Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1980/Minnisstætt úthald

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigurgeir Jónsson:


Minnistætt úthald


Á námsárum mínum í Reykjavík upp úr 1960 kom það stökum sinnum fyrir að litið var inn á öldurhús og klúbba ýmiss konar sem þar þrífast. Einn þessara klúbba var Ása-klúbburinn. Hann stóð við Tryggvagötuna gegnt bögglapóststofunni og var undir súð að verulegu leyti. Þarna hittust oft yfir glasi og spilum menn úr ýmsum stéttum þjóðfélagsins og var stéttaskipting óþekkt fyrirbæri á staðnum. Að nafninu til var klúbburinn rekinn sem meðlimaklúbbur, en svo var meðlimum heimilt að taka með sér gesti og vildi þá oft riðlast hverjir væru meðlimir og hverjir ekki. Helst er ég á að aldrei hafi verið til nein meðlimaskrá fyrir klúbb þennan.
Alla vega kom ég þarna í fyrsta sinn með kunningja mínum sem gestur og var eftir það ávallt hleypt inn orðalaust, hvort sem ég var einn á ferð eða með öðrum. Var sennilega kominn í meðlimatölu.
Klúbbur þessi var opinn alla daga vikunnar nema miðvikudaga, opnað kl. 4 á daginn og venjulega opinn til kl. 9 að kvöldi. Alla jafna var fátt þar um miðbik vikunnar en um helgar jókst aðsóknin verulega. Auk þess að sitja þarna og rabba saman, gátu menn spilað og teflt og hægt var að kaupa áfengi á staðnum á mun hóflegra verði en gerist á vínveitingahúsum. Þá var að sjálfsögðu hægt að fá þarna óáfenga drykki ef menn vildu það frekar.
Þetta var hinn notalegasti staður og andrúmsloftið ekki ósvipað og á enskri bjórkrá ef spilamennskunni er sleppt. En flestir munu hafa sótt staðinn til að spila og var ævinlega spilað upp á peninga. Svo til eingöngu var spilað bridge og kasion og var bitin mismunandi há en aldrei um verulegar fjárhæðir að ræða. Svo virtist sem menn spiluðu þarna frekar ánægjunnar vegna en peninganna.
Fyrir kom að maður greip í spil, en þar sem fjárráð skólamanna eru yfirleitt frekar takmörkuð, var í flestum tilvikum látið nægja að fylgjast með spilamennsku annarra. Mikill fjöldi góðra bridgespilara sótti þennan stað og var oft ánægjulegt að horfa á þá sýna snilli sína.
Einhverju sinni að vorlagi í miðjum prófum, ákvað ég á laugardagseftirmiðdegi að hvíla hugann frá skræðunum og rölta niður í Tryggvagötu. Þar var allmargt gesta og sátu flestir við spil að vanda. Við eitt spilaborðið sátu fjórir menn og kannaðist ég lítillega við tvo þeirra, en hina tvo hafði ég ekki áður séð. Þeir spiluðu bridge.
Ég tyllti mér niður og fylgdist nokkra stund með spilunum. Ég sat aftan við annan hinna nýkomnu, háan og þrekinn ljóshærðan mann um þrítugt sem bauð af sér góðan þokka. Hann spilaði mjög vel og í síðasta spilinu kom hann alslemmu í hús á einhvern yfirnáttúrulegan hátt.
Spilin voru síðan lögð til hliðar og farið að ræða saman. Í ljós kom að sá ljóshærði var Húsvíkingur að ætt og uppruna og raunar töluvert loft í honum. Hann sagðist heita Steinþór og voru þeir félagar að halda upp á vertíðarlok. Þá sagði hann mér að hann myndi á komandi sumri verða með humarbát frá Hafnarfirði. Af forvitni spurði ég, hvort hann væri búinn að ráða mannskap því mig vantaði pláss þetta sumar. Hann tjáði mér að sig vantaði vélstjóra og eftir nokkra umhugsun sagði ég að ég hefði slík réttindi. Steinþór Húsvíkingur rétti sig upp í sætinu og spurði hvort hann mætti jafnvel hafa samband við mig eftir nokkra daga. Ég kvað ekkert því til fyrirstöðu, en tók fram að vel gæti farið svo að ég myndi frekar vilja róa heima í Eyjum. En hann fékk uppgefið nafn og heimilisfang og síma og þar með skildu leiðir í bili.
