Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/ Vertíðarspjall

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Vertíðarspjall

Vertíðina 1976 voru gerð út 62 fiskiskip frá Vestmannaeyjum. Af þessum skipum voru 40 undir 100 rúmlestum; 16 skip voru 100 — 200 rúmlestir og 6 voru stærri.

10 skipanna stunduðu loðnuveiðar, sum stuttan tíma. Loðnuskipin fóru svo öll á net, og sum reyndu botnvörpu undir vertíðarlokin. 27 skip, að meðtöldum togaranum Vestmannaey, veiddu eingöngu í botnvörpu, og 15 eingöngu í net. 2 litlir þilfarsbátar stunduðu handfæri og línu.

Á þessu ári kom fyrsta loðnan á land 16. janúar, og telja má að lokadagur loðnuvertíðar hafi verið 8. apríl. 76 skip stunduðu veiðarnar lengri eða skemmri tíma, á móti 107 skipum í fyrra.
Heildarloðnuaflinn nú varð 338.070 lestir á móti 462.230 lestum í fyrra. Í Vestmannaeyjum var nú landað 40.380 lestum, þ. e. tæpum 12% heildaraflans. Á árinu 1975 komu á land í Eyjum 76.464 lestir, eða um 16,5% heildaraflans þá.

Sigurður RE 4, aflahæsta skip á loðnuvertíðinni 1976. (Ljósm. Sigurgeir).
Góður afli á Rófunni 24. apríl s. l. (Ljósm.: Sigurgeir).

Hér vekur í fyrsta lagi athygli, hve miklu færri skip koma við sögu loðnuveiðanna nú en í fyrra.
Ástæðan er vafalaust sú, að smærri skipin hafa í stórum stíl dregið sig í hlé frá þessum veiðum, vegna versnandi afkomu; vegna lækkandi hráefnisverðs hefur yfirleitt ekki verið talinn nægilega tryggur rekstrargrundvöllur fyrir þau.

Í öðru lagi vekur hér athygli mjög lakari hlutur Vestmannaeyja í vinnslu heildaraflans, en verið hefur undanfarin ár. Skýringin er sú, að verkfallið, sem lagði niður veiðarnar í febrúar og fram í mars, stóð yfir einmitt á þeim tíma, sem gjöfulastur er Vestmannaeyjum í þessum efnum; þegar sjórinn kringum Eyjar er svartur af loðnu og þær þar af leiðandi eftirsóttasti löndunarstaðurinn.

Aflahæstu loðnuskipin voru þessi:
Sigðurður RE 4 .............13.363 lestir
Guðmundur RE 29.........11.264 lestir
Börkur NK 122...............10.607 lestir
Gísli Árni RE 375............10.514 lestir
Grindvíkingur GK 606.....10.104 lestir
Eldborg GK 13.................10.034 lestir

Aflahæstu Vestmannaeyjaskip voru þessi:
Gullberg.........6.823 lestir
Huginn...........5.555 lestir
Sæbjörg..........5.232 lestir
Ísleifur............4.456 lestir

Þegar aflaskýrsla loðnuskipanna er skoðuð, kemur í ljós, að nær undantekningalaust stendur veiðimagn hvers skips í beinu sambandi við stærð þess. Burðarmeiri skipin fiska meira en hin. Þannig var þetta líka einu sinni með síldveiðarnar, og þótti óþarfa svartsýni að ímynda sér breytingar þar á.

Útkoman á bolfiskveiðunum varð Vestmannaeyjum heldur hagstæðari en á vertíðinni 1975. Og þó að Eyjamenn hafi enn þóst merkja rýrnandi fiskigengd á miðum sínum, verður að telja fullvíst, að afrakstur vertíðarinnar, hvað aflabrögð snertir, hafi verið lakari víðast hvar í nágrannabyggðunum, en þó varð hér.

