Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1984/ Ebenezarklakkar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

´

Eyjólfur Gíslason:



Ebenezarklakkar


Eyjólfur Gíslason


Það hefur mörgum þótt einkennilegt nafn á þessum klökkum, sem eru norðvestur brún Blindskerjahraunsins og ætla ég nú að segja frá hvernig þetta nafn er til orðið.
Vertíðina 1931 voru flestir Eyjabátar með línu alla vertíðina, en lögðu aldrei þorsknetin þá vertíð, því að moklínufiskerí var alla þá vertíð fram að vertíðarlokum 11. maí. Þegar komið var langt fram í aprílmánuð fóru margir að sækja á vestur- og norðvesturslóðina og að Drangahrauninu, en þar voru þá fæstir Eyjaformenn eins kunnugir botnlaginu og síðar varð, þegar dýptarmælarnir voru teknir í notkun, en engir botndýptarmælar voru þá til að stóla á og urðu menn því að treysta alfarið á sitt hyggjuvit, eftirtekt og þekkingu á miðum.
Það mun hafa verið seint í aprílmánuði, sem við Stefán frændi Guðlaugsson í Gerði, sem þá var formaður með sinn annan Halkíon VE 205, vorum sem oftar samferða heim frá sjónum, en neðan af bryggjum og upp að Gerði og Bessastöðum var 10 til 15 mínútna gangur, upp Heimagötu og Helgafellsbraut. Að sjálfsögðu töluðum við um fiskirí og fiskislóðir og báða langaði okkur til að þekkja betur Drangahraunin, því að þeim vorum við báðir jafn ókunnugir. Kom okkur saman um að til að kynnast þeim eitthvað betur skyldum við offra í það einhverjum línuspotta, ef svo vildi verða, og byrja að leggja línuna norðar og austar en við höfðum áður gert.
Er svo ekki að orðlengja það, að næsta róður í blíðskaparveðri fórum við báðir eftir þessu samtali okkar. Ég var þá með Glað VE. 270 og vorum við vel línufrítt norðar og um 10 strengjum (einum og hálfum stampi) austar en Halkíon. Þennan róður eins og fleiri gekk línudrátturinn vel hjá okkur á meðan við drógum línuna upp af sandi og leirbotni og var gott fiskirí, en svo komum við á hraunið og þá slitnaði línan og áttum við þá ódregna um fjóra stampa (20 strengi af línunni) og töpuðum við um 8 strengjum af línunni. Þar sem við slitum fyrst á hraunbrúninni tók ég þessi mið: Súlnasker fast við Geldung að vestan, með smáagnar lítilli sýlingu, efst á milli þeirra. Hitt miðið var Stóri-Þrídrangur í Litla-Klif.
Sumarið 1930 byrjaði Stefán að stunda lúðuveiðar á m/b Halkíon VE 205 og vorum víð þá hásetar hjá honum og næstu sumur, Ólafur Ástgeirsson frá Litlabæ (Óli í Bæ), ég, Eyfi á Bessa, og Runólfur í Bræðratungu (Runki í Bræðratungu), sem var vélamaður á bátnum og eigandi hans með Stefáni sem stundað lúðufiskirí á þessum Halkíon fram að 1940. Yfir sumarið var verið í 4-6 sólarhringa túrum austur í Meðallandsbugt, og lögðum við oftast lúðulínuna þar á Portlandshraunið og Hjörleifshöfða- og Ingólfshöfðahraunin. Lúðuaflanum var svo oftast komið um borð í enska togara að loknum hverjum veiðitúr, sem seldu aftur á enskum markaði og tóku þeir einn þriðja af söluverðinu hverju sinni fyrir flutning og fyrirhöfn. Oftast seldist lúðan okkar vel. Þegar fór að hausta hættum við að sækja austur í Meðallandsbugt, en lögðum línuna á hraunin í kringum Eyjar, sem gafst oft ágætlega. Það voru aðallega þrír skipstjórar sem tóku af okkur lúðuna og voru skipin frá sama togarafélaginu í Grímsby — Rinovia Company. Skipstjórarnir voru þeir Tedd Little, sem var með togarann Vin. Hjá honum var íslenskur stýrimaður, Einar Olgeirsson. Bróðir hans var Þórarinn Olgeirsson alþekktur togaraskipstjóri í Grímsby og víðar. Hann var giftur systur Tedds Littles. Hinir voru bræðurnir Agúst og Guðmundur Ebenezarsynir frá Þernuvík við Ísafjarðardjúp.

