Óskars voru Elín Magnúsdóttir og Jón Guðnason bóndi og sjómaður. Óskar var yngstur fimm barna þeirra hjóna og ólst upp ásamt systkinum sínum að Hallgeirsey. Þegar Óskar var 11 ára gamall missti hann föður sinn en elsti bróðir hans tók þá við búinu ásamt með móður þeirra. Óskar fór á vertíð til Eyja eftir að hann varð tvítugur eins og algengt var með ungt fólk í sveitum Suðurlands á þeim árum, en var heima í sveitinni í annan tíma. En örlögin haga því þannig að hér í Vestmannaeyjum verður heimili Óskars og ævisagan skráð þar.
Hér í Vestmammaeyjum var Óskar vertíðarmaður í Hlíð hjá Jóni Jónssyni og Þórunni Snorradóttur og þar kynntist hann Ástu Jónsdóttir dóttur þeirra hjóna.
Gengu þau í hjonaband 1. desember árið 1934 og það sama ár flutti Óskar alkominn til Vestmannaeyja og hér verður starfsvettvangur hans og heimili upp frá því. Fyrstu búskaparárin var heimili þeirra í Hlíð en lengst af var heimili þeirra að Sólhlíð 6, sem Óskar reisti ásamt svila sínum og flutti fjölskyldan þar inn árið 1946. Eignuðust Ásta og Óskar tvær dætur, Guðrúnu Lísu og Þórunni Ólý. Ásta lést fyrir tæplega tveimur árum 12. febrúar árið 1986. Hún var góð kona og eftirminnileg.
Hafði hjónaband þeirra Óskars og Ástu staðið í meira en hálfa öld. Óskar var umhyggjusamur heimilisfaðir og einstaklega hlýr og góður faðir og afi.
Óskar var vel af Guði gerður. Hagurmaður til munns og handa. Orðvar og hægur en ákaflega traustur og áreiðanlegur í hvívetna. Vinnusamur og drengur góður og var alls staðra vel liðinn.
Óskar gerðist útgerðar- og athafnamaður hér í Vestmannaeyjum. Hann gerði út tvo báta Sjöfn og Kára ásamt Þorsteini Gíslasyni og Jóhanni Sigfússyni og gekk útgerðin og samstarf ákaflega vel. Var Óskar bæði sjómaður og landmaður og síðustu árin áður en hann missti heilsuna þá var hann útgerðarstjóri. Óskar var þrekmenni og var á yngri árum íþróttamaður góður en rúmlega fimmtugur missti hann heilsuna á einum degi og hefur það verið honum og fjölskyldunni þungt áfall. En Óskar var þannig gerður að hann kvartaði ekki þótt hann væri oft sárþjáður. Erfiðast var að geta ekki haft neitt fyrir stafni. Hann náði sér þó aftur að nokkru leyti og gat farið að vinna. Hóf hann þá störf hjá Net h/f og líkaði starfið vel og sérstaklega líkaði honum vel samstarfsfélagarnir í Net. Hann var meðal stofnenda Sparisjóðs Vestmannaeyja og einn af ábyrgðarmönnum hans til æviloka.
Hermann Einarsson

