Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/ Hafið kallar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Hafið kallar


EIRÍKUR ÁSBJÖRNSSON SEGIR FRA

Eiríkur Ásbjörnsson.

Ég er fæddur í Nýjabæ á Eyrarbakka 21. maí 1893. Foreldrar mínir bjuggu svo á Blómsturvöllum á Eyrarbakka. Er það hús til enn, lítið breytt frá því, sem það var þá. Faðir minn lést þegar ég var sex ára og Jónína systir mín þriggja ára. Eftir það bjó móðir mín á Blómsturvöllum í tvö ár, og vann fyrir okkur við beitingu og aðgerð á vertíð, en á sumrum í kaupavinnu, og við börnin hjá skyldfólki okkar uppi á Skeiðum.

Minn starfi varð þá á vertíð, að fylgjast með þegar bátar komu að, en oft var róið tvisvar og þrisvar á dag þegar gæftir voru góðar og fiskur nærri. Svo var það einn dag, að ég átti að fylgjast með þegar bátar kæmu að. Hafði þá komið hámeri á einn bátinn og var Brynjúlfur frá Minna-Núpi fenginn til að skera hana upp og skoða. Dvaldist mér við þá athugun og gleymdi með öllu því, sem ég átti að gera, og var alveg dáleiddur yfir hámerinni. Dálítill gustur stóð af mömmu vegna þessarar vanrækslu minnar. Einhver bjargaði mér út úr þessum kröggum og lét mömmu vita þegar bátur sá kom að, sem hún vann við. En ég skammaðist mín mjög fyrir að hafa brugðist skyldu minni svo hrapallega.

Veturinn, sem mamma beitti, var ég oft hangandi í pilsum hennar, og flýtti það ekki fyrir vinnunni. Þá var ung stúlka, dóttir formannsins, sem mamma beitti hjá, sem tók mig oft heim til sín á kvöldin þegar ég var orðinn ergilegur og syfjaður. Síðan hefur mér verið notalega hlýtt til kvenna, og tel ég þær körlum að mun góðgjarnari. — Eftir tvö ár giftist móðir mín aftur og fluttist til Stokkseyrar, og bjó þar til ársins 1923 að hún fluttist til Vestmannaeyja.

Hús Eiríks Ásbjörnssonar að Urðavegi 41. Byggt árið 1926, og kostaði þá 24 þúsund kr. Nú undir hrauni

Allaf var hugur minn við sjóinn, og þegar ég var 9 ára fór ég að beita, réðst til þess hjá Jóni Adolfssyni, þeim ágæta manni, sem hafði útgerð og verzlun á Stokkseyri. Þá fóru ungir strákar að beita og unnu við það tveir með einum fullorðnum manni. Kaupið var 25 krókar í róðri, og var það kvarthlutur. Fór krókunum fjölgandi eftir aldri og dugnaði strákanna. Ekki tafði skólinn þessa vinnu, því honum lauk um jól. Þessum starfa hélt ég á veturna fram um fermingu og fór kaupið hækkandi, þ. e. krókunum fjölgandi. Á sumrin var ég í sveit hjá skyldfólki mínu. Féll mér það mun verr en að vera við sjávarnytjar. Hugurinn stefndi alltaf til sjávar.

Þegar ég var um fermingu, lá naumast annað fyrir en vera í sveit á sumrin. Þá voru mér boðnar 8 kr. um vikuna um 8 vikna tíma. En öll mín hugsun snerist um sjóinn. Þekkti ég þá marga skútumenn, sem sumir voru bæði blautir og grobbnir af sínum sjóferðum, og stóð ég agndofa af hrifningu undir þeim frásögnum. Þótti mér of lítið kaupið, sem mér var boðið í sveitinni og staðfesti með sjálfum mér að reyna að komast á skútu eins og aðrir mektarmenn. Var vanur skútumaður af Stokkseyri beðinn að ráða mig á skútu. Mátti ég ekki fara nema upp á fast kaup, vegna þess að ég hafði kauptilboð úr sveitinni.