Svo var það daginn sem síðasta prófið var tekið í skólanum að hringt var til mín. Í símanum var Steinþór Þorvaldsson og spurði hvort ég yrði með sér í sumar. Ég sagði að mig langaði til að líta á skipið og vélabúnaðinn áður en ég gæfi svar, því fram til þessa hefði ég aðeins verið 2. vélstjóri og væri því langt frá því að vera fullnuma í vélfræðinni.

Hal í og streð!

Og það var ekkert því til fyrirstöðu. Eftir klukkutíma var Steinþór kominn á bíl og var ekið niður á Granda þar sem skipið lá. Þá kom í ljós að báturinn kom ekki ókunnuglega fyrir sjónir. Hér var kominn gamli Reynir úr Vestmannaeyjum sem þeir höfðu átt Páll og Júlíus Ingibergssynir, 50 tonna Svíþjóðarbátur og hét ennþá Reynir, en var nú með nýju skráningarnúmeri BA 66. Með í för þessari var vélstjórinn sem hafði verið um borð á nýlokinni vertíð og var ég feginn því. Það var gamall maður og góðlegur sem var að enda sína sjómennskutíð, enda kominn yfir sjötugt. Hann lauk miklu lofsorði á kramið um borð þó svo það væri komið til ára sinna og staðhæfði að ég yrði ekki svikinn af vélinni.
Og niðri í þröngu vélarrúminu gaf á að líta. Upprunalega vélin var raunar enn í bátnum, tveggja strokka Hundested sem búið var að breyta í svokallaðan semi-diesel, þannig að glóðarhausarnir höfðu verið fjarlægðir og gangsett með sígarettum úr blöndu af brennisteini og fosfór sem var kveikt í og stungið ofaní toppstykkiö áður en skotið var á.
Sá gamli sýndi mér handtökin við gangsetninguna og voru þar mörg nákvæmnisatriðin sem kunna þurfti skil á. Til dæmis átti rokkurinn það til að snúast öfugt ef loftið var haft of lengi á og var þá um tvennt að velja, annaðhvort að drepa á og byrja upp á nýtt eða að manúvera með olíudælunni þar til vélin tók réttan snúning. Oft enduðu slíkar manúveringar með því að vélin drap á sér. Ekki var lyktin af sígarettunum heldur pargóð og loftið niðri mettað af brennisteinsfnyk lengi eftir að búið var að setja í gang. Þá áttu sígaretturnar það líka til að drepa í sér eftir að búið var að koma þeim fyrir og kostaði það að vélinn gekk aðeins á öðrum strokknum. Fór reyndar stundum í gang á hinum eftir nokkurn tíma með ægilegum fyrirgangi og reyk, en algengara var að drepa þyrfti á og byrja upp á nýtt.
Þá var svinghjólið eitt heljarmikið bákn og þurfti talsvert afl til að snúa því. Fyrir kom að það fór sjálft af stað áður en skotið var á og var því vissara að hafa 2. vélstjóra niðri til að halda við hjólið.
Ljósavélin var einnig sú upprunalega, af Bukh-gerð, einn strokkur, sömuleiðis gangsett með sígarettu og afskaplega kraftlítil. Til dæmis dugði hún ekki til að halda uppi fullri spennu á radar og siglingaljósum samtímis, en til bóta var að við aðalvélina var kraftmikill dynamór. Sá var drifinn með langri mikilli reim frá svinghjólinu. Var reimin samsett með lás og bilaði lásinn að jafnaði einu sinni til tvisvar í hverjum túr. En meginhlutverk ljósavélarinnar var að sjá um lensingu og smúl og til þeirra hluta var hún ágæt.
