Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ M/b Léttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Jón Í. Sigurðsson


M/b Léttir


Greinarhöfundur, Jón Í Sigurðsson, hafnsögumaður.
Gömul mynd af Létti

Gæfufleyta sú sem í áraraðir hefir verið notadrjúgt þjónustutæki í þágu Vestmannaeyjahafnar og þeirra fjölmörgu skipa og áhafna, sem okkur hafa heimsótt í Vestmannaeyjum á liðnum árum, m/b Léttir, er byggður í Ráa í Svíþjóð af Skandía vélaverkstæðinu og kemur til Vestmannaeyja með m/s Dronning Alexandrine í febrúarmánuði árið 1936, og hóf þá þegar við komuna starfsemi sína.
Léttir var þá mældur fimm brúttó rúml. að stærð og hafði tuttugu og fimm hestkrafta aflvél af Skandíugerð, sem gat knúið bátinn áfram með um sex og hálfrar mílu hraða með fullu álagi á vélina.
M/b Léttir var við komuna yfirbyggður að hluta til, afturhluti bátsins var óyfirbyggður og þannig var hann fyrstu tíu starfsárin sín.
Árið 1942 var skipt um aflvél í Létti, og í bátinn var sett ný allstór Caterpillarvél. Á árinu 1948 var Léttir tekinn í Dráttarbraut Vestmannaeyja til viðgerðar og endurbóta, á þann hátt að súðarbyrðingur bátsins var hækkaður frá framstafni og aftur að miðri reisn bátsins. Þessi breyting á bátnum varð til mikilla bóta og bætti sjóhæfnina til muna.
Árið 1964 er Léttir enn tekinn til endurbóta. Þessar endurbætur voru vel unnar af íslenskum fagmanns höndum og gerðu góðan bát að enn betri bát, úrbætur sem dugðu í áraraðir, eða til ársins 1975, að enn er hafist handa og skipt er um aflvél. Stærri og betri Caterpillarvél var sett í bátinn, í staðinn fyrir þá Caterpillarvél sem fyrir var. Þá voru og margar, góðar og nytsamar endurbætur unnar á Létti.
Frá árinu 1936, og í nokkur ár þar á eftir, er Filippus Árnason útgerðarmaður og meðeigandi að m/b Létti ásamt bæjarfógetum, er hér voru á þessum tímum, en síðar gerist Hafnarsjóður Vestmannaeyja meðeigandi Filipusar að bátnum, og þannig er það í nokkur ár. Síðar eignast Hafnarsjóður Vestmannaeyja einn m/b Létti, og hefir báturinn verið rekinn og gerður út af Hafnarsjóði eftir eigendaskiptin.
Á m/b Létti hafa alltaf verið úrvalsstarfsmenn, starfsmenn sem hafa notið gæfu og fararheillar á hinu víðfema hafsvæði sem þeir á m/b Létti hafa erjað. Enginn íslenskur bátur, sem nú flýtur, hefir farið eins oft út og inn um hafnarmynnið og m/b Léttir, og engin íslensk fleyta hefir flutt fleiri veika og slasaða menn frá skipum að landi í höfn. Engin íslensk gnoð hafa oftar flutt mönnum læknis hjálparhönd en m/b Léttir hefur gert á sínum starfstíma á liðnum árum.
M/b Léttir hefir verið happafley og alltaf skilað sínu í höfn með sóma. Þó hefir starfið ekki ávallt verið unnið við blíðuatlot veðurguða. Margt misjafnt hefir hent á löngum starfstíma, en m/b Léttir hefir staðist hverja raun.
Eitt sinn er hann var á heimleið og kominn í sínar bæjardyr, hafnarmynnið, lenti hann í hernaðaraðgerðum verndara okkar, er þeir sendu kveðjur sínar með spúandi byssukjöftum. Og í þrjú skipti hefir m/b Léttir verið allnærri að fara sína síðustu ferð, og má þar tilnefna er hann slapp naumlega við að fara upp á Skelli, er bátinn rak vélvana, hálffullan af sjó, í náttmyrkri, stormi og haugasjó í gegnum Faxasundið. En þetta gæfufley stóðst alla raun og komst heilt til hafnar.
M/b Léttir hefir á löngum starfsferli marga óblíða kossa duttlungafullra ránardætra hlotið, og mörg stormhviðan hefir súðina strokið. M/b Léttir hefir einnig siglt á sléttum gæfubrautum hins vota vegar.
Já það er ósk að áfram og framvegis fylgi m/b Létti gæfa og velferð, svo hann geti orðið höfninni til heilla, og skili ætíð og ávallt öllu heilu í höfn.

Léttir eins og hann er í dag

Jón Í. Sigurðsson.