Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982/Eyjapeyjar í hringferð fyrir 10 árum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Eyjapeyjar í hringferð fyrir 10 árum


Núna í sumar verða tíu ár liðin síðan við fimm eyjapeyjar. Guðjón Jónsson á Látrum, Marinó Sigursteinsson, Ólafur Kristinn Tryggvason, Torfi Haraldsson og Kristinn R. Ólafsson skældumst á tveim gúmbátum kringum landið.
Af þessu tilefni hefur Sjómannadagsblaðið beðið undirritaðan landkrabba að segja lesendum frá þessari ferð og sent honum nokkur gulnuð moggarifrildi suðrí lönd að hann mætti dusta af rykföllnum minningum enda maðurinn ekki með það segulbandsminni sem einkennir íslenska sjálfsævisagnaritara.
En þar sem ómulegt er að endursegja alla ferðina hef ég brugðið á það ráð að draga út helstu púntana.
Það var miðvikudagskvöldið 14. júní, 1972, að við stigum um borð í blöðrurnar tvær og hófum skælinginn. Föðurlandið kítlaði kríka og lendar og á bryggjunni voru trillufrömuðir eins og Óli Gránz og Mangi Krumm.
Stefnan var nú tekin til austurs. Suðvestankaldinn stóð í bakið og púralens var á. Eyjarnar klæddust smátt og smátt í spjarir móðu og þykknis eftir því sem við stigum austur á bóginn og að tveim tímum liðnum drógu þær fyrir austurgluggann og slökktu hjá sér.

Sjósetning við Bœjarbryggjuna

Austur hjá Vík lágu nokkrir bátar í vari. Við renndum að hinu fræga skipi Gullborginni og spurðum kallana sem voru að lagfæra trollið um kaffikönnuna.

Fjarlœgst út í sumarnóttina og langur og erfiður áfangi framundan, c.a. 14 tíma ferð sitjandi svo til í sömu stellingu og vibra eins og á vibrator

Niðrí lúkar var kokkurinn að þurrka af kaffiföntunum en þulan í sjónvarpinu brosti breitt og bauð góða nótt.
Kaffið fór vel í maga og þegar við komum upp aftur notuðum við tækifærið og jukum magn Atlanshafsins.
Þegar við náðum Ingólfshöfða hafði sólin skotist uppfyrir fjöllin enda var klukkan fimm að morgni. Vind hafði lægt og sjórinn var sléttur. Hann var með sólskinsblettum sem við skutumst inní og útúr austur til Hafnar...
Neskaupstaður snemma morguns. Gaui á Látrum var kominn í föðurlandið enda fer hann aldrei á sjó nema í landi. Siglt útúr Norðfirði og snör ferð inná Mjóafjörð. Þoka á fjöllum.
Snati kom hlaupandi á móti okkur niðurá bryggju og fagnaði okkur með vinalátum. Nokkuð uppí hlíðinni stóð stórt hvítt hús. Þetta hlaut að vera hreppstjórabýlið Brekka þar sem Jón lóðs, Gauapabbi, hafði elt rollur sem stráklingur. Við gengum í halarófu upp túnið til að bæla ekki slægjuna um of. Snati elti.
Vilhjálmur Hjálmarsson, alþingismaður sat í stofu þegar við gengum í bæinn og hampaði barnabarni sínu ungu.
Og við hittum hann Pál hreppstjóra uppí herbergi þar sem hann hafði nýlokið bréfaskriftum. Hann var áttatíu og tveggja, lágur vexti, kankvís með hendur í vösum og landið í andlitinu:
-Nei, ég hef nú aldrei komið í land í Eyjum en ég hef siglt þarna framhjá. Þetta var svo mikið brölt að komast í land. Maður vildi ekki láta slaka sér í stroffu um borð í minni báta einsog hvurju öðru dóti - svona að nauðsynjalausu.

Frá Bakkafirði. Magnúsarhús og Perla t.h.