Og sá varð endirinn á þessari skoðunarferð að ákveðið var að ég réðist um borð sem vélameistari yfir sumarið. Fljótlega var byrjað á skveringu og var sýnt að nokkur bið yrði á að hægt yrði að hefja veiðar þar sem skipta átti um spilkerfi í bátnum. Verktakinn sem sjá átti um það ver ekkert að flýta sér að hlutunum og var mannskapurinn satt að segja orðinn óþolinmóður að því lyki. Enda fór svo að ekki var hægt að byrja úthaldið fyrr en í lok júní eða tæpum mánuði seinna en fyrirhugað hafði verið. Sá er sjá átti um niðursetninguna á spilinu var lítill karl, ævinlega kolsvartur í framan af olíu og öðrum skít, þótti gott í staupinu, en var víkingur til vinnu þegar hann var byrjaður. Enda fór ekki að ganga undan fyrr en hann mætti sjálfur til starfa. Það var á mánudegi sem átti að tappa glussanum á og prófa kramið og ekki fór á milli mála hvað sá litli hafði verið að bardúsa um helgina, enda bar hann sig heldur aumlega, stundi mikið og þambaði vatn. Ég var frammi á og sneri rótornum í spilinu til að tappa loftinu af, en karlinn var hlaupandi um allt skip til að fylgjast með að allt færi rétt og vel fram. Svo fannst honum ekki nógu vel ganga að tappa loftinu af, kom þjótandi fram á og kíkti niður um loftgatið til að sjá hvernig gengi. Þá gat ég ekki stillt mig um að gefa rótornum aðeins meiri ferð og andlitið á karlinum hvarf í gosbrunn af glussaolíu. Ekki reiddist hann við þetta tiltæki, hefur sjálfsagt haldið það vera óviljaverk. Og verkinu tókst að ljúka, þó var ekki hægt að setja bómusvingið á, annað hvort hefur fjármagnið til skveringanna verið uppurið eða þá að útgerðarmaðurinn hefur verið orðinn langeygur eftir að koma skipinu af stað.

Og eins gott að þetta dót sé í lagi.

Þá virtist svo sem fjárhagur útgerðarinnar væri ekki sem traustastur, var þó útgerðarmaðurinn hið mesta ljúfmenni sem allra vanda vildi leysa. Ekki leist okkur á blikuna þegar veiðarfærið birtist á bryggjunni einn góðan veðurdaginn. Þau humartroll sem ég var vanur heiman úr Vestmannaeyjum voru fagurrauð á lit en hér var kominn kolsvartur forngripur vestan af fjörðum. Útgerðarmaðurinn lét þau orð falla að við yrðum að reyna að nota þetta, annað væri ekki að hafa og varatroll væri ekki til svo eins gott væri að rífa ekki mjög þjösnalega.
Eftir allnákvæma athugun og mælingar taldist þeim Steinþóri og stýrimanninum, Smára Hákonarsyni frá Reykjavík svo til að trollið væri rétt og hlyti að vera hægt að fiska í það, þótt ekki væri það ýkja traustvekjandi.
Og þennan garm notuðum við allt sumarið og fiskuðum ekki lakar en aðrir. Þá kom í ljós að ekki var til þess ætlast að veiðarfærinu væri hent í land til viðgerða og máttum við sjálfir annast allar viðgerðir á því.
Eins og áður er getið var báturinn gerður út frá Hafnarfirði, lagt upp hjá bæjarútgerðinni þar og öll fjárhagsleg fyrirgreiðsla gegnum skrifstofuna þar. Aðalveiðisvæðin voru við Eldey og stöku sinnum farið vestur að Jökli. Ekki þurfti að slíta humarinn og var hann aðeins þveginn og síðan ísaður beint niður í lest. Alltaf var eitthvað með af fiski og var gert að honum og hann síðan ísaður á venjulegan hátt.
