Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1985/ Enn um gosbrunn og gúmmíbjörgunarbát

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Höggmynda- og útilistaverkasafn Vestmannaeyja


Enn um gosbrunn og gúmmíbjörgunarbát


Frummynd af Guðríði Símonardóttur (Tyrkja-Gaddu). Til hægri stendur listakonan Ragnhildur Stefánsdóttir myndhöggvari.Fullbúið er listaverkið helmingi stœrra. 3 metrar á hœð. unnið í járnbenta steinsteypu.

Fyrir tveimur árum reifaði ég í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja hugmynd um að koma upp glæsilegasta gosbrunni sem til yrði á Íslandi, sem jafnframt yrði minnismerki um gúmmíbjörgunarbátinn og íslenska sjómenn.
Síðan hefur mikil umræða orðið um gúmmíbjörgunarbáta og slysavarnamál. Ótrúlegt afrek hefur verið unnið sem Vestmanneyingar og sjómenn allir verða að minnast á varanlegan og viðeigandi hátt sem sæmir. Hér á ég auðvitað við sund Guðlaugs Friðþórssonar. Þetta afrek er svo einstakt að nauðsynlegt er að koma upp styttu í fullri stærð eða brjóstmynd af Guðlaugi ásamt myndarlegum veggskildi sem greinir frá aðdraganda að sundinu og sýnir sundleiðina. Ég veit að margir hafa hug á einhverju í þessa veru svo að þetta yrði auðveld framkvæmd. Áletrun yrði að vera a.m.k. á þremur tungumálum í þeim mikla ferðamannabæ sem Vestmannaeyjar eru orðnar.
Ánægjulegt er að sjá og heyra hve nemendur Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum og fleiri aðilar minntust þessa afreks myndarlega hinn 12. mars s.l.
Í fáeinum orðum ætlaði ég hér þó fyrst og fremst að minnast enn á verk Ragnars Kjartanssonar - gúmmíbjörgunarbátinn. Á þeim tveimur árum, sem liðin eru síðan málið var reifað, hefur listamaðurinn lokið frumgerð verksins og m.a. breytt legu bátsins og fyrirkomulagi mannanna í bátnum. Hefur hann í þessu sambandi ráðfært sig við þaulreynda sjómenn til að lega bátsins í öldunni verði sem eðlilegust. Frumgerð yrði síðan útfærð enn frekar við endanlega gerð verksins og vinnslu í fulla stærð. Hugmynd Ragnars Kjartanssonar er að báturinn liggi í freyðandi brimöldu.

Frummynd Ragnars Kjartanssonar útfœrð í brenndan leir.- 1984
Gosbrunnur. Skissa Ragnars Kjartanssonar 1983.