Í mynni Seyðisfjarðar táraðist þokan og það ýrði úr lofti. Mari beit á jaxlinn, reimaði hettuna og kreisti inngjöfina. Það stytti upp, Mari hætti að bíta á jaxlinn og við sigldum inn fjörðinn framhjá fyrirnegldum gluggum síldaráranna...
Meðalstór alda út Seyðisfjörð. Högg og pus og haldið sér. Svartaþoka í fjarðarkjaftinum, þykk einsog vellingur. Við urðum að sigla uppí landi og inná hverja krummavík til að týna ekki landinu sem við vorum að skælast kringum...
Héraðsflóinn. Tveggjatíma gallaveður. Sungið sér til hita. Gaui rak upp eitt þjóðhátíðarspangól. Óli Kristinn barði sér til hita en Torfi hélt myndavélarkassanum einsog brjóstmylkingi að barmi sér...
Bakkfirðingar áttu í okkur hvert bein. Það var einsog glataði sonurinn hefði nú loksins komið heim. Njáll trillukarl hellti í okkur kaffi en oddvitinn bauð okkur í mat. Svo urðum við veðurtepptir en það gerði ekkert til því að það var laugardagur og ball um kvöldið og miðnætursól yfir Langanesi...
Frá Húsavík lulluðum við útí Flatey á Skjálfanda. Við fengum kaffi og kríuegg hjá Gunnari Gunnarssyni sem þar dvaldist við æðardúnstínslu. Reynt að kíkja með öðru auganu eftir Grímsey og hinu líka en lítið sást svo að við fengum gefna upp stefnuna nokkurnveginn og sigldum á haf út. Eftir svona þriggja stundarfjórðunga siglingu sáum við móta fyrir Grímsey. Þeir voru að byrja að tínast að trillukallarnir og nóg að gera í fiskvinnslunni.

Á siglingu við Langanes

Alfreð Jónsson oddviti á Básum taldi að það hlyti að vera hægt að hola okkur einhversstaðar niður og hringdi í konu sína að biðja hana að vera tilbúna að taka við fimm eyjapeyjum.
Básar eru nyrsta byggð á Íslandi en norðurheimskautsbaugurinn liggur örfáa metra norðan við húsið.
Margt gott fólk hittum við í Grímsey. Til dæmis hann Sæmund sem var með svo stórar hendur að túkall var sagður geta dottið í gegnum giftingarhringinn hans. Gaui á Látrum sagði vá við þessa fregn enda með kristilega granna fingur.... Mb Árni ÓF hafði værar vélarstunur og lúsaðist til lands frá Grímsey. Hann var með gúmmítuðruna í eftirdragi en önnur af sama kyni lék sér á bárunni við hlið hans. Það hafði verið togað og rembst á ræsispottanum útí Grímsey en ekkert gekk - vélin á Litla Doj vildi alls ekki í gang. En þetta var nú ekki nema smápikkles, bleytuvask og engin furða þar sem hrærivélin hafði verið stöðugt í sjó í hálfan mánuð án þess að fá svo mikið sem „smókpásu" frá seltu og sudda. Við komum þessu í lag á Ólafsfirði.....

Leigubíllinn sem flutti draslið á Húsavík

Skoppað fyrir landi inná síldarbæinn heitna Siglufjörð. Þar varð tveggja daga landlega vegna dimmaþoku. Fórum út á öðrum degi en snérum aftur við Sauðanes enda sigldum við eftir vegakorti. Hann var eitthvað léttari næsta dag, þó hékk þokusvækja á fjöllunum. Spegill í sjóinn en ekki sást yfrá Skaga. Við vorum búnir að keyra um klukkutíma þegar sólin tók allt í einu uppá því að kíkja á okkur. Ekki gat þokan þó séð það í friði og laumaðist að okkur útá miðjum firði. Hvergi landsýn og ónýtur kompás um borð en sólin bjargaði málunum því að hún var einsog hvítur diskur uppí miðri þokunni. Svo birtist strönd og þarna vorum bæir. Hvalnes á Skaga. Kaffi og síðan keyrt norðurmeð. Matur og gisting á Hrauni.
Næsta morgun var rigning og þoka. Við sigldum útá Húnaflóa, misstum lands en þóttumst sigla eftir öldunni. Og hvernig sem á því stóð hittum við beint á Norðurfjörð einsog við höfðum ætlað okkur, eftir fjögurra tíma blindsiglingu....
Vitavörðurinn á Hornbjargi hefur sjálfsagt verið að malla kvöldmat þegar við sigldum þar framhjá í lemjandi rigningu. Um nóttina gistum við á eyðibýli í Hornvík. Undarleg aðkoma að þessum bæ. Hurðin var í hálfagátt, pottar á gastæki og engu líkara en sá sem þarna hafði dvalist hefði skroppið útí læk eftir vatni. Þetta kvöld lýstu þeir eftir okkur í útvarpinu þar sem ekkert hafði frést af okkur síðan við fórum frá Siglufirði. Sumir héldu að við hefðum alveg farið fyrir hornið og værum nú í Valhöllu því að auðvitað hefðum við fengið þar inni þótt vopndauðir værum vér eigi. Við fréttum af þessum útvarpsauglýsingum þegar við skriðum að á Ísafirði í hádeginu næsta dag...

Konur á Ísafirði létu hádegissoðninguna í pottana hjá sér um svipað leyti og við leystum springinn. Það var bjart að sjá um Djúpið en þó fór þoka gandreið um efstu hnjúka á Straumnesi og Jökulfjörðum. Fyrstu sólargeislarnir höfðu rétt hafið síkykt tipl sitt á öldunni þegar Óli Kristinn var orðinn ber að beltisstað og bringuhár bærðust sem sina í haustgjónu. Hann jós á sig sjó til að verða brúnn einsog sandlegufólk á Mæörku eða konur sem kúra í sóltjaldi bakvið hús í miðju íslensku sumri. En hvort sem það voru blaktandi bringuhár Óla eða nennuleysi sólarinnar þá stakk hún sér bakvið skúraský fyrir miðjum Dýrafirði og brúnkudraumar Tryggvasonar drukknuðu með fyrstu regndropunum sem duttu í hafið....
Þórður og Ásgeir á Látrum komu á móti okkur niðrí fjöru þegar við stikluðum þöruga steina uppá þurrt. Þeir buðu okkur heimá bæ. Kaffið var svart og svartfuglsegg höfð með. Ásgeir sýndi okkur stærstu haglabyssu á Íslandi. Faðir hans hafði keypt hana fjórum kýrverðum árið 1913. Hlaupið var einn og tíu en byssan vó tíu kíló. Mörg tófan hafði týnt lífinu fyrir skoti úr þessari kanónu: -Það var allt í lagi að skjóta henni tvisvar í röð en ef maður skaut henni þrisvar blánaði aflvöðvinn hérna á handleggnum á manni, sagði Ásgeir.

Kafteinn Guðmundur Kjœrnested bauð okkur í mat um borð í v.s. Ægi sem lá rétt fyrir utan Patreksfjörð

Vindla vildi Ásgeir gefa okkur í nesti og var alveg gáttaður á því að við skyldum ekki hafa með okkur brennivínstár í pela.- Það er alveg nauðsynlegt, strákar....

Barðaströndin breiddi úr sér með bæjum undir brekkunni og bændum í bólinu því að kvöldið hafði horfið inní nóttina þegar bátarnir kenndu loks grunns í ljósum sandi. Það var fjara en flæðurin læddist að landi í fölleitri nóttinni og gutlandi smáöldur bleyttu sandinn. Samtaka bárum við bátana uppfyrir fjöruborðið úr seilingu flæðarinnar. Kríur fældust uppaf eggjum sínum með gargi. Torfi tók svefnpokann sinn og hljóp uppí fjárhúshlöðu sem stóð í miðju túni og vildi ekki með okkur uppá bæ að biðja um kaffi og gistingu. Það keyrðu bílar með ljósum eftir þjóðveginum: ballfólk á heimleið frá Birkimel. Og meðan Torfi var mjög úr heimi hallur og lá á nástrám, breiddum við úr okkur í stofunni í Litlu-HIíð...

Það brast hátt í mótornum hjá Gaua á Látraprinsinum skammt frá pönnukökunni Flatey á Breiðafirði og pústið dó. Gaui kippti í gang aftur en járn skrölti við járn svo að hann drap á aftur.
Krúntappinn hafði brotnað og við urðum að senda bát og mótor landleiðis til Reykjavíkur nokkrum dögum síðar og halda ferðinni áfram einskipa...

Þröngt mega sáttir sitja og súpa. Tíu fætur ófust saman í undarlegan hnút þannig að hvað var hvurs var erfitt að sjá. Litli Doj hjó ölduna og slampaðist áfram framhjá Sandinum í krakkaldanum sem þó var heldur í bakið. Beygt til suðurs og veðrið beint á móti. Og vindurinn blés seltubragði uppí mann. Mari stýrimaður pírði augun og reyndi að verjast köldum suddanum sem leitaði í andlitið. Dropar héngu í hári hans sem fauk slyttublautt um ennið en lambhúshettan var orðin gegnvætt. Nokkrum ljósárum síðar birtist lygn Sandvík þar sem glóaldinrautt slysavarnaskýli blasti við. Þarna lentum við en þetta hét Dritvík.
Gaui fór í skýlistalstöðina og lét Reykjavíkur-radíó vita af okkur því að við höfðum verið settir inní tilkynningarskylduna eftir Hornvíkurvesenið.

Aðalmennirnir úr björgunarafrekinu við Látrabjarg, þeir Þórður Jónsson og Ásgeir Erlendsson vitavörður

Þar brast í kolum og vinalegt snarkið í kabyssunni gerði okkur syfjaða. Meðan við dvóldumst í draumaheimi lægði nokkuð og hann sneri sér úr suðaustan í suðvestan. Það var því ekki annað að gera en fara í gallana og leggja í 'ann til Akraness. Klukkan var rúmlega níu að kvöldi þegar mótorinn hóf upp raust sína aftur.
Þetta var dólferð á bátnum. Þungi okkar og bensínsins var svo mikill að hann náði sér ekki uppá neina ferð. Það voru leiðindi í sjóinn með bleytu.
Blá fjöll sáust þarna einhverstaðar handan flóans. Þau áttu líklega heima á Mýrunum en eitt fannst okkur endilega vera Akrafjall. Stefnan var tekin á það. Að baki okkar lyftist Snæfellsjökull hátt uppí loftið en við svifum ýmist upp eða niður á nöturlegum öldum sem ultu áfram á flótta sínum undan kaldanum. Bláu fjöllin hurfu inní dimmuna af skúrunum sem komu á fleygiferð á móti okkur og við misstum miðið okkar inní niðið...
En þarna rofaði þó aðeins til. Tvö fjöll sem bæði gátu verið Akrafjall stungu upp kollinum. -Það hlýtur að vera þetta sem er meira á bak. Finnst ykkur það ekki, peyjar? Jú, jú.
En það var sama hvað við keyrðum, aldrei virtist fjallið færast nær. Allt í einu sáum við þó ströndina blotna fyrir framan okkur og þarna voru nokkur einmana hús á lágu nesi.
Okkur tókst með herkjum að draga bátana uppfyrir flæðarmálið, orðnir krepptir af kulda. Klukkan var fimm að morgni og við búnir að vera sólarhring á ferðinni. Við gistum í mannlausu húsi þessa nótt en næsta dag hittum við fólk og þá kom í ljós að nesið var eyjan Hjörsey útaf Mýrunum en gengt er útí hana á fjöru...

Í Flatey á Breiðafirði
Á Bessastöðum

Reykjavík. Skriffinnar hafa verið að taka fyrstu blöðin uppúr skúffunni þegar við lögðum upp frá Akranesi og tókum stefnuna á Hallgrímskirkjuturn. Einum og hálfum tíma síðar náðum við að bryggju í höfuðborginni. Þar var Árni Johnsen mættur en hann var aðalumbinn okkar í Reykjavíkinni.
Um kvöldið bauð Mogginn okkur í mat á Naustinu en síðan var farið á ball í Klúbbnum.
Tveggja nátta stans í Reykjavík. Mótor fenginn að láni fyrir Látraprinsinn þannig að hægt yrði að sigla tvískipa síðasta spölinn til Eyja.... Óli Kristinn hélt á blómvendi þegar við renndum útúr höfninni í Reykjavík og héldum fyrir Seltjarnarnes. Bessastaðir böðuðust sólskini og flaggað var í heilastöng, líklega fyrir sólinni. Við lentum á Skansinum þar sem áður voru fallbyssur að skjóta úr. Gengið til bæja. -Hver ætlar að tala? Ég skal, sagði Óli, alveg svellkaldur.
Sunnudagssvipurinn heltók andlitið á Óla. Hann hringdi dyrabjöllunni. Við biðum. Ung þjónustustúlka opnaði. -Er, er forsetafrúin heima, spurði Óli og vafði vöndinn örmum einsog hann væri síðasta hálmstráið. -Andartak. Og svo komu bæði hjónin frammí gættina. Óli brosti, frúin brosti og Óli gaf henni vöndinn. Þau buðu okkur inn til að súpa kaffitár. Margt spjallað með kaffinu og við fórum ekki fyrr en eftir tæpa tvo tíma.
-Fínn kall, forsetinn, sagði Gaui um Ieið og hann dró á sig gallabrækurnar Eftir fjögurra tíma siglingu frá Grindavík sáum við ljósin á Stórhöfða bregða fyrir í næturgrámanum og stuttu síðar gátum við greint Eyjarnar.
Um þrjúleytið komum við að Hrauney þar sem Óli Gránz lá stundum í sólbaði með lundanum. Peyjarnir prjámuðust upp og ég reyndar líka með hjálp Gaua Eldeyjarfara. Kaffi og brandarar hjá Óla Gránz og Kela Hrauneyingum en síðan sofið til hádegis.
Og loksins, loksins, á þrítugasta og þriðja degi skælingsins náðum við heim aftur og fengum blóm frá Imbu.
Kristinn R. Ólafsson, Madríd. (uþb. 400 km frá sjó og í 650 metra hæð, þeas miklu hærra uppi en eyjasjómenn, nema á sjómannadaginn, náttúrulega).

Á leiðarenda