Seinnipart vetrar var lagt af stað til Reykjavíkur. Fór forsjármaður minn ríðandi. Sá ég hann ekki fyrr en öll skip höfðu fullráðið þann veturinn. Hefur hann líklega verið eitthvað í sínum félagsskap, og ekki mátt vera að því að huga að strákum óvönum sjó og drykkju.

Ég hafði samfylgd af vagnalest með mínar pjönkur og fékk athvarf hjá skyldfólki mínu í bili. Þegar útséð var að skiprúm var ekki fáanlegt í það sinn, þá ráðlagði forsjármaður minn mér að fara aftur heim, en hann sagðist ætla til Vestmannaeyja vormaður.

Gamall kunningi okkar, sem ég ráðfærði mig við, sagði mér að reyna að stunda lausavinnu í bænum um vorið, og kom hann mér í vinnu hjá Margréti, sem rak Hótel Reykjavík. Átti ég að pæla kálgarða, sem hún hafði suður í Skerjafirði, og koma í mat um hádegið. Var það steikt nautalifur og hafði ég ekki bragðað eða séð steiktan mat fyrri. Þótti mér þetta ill fæða en lét þó vera.

Um kvöldið greip mig slikt óyndi, að ég hafði engan frið. Bæði var að mér hafði mistekist sú ætlan að komast á skútu, og svo hitt, að ég sá mig ekki mann til að ganga fyrir hvers manns dyr að snapa eftir vinnu. Svo ég tók það ráð að fara við svo búið heim aftur, og það án þess að rukka fyrir dagsverkið. Næsta dag lagði ég af stað austur á Stokkseyri, fékk bita í nestið hjá skyldfólki mínu, sem ég hélt til hjá, og lagði land undir fót með 25 aura í vasanum. Á Kolviðarhóli eyddi ég þeim fyrir kaffi og hélt svo sem leið liggur austur yfir heiði til Selfoss. Þaðan fór ég beint til Stokkseyrar þvert yfir allar mýrar. Fór leiðina alla í áfanga á einum degi, sem venjulega var ein og hálf dagleið með vagna.

Þegar heim kom, réðst ég til aldraðs manns, sem Einar hét. Reri hann á vorin með línu og beitti sjávarmaðki. Það var mín fyrsta sjómennska og aflinn að mestu lýsa. Níu menn voru á bátnum, mest liðléttingar, strákar og gamlir karlar.

Enn hafði ég hugann við skúturnar. Þær komu venjulega inn um Jónsmessu og urðu þá oft talsverð mannaskipti. Sveitamenn fóru heim, en aðrir komu í staðinn yfir sumarúthaldið. Sá ég, að þá mundi helst vera tækifæri að fá skiprúm. Gaf ég þá alla kaupavinnu upp á bátinn og hélt til Reykjavíkur, auðvitað gangandi. Þar átti ég móðurbróður, sem var á togara. Leitaði ég aðstoðar hans.