Allt sumarið voru eilíf vandamál með kokk. Ég held að það hafi verið ráðin heil togaraskipshöfn af kokkum þessa tvo mánuði sem við vorum að, alla vega hélst okkur afskaplega illa á þeim. Sá sem upphaflega hafði verið ráðinn, stakk af þegar honum fannst seinagangurinn í skveringunni ganga úr hófi fram og réði sig á skakbát. Sá sem þá tók við var æði dularfullur og fyrsti kostlistinn hans hljóðaði upp á 75 vínarbrauð og þrjár dósir af fiskbúðingi og átti þetta að vera fæði fyrir fimm menn í þrjá daga. Ég veit ekki hvort þessi ágæti piltur hefur átt ættir að rekja austur til Gyðingalands, þar sem sagt er að maður nokkur hafi mettað mikinn fjölda manns með örfáum brauðum og fiskmeti, alla vega þorðum við ekki að treysta á yfirnáttúrulega hæfileika hans og bættum við á listann því sem okkur þótti á vanta. Ekki varð þessi langlífur um borð og hætti að afloknum fyrsta túr. Síðan kom hver af öðrum og var ekki fyrr en úthaldinu var að ljúka að almennilegur matsveinn kom um borð, lærður í matreiðslu og framleiðslu, prúður og geðþekkur maður Guðjón að nafni og hefur verið starfandi þjónn á fjölmörgum veitingahúsum.
Mörg skemmtileg atvik komu fyrir þetta sumar. Við Eldey eru svokallaðir „pyttir“ sem reynt er að sneiða hjá á toginu og eru í pyttum þessum ýmsar leiðindaskepnur. T.d. var þarna ígulkerjapyttur, öðuskeljapyttur og kúskefjapyttur. Það brást ekki að trollið var hálffullt af þessum ófögnuði ef komið var of nærri pyttinum og kostaði oft mikið bras að ná inn pokanum vegna þyngsla. Eitt sinn lentum við í kúskeljapytti og kom í ljós að líklega hafa verið einir tveir til þrír pokar af kúskel í halinu. Gilsinn slitnaði fljótlega þegar reynt var að ná pokanum upp og var þá bómunni slegið út og híft með henni. Tókst að ná pokanum nokkuð ofarlega á síðuna en lengra þorðum við ekki að hífa þar sem bóman var farin að svigna ískyggilega. Stýrimaðurinn stóð með haka úti á lunningu og reyndi að losa um pokahnútinn en varð lítið ágengt. Sem nærri má geta var míkill halli á bátnum undan öllum þyngslunum og lá við að vatnaði yfir lunninguna. Kallinn sá að þetta gengi ekki og kom hlaupandi að aftan með aðgerðarhníf og risti þvert á pokann. þannig að allt gomsaðist úr honum. Við þetta rétti báturinn sig með snöggri sveiflu og stýrimaðurinn sem var þessu alls óviðbúinn, slöngvaðist eina sjö eða átta faðma út í sjó þar sem hann lenti með miklum gusugangi. Sem betur fer var hann vel syndur og svamlaði að síðunni. En þá voru allir svo lamaðir af hlátri að ekki ætlaði að takast að ná honum um borð aftur. Mér hefur oft komið þetta heljarstökk stýrimannsins í hug þegar ég hef séð sundmenn stinga sér af stökkbretti.
Þá gerðist það eitt sinn, þegar við vorum að taka inn trollið í leiðindaveðri að snörlan slitnaði. Við notuðum gilsinn til að ná inn trollinu og síðan var ákveðið að bíða þar til lægði. Kallinn fór í koju og sagði okkur að bíða með að þræða snörluna í þar til búið væri að láta trollið fara aftur.

Greinarhöfundur í góðum félagsskap á sjómannadag.