Jóhann Pálmason frá Stíghúsi
F. 4. mars 1895 - D. 7. janúar 1988
Jóhann var einkabarn Guðbjargar Sighvatsdóttur, formanns og bónda á Vilborgarstöðum og Pálma Guðmundssonar, sjómanns og fyrrum barnakennara. Pálmi í Stíghúsi (áður París) fórst í fiskiróðri 20. janúar 1901, á heimleið skammt frá Bjarnarey, og skipverjar allir sex.
Níu ára gamall fór Jóhann að beita línu hjá Þorsteini í Laufási á mótorbátnum Unni. Um þetta segir Þorsteinn í bók sinni Formannsævi í Eyjum:
"Þrjá drengi höfðum við til að beita. Var það nýung, því sjómennirnir höfðu sjálfir beitt alla lóðina fram að þessu. Drengirnir áttu að beita tvö bjóð hver, en hásetamir beittu sitt bjóðið hver, svo tíu hafa bjóðin verið alls, sem róið var með. En sex strengir voru í hverju bjóði. Drengirnir sem beittu voru Ársæll Sveinsson á Sveinsstöðum 12 ára, Hannes Hansson í Landakoti á líku reki og Jóhann Pálmason í Stíghúsi. níu ára. Hann var svo lítill, að hlaða varð undir hann, svo hann næði upp á beituborðið"
En það teygðist fljótt úr Jóa í Stíghúsi og hvorki hlaðið né mulið undir hann. Hann var bráðger, stór og sterkur, eins og hann átti kyn til. Ég sá einu sinni Ólaf ferjumann, föðurbróður Jóhanns, er hann var í heimsókn hjá frænda sínum í Stíghúsi, mikil kempa. Ólafur var afi Magnúsar Kjartanssonar ritstjóra og síðar ráðherra.
Jóhann stundaði sjóinn lengi ævinnar. Hann reri um 15 vertíðir hjá Þorsteini í Laufási. Féll honum vel við Þorstein, sem úthaldið ber vott um, og hafði hann verið frábærlega veðurglöggur. Nokkrar vertíðir réri Jóhann á sjó frá Austfjörðum. Eitt sinn voru þeir þrír saman á litlum báti. Í röst út af Skrúð fyllti bátinn svo sjór rann út á bæði borð. Þá var Jói handtakagóður og henti út öllum stóra fiskinum, og ofaná flutu þeir.
Ég kynntist Stíghúshjónum á kreppuárunum. Ólafía Óladóttir, kona Jóhanns, vaskaði fisk hjá Lúðvík skipstjóra, en ég átti að heita vorvertíðarmaður.
Lúðvík hafði þá "Eilífðina" á leigu og átti mb. Ásdísi, sem Gísli Johnsen átti áður og var happaskip.
Á þessum árum var verklýðsbaráttan hörð; er það jafnvel enn þrátt fyrir allt, en öðruvísi. Þá var ekki orðin atvinnugrein að skilja samninga, forstjórar ekki orðnir töskuberar. Og þá höfðu menn ekki fundið Stóra Sannleik um láglaunafólkið og verðbólguna.
Jóhann í Stíghúsi var ákveðinn liðsmaður í baráttunni. Lóa var í forystuhlutverkinu og dró hvergi af, hélt miklar ræður á fundum og hvatti liðið. Jóhann gerði glögg skil milli málefna og manna. Ég heyrði hann aldrei tala illa um menn. - Gott var að vinna með Jóhanni, glaður var hann og reifur á hverju sem gekk. Hann var afbragðs verkmaður, virtist sjaldan flýta sér en ekki eftirbátur þeirra yngri um afköst.
Stíghúshjónin fluttu til Reykjavíkur 1947. Þar stundaði Jóhann mest múrarastörf. Þau fluttu aftur heim til Eyja eftir 14 ár. Hér munu þau hafa unað hag sínum best. - Síðustu æviárin dvaldi Jóhann á dvalarheimilinu Hraunbúðum og féll vistin vel.
Gamlir félagar kveðja Jóhann að leiðarlokum með þökk fyrir góð kynni.
Haraldur Guðnason

Vigfús Sverrir Guðmundsson
F. 4. ágúst 1932. - D. 13. febrúar 1988.
19. febrúar sl. var kvaddur frá kapellu kirkjugarðsins í Hafnafirði mágur minn, Vigfús Sverrir Guðmundsson. Hann lést á heimili sínu, Hátúni 10, Reykjavík, laugardaginn 13. s.m.
Vigfús fæddist í Vestmannaeyjum 4. ágúst 1932. Foreldrar hans voru Stefanía Einarsdóttir frá Steinavöllum í Flókadal, Skagafjarðarsýslu, og Guðmundur Vigfússon, fyrrverandi skipstjóri frá Holti í Vestmannaeyjum. Stefanía lést 22. september 1982, en Guðmundur lifir son sinn og býr í Hafnarfirði.
Vigfús ólst upp í Vestmannaeyjum. hann var til sjós eins og títt var með unglinga á þeim árum. Fór hann á síld með föður sínum bæði á reknet og hringnót. Var þá faðir hans með Vonina. Hann stundaði einnig handfæri tvær vetrarvertíðir með skáldinu og söngvaranum Ása í Bæ og fór afar vel á með þeim. Sagði Vigfús mér margar sögur af sjómannshæfileikum Ása og ratvísi hans á miðin við Eyjar. Vigfús keypti sér trillu og reri á henni nokkur sumur. Hann lauk prófi frá Gagnfræðiskóla Vestmannaeyja og fór síðan í Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan prófi.
Lífið blasti við ungum og efnilegum manni, en 24 ára gamall missti hann heilsuna og var óvinnufær uppfrá því. Varð það honum mikil raun að geta ekki starfað eins og aðrir. Það var hans gæfa að eiga góða og skilningsríka foreldra sem reyndust honum alla tíð frábærlega vel. Þau brugðu búi í Eyjum á þessum árum og fluttu til Hafnafjarðar til þess að búa honum heimili og koma honum undir læknis hendur.
Árið 1979 giftist Vigfús eftirlifandi konu sinni, Kristínu Davíðsdóttur. Bjuggu þau í Hátúni 10, Reykjavík.
Vigfús var trúaður maður og sáttur við dauðann þar sem hann var viss um framhaldslífið.
Við kveðjum ágætan dreng og óskum honum góðrar ferðar yfir móðuna miklu. Að lokum flyt ég Kristínu og Guðmundi innilegar samúðarkveðjur frá mér og fjölskyldu minni.
Guð blessi minningu Vigfúsar Sverris Guðmundssonar.
Stefán V. Þorsteinsson.