Eiríkur Ásbjörnsson telur sig alla tíð hafa haft úrvalsfólk í þjónustu sinni. Þessi mynd er af starfsmönnum Eiríks á vertíðinni 1927. - Fremsta röð frá vinstri: 1. Vilhjálmur Kristjánsson, aðgerðarmaður frá Hellissandi; 2. Sveinn Þorgeirsson, aðgerðarmaður, Fljótshlíð; 3. Guðni frá Torfastöðum í Fljótshlíð, aðgerðarmaður; 4. Jóhann Sigfússon, sjómaður (síðar forstjóri Vinnslustöðvar Vestmannaeyja). - Miðröð frá vinstri: 1. Vilhjálmur ?son frá Ólafsfirði, sjómaður; 2. Björn Bjarnason, vélstjóri, Bólstaðarhlíð, Vestmannaeyjum; 3. Eiríkur Ásbjörnsson; 4. Sigurjón Jónsson frá Torfastöðum í Fljótshlíð, sjómaður; 5. Stjúpsonur Sigurjóns frá Torfastöðum, aðgerðarmaður (nafnið ekki munað.- Aftasta röð frá vinstri: 1. Magnús Ísleifsson frá Nýjahúsi í Vestmannaeyjum, sjómaður; 2. Hinrik Jóhannsson frá Skálum á Lauganesi, sjómaður; 3. Þórður Sveinsson, Varmadal í Vestmannaeyjum, sjómaður; 4. Þórður Sigurðsson frá Varmadal í Vestmannaeyjum, netamaður (Stjúpfaðir Eiríks Ásbjörnssonar); 5. Sveinn frá Núpi, Austur-Eyjafjöllum, aðgerðarmaður.)
Hinrik Jóhansson frá Skálum á Langanesi. Hann var starfsmaður á útvegi Eiríks Ásbjörnssonar í samfellt 38 ár. Hann byrjaði 16 ára gamall, og var allt frá þeim tíma og fram að gosinu 1973 heimilismaður hjá Eiríki.

Þá var Geir Zoega, kaupmaður í Reykjavík, með mikla skútuútgerð. Fór ég með frænda mínum á hans fund og hugðist ráða mig á hálfdrætti, því naumast var möguleiki að ungur strákur væri ráðinn upp á fast kaup. Geir skoðaði mig í krók og kring, og þegar því var lokið sagði hann, og krimti við hvert orð: — Mér líst vel á drenginn og ég tek hann. — Þar með var ég ráðinn á kútter Fríðu, skipstjóri Ólafur Ólafsson. Um sumarið voru farnir tveir túrar og tók hvor þeirra 6 vikur. Þætti það löng útilega nú með þeim aðbúnaði sem þá var. Eftir sumarið hafði ég 700 kr. og talsvert af trosfiski að auki. Voru 7 lægri en ég eftir það úthald. Var ég næsta ánægður yfir hýrunni og þó ekki síður að hafa komist í það starf, sem hugurinn stóð mest til, og þurfti ekki að ganga með skipum eftir það. Var þetta upphaf að veru minni á skútum, sem stóð samfellt um einn áratug, lengst af Guðmundi Guðnasyni, skipstj., miklum aflamanni, sem seinna varð togaraskipstjóri. Stóð þá til að ég réðist á togarann, en af því varð ekki, og er drjúg saga þar af, þó hún verði ekki sögð hér.

Vert er að segja nokkuð af þeim aðbúnaði, sem var á fiskiskútum á þessum árum. Hluti fæðisins var viktaður út vikulega. Kom sú framkvæmd í hlut stýrimannsins.

Aðalmaturinn var rúgbrauð, 1½ brauð á viku eða 9 pund. Smjörlíki danskt 1½ pd. á viku, saltket 3 pd., púðursykur 1½ pd. og kandíssykur 1 pund. Kaffi og te eftir þörfum og lagði útgerðin það til. Te var á eftir mat, en kaffi á vaktaskiptum. Fisk lögðu menn sér til sjálfir. Voru það helst kinnar og margs konar trosfiskur.

Heitur matur var kl. 7 á morgnana. Það var fiskur, sem hver lagði sér til. Reyndist það kokknum nokkurt vandaverk að skila hverjum sínu, þegar sumir lögðu til kinnar, aðrir lúðu eða steinbít og annað tros, og stóð sjaldan á aðfinnslum, ef hver fékk ekki sitt, en allt var soðið í sama potti. Engar kartöflur voru með fiski á morgnana. Ketrjátlan var helst soðin um hádegið. Þó réð hver hvenær hann lét gera það. Ketið var grindhorað rolluket og nær óætt af salti. Á kvöldin kl. 7. var enn fiskur og voru þá skammtaðar með þrjár kartöflur á mann.