Á þessari vertíð bárust hér á land 22.433 lestir (21.342 lestir í fyrra). Aflinn skiptist þannig eftir veiðarfærum o. fl.

Net: 14.903 tonn = 66,5%
Botnvarpa: 6.038 tonn = 26,9%
Færi og lína: 113 tonn = 0,5%
Aðkomubátar: 455 tonn = 2,0%
BV. Vestm.ey 924 tonn = 4,1%

Til samanburðar frá 1975:
Net: 13.681 tonn = 64,1%
Botnvarpa: 5.920 tonn = 27,7%
Færi og lína: 65 tonn = 0,3%
Aðkomubátar: 292 tonn = 1,4%
Bv. Vestm.ey 1.383 tonn = 6,5%

Skipting aflans milli verkenda er þannig, miðað við óslægðan fisk:
Fiskiðjan hf 6.495,5 tonn = 29,0%
Ísfél. Vm. 6.440,8 tonn = 28,7%
Vinnslust. hf. 6.279,8 tonn = 28,0%
Eyjaberg 2.163,1 tonn = 9,6%
Hraðfrst. Vm. 1.053,8 tonn = 4,7%

Til samanburðar frá 1975:
Fiskiðjan hf 6.134 tonn = 28,7%
Ísfél. Vm. 7.617 tonn = 35,7%
Vinnslust. hf. 5.788 tonn = 27,1%
Eyjaberg 1.803 tonn = 8,5%
Hraðfrst. Vm. Engin starfsemi

Skrá yfir netabáta, sem öfluðu 600 tonna og meira:

1. Þórunn Sveinsd. VE 401 977 tonn
2. Surtsey VE 2 741 —
3. Heimaey VE 1 684 —
4. Leó VE 400 649 —
5. Kap II. VE 4 629 —
6. Danski Pétur VE 423 ... 608 —
7. Álsey VE 502 606 —
8. Dala Rafn VE 508 ... 603 —

Skrá yfir botnvörpubáta, sem öfluðu 300 tonn og meira:
1. Frár VE 78 444 tonn
2. Sigurbára VE 249 420 —
3. Björg VE 5 351 —
4. Baldur VE 24 325 —

Frár VE 78, aflahæsti trollbáturinn á vertíðinni, á leið til hafnar 7. mars s. l., með um 65 tonn af fiski. Til vinstri eru skipstjórarnir báðir. (Ljósm.: Sigurgeir).

Til að ræða gang vertíðarinnar, veðurfar, aflabrögð, afkomu útgerðar og framtíðarhorfur, og fleira í þeim dúr, höfum við fengið nokkra þekkta starfandi skipstjóra í flotanum, og auk þeirra tvo, sem komnir eru í land fyrir mörgum árum, en fylgjast af lifandi áhuga með öllu, sem gerist á þessum vettvangi. Hafa verður í huga að viðtölin fóru fram nokkrum dögum fyrir lok.

Hér fer á eftir það, sem þeir höfðu að segja:

Einar Guðmundsson

Einar Guðmundsson á Fiskiðjuvigtinni:

— Ég tel, að þetta sé með allélegustu vertíðum, sem hafa verið hérna, vegna ógæfta. Hér hefur verið svo hörð veðrátta svo að segja í allan vetur og mjög erfitt að sækja.
Sama ótíðin hefur verið hér síðan í desember, og þetta lagaðist ekki fyrr en undir sumarmál. Fiskiríið var lélegt framanaf. Á netin var sótt mikið út í kantana, á mikið dýpi. Með trollið hefur þetta verið erfitt eins og gefur að skilja vegna tíðarfarsins. Þeir gátu ekki verið nema part úr degi oft og tíðum framanaf vertíð, þangað til núna seinnipartinn í apríl. Það lagaðist ansi vel hjá þeim þá.

