Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1981/Sæskuðin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sæskuðin


Það hafði verið óþverraveður í þrjá sólarhringa og enginn bátur komist á sjó. Suðaustanáttin hafði barið vindhraðamælinn á Stórhöfða af þvílíkum krafti að gárungarnir höfðu slegið því fram í gríni, að nú ætti að fara að byggja utan um hann skjólgarð svo að hann fyki ekki út í buskann.
Sævar gamli skipstjóri á Sæskuðinni hafði farið niður á bryggju oft á dag til að huga að spottunum. Ekki þurfti að reikna með sjóveðri því hávaðinn í veðrinu var slíkur að engum hefði dottið í hug að reyna að róa. Enda létu flestir hinna skipstjóranna sér nægja að rölta fram í eldhús á morgnanna og fá sér í eina pípu og kaffisopa og hlusta smá stund á veðurgnýinn áður en þeir skriðu uppí til kerlinganna sinna aftur.
Eitt sinn hafði það komið til tals á bryggjusporðinum, hvað Sævar gamli væri iðinn við að huga að báti sínum í brælum. Þá hafði Gunnsi á Árntý komið með þá skýringu að Sævar gamli heyrði aldrei veðurgný fyrr en hann væri kominn niður á bryggju, vegna þess að Sigga gamla hryti svo hátt.
Það var slæmt að eiga netin úti í slíku veðri, en við þessu var ekkert að gera annað en að sýna æðruleysi og bíða þess að veðrið gengi niður.
Á verbúðunum hafði verið gleði og glaumur alla inniveruna. það var ekki að sjá á strákunum að þeir væru neitt áhyggjufullir yfir þessum látum í veðrinu. Þeir höfðu samt fylgst vel með veðurspánni undanfarið og jafnan lifnaði yfir liðinu þegar þulurinn hafði tilkynnt að ekki væri lát á veðrinu í bráð.
Síðan hafði verið farið í ríkið og gleðskapnum haldið áfram eftir því sem kraftar leyfðu. Svona var lífið, eins og þeir sögðu.
Um fjögurleytið þrammaði Sævar gamli þungstígur uppá verbúðir. Þegar hann kom að hurðinni á herbergi sem strákarnir hans höfðu, heyrði hann hávaða mikinn og fagnaðarlæti að innan. Hann opnaði hurðina og leit yfir herbergið. Ástandið var frekar óglæsilegt. Öskubakkarnir voru yfirfullir af sígarettustubbum fyrir löngu og var engu líkara en umframstubbarnir væru að reyna að leita að ruslafötunni á eigin spítur. Það hafði hellst niður úr nokkrum glösum á borðið og einhver hafði gert heiðarlega tilraun til að þurrka upp bleytuna með handklæði en gefist upp og skilið handklæðið eftir á borðinu innan um allt draslið.
Strákarnir hans voru allir staddir þarna og nokkrir aðrir að auki ásamt þremur stelpum sem „líklega höfðu skrópað í gagganum" hugsaði Sævar gamli.
Það datt allt í dúnalogn þegar Sævar gamli birtist í dyragættinni. Þulurinn í útvarpinu var að byrja að endurtaka veðurspána. „Gert er ráð fyrir stormi á suðvestur miðum," það var svipuð spá og undanfarna daga en lægðin var farin að hreyfast í norðaustur átt og var búist við að vindur snérist til suðvestanáttar með morgninum, 8 til 9 vindstig.
Allir hlustuðu þegjandi á spána nema Snúlli sem ekki hafði tekið eftir karlinum í dyragættinni. Hann steig dansspor á gólfinu og söng hástöfum eitthvað í þessum dúr: Ekki verður ræs, nú er það næs því ennþá blæs - Náum í meiri mjöð áður en þeir segja lok lok og læs í ríkinu". Síðan kippti hann einni stelpunni upp af dívaninum og knús kyssti hana á kinnina og bætti við „Nú höfum við stuð í kvöld, því ekki rær gamla greppitrýnið í nótt".
Það smádofnaði yfir Snúlla þegar hann tók eftir því hvað allir voru hljóðir.
Síðan snéri hann sér við og glápti smástund á Sævar gamla en sagði síðan grafalvarlegur „Helvítis ruddaskapur er þetta í þér maður að læðast svona að manni. Maður getur ekki orðið baktalað þig inni í sínu eigin herbergi lengur." Þetta bræddi ísinn. Strákamir skellihlógu og Sævar gamli glotti í skeggið.
Snúlli var venjulega fljótur að finna leiðir út úr öllu sínu klandri.