Á sunnudögum eldaði kokkurinn sætsúpu um hádegið, og var það eina tilbreytingin í mataræði. Ekki fékkst hann til þess að sjóða hrogn eða lifur, því einn var potturinn, og vildu sumir ekki hafa lifrarbragðið af matnum. Brauðin lágu í hrúgu ofan á saltbingnum. Mygluðu þau fljótlega þegar frá leið og það svo að rauk úr sárinu þegar þau brotnuðu, og æði sölt vildu þau verða sem næst lágu saltinu. Gömul og mygluð rúgbrauð voru holl og gerðu engum mein. Þeir, sem voru magaveikir og þoldu ekki rúgbrauð gátu fengið beinakex í staðinn, en til þess þurfti vottorð frá lækni. Smérlíkið, sem þá kallaðist markarín, var danskt, hinn mesti óþverri og feitarlaust. Sögðu sumir, að tyggja hefði mátt það allan daginn án þess að það rynni.

Útvigtina, — vikuforðann, geymdu menn undir setbekkjum og ægði þar öllu saman. Síðar voru látnir upp skápar til geymslu matar og reyndist það nokkru skárra. Matarílát voru emaleruð vaskaföt, sama fatið undir allan mat og aldrei þvegið, í besta falli skolað úr sjó, því vatn var ekki til eða of dýrmætt. Leirfantar voru til kaffi- og tedrykkju, ekki alltaf sem hreinlegastir.

Fyrir kom, að hásetar reyndu að matreiða eitthvað í sig á nóttunni, helst þá að brasa fisk úr smjörlíki, ef það reyndist til, en oft varð stutt í því þó illt væri. Stundum mölluðu þeir graut úr rúgbrauði með púðursykri í. Sá réttur bar nafn, sem óþarft er að prenta. Þessi eldamennska fór fram þegar kokkurinn svaf, en þegar hann hafði ferlivist, treystist enginn að fara inn á hans svið.

Um annað hreinlæti er það að segja, að ekkert vatn fékkst til að þvo sér úr. Væri af sér skolað varð að gera það úr sjó, eða með tegromsi þegar best lét, ef einhver lögg þökti eftir í katlinum.

Stokkseyringar eru frábærir sjómenn og fiska flestum betur þeirra, sem sækja úr heimahöfnum Suðurlands, þrátt fyrir hin lélegustu lendingarskilyrði. Þegar ég hætti á skútum þóttist ég orðinn forframaður, og sá þá fyrir, að ekki var nein framtíð fyrir stærri skip á Stokkseyri, því að á þeim tíma voru nær engar hafnarbætur af stað komnar. Var mér boðin formennska á mótorbát, en taldi svo litla framtíð í útgerð á þeim stað, að ég þáði ekki það góða boð, en hélt til Vestmannaeyja, því ég taldi þar miklu meiri framtíð fyrir útgerð en annarsstaðar fyrir Suðurlandi. Réð ég mig sem háseta á Unni frá Stokkseyri, formaður: Bryngeir Torfason. Var ég á þeim bát um veturinn.

Árið eftir var mér boðið skiprúm á mótorbátnum Emmu, sem þá var í smíðum á Ísafirði. En smíðinni seinkaði, og varð báturinn ekki tilbúinn fyrr en um páska. Meðan á biðinni stóð, reri ég með Árna Þórarinssyni á Lagarfossi, og á Kára Sölmundarsyni með Guðjóni Jónssyni.

Emma VE 219 var 16 rúmlestir og byggð á Ísafirði 1918.- Myndin er frá slippnum á Ísafirði: Smíði Emmu er lokið og sjósetning á næsta leyti.
Emma VE 219 kemur vel sigin úr róðri á vertíðinni 1928.

Þegar Emma kom að vestan, hóf hún hún strax róðra. Formaður var Guðmundur Kristjánsson. Vélin í bátnum reyndist alltaf í ólagi, og urðu þess vegna slitróttir róðrar og allt í skralli. Eigandi bátsins var Reyndal bakari. Fékk hann þá flugu í höfuðið að hætta öllum umsvifum, selja eignir sínar hér og flytja til Danmerkur. Varð það úr, að ég fékk mann í félag með mér, Björn Bjarnason í Hlaðbæ, ágætan vélamann, og keyptum við bátinn saman af Reyndal. Fleiri áttu þó fyrst nokkurn hlut þar í.

Næstu vertíð gerðum við bátinn út og var vélin alltaf í syngjandi ólagi og kom Björn engu tauti við hana. Bræddi hún sex sinnum úr sér yfir vertíðina. En þó illvertíðina gengum við í það að reyna að bæta vélina. Fengum við til þess mann frá Vélsmiðjunni Magna, Óskar Sigurhansson. Reyndist sveifarás vélarinnar orðinn kantaður. Tók það Óskar marga daga að sverfa hann réttan, en það tókst svo vel, að vélin bræddi ekki úr sér eftir það.

Emma II. VE 1. Þennan bát keypti Eiríkur í janúar 1950 og gerði hann út til ársins 1964. Þá hætti Eiríkur útgerð.

Emma var 16 tonn og var ekki vel fyrir henni spáð, þegar hún kom hér fyrst. Hún var þá stærsti bátur í Eyjum og þótti allt of stór, sérstaklega til línuveiða. En hún reyndist hið mesta happaskip, sterkbyggð og gott sjóskip, en nokkuð blaut í göngum. Ég var með hana í 20 ár, en þá biluðu fæturnir svo að ég varð að hætta formennsku. Gerði ég hana út nokkur ár eftir að ég hætti sjálfur sjómennsku, og gekk sú útgerð vel og varð naumast nokkurt ár umtalsvert tap á útgerðinni, þó að misjafnlega áraði með afla og verðlag.

Ég tel að afkoma mín í útgerðinni hafi að miklum hluta byggst á því, að ég verkaði fiskinn sjálfur, en seldi ekki upp úr sjó. Að vísu varð að bíða stundum alllengi eftir andvirði aflans, en það svaraði vel kostnaði, þó drægist með sölu. Alltaf vilja menn fá sem mest fyrir afurðir sínar, og skil ég því ekki í því, að framámenn sjómannasamtakanna skuli ekki hafa forgöngu í því, að sjómenn fái aðstöðu til að verka fisk sinn sjalfir, svo að sannvirði fáist fyrir aflann. Þyrfti þá ekki að vera að eyða tíma í rifrildi um fiskverðið.

Það er dálítið einkennilegt, hvað mér hefur lánast verr allt það, er við kom sveitavinnu og landbúnaði, enda stóð hugur minn lítið til þeirra starfa. Sem dæmi má nefna, að ég sem unglingur eignaðist gimbrarlamb, sem varð fullorðin ær. En aldrei gat hún eignast lamb. Kú hafði ég hér í Eyjum og ætlaði að hafa með því mjólk til heimilisnota. En það fór ekki betur en svo, að hún drapst strax um veturinn, og þar með var sá draumurinn búinn.

Ef ég var í sveit, fékk ég illt í meiðsli og skrámur á höndum, en á sjó kom slíkt aldrei fyrir; þá greri strax hver sprunga og skurður, án þess að nokkuð sérstakt væri að gert, og var hreinlæti þó ekki um of, síst á skútunum.

Nu er ég aldinn að árum, og ekki til stórræða lengur. Þegar ég lít yfir farinn veg er margt skemmtilegt að muna. Flest hefur það gengið út á það að meðhöndla fisk og aftur fisk. Og enn hlýtur það að verða um langt skeið, að fiskurinn verður undirstaða velmegunar Eyjamanna. Það er von mín, að gæfa og gengi megi fylgja þeim atvinnuvegi um langa framtíð.