Nei, nei. Ég er enginn nýgræðingur í þessum bransa. Ég er fæddur og uppalinn hér í Eyjum; byrjaði fyrst að róa 1929 með Óla Ingileifs. Er svo fyrst með bát 1937 og er í þessu að mestu til 1963 - Þá verð ég að hætta vegna veikinda.

Þær koma ekki lítið við sögu á vertíðinni. (Ljósm.: Sigurgeir).

Það er í rauninni ekki hægt að líkja saman sjósókninni og aflabrögðunum nú og þegar ég var við þetta, hvað þá þegar ég byrjaði að róa fyrst. Bátarnir voru svo litlir þá; stærsti báturinn í Eyjum var þá 38 tonn að mig minnir. Aðbúðin hjá mönnum er ekkert lík því nú sem hún var, en sjósókn er kannski svipuð. Það er sótt engu síður nú en þá. Aðstæðurnar eru bara allt öðruvísi, og það eru allt önnur mið, sem menn róa á núna yfirleitt.

Bátarnir hafa stækkað geysimikið og allur aðbúnaður er í dag alveg prýðilegur.
Aflabrögðin í vetur held ég að séu afar svipuð og voru í fyrra. Þar er ábyggilega lítill munur á í heildina séð. Þetta hefur að vísu komið öðruvísi niður á húsunum.
Ég tel, að fiskur sé betri núna en í fyrra. Það er meiri þorskur í þessu núna, og það er sérstaklega á trollbátunum, þeir koma með betri fisk, — og töluvert af ýsu. Það var á tímabili í vetur, sem þeir komu með ágætis ýsu og ég tel að það hafi nú bjargað vertíðinni hjá þeim.

Núna eru flestir að útbúa sig á troll. Smærri bátarnir ætla sér á humarinn. Ég skal nú ekki segja hvernig er með humarinn. Ég er hálf hræddur við hvað hann hefur farið ört smækkandi. Sumarveiðin í fisktrollið hefur borist uppi aðallega í ufsa og ýsu dálítið. Þorskur hefur verið sáralítill. Mig minnir, að þorskur hafi verið 12 — 13 prósent af aflanum í fyrrasumar, og 17 prósent í hitteðfyrra.
Lúðufiskirí hefur lítið verið stundað hér síðustu ár. Það hafa verið svona 2 — 3 bátar með þetta. Þeir hafa nú oft fiskað bara vel yfir sumarið, þegar tíð hefur verið góð. En handfæraveiðar hafa ekki verið hér sem atvinnugrein; mest hefur það verið sport.
Það voru hérna fyrir 3 — 4 árum bátar úr Reykjavík, sem gerðu út á handfæri. Ég held þeir hafi gert það ágætt bara. Þetta var ufsi hjá þeim, eingöngu ufsi. Stórufsi. Þeir lögðu upp hérna hjá okkur.

Óskar Kristinsson

Óskar Kristinsson á Sigurbáru VE 249:

Við vorum á fiskitrolli í allan vetur. Ég skráði 9. janúar og byrjaði þá fljótlega.
Eins og allir vita hefur tíðarfarið verið mjög stirt í vetur, a. m. k. fyrir trollið; gæftir slæmar alveg með eindæmum. Síðan ég byrjaði að róa hérna man ég ekki eftir neinu svipuðu.
Við erum með einna mest af ýsu. Ég hef nú ekki alveg yfirlit um þetta. Gæti trúað að það sé svipað af þorski og ufsa.

Við höfum fengið talsvert meira af vertíðaraflanum hér heimavið en ég er vanur. Ég hef nú yfirleitt fiskað meira hér austurmeð og á þeim slóðum. En það má segja, að fiskirí hafi brugðist út af Vík í Mýrdal í vetur. Við höfum fengið þennan fisk í kringum Eyjarnar, ekkert frekar á einum stað en öðrum. Það er greinilegt, að hér í kring var mjög mikið magn af ýsu í vetur.

Það er minna af ufsa hjá trollbátunum núna en í fyrra. T. d. hefur ufsinn alveg brugðist núna austur á bleiðunum við Pétursey og Vík, en talsvert hefur þó veiðst af honum í Háfadýpinu og milli hrauna. Nei, ég fæ ekki meiri fisk en aðrir, sem maður togar innanum. Ég held, að það sé vitleysa. Ég fæ stundum mikinn fisk með því að hanga fram í brælur og eins með því að fara fljótt út eftir brælurnar. Það fæst oft góður fiskur með því að komast snemma á fiskislóðina eftir hvíldina. Ég held það sé kergjan sem gildir.

Oft er það, þegar blíðskaparveður eru dag eftir dag, þá er enginn fiskur. En svo gefur hann sig kannski vel til undir brælur og eftir þær.
1. maí vorum við búnir að fá liðug 350 tonn. Það gerir um 14,5 milljónir. Við erum 6 á, svo að hásetahluturinn gæti verið nálægt 700 þúsundum orðinn.

Mér hefur fundist fiskur haga sér talsvert öðruvísi í vetur en ég hef átt að venjast. Ég er náttúrlega ekki búinn að róa mjög lengi hér. Hef verið skipstjóri í 5 ár og réri áður 4 vetrarvertíðir. Til dæmis var langt tímabil, sem var alveg steindautt. Það var meðan loðnan gekk yfir. Mér er nú sagt, að það hafi verið oft svoleiðis hér áður. En þær vertíðir sem ég hef róið hér, höfum við yfirleitt kroppað svolítið yfir loðnutímann.

Ja, framundan veit ég eiginlega ekki hvað er, vegna þess að við útgerðarmenn sjáum í dag engan grundvöll fyrir útgerð yfir sumartímann, miðað við fiskiríið, eins og það hefur verið undanfarin sumur. Nei, ég get ekki sagt að ég sé bjartsýnn á framtíðina. Við förum með svo mikla olíu á þessu trolli og olían er orðinn svo stór liður í kostnaðinum. Vafalaust er þetta eitthvað íhaldssemi. Maður á að reyna önnur veiðarfæri. Það er margt til, t. d. lúðulínan, hún reyndist vel í fyrrasumar. Og eins hefur mér nú dottið fastlega í hug að fara á handfæri í sumar. Maður mundi þá leita fyrir sér hvar sem væri kringum landið.
Já, ég hef fastlega í huga að hætta útgerð.

Þórður Rafn Sigurðsson

Þórður Rafn Sigurðsson á Dala-Rafni.

Helstu einkenni vertíðarinnar tel ég vera slæmt tíðarfar fyrripartinn, og lítill afli. Við byrjuðum að róa í janúar með net og rérum út í kantinn fram að verkfalli; kantinn hérna landsuður af Bjarnareynni. Þar fengum við aðallega ufsa.

Síðan fórum við inn á grunnið austan við Eyjar, því að eitt stórt einkenni fyrir þessa vertíð var, að það var enginn fiskur vestan við Eyjar á hinum hefðbundnu slóðum, sem fiskurinn hrygnir á.
Langmest fiskuðum við austan við Eyjar. Mjög mikið hérna á Mannklakknum, hann er ekki nema 3 — 4 mílur undan Bjarnareynni, og svo 5 mílur hérna austan við. Svo bæði á Holtshrauninu og Sandahrauninu og milli hrauna sem kallað er. Og svo fiskaðist í eina viku inn undir sandi, aðallega á 30 — 40 faðma dýpi. Það var önnur vikan í apríl. Þetta var allt saman þorskur, mjög góður þorskur, svona 110 — 120 í tonnið.
Fyrripartinn vorum við með 7 trossur, síðan fórum við upp í 130 — 140 net.

1. maí vorum við búnir að fá um 550 tonn. Meiriparturinn er þorskur, en þó er töluverður ufsi frá fyrri hluta vertíðar. Og svo núna síðustu daga hefur verið svolítill ufsi. Við höfum verið 11 á. 1. maí hefði hásetahluturinn átt að vera orðinn 550 — 600 þúsund krónur.