Þegar þetta gerðist var með okkur sem háseti ákaflega litríkur persónuleiki, þekktur popp og jasssöngvari og sérkennilegur á margan hátt. Nú kom þeim saman um það honum og kokkinum að ekki væri eftir neinu að bíða með að ganga frá snörlunni og mun betra að fá að skríða beint í koju þegar búið væri að láta það fara á ný. Við hinir sögðum þá skyldu fá að ráða því og fórum fram í og fengum okkur kaffi. Við heyrðum að spilið var sett á og eftir stutta stund heyrðum við hin ægilegustu neyðaróp uppi á dekki. Ég sat nær stiganum og var á undan upp. Og þegar ég kom í lúkarskappann sá ég sjón sem sennilega líður mér seint úr minni. Þeir félagar höfðu fundið það snjallræði til að koma snörlunni í gegnum blökkina í bómunni, að söngvarinn fór upp í löndunarmálið með snörluna og síðan hafði kokkurinn híft málið upp í blökk. Það hafði gengið að óskum og snarlan var komin á sinn stað. En það var niðurferðin sem ekki gekk eins vel. Matsveinninn var óvanur að eiga við hífingar á spili og þegar við bættist að nokkuð þung alda var, hafði allt farið úr skorðum. Og nú sveiflaðist málið lunninga á milli miðja vegu milli dekks og bómu og matsveinninn þorði ekki fyrir sitt litla líf að fíra niður. Öskrin sem við höfðum heyrt komu úr barka söngvarans í löndunarmálinu. Aðeins sást í andlit hans upp fyrir barmana og var það kríthvítt af angist. Við hvert sving sem málið tók út að lunningu kom nýtt öskur. Auðvitað urðu fyrstu viðbrögðin hjá okkur sem upp komum, óstöðvandi hlátur. Kallinn var kominn út í glugga á stýrishúsinu og gat sig hvergi hreyft fyrir hlátri. Ég ýtti matsveininum sem stóð stjarfur við spilið frá og hífði málið aftur upp í blökk. Þegar rétt stóð á róli fírði ég því niður á lúguna og þar lenti það með skelli og viðeigandi ópi söngvarans. Skjálfandi á beinunum og náfölur af skelfingu skreið hann upp úr og fór síðan beint í koju. Ég þori að ábyrgjast að þennan leik hefur hann ekki leikið framar.
Tvívegis kviknaði í hjá okkur þetta sumar. Í fyrra skiptið frammi í lúkar út frá eldavélinni og var sá eldur fljótslökktur. í seinna skiptið munaði litlu að illa færi. Ljósavélin var í gangi og neistaði mikið út um púströrið. Ástæðan var sú að sót hafði safnast fyrir í rörinu og kviknað í því. Ég ákvað að láta hana sóta sig út í rólegheitum enda var venjan sú að láta hana sjálfa um hreinsun á sóti. En það virtist vera óvenjumikið af sóti í rörinu að þessu sinni og eftir stutta stund æpti kallinn í mig að það væri kviknað í vélarrúminu. Púströrið sem lá rétt við stigann í vélarrúminu hafði hitnað svo hressilega að kviknað var í þilinu. Tvö slökkvitæki voru í stýrishúsinu og reyndust bæði óvirk þegar til átti að taka. Sömu sögu var að segja um slökkvitækið í káetunni. Til að setja smúlinn á þurfti að fara niður í vél og það var ekki beint ákjósanlegt eins og á stóð með logana upp úr stigagatinu. Eftir tvær fötur af sjó niður um opið varð okkur ljóst að slíkt slökkvistarf kæmi ekki að notum og annað hvort var að láta bátinn fuðra upp eða freista þess að komast niður. Og ég lét mig súrra niður í eldinn. Hóstandi og stynjandi kom ég niður á gólfið og kraflaði mig að smúldælunni. Eitt andartak skaut þeirri hugmynd upp í kollinn á mér hvað ég ætti til bragðs að taka ef smúldælan væri óvirk. Ég hefði ekki viljað fara sömu leið til baka að óbreyttu því heldur magnaðist eldurinn en hitt. En dælan brást ekki og eftir örskamma stund stakk kallinn slönguendanum gegnum kýraugað á keisnum. Það var ekki lengi gert að slökkva eldinn með nóg af sjó milli handanna en heldur var vélarrúmið óhrjálegt eftir þessa meðferð og eins var vélstjórinn svartur og sviðinn þegar hann skreið upp að slökkvistarfi loknu. Ég mun alltaf minnast þessa atviks með hálfgerðum hrolli, það er sérkennilegt að vera lokaður niðri með þessum hætti og eiga allt sitt undir einni dælu.