Ingólfur Theódórsson
F. 10. nóvember - D. 14. mars 1988
Ég vil hér með nokkrum orðum minnast Ingólfs Theódórssonar netagerðarmeistara er lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 14. mars síðastliðinn á 76. aldursári.
Með Ingólfi er fallinn frá einn virtasti og áhrifamesti netagerðarmeistari landsins um langt skeið. Má segja að á skömmum tíma hafi verið höggvið stórt skarð í raðir netagerðarmeistara, því nú hafa á um einu ári látist þrír af helstu meisturunum. Aður létust þeir Guðmundur Sveinsson frá Ísafirði og Pétur Georgsson frá Akranesi. Báðir alveg einstakir heiðursmenn og stétt sinni til mikils sóma.
Ingólfur hóf ungur nám í netagerð hjá Birni Benediktssyni í Reykjavík og starfaði við netagerð allan sinn starfsaldur. Árið 1939 settist hann að í Vestmannaeyjum og stofnsetur fyrirtæki sitt, Netagerðina Ingólf, 1947, þar sem hann rak umfangsmikla starfsemi við framleiðslu og viðhald á veiðarfærum.
Ég kynntist fyrst Ingólfi er ég réðst til vinnu hjá honum í nokkra mánuði veturinn 1970. Þessir mánuðir verða mér alltaf minnisstæðir vegna kynna minna af Ingólfi og þeirri stemmningu og vinnugleði sem ríkti á netagerðinni þrátt fyrir mikið vinnuálag þar sem unnið var dögum saman langt fram yfir þau vinnutímamörk sem gilda nú til dags.
Þetta var ekki síst því að þakka að Ingólfur dró ekkert af sjálfur og vann af lífi og sál við að skipuleggja verkefni og stjórna sínum mönnum af miklu kappi og áhuga sem var með ólíkindum því hann gekk ekki heill til skógar hvað heilsufar snerti.
Jafnframt fylgdist hann af ákafa mcð aflabrögðum alla tíð og sem dæmi um þetta má nefna að þegar Ingólfur dvaldi á Heilsuhælinu í Hveragerði sér til heilsubótar þá hafði hann með sér farsíma svo hann gæti betur fylgst með. Ég varð vitni að því þegar einn skipstjórinn hringdi og lét hann vita að hann væri á leiðinni til hafnar með fullfermi af loðnu.
Það mú segja að það hafi sjaldan ríkt lognmolla í kringum Ingólf Theódórsson því hann sagði umbúðalaust hug sinn ef því var að skipta hvort sem mönnum líkaði betur eða verr og naut virðingar fyrir.
Hann gat stundum verið hrjúfur á manninn en undir niðri sló stórt hjarta sem ávallt var reiðubúið að hjálpa þeim sem minna máttu sín ef svo bar við.
Ingólfur var sæmdur riddarakrossi Fálkaorðunnar 1983 fyrir störf í þágu sjávarútvegsins og var kjörinn heiðursfélagi Landssambands veiðarfæragerða 1985, en hann átti lengi sæti í stjórn sambandsins, þar sem hann vann ötullega að málefnum netagerðarmanna.
Ég votta eftirlifandi eiginkonu Ingólfs. Sigríði Sigurðardóttur, og börnum þeirra beggja mína dýpstu samúð í sorg þeirra og flyt sérstakar þakkir til Sigríðar frá okkur Jonnu með þakklæti fyrir fyrir einstaklega góð viðkynni og samveru á undanförnum árum. Það var aðdáunarvert hvað hún annaðist Ingólf af kostgæfni og ástúð svo af bar. Guð blessi þig og styrki Sigga mín í framtíðinni.
Guðmundur Gunnarsson