Framundan eru nú togveiðar eitthvað fram eftir sumri. Svo er ég ákveðinn í að gera bátinn ekki út á togveiðar eða netaveiðar næsta haust, heldur er ég ákveðinn í að fara á reknet. Já, síldveiðar í reknet. Það er allt á fullu núna að útvega það sem til þarf.

Það kostar geysilegt fé að útbúa á reknet. Úrhristari kostar 16 — 17 hundruð þúsundir. Hvert net kostar 14 — 17 þúsund krónur. Maður verður með 70 — 80 net í lögninni. Svo er kapall og belgir. Í allt mun þetta kosta gæti ég trúað nálægt 5 milljónum.
Því miður er ég sem útgerðarmaður ekki bjartsýnn á framtíðina. Horfurnar eru ekki nógu góðar. Ég er búinn að gera þennan bát út í eitt ár. Fiskirí er fyrir 31 — 32 milljónir í heildina, en ég næ ekki saman endum. Það vantar einhversstaðar eitthvað.

Nei, þessu trúir auðvitað enginn nema sá sem tekur á því. Þegar ég fór út í þetta, vissi ég nú að þetta var slæmt, ástandið í sjávarútveginum. En að það væri svona svart datt mér aldrei í hug.

Jæja, finnst þér nafnið skrítið, já? Ég valdi nú þetta nafn á bátinn af sérstökum ástæðum.
Þannig er, að ég er fæddur og að mestu uppalinn í Úlfsdölum vestan Siglufjarðar; á einum þriggja bæja þar, Dalabæ.
Í Úlfsdölum bjó í firndinni karl einn, sem Rafn hét. Hann var nefndur Dala-Rafn, því hann átti heima í Úlfsdölum. Ég ber sjálfur nafn hans. Hann var draumamaður móður minnar lengi vel, um það leyti sem ég var að komast í þennan heim. Eða við teljum, að það hafi verið hann.
Mér finnst nafnið gott.

Gaui formaður í Gíslholti rennir Barðanum drekkhlöðnum að bryggju. (Ljósm.: Sigurgeir)
Ágúst Ólafsson

Ágúst Ólafsson á Ráninni.

Ég er búinn að fara 8 róðra núna. Svo fór ég 2 róðra einhverntíma í vetur á lúðulínu. Það var nú lítið um lúðuna, en sæmilegt á handfærin; búinn að fá 6½ tonn.
Það var ekkert tíðarfar fyrir trillur framanaf, enda var ég ekkert að fyrr en eftir páska. Trillan mín er nú ekki nema 3,85 tonn. Svo var það líka vegna veikinda; lenti í flensu og lungnabólgu.

Ég fer nú að vinna í landi við smíðar, svo er það lúðulínan í sumar. Ég er búinn að vera með þessa trillu, hana Rán, síðan haustið 1963, og svo var ég búinn að róa á Barðanum, sem pabbi átti og Gaui bróðir hefur núna. Svo er ég með stærri bát núna, sem ég ætla að fara að standsetja í frístundum mínum í sumar, þegar ekki er fært á sjóinn. Hann er svona 10 — 12 tonn. Ég er að hugsa um að setja á hann dekk.

Ég held það sé afar bjart hér framundan með lúðulínuna og handfærin. Það er að ræktast upp fiskur áreiðanlega. Þeir urðu varir við þennan smáfisk í fyrrasumar og hann er greinilega stærri núna. Og þar að auki þessi fiskiganga í vetur, hún kom öll á heimaslóðir.