Við skiptum venjulega með okkur verkum í löndun þannig að kallinn var á spilinu, stýrimaðurinn uppi á bíl, kokkur eða háseti á lúgunni og við vélstjórarnir fórum í lestina vopnaðir kvíslum og mokuðum krabbanum í línubala. Þar sem lestarlúgan var afskaplega lítil var ekki með góðu móti hægt að hífa nema einn bala í einu. Á hinum bátunum hífðu þeir venjulega fjóra bala í einu og hefði því átt að ganga betur hjá þeim. En svo fór þrátt fyrir þessa annmarka að við slógum hinum ævinlega við í löndun. Það sem einkum gerði þetta mögulegt var, að kallinn var einhver besti spilmaður sem ég hef nokkurn tíma kynnst. Alltaf var spilið á fullri ferð sama hvort verið var að hífa eða slaka og þegar það er einnig athugað að ekkert bómusving var á bátnum, heldur gamla gertafyrirkomulagið, má það teljast með ólíkindum að við skyldum alltaf vera á undan hinum sem voru með allan útbúnað í lagi. Það þótti líka hin besta skemmtun á bryggjunni í Hafnarfirði að fylgjast með löndun á Reyni, þótt stundum væri haft á orði að ekki væri öryggið alltaf í fyrirrúmi.
Þá kom það fyrir ef helgarfrí var forút, að byrjað var að senda kokkinn í bæinn eftir hjartastyrkjandi áður en löndun hófst og var ævinlega sami mjöður notaður til þeirra þarfa, SilverFox-púrtari. Þótti oft eins og spilið fengi einhvern extrakraft þegar búið var að innbyrða skammt af þessum ágæta löndunardrykk.
Eins og áður er sagt sá Bæjarútgerðin um alla fyrirgreiðslu okkar og fengum við greiddar tvöþúsund krónur hálfsmánaðarlega því á þeim tíma var ekki orðið til siðs að leggja fé inn á bankabækur. Gátum við labbað á skrifstofuna og sótt aurana okkar á föstudögum að aflokinni löndun og var það oftast auðsótt mál.
Einhverju sinni vildi svo til að lokinni löndun að ég tók eftir að allt loft hafði lekið af loftkútnum. Ástæðan var sú að komið var tæringargat á loftleiðslu. Nokkurt bras var að losa um leiðsluna og síðan rölti ég með hana upp í smiðju. Ekki var auðsótt mál að fá soðið í gatið enda fór það orðspor af útgerðinni að hún væri nokkuð skuldseig. Þó tókst eftir miklar fortölur að fá verkið unnið og var leiðslan einnig þrýstiprófuð með þeim árangri að tvö göt til viðbótar komu í ljós og var einnig soðið í þau. Ég rölti síðan sömu leið til baka og tengdi leiðsluna við að nýju. Og þá kom í ljós að enn eitt gat var á leiðslunni. Mér þótti nú einsýnt um að treysta mætti þessari leiðslu, svo að hún var enn rifin frá, haldið með hana upp á verkstæðið á nýjan leik og beðið um nýja leiðslu. Eftir ein tvö símtöl við ábyrga aðila var leyfið veitt og ný leiðsla útbúin eftir þeirri gömlu. Og enn á ný var leiðslan tengd við og reyndist nú vera í lagi. Þetta var búið að taka drjúgan tíma og hafði vélstjórinn ætlað sér allt aðra og skemmtilegri hluti þennan föstudagseftirmiðdag í rjómablíðu en að kúldrast niður í vél í viðgerðum. Svo varð mér litið á klukkuna og sá að hún var að verða fimm, en skrifstofunni var einmitt lokað á þeim tíma og ég átti eftir að sækja aurana. Ég eyddi