Skipshöfnin á m.b. Halkion VE 205 sumarið 1931. Talið frá vinstri: Ólafur Ástgeirsson, Litlabæ; Runólfur Runólfsson, Brœðratungu; Stefán Guðlaugsson, Gerði, formaður; Eyjólfur Gíslason, Bessastöðum
Halkion VE 205
Ebenezarklakkar í sjókorti nr. 321, útgefið af sjókortateiknara Sjómœlingum Íslands 1977
Ebenezarklakkar undir sjónarhorni frá suðvestri. Teiknað í þrívídd af Ólafi Thorlacius sjókortateiknara

Agúst var fyrst með togarann Fairway, sem var frekar lítill togari, en að sögn gott sjóskip og happafleyta, seinna var hann skipstjóri á King Sól, sem var nýtt og stórt skip. Guðmundur var fyrst með togarann Mars, stórt og gott skip, en strandaði honum í svarta þoku í Pentlinum árið 1930. Hann fékk stuttu síðar stórt og vandað, nýsmíðað skip hjá sama félaginu, Rinovia, sem hét Álsey. Báðir voru þeir bræður miklir fiskimenn og glæsimenni.
Það var um miðjan septembermánuð 1932, að við lögðum eitt hundrað króka lúðulínu (500 faðma). Byrjað var að leggja línuna vel frítt vestan við Blindskerja hraunið. Súlnasker og Geldungur vel laus, svo að rifaði á milli þeirra niður í sjó, og Þrídrangar austast á Litla-Klif. Línan var lögð í suðaustur og látin liggja yfir nóttina fram á næsta dag. Byrjað var að draga línuna frá vesturenda og fljótlega komumst við á vesturbrún hraunsins „Ebenezarklakkana“ og glórði þá í fallega lúðu. Miðið, sem við tókum þá, var smásýling efst á milli Súlnaskers og Geldungs (sem voru þá að lokast) og Stóri-Þrídrangurinn um mitt Litla-Klif.
Á fyrstu 50 krókana, sem við drógum, fengum við átta fallegar lúður, en enga á austurhelming línunnar. Yfir þessum mikla feng -átta lúðum- vorum við félagar mjög glaðir og ánægðir. En brátt fór gamanið af. Hvað áttum við nú að gera við allan þennan afla? Því að nú var enginn togari, sem við þekktum og höfðum haft samskipti við, í nánd við Eyjar. Þegar lokið var við að draga línuna, var vélin sett á hæga ferð, og í einhverju reiðileysi látið lóna í áttina að Einidrang. Þegar við nálguðumst Dranginn sáum við togararek langt í útsuður, sem virtist skýrast og færast nær. Fór þá að hýrna yfir körlum og sett var á fulla ferð og keyrt á móti skipinu, sem var togarinn Álsey frá Grímsby, sem Guðmundur Ebenezar var skipstjóri á. Þegar við áttum stutt eftir að togaranum hægði hann alveg ferðina, svo að við lögðum að síðu skipsins, því það var blíðskaparveður og sjórinn hreyfingarlaus eins og heiðartjörn. Engin fyrirstaða var á að taka af okkur lúðurnar og seldust þær vel þennan túr.
Þegar við vorum að losa bátinn og ýta burt frá Álsey kom Guðmundur út að lunningunni með viskíflösku í hendinni og rétti okkur hana niður í bátinn með þessum orðum: ,,Hún er víst betur komin þessi hjá ykkur en mér“ Þar með kvöddum við Guðmund Ebenezarson og skipshöfn hans. Ekki höfðum við stímað langt frá togaranum, þegar tappinn var tekinn úr flöskunni og þegar aðeins fór að liðkast um málbeinið hjá körlum kom þessi setning fram af vörum Óla í Bæ: „Ja, góðir eru Ebenezarklakkarnir.“ Eftir þetta nefndum við þessa hraunbrúnarklakka aldrei annað og festist svo nafnið við þá.
Eftir að dýptarmælar komu almennt í Eyjabáta, nokkru fyrir 1950, kom í ljós, að hér var um að ræða tvo hraundranga, svo að nafnið Ebenezarklakkar átti vel við þetta fiskimið.

Enskt kort frá 1933

Ég ætla að ljúka þessu spjalli með stuttri sögu þegar ég sá fyrst Ebenezarklakkana á dýptarmælispappír, en þegar dýptarmælar komu fyrst í báta fannst okkur sem við sæjum allan botn og hraun, og þótti mælirinn ómetanlegt tæki. Ég og fleiri Eyjaformenn fengum oft mikinn fisk í eina og tvær netatrossur við Ebenezarklakkana eftir að þeir „fundust“ og urðu þekkt fiskimið. Reynt var að leggja trossurnar fast við klakkana að vestan og miðið, sem ég hafði á austurenda trossunnar var: Stóri Þrídrangurinn í mitt Litla Klif og sýling efst á milli Súlnaskers og Geldungs og var sýlingin eitt og hálft fet niður og gott fet efst. Ég átti oftast tvær trossur þarna og fiskaði alltaf betur í aðra trossuna.
Svo var það eina vertíð, þegar ég var með Emmu litlu, VE. 219, að Einar Runólfsson, sem þá var með Hilmi VE. 282, kemur til mín og segir: „Á ég að sýna þér hvar trossan þín liggur við Ebenezarklakkana?“ Þetta var trossan, sem ég fiskaði alltaf betur í og þóttist ég nokkuð viss um hvar hún lægi. En þá tekur Einar upp dýptarmælispappír, en Hilmir hafði þá nýverið fengið dýptarmæli. Kemur þá í ljós, að trossan, sem alltaf fiskaðist best í, lá nákvæmlega á milli klakkanna.
Ég óska öllum sjómönnum til hamingju með daginn sinn.
Með góðri kveðju.

Norðvestur af Þrídröngum — rétt norðan við Ebenezarklakka. (Teiknað upp eftir skissu frá Sjómœlingum 1961 -GÁE)
Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum.