Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1981/Syrpa frá Árna á Eiðum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Syrpa frá Árna á Eiðum


Útgerð í Vestmannaeyjum árið 1930, stóð með miklum blóma. Á vertíð gengu 95 þilfarsbátar og 12-16 trillur. Það ár var íbúatala Eyjanna 3.575 (Aldarhvörf úr Eyjum). Árið 1932 hófst vertíð strax uppúr nýári, svo sem venja var. Ellefta janúar, dró til austanáttar og um miðjan dag var komið austan stórviðri, sem hélst frameftir nóttu. Laust eftir miðnætti 12. jan. heyrðust síendurtekin neyðarmerki frá skipi, sem lá vestan Eyjanna. Þrátt fyrir veðurofsann héldu tveir bátar úr höfn til hjálpar hinu nauðstadda skipi. Er að var komið reyndist það vera Breski togarinn „Black Prince" frá Grimsby er hafði umdæmisbókstafina CY nr. 218.

Togarinn hafði komið vestan að fullhlaðinn fiski og ætlaði hann að leita vars vestan Eyja fyrir austan ofviðrinu. Ekki tókst betur til en svo, að togarinn tók niðri á skeri. Losnaði hann fljótlega af skerinu en laskaðist svo að framskipið fylltist af sjó. Bátsverjar gátu gefið togaranum merki um að reyna að komast undir Eiðið og leggjast í var. Tókst það eftir langan barning og lagðist togarinn þar við festar.
Um morguninn lægði og komu þá tveir breskir togarar Black Prince til aðstoðar og hugðust draga hann til hafnar. En nú skeður eitt óhappið enn, dráttartaugin slitnaði og bar togarann upp á Eiðið. Skipverjar 13 talsins björguðust í nærstaddan bát. Allar tilraunir til að ná skipinu út báru engan árangur og brimið sá svo um að brjóta skipið niður.
Ég man vel eftir því (þá 6 ára gamall) er ég kom inná Eiði, og sá togarann fast uppi í fjöruborði standa kjölréttann með stefnið að landi. Nokkur brimsúgur var þennan dag, og réri togarinn fram og aftur og fylgdi hávaði er botninn urgaði við fjörugrjótið.
Smátt og smátt, vann brimið á togaranum þar til hann hvarf með öllu.

3ja mars 1946, strandaði togarinn „Starof the East" frá Aberdeen, 218 brl. að stærð. Togarinn strandaði í Klauf, eftir að hafa steytt á skerjunum á Víkinni norðan Stórhöfða. Skipverjar björguðust allir um borð í annan enskan togara, en voru síðan teknir um borð í varðbátinn Óðinn, sem flutti þá til Eyja. Togarinn varð til þama, en lengi mátti sjá ketilinn uppi á sjávarkampi. Mig minnir að ketillinn hafi svo verið fluttur í fiskimjöls-verksmiðjuna. Strand þetta þótti óvenjulegt, því veður var ekki slæmt.

M/b Snorri Goði að koma úr róðri vertíðina 1940. Snorri Goði var 24,62 brl. að stærð, og voru eigendur Gunnar Ólafsson og co. Seinna keyptu Óskar Ólafsson frá Garðstöðum og Einar Sigurjónsson bátinn, og skírðu hann Sigurfara Ve. 138. Sigurfara rak upp í Hellugrjóti eftir að óstöðvandi leki hafði komið að bátnum 13. apríl 1951. Austan stórviðri geysaði þann dag og lágu flestir bátar undir Eiðinu um nóttina. Áhöfnin komst um borð í m/b Ver Ve. 118, skipstj. Jón Guðmundsson frá Goðalandi.

Frá Básaskersbryggju að lokinni vetrarvertíð. Fremst má sjá m/b Vonina Ve. 279, sem var í eigu feðganna frá Holti. Vonin var 26 brl. byggð í Noregi 1919, en keypt til Eyja 1928. Aftan við Vonina er svo m/b Sæbjörg, þar fyrir aftan næst bryggjunni (svarti báturinn) held ég að sé m/b Óskar, sem Guðmundur í Viðey átti.

M/b Helgi Ve. 333, var 114 brl. og smíðaður í Vestmannaeyjum á árunum 1936-1939, en smíðinni lauk þá um vorið. Helgi var smíðaður eftir líkani og fyrirsögn hinns kunna skipasmiðs Gunnars Marel Jónssonar. Helgi var stærsti bátur, sem smíðaður hafði verið hér innanlands á þeim tíma. Helgi reyndist afburða sjóskip, ekki hvað síst undir farmi. Þeir voru ófáir uggarnir, sem skipið bar á borð Englendinga á stríðsárunum, sem frægt var.
Fyrsti skipstjóri var Ásmundur Friðriksson frá Löndum.

Við Básaskersbryggju: Til vinstri er m/b Halkion Ve. 205 14,08 brl. Formaður hinn kunni aflamaður Stefán Guðlaugsson frá Gerði. Þar fyrir aftan er m/s Laxfoss, sem sigldi milli R.víkur og Eyja. Laxfoss bar beinin á Kjalarnestöngum.

M/b Óðinn Ve. 117 að leggja að bryggju. Góðir aflamenn voru ávallt með Óðinn. Guðjón Jónsson frá Heiði, Karl Guðmundsson frá Reykholti og Ólafur Ísleifsson frá Miðgarði.

Hrófin og lækurinn á kyrru sumarkvöldi, miðpunktur athafnalífsins fyrr á árum.

Það var fastur liður fyrr á árum, að íþróttafélögin efndu til kappróðurs, fyrir hádegi Þjóðhátíðardags. Róið var frá Klettsnefi og innfyrir leið, var það oft hin mesta þrekraun, þegar vindur blés á móti, enda leiðin löng.