Ennþá vill Ragnar láta Vestmanneyinga njóta forréttar um uppsetningu og gerð verksins.
Er nú ekki nóg komið af listaverkum?, spyr ef til vill einhver. Glæsilegt listaverk. Fæðing sálar eftir Einar Jónsson var afhjúpað í Vestmannaeyjum s.l. sumar, og kornung listakona, Ragnhildur Stefánsdóttir, fyrrverandi nemandi Ragnars og aðstoðarmyndhöggvari í tvö ár, hefur lokið við sérstaklega fallega höggmynd sem á að verða til minningar um Tyrkjaránið og Guðríði Símonardóttur (Tyrkja-Guddu, sem mér finnst leiðinlegt og óvirðulegt nafn um svo góða konu). en Guðríður var sem kunnugt er húsfreyja á öðru býlinu í Stakkagerði, þegar ránið var framið 17. júlí 1627.
Ég verð að játa að ég var í fyrstu ekkert sérlega hrifinn af hugmynd um styttu af Guðríði, þrátt fyrir eldmóð Árna míns Johnsens sem á mikinn heiður og þökk skilið fyrir að hafa ásamt fleirum góðum mönnum haft forgöngu um uppsetningu listaverka í Vestmannaeyjum. En þegar ég sá frummynd og heyrði lýsingu listakonunnar á höggmyndinni, hugmynd Ragnhildar bak við verkið og uppbyggingu listaverksins, þá varð ég stórhrifinn. Höggmyndin verður bæjarprýði.
En þá er nú líka nóg komið, maldar ef til vill einhver í móinn. Sjómannafélögin, útgerðarmenn og allir á hausnum eins og venjulega og listaverk eins og gúmmíbjörgunarbáturinn kostar fullbúið stórfé: sennilega eins og heilt húsverð, 2-3 milljónir.
Kostnaður við að koma myndinni í gips eftir hugmynd listamannsins, meðan hann er á dögum og við góða heilsu, kostar þó aðeins brot af því verði sem það kostar að fullgera verkið til að standa úti, steypt í eir, flóðlýst og með fossandi vatni, sem í sólskini steyptist í regnbogans litum um verkið og gæfi því mikinn fjölbreytileika. Á gosbrunninum mætti byrja með því að koma myndinni í gips.
Eins og sjá má á mynd hefur Ragnar Kjartansson nú útfært verkið með kyndli sem lýsir það upp, en kyndilberinn er einnig tákn vonarinnar um björgun og hann er forystumaðurinn í bátnum. Þarna birtist einnig bróðurkærleikurinn þar sem maður hjúkrar aðframkomnum félaga sínum. Þetta er fallegt verk og með hrynjandi vatnsins og ólgu mun það verða mjög lifandi, sérstætt og áhrifamikið.
En svo spyr kannski einhver: En svo mörg listaverk í ekki stærri bæ? Verður þetta ofhlað?
Þarna held ég einmitt að Vestmanneyingar standi á tímamótum sem bæjaryfirvöld ættu að gefa alvarlega gaum. Jafnframt því sem Vestmannaeyjar eru einn stærsti útgerðar- og athafnabær landsins eru Eyjarnar eftir eldgosið eftirsóttasti ferðamannastaður á Íslandi. Taka verður vaxandi tillit til þessarar staðreyndar, prýða bæinn og vernda sérstæða náttúru hans. Svo að eitthvað sé nefnt ætti t.d. að aðstoða eigendur Steypustöðvarinnar til að flytja Steypustöðina austur á nýja hraunið þar sem byggingarefnið er og frá Skiphellum og Spröngunni og hafa síðan yfir sumartímann fastar sýningar í sprangi og nokkrum tilþrifum í fjallamennsku: t.d. mætti sýna lærvað, tábragð og fleira. Græða þarf upp sárin sunnan Helgafells og víðar á Heimaey.
Með fleiri útilistaverkum og markverðum eru Vestmannaeyjar nú komnar á þann punkt að fjölgi þar höggmyndum og góðum verkum kemur að því að fólk fer ekki einungis til Vestmannaeyja til þess að njóta sérstæðrar náttúru heldur einnig til að kynnast listaverkum í einstöku umhverfi, auk þess sem verkin verða bæjarbúum til upplyftingar og hressingar alla daga ársins. Eyjarnar gætu orðið hinn íslenski Vigelandsgarður, en almenningsgarður með því nafni er sem kunnugt er í Osló, með tugum listaverka eftir norska myndhöggvarann Gustav Vigeland (1869-1943). Hér hefi ég ef til vill nokkuð látið gamminn geysa, en ég held að margir séu mjög svo samþykkir þessum hugmyndum. Á tímum þar sem allt er mælt í fjárfestingum og arðsemi, sem auðvitað er einnig lífsnauðsynlegt, þá held ég að auk þess sem framtak Vestmanneyinga, að gera Eyjarnar að miðpunkti og safni höggmyndalistar á Íslandi, myndi auka verulega andlegan fjársjóð þeirra sjálfra, - og þá mætti mæla þetta í beinhörðum peningum.
Með tíð og tíma vekur safn fallegra og sérstæðra útilistaverka, sérstæður gosbrunnur og fleiri verk, ekki minni áhuga en Náttúrugripasafn Vestmannaeyja sem hefur vakið verðskuldaða athygli bæði inanlands og utan. Ef vel væri að staðið gæti það orðið eftirsóknarvert fyrir listamenn að eiga verk sín í Vestmannaeyjum. Eins og alltaf verður að huga vel að hvar verkin verða sett upp. Þetta er mikilsvert verkefni fyrir nýstofnað ferðamannaráð Vestmannaeyja.
En uppsetning hins einstæða gosbrunns og minnisvarða um gúmmíbjörgunarbátinn eftir Ragnar Kjartansson, svo og gerð styttu og lágmyndar um afrek Guðlaugs Friðþórssonar, reist þar sem sæi vel austur á Ledd og til aðalhraunsins, sem Guðlaugur braust yfir, er verðugt verkefni Sjómannadagsráðs og sjómannafélaganna í Vestmannaeyjum. Ég hefi þá trú að brátt komist skriður á þetta mál.

Guðjón Ármann Eyjólfsson


Leiðréttingar úr síðasta blaði
Á bls. -1-6 á að standa Þorgeir Jóelsson frá Sælundi.
Á bls. 1 12 segir að Einar J. Gíslason haldi ræðu við minnismerkið (1961) og hafi ætíð gert það síðan. Hið rétta er að Einar byrjar 1957 og hefur því minnst látinna í 28 ár.
Á bls. 1-1- er mynd af stjórn Jötuns. Þar féll niður nafn eins mannsins sem er fyrir miðju. Hann heitir Ástþór Jónsson.
Í hugvekju féll niður nafn greinarhöfundar sem er sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson.

Hin nýja fiskveiðistefna stjórnvalda hefur komið illa við smábátaeigendur. Tvisvar sinnum á stuttum tíma hafa t.d. trillukarlar í Eyjum verið stoppaðir í ágætis fiskiríi. Þann 27. mars s.l. keyrði þó um þverbak því þá höfðu verið stirðar gæftir framan af árinu en um miðjan mars gerði ágætis veður og mokfiskirí. Þann dag var öllum bátum undir 10 tonnum skipað í land og það fram til 9. apríl. Á fundi trillukarla í Eyjum var ákveðið að hundsa bann ráðuneytisins og róa allir sem einn. Þessi táknrœnu mótmæli verða hugsanlega kveikjan að stofnun landssamtaka þessara manna.Myndin sýnir bátana koma uð landi seinnipart 29. mars, til löndunar.
Arthúr Bogason á Eldingu með soðningu í töskunni.
Jóel Sigurðsson, Páll Árnason og Kristján Guðmundsson trillugreifar.
Það er oft líf á Bæjarbryggjunni.