Baldvin Nielsen
F. 8 mars 1936 - D. 21 mars 1988.
Baldvin var fæddur 8. apríl árið 1936 og var því aðeins 51 árs þegar hann lést eftir langvarandi veikindi 21. mars s.l á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Hin langa þraut er liðin nú loksins hlaustu friðinn og allt er orðið rótt. Baldvin var fæddur í Reykjavík og voru foreldrar hans Guðmunda Baldvinsdóttir og Villý Henry Nielsen, danskur maður, sem vann um árabil í Landsmiðjunni í Reykjavík. Baldvin flutti með foreldrum sínum til Danmerkur á fyrsta ári og var þar til tíu ára aldurs en þá flutti fjölskyldan aftur til Íslands. Ólst Baldvin upp ásamt systkinum sínum sex en fjölskyldan varð fyrir því áfalli að árið 1951 lést móðir Baldvins, en þá var Baldvin aðeins 15 ára. Vann Baldvin í Landsmiðjunni með föður sínum í nokkur ár en hingað til Vestmannaeyja kom Baldvin árið 1958 og átti hér heimili upp frá því. Hér stundaði hann sjómennsku á meðan heilsan leyfði. Síðustu árin var heimili hans að Hrauntúni 36 en Baldvin átti við mikla vanheilsu að stríða síðustu misserin en tók því með æðruleysi.
Baldvin eignaðist eina dóttur og er hún búsett hér í Eyjum.
Síðustu árin voru Baldvin um margt þung í skauti. Hann var einmana maður en góður og traustur vinur vina sinna og ávallt skilaði hann sínu vel og samviskulega. Hann var góður drengur og vildi vel.
Róbert Sigurmundsson

Tómas Sveinsson
F. 14. ágúst 1903 - D. 20. apríl 1988
Þann 20. apríl sl. andaðist hér á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja Tómas Stefán Sveinsson eins og hann hét fullu nafni. Hann náði háum aldri. Fæddur í Selkoti undir Eyjafjöllum 14. ágúst 1903. Hann var kominn af myndarfólki, þar sem hagleikur var ættarfylgja, þar á meðal var Guðjón í smiðjunni náfrændi hans.
Hann ólst upp hjá foreldrum sínum í Selkoti og var fjórða í röð sex systkina.
Á æskuárum Tómasar og raunar fram eftir öldinni var erfiðisvinna undirstaða lífsbaráttunnar. Börnin í Selkoti hafa því snemma lagt hönd að verki eftir því sem orka leyfði. Sextán ára gamall komst Tómas í skipsrúm hjá Vigfúsi Guðmundssyni í Eystri Skógum og fékk strax heilan hlut sem fullgildur háseti. Má af því marka, að hann hefur þegar á æskuárum öðlast þrek og harðfylgi.
Árið 1922 fluttist Tómas hingað til Vestmannaeyja og stundaði sjómennsku lengst af sem vélstjóri næstu tuttugu árin. Árið 1934 hóf Tómas útgerðarrekstur ásamt Guðjóni bróður sínum og bræðrunum Karli og Jóni Guðmundssonum. Þeir keyptu þá bát frá Danmörku m.b. Ver VE 3 18. Þeim félögum farnaðist vel og ráku útgerðina til ársins 1963 er þeir seldu síðasta bátinn, enda var þá aldurinn farinn að segja til sín.
Árið 1942 gerðist Tómas verkstjóri hjá Netagerð Vestmannaeyja þar til hún hætti rekstri. Eftir það vann hann ýmis störf fram á áttræðisaldur. Hann lauk langri og farsælli starfsævi í þágu sinnar heimabyggðar, lands og þjóðar.
Tómas kvæntist árið 1930 Líneyju Guðmundsdóttur, myndarkonu, sem lifir mann sinn eftir langt og farsælt hjónaband. Þau eignuðust þrjú efnisbörn. Þau byggðu húsið að Faxastíg 13 og áttu þar hlýlegt og snyrtilegt heimili til ársins 1983 að þau fluttu í vistheimili aldraðra hér í bæ.
Mótlæti lífsins bar Tómas með karlmennsku og æðruleysi. Hann missti föður sinn ungur og Guðmar son sinn á besta aldri frá konu og ungum börnum. Þá slasaðist Líney alvarlega með þungum afleiðingum, sem hún verður að bera til æviloka. Sorgin gleymir engum, og síst þeim, sem ná háum aldri.
Tómas var að vallarsýn vel á sig kominn og framkoman einkenndist af hlýleika og prúðmennsku. Með honum er góður drengur genginn. Hann var jarðsettur frá Landakirkju 30. apríl sl. að viðstöddu fjölmenni.
Sigurgeir Kristjánsson

Hvað er hel?
Öllum líkn, sem lifa vel,
engill, sem til lífsins leiðir,
ljósmóðir, sem hvílu breiðir.
Sólbros, er birta él,
heitir hel.

Þögla gröf,
þiggðu duftið, þína gjöf.
Annað er hér ekki að trega,
andinn fer á munarvega,
þekkir ekki þína töf,
þögla gröf.

Eilíft líf,-
ver oss huggun, vörn og hlíf,
lif í oss, svo ávallt eygjum
œðra lífið, þó að deyjum.
Hvað er allt, þá endar kíf?
Eilíft líf.

Matth. Jochumsson