Sævar gamli settist og leit á strákana og sagði rólega „Ég held nú samt að gamla greppitrýnið rói í nótt". Hann tók upp pontuna og fékk sér í nefið í rólegheitum. „Ég hef það á tilfinningunni að veðrið sé að ganga niður og sú tilfinning hefur ekki oft brugðist mér".
Strákarnir litu hver á annan. Þeir vissu að þetta var rétt hjá karlinum. Hann var það sem kallað er, veðurglöggur maður.
Karlinn hélt áfram: „Nú ættuð þið að nota tímann að hreinsa hérna til og hvíla ykkur síðan, ég kem á fyrra fallinu og ræsi í nótt." Hann snéri sér síðan beint að Snúlla. „Þetta á við um þig líka ungi maður".
Snúlli greyið var ágætur. Hann var einn af þessum þrælhörðu peyjum sem ekkert beit á og alltaf léttur og góður skipsfélagi. En hann hafði einn slæman galla. Það var helst ekki hægt að vekja hann eftir fillerí. Nokkrum sinnum hafði Sævar gamli dröslað honum um borð og komið honum í koju. „Mér þætti vænt um það Snúlli minn ef þú svæfir um borð í nótt, ég er nefnilega farinn að þreytast í bakinu síðan þú byrjaðir hjá mér!" Strákarnir hlógu allir nema Snúlli. Hann skyldi sneiðina. „Það er allt í lagi Sævar" svaraði hann. „Ég skal sofa um borð, en ég hef það á tilfinningunni að ég verði ekki að draga netadruslurnar á morgun þrátt fyrir það að lægðin sé eitthvað í rénun í hausnum á þér. Þú hefur líklega rekið hann utaní þegar þú dattst frammúr í morgun, nema barómetið sé bara farið að tréna á herðunum á þér" Snúlli glotti framan í karlinn og peyjarnir kímdu.
Klukkan þrjú um nóttina datt veðrið niður. Sævar gamli hafði verið sannspár. Hann þrammaði niður á verbúðir og ræsti þar. Strákarnir tróðu sér í föðurlandið, bölvuðu heilsufarinu, veðrinu, þorstanum, kallinum og yfirleitt öllu sem þeim datt í hug.
Sævar gamli beið í brúarglugganum og taldi hausana þegar þeir komu. Það vantaði einn, Snúlla. Kallinn snaraði sér frammí og gáði í kojuna hans. Snúlli var ekki þar, en greinilegt var að hann hafði komið þarna, vegna þess að nokkrar kókflöskur lágu í kojunni og var ein þeirra tappalaus og innihaldið hafði runnið í sængurfötin, sem voru blaut.
Það fauk í Sævar gamla. Annars var það ólíkt Snúlla að renna af hólmi og fela sig þegar átti að róa. En allt er einu sinni fyrst og allar horfur voru á því að strákurinn væri á einhverju streddiríi einhversstaðar úti í bæ. Strákarnir sögðu að Snúlli hefði haldið áfram að djúsa eftir að kallinn hefði farið í gær og sífellt verið að tala um það að hann hefði þessa tilfinningu að hann yrði ekki að tosa í netadruslur í dag. Hann hafði síðan farið út um níuleytið, þegar hinir ætluðu að fara að sofa og sagst ætla að sofa um borð.
Sævar var í slæmu skapi. Það gekk illa að draga netin. Tvær trossur voru í flækju eftir bræluna og netin voru þvæld og illa farin. Og þessir fisktittir sem í þeim voru, voru ekkí beint glæsilegir, helfrosnir og roðlausir. Svo voru þeir líka einum of fáir og það hafði slæm áhrif á strákana sem voru skelþunnir, að vita af Snúlla einhversstaðar í landi í góðu yfirlæti.
Um kl. þrjú um daginn höfðu þeir afgreitt fimm trossur í sæmilegu veðri. Þeir höfðu verið einskipa fram undir hádegi, en þá höfðu hinir bátarnir farið að tínast út. Þeir voru flestir á annarri trossu þegar brældi aftur. Heldur hafði lifnað yfir karlinum. Hann var ánægður með að hafa getað hreinsað netin og komið þeim í lag.
Hann sagði strákunum að taka inn rúlluna og gera klárt á dekkinu. Þegar stýrimaðurinn kom upp í brú, lét hann hann taka við stjórninni og ætlaði síðan að fara að skrifa í skipsdagbókina.
Sævar gamli hafði verið í brúnni alveg frá því þeir fóru út um nóttina. Honum krossbrá þegar hann kveikti ljósið í klefanum sínum og heyrði kunnuglega rödd úr kojunni sinni: „Mikið helvíti er ég þyrstur, er langt í bauju?
Lýður Ægisson