ekki tíma í að þvo af mér óhreinindin heldur þaut eins og ég var staddur, svartur og kolkrímóttur í framan upp bryggjuna og inn á skrifstofuna. Ég tjáði afgreiðslustúlkunni að ég væri kominn til að sækja skammtinn minn. Hún var hálf vandræðaleg á svipinn og sagði að því miður væru engir peningar til, búið væri að borga alla þá peninga sem í kassanum væru. Ég var ekki alveg á því að láta mér þessi svör nægja, framundan var helgarfrí og búið að planleggja ýmsa hluti og þeir hlutir urðu ekki framkvæmdir án peninga. Ég bað um að fá að tala við skrifstofustjórann og eftir stutta stund kom hann fram á skrifstofuna. Hann staðfesti það sem stúlkan hafði sagt, því miður væru engir peningar til. Hefði ég verið svolítið fyrr á ferðinni, hefði þetta verið í lagi en nú væri það of seint. Ég var orðinn fokreiður og lét manninn hafa álit mitt á fyrirtækinu umbúðalaust og með óprenthæfu orðbragði. Hann reiddist á móti og rifrildið jókst orð af orði þar til við stóðum hvor framan í öðrum með steytta hnefa. Til þess að gefa orðum mínum frekari áherslu, lamdi ég í afgreiðsluborðið og vildi þá ekki betur til en svo, að blómavasi sem stóð á borðinu tökst á loft og endaði í þúsund molum á gólfinu. Þá taldi ég ekki rétt að hafa lengri viðdvöl á staðnum og stikaði út og skellti á eftir mér svo allt nötraði og skalf. Ég hélt um borð, fór fram í og fékk mér kaffi, ennþá saltvondur. Búið að eyðileggja helgina og ég hugsaði talsvert um að hirða pjönkur mínar og finna annað pláss. Að stundu liðinni heyrðist fótatak í stiganum. Það var Steinþór og brosti breitt.

„Full speed ahead“

- Varstu að gera þeim lífið leitt á kontórnum, spurði hann.
Ég sagði það rétt vera og væri þeim ekki nema mátulegt.
- Hann sagði mér frá því skrifstofustjórinn - hélt Steinþór áfram.
- Hann sagðist ekki hafa fyrirhitt jafn snarvitlausan mann og þennan Vestmannaeying - Ég hafði fá orð um það og bað Bæjarútgerðina og forystumenn hennar aldrei þrífast.
Steinþór glotti við tönn og dró tvo bláa seðla upp úr brjóstvasanum.
- Hann bað að heilsa þér skrifstofustjórinn -, sagði hann brosandi.
- Honum fannst ekki annað hægt en að redda þér eftir fyrirlesturinn sem þú hélst þarna upp frá. Svo bað hann þig að lemja ekki alveg svona fast í borðið næst þegar þú lætur sjá þig.
Mér rann reiðin á svipstundu enda ekki annað hægt. Helginni var bjargað og ekki annað hægt en að brosa að öllu saman. Og ekki kom það framar fyrir að vélstjórinn á Reyni fengi ekki kaupið sitt greitt með skilum. Raunar voru öll afskipti mín eftir þetta með hinum mestu ágætum við Bæjarútgerðina en alltaf þóttist ég sjá laumulegt bros á starfsliðinu þar þegar ég átti þangað erindi. Og aldrei var ég rukkaður um greiðslu fyrir blómavasann.
Mér mun alltaf verða þetta úthald minnisstætt, ekki fyrir það að nein aflamet væru slegin þar, heldur vegna skemmtilegra og sérstæðra atvika sem komu upp á, auk þess að kynnast skemmtilegum og góðum félögum. Þess minnist maður víst alltaf með hvað mestri ánægju.