Við leggjum lúðulínuna hérna heima við á ýmsum stöðum. Við Ingimundarklakk, suður við Pétursklakka. Ég hef lagt mikið t. d. hérna við Langabergsklakk og Kúfsklakk. Já Kúfsklakk. Miðið á honum er þannig, að maður sér Búrin á Elliðaey, svo er Hanahausinn aðeins fyrir innan Upsaberg. Í vetur var skarpast á handfærin inná Sandagrunni og nokkra daga vestur á Kraga. Svo var það Danskahraunið, það var með prýðisafla til að byrja með. Að vísu smærri fiskur, en það var hægt að finna góða bletti með ágætis fiski.
Nei, það er ekki venjulegt að fá fisk á þessum stöðum. Þegar ég var í þessu t. d. fyrir gos, kom maður aldrei á þessar slóðir. Þá var ég mikið suður á Helliseyjarhrauni, Leddinni, Mannklakk, Bjarnahrauni og Hreiðarshrauni. Og svo á Drangahrauninu hér og þar.

Það er ábyggilega að aukast trilluútgerð hérna. Hugur manna virðist vera þannig, að hér fjölgar trillum stórlega á þessu ári. Aðstaðan í höfninni hefur bara verið svo bágborin að undanförnu, og verður verri þegar þeim fjölgar svona.

Mér líst mjög vel á þetta með smábátaaðstöðu hinumegin í höfninni. Þetta þyrfti alveg nauðsynlega að koma sem fyrst.

Oddur Sigurðsson

Oddur Sigurðsson í Dal.

Ég man bara ekki eftir annarri eins ótíð og í vetur. Ef svona tíðarfar hefði herjað á vertíð fyrir svona 20 — 25 árum, þegar bátar voru að meðaltali ekki nema 20 — 30 tonn, hefði verið komið hallæri. Það má telja á fingrum sér þá daga, sem sjóveður var í vetur, þar til eins og kippt væri í spotta undir sumarmálin. Maður man að vísu eftir stanslausri ótíð í janúar og febrúar, en góðir kaflar komu svo með hækkandi sól. Ég spáði að mundi koma viðbragð, og það stóðst; missti aldrei trúna á það. Eftir að loðnan var búin að ganga kom sá fiskur, sem sagt var að væri ekki til, þ. e. stóri fiskurinn.

Þorskurinn í vetur er óvenjulega stór, miðað við seinni tíð. Hann átti ekki að vera til, sögðu þeir. Í gamla daga, þegar mest fiskaðist t. d. á Þjórsárhrauninu, var talað um blóðsjó. Þar var sjórinn rauðleitur. Í blóðsjónum var fiskurinn að hrygna. Og það sást stundum ekki í andlitið á manninum við rúlluna fyrir svili.

Það hafa komið sveiflur í þetta áður, maður guðs og lifandi; fiskileysisár stuð í stuð. Til dæmis eftir aflaárin miklu 1930 — 1935 komu tvö mjög léleg ár, árin 1936 og 1937. Svo fór að lifna.
Fiskiríið á allt eftir að lifna við aftur, bara að gerðar verði skynsamlegar ráðstafanir. Ég er bjartsýnn á þetta alltsaman. Ég er að verða 65, er fæddur 25. maí 1911. Það er svo sem farið að slá í mann, blessaður vertu. Og byrjaði að róa 1928 með pabba á Baldri gamla. Formaður 1933. Var að heita má stanslaust á sjó til 1968; seinast með Bóa mínum. Hætti þegar hann fór.

Vera orðinn ungur í annað sinn og byrja upp á nýtt? Ég veit ekki. Jú, kannski. Það væri nú gaman. Annars er margt að athuga í sambandi við svoleiðis óskir. Ég færi jú sjálfsagt í það sama aftur núna. Við lifum þó á þessu.
Ég er þér að segja ekki í rónni nema geta fylgst með á bryggjunum hvern einasta dag. Maður er svo samofinn þessu öllu.

Feðgarnir á Hvítingi, Óli og Siggi í Bæ, hafa aldeilis sett í'ann. (Ljósm.: